Bloggfærslur mánaðarins, maí 2024
Föstudagur, 31. maí 2024
Eru öll atkvæði í forsetakosningunum töpuð?
Ég var að renna yfir svör frambjóðenda til embættis forseta Íslands á spurningum RÚV og gat ekki varist að hugsa: Eru öll atkvæði í þeim kosningum töpuð atkvæði?
Annaðhvort af því frambjóðendur sem hafa eitthvað fram að færa eru ólíklegir til að ná kjöri, eða af því að líklegustu frambjóðendurnir munu breyta embættinu í gagnslausa undirskriftaverksmiðju.
Tökum sem dæmi spurninguna (eða fullyrðinguna): Forseti Íslands á öðru fremur að hafa það hlutverk að sameina þjóðina.
Í hverju? Um hvað? Af hverju? Þetta er ekki ákvæði í stjórnarskrá. Enginn forseti hefur sameinað þjóðina nema með því að hvetja fólk til að mæta á völlinn þegar einhverju landsliðinu gengur vel. En allir frambjóðendur, nema tveir, gefa þessari fullyrðingu tíu af tíu mögulegum.
Aðeins neðar á spurningalistanum er svo þessi gullmoli: Eitt helsta hlutverk forseta Íslands er að vera öryggisventill þjóðarinnar gagnvart ákvörðunum stjórnmálamanna.
Eða með orðalagi stjórnarskrár lýðveldisins Íslands:
Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.
Þessari fullyrðingu eru flestir frambjóðendur ekki afgerandi sammála, þar á meðal flestir þeirra efstu í skoðanakönnunum. Hvernig stendur á því?
Eftirfarandi fullyrðing fær svipaðar móttökur: Forseti Íslands og ríkisstjórnin eiga að tala einni röddu á alþjóðavettvangi.
Sem betur fer ekki! Á tímum Icesave talaði forseti alveg þvert á ríkisstjórnina og var eini málsvari íslensks almennings í útlöndum. Vonandi er sjaldgæft að slíkt þurfi, en stundum nauðsynlegt, og í embættinu þarf að vera einhver sem skilur það.
Aðrar spurningar (fullyrðingar) skipta minna máli. Auðvitað spyr RÚV um hlutverk forseta til að ná svokölluðum loftslagsmarkmiðum, og auðvitað gefa flestir frambjóðendur því tíu, og er þá hringleikahúsið fullkomnað.
Þegar ég lít yfir svör frambjóðenda og svo þessar skoðanakannanir þá er freistandi að draga þá ályktun að öll atkvæði séu töpuð. Frambjóðendur sem hafa sýnilega lesið stjórnarskránna mælast lágir, þeir sem telja embættið vera hlutverk veðurguðsins, sem stjórnar veðrinu, mælast háir.
Á Bessastaði sest því ekki manneskja sem ætlar sér að vera málsvari almennings og öryggisventill gagnvart heilaþvegnum þingheimi heldur tannhjól í því færibandi sem þingið er orðið fyrir erlendar tilskipanir.
Öll atkvæði töpuð.
Auðvitað hvet ég samt alla til að kjósa. Skoðanakannanir gætu mögulega verið hannaðar eða sífellt að hamast á sama úrtaki í heimi þar sem sífellt færri samþykkja handahófskennd símtöl eða hafa skráð sig á sérstaka lista til að taka afstöðu til ýmissa mála. Kannski er undiralda sem fjölmiðlamenn í fílabeinsturnum eru ekki hluti af, enda blaðamenn. Hver veit!
En þá geta menn kosið því það er gaman að mæta á kjörstað, velja sinn fulltrúa, og snúa svo heim í sorpið sem þarf að flokka í tíu tunnur, skatta sem enginn skilur og fjármögnun á vopnakaupum til að þjónkast utanríkisstefnu Bandaríkjanna.
Lýðræði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 31. maí 2024
Leiðir til að ónáða almenna borgara að óþörfu
Yfirvöld beita ýmsum ráðum til að ónáða almenna borgara. Flókið skattkerfi er mögulega þekktasta leiðin. Hið opinbera gæti hæglega einfaldað skattkerfið, fækkað skattþrepum, lækkað bæði skattheimtu og kostnað við skattheimtu, og fengið það sama, eða meira, úr krafsinu. En auðvitað er tilgangur skattkerfisins ekki að afla hinu opinbera tekna.
Annað dæmi og nýlegra er krafa um að fólk flokki heimilissorpið. Þetta er gert með sífellt ágengari hætti og nú er svo komið að margir losna einfaldlega ekki við sorpið. Það er jú markmiðið. Að vísu stangast það á við það markmið yfirvalda að taka bílinn af fólki enda er heimilisbíllinn sífellt meira notaður til að keyra um bæinn með rusl og reyna að finna stað til að losna við það, en kannski er mótsögnin búin til viljandi. Til að valda óþægindum.
Flokkun á sorpi er eitthvað sem einfaldlega allir eru svo hjartanlega sammála um. Svo mjög, að stjórnmálamenn hafa víða skrifað inn í lagatexta hvernig sú flokkun skuli eiga sér stað. Danska dæmið er mér vel kunnugt: Dönsk lög segja að það sé ekki bara krafa að flokka rusl, heldur að heimilin þurfi að standa í þeim óþverra. Sjái einhver betri leið til að flokka sorp, svo sem í vélvæddum móttökustöðvum þar sem vélmenni flokka margfalt betur en við sauðsvartur almúginn, þá er það hreinlega bannað með lögum.
Á Fjóni í Danmörku eru sveitarfélögin komin á afturlappirnar og vilja breytingar á slíkum lögum. Þau vilja bjóða borgurum sínum upp á stórar tunnur sem taka við öllu sorpi sem síðan er flokkað miðlægt. Baráttan stendur enn yfir, og á meðan lifa þessi sveitarfélög á undanþágum frá löggjöfinni. Undanþágum sem fyrr eða síðar verður hætt að veita.
Ég skil þetta. Ég skil að í höfði kjörins fulltrúa - mannfræðings, bókasafnsfræðings, lögfræðings - blundi lítill alræðisherra sem telur sig geta ekki bara skilgreint ákveðin takmörk heldur líka leiðirnar til að ná þeim. Þeir eru jú kjörnir fulltrúar. Þeir hafa umboð! Þeir eru vel lesnir, klárir og lausnamiðaðir einstaklingar.
En þeir eru líka til vandræða og flækjast fyrir.
Nema þeir vilji einfaldlega ónáða almenna borgara. Þennan sauðsvarta almúga sem skilur ekki hamfarahlýnun og hverjir eru góðu og vondu kallarnir á alheimssviðinu.
Er það kannski líklegri útskýring á framferði þeirra?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 30. maí 2024
Bókun 35 og ásælnin í Ísland
Ég fylgist með öðru auganu með undanfara forsetakosninga á Íslandi. Ég segi með öðru auganu því þegar ég ætlaði að athuga hvort ég gæti ekki skráð mig sem kjósanda þá kemur í ljós að umsóknarfrestur fyrir slíkt, fyrir mig sem hef búið erlendis lengi og ekkert kosið í 25 ár, rann út í desember, löngu áður en forsetakosningar voru svo mikið sem á dagskrá. En hvað um það.
Eitt af því sem þessir frambjóðendur tala lítið um, nema Arnar Þór Jónsson (sem ég hefði kosið ef ég gæti), er svokölluð bókun 35. Um hana hefur eitthvað verið rætt en voðalega lítið í raun, miðað við þýðingu hennar. Það er athyglisvert. Hún er svohljóðandi:
Ef skýrt og óskilyrt lagaákvæði sem réttilega innleiðir skuldbindingu samkvæmt EES-samningnum er ósamrýmanlegt öðru almennu lagaákvæði skal hið fyrrnefnda ganga framar, nema Alþingi hafi mælt fyrir um annað. Sama á við um skuldbindingar sem eru innleiddar með stjórnvaldsfyrirmælum.
Eða eins og lögfróðari maður en ég hefur sagt: Ekki verður lengur um það að ræða að ný lög gangi framar eldri lögum, gefið að eldri lög innleiði tilskipun ESB, í gegnum EES-samninginn.
Eða með öðrum orðum: Alþingi er hérna að leyfa sér að framselja vald til útlanda, þvert á fyrirmæli stjórnarskrár.
En um þetta tala fáir og segja jafnvel að þetta sé ekki rétt túlkun. En lestu nú bara orðin. Þarna gæti alveg eins staðið:
Ef þú flytur inn í íbúð sem er með gula veggi, og þig langar að mála þá hvíta, þá skulu þeir áfram vera gulir, af því að þú ræður ekki. Ef þeir eru hvítir, en það stendur á einhverjum miða að þeir eigi að vera gulir, þá mætir málarinn og málar þá gula.
Eða þannig skil ég það.
Enginn forsetaframbjóðandi, nema Arnar Þór Jónsson, hefur spáð í þennan leik Alþingis. Þar á bæ eru menn á fullu að hita okkur upp fyrir frekari völd og áhrif ÉSB, NATO og annarra samtaka, með lymskulagi tali um samþættingu. Það er jú stríð í Úkraínu, verðbólga, veira og samkeppni frá Bandaríkjunum!
Það má svo sem deila um ágæti þess að forseti neiti að skrifa undir lög og velji að framkalla þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt mér finnist það vera hið besta mál og tel söguna hafa kennt okkur það. Þetta er nú ekki verra en svo að lögin taka gildi þar til þjóðaratkvæðagreiðslan er gengin yfir, og standa þá eða falla. Gott ef Svisslendingar eru ekki með svipað kerfi og halda fast í.
Oftast sinnir forseti fyrst og fremst því hlutverki að klippa á borða og mæta á íþróttamót krakka. En stundum þarf forseti að dusta rykið af stjórnarskránni og beita sér. Það er mögulega bara 1% af tíma hans, eða minna, en sé hlutfallið 0% þá eru Íslendingar í vondum málum, og íslenska hlaðborðið opnast fyrir útlendinga í leit að auðlindum og mögulega - með tíð og tíma - fersku blóði á vígvellina.
Sérstaklega skoðað í ljósi þess að Íslendingar eru að innleiða reglur Evrópusambandsins með mun veigameiri hætti en ríki Evrópusambandsins.
Er þá ekki bara ágætt að setja þessa bókun 35 í tætarann með hjálp forseta?
Forseta sem skilur þann leik sem verið er að leika, sem um leið er hættuspil.
Það finnst mér.
Miðvikudagur, 29. maí 2024
Þrasið víkur fyrir vinnu
Enn eitt eldgosið er hafið á Reykjanesskaga. Vinnuvélar eru ræstar, fólki er komið í skjól og hugað er að innviðunum. Þrasið víkur fyrir vinnunni sem þarf að vinna.
Neyðarástand virðist vera góð leið til að rífa Íslendinga út úr fundarherbergjunum og inn í raunveruleikann.
Nema stundum.
Það er til dæmis ennþá orkuskortur á Íslandi og enginn að gera neitt í því. Engin útboð í gangi, engin virkjun í smíðum. Menn sitja ennþá sem fastast í fundarherbergjunum.
Innviðirnir eru víða í molum eða sprungnir. Mögulega er bara ein brú í smíðum á Íslandi, og sú er komin vel á eftir áætlun. Holur í götum, þrengsli, tafir og raðir, en ekkert gerist. Rafmagn sem þó er framleitt er sent í sjóinn því flutningsnetið er of veikt. Menn eru óðum að skipta úr notkun á rafmagni yfir í notkun á olíu - hin íslensku orkuskipti.
Ónefnd eru svo mygluðu húsin, skólpið í sjónum og aldraða fólkið á göngudeildum sjúkrahúsa.
En eldgos duga til að fara í lausnir. Neyðin er samt víðar og jafnvel meiri.
Þarf kannski að kveikja í fundarherbergjunum til að koma mönnum út úr þeim og í stígvél og vinnuhanska?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 28. maí 2024
Orkusetur og orkuvetur
Orkusetur Orkustofnunar boðar orkuvetur og lausnir sem líta ekki einu sinni vel út á blaði. Þetta setur ætti að setja ofan í skúffu og hætta að fjármagna það. Þaðan kemur ekkert nothæft, jafnvel ekki að mati manns sem hefur gaman af allskyns talnaupplýsingum og -yfirlitum. Á yfirborðinu er þetta einhvers konar fræðslustofnun en eins og kemur fram í máli talsmanna hennar er í raun um að ræða róttæk samtök sem berjast opinskátt og á bak við tjöldin gegn orkuframleiðslu.
Allt sem hér hefur verið ritað um Orkusetur á einnig við um Landvernd. Þar kalla menn sig málsvara náttúrunnar en eru í raun að einblína á að stöðva eins og unnt er allar áætlanir um að afla orku fyrir fólk.
Það er ekki skrýtið að nú þegar sé skollinn á orkuskortur á Íslandi. Rafmagnsreikningarnir klifra upp, arðgreiðslur orkufyrirtækjanna vaxa og eru sognar ofan í opinberar hirslur, fyrirtæki missa af tugum milljarða í gjaldeyristekjum, fiskvinnslan hefur þurft að skipta frá notkun rafmagns yfir í notkun á olíu og flöskuhálsar í dreifikerfinu (sem má heldur ekki efla) leiða til ómældrar sóunar á orku.
Hvaða mannfjandsamlegu öfl eru að stuðla að þessu ástandi?
Eru íslenskar strengjabrúður að taka við áróðri, og fé, frá einhverjum útlendingum? Eða er þetta heimatilbúin uppfinning?
En á meðan Íslendingar fá ekki að afla sér sjálfbærrar og vistvænnar orku er talið hið besta mál að stuðla að innflutningi og kaupum á rafmagnsbílum sem hafa svo slæmt vistspor að menn neita að ræða það, frá opnum námum mönnuð börnum í þrælavinnu til heilu stöðuvatnanna fullum af eiturefnum.
Skiptir kannski ekki máli ef sóðaskapurinn er skilinn eftir í Asíu og Afríku. Það sem sést ekki er ekki til.
Því miður hafa Íslendingar komið sér uppi sérstöku ráðuneyti til að hvetja vitleysuna áfram. Heilu ráðstefnurnar eru haldnar. Fjöldi manns vinnur á kostnað annarra við að skerða lífskjör almennings.
Sem betur fer segir almenningur nei, í verki. Hann hikar við að kaupa rafmagnsbílana sem seljast ekki nema á hrakvirði að nokkrum árum liðnum, gefið að þeir hafi ekki kveikt í sér, kyrrstæðir í bílastæðum sínum.
Efnameira fólk sem hefur efni á dýrum leikföngum er að gera nákvæmlega það: Kaupa sér dýr leikföng. Ekki til að bjarga loftslaginu. Ekki til að minnka álagið á vatnsaflsvirkjanirnar. Ekki til að auka öryggi sitt. Nei, til að leika sér í dýrum leikföngum.
Það sem vantar er að yfirvöld hætti að fjármagna áróðurinn og að almenningur skelli endanlega, frekar en að hluta til, skollaeyrum við þessari vegferð.
Þá er von, en varla fyrr.
Tökum erfiðar ákvarðanir þó að einhverjir verði brjálaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 27. maí 2024
Viðtölin við dúxana eru uppspretta bjartsýni
Núna eru framhaldsskólar og aðrir að útskrifa nemendur og verðlaun veitt fyrir bestan árangur í hinu og þessu. Viðtöl við þá sem útskrifast með hæstu meðaleinkunnina eru mörg og ég fagna hverju og einu þeirra. Þar fær ungt fólk sem nær árangri að útskýra hvað liggur að baki velgengni þeirra, og svörin yfirleitt þau sömu: Vinnusemi, metnaður, skipulag. Gjarnan í bland við hófstillt félagslíf og rækt við áhugamál og vini.
Berum þessi viðtöl saman við viðtöl við þá sem ná engum árangri. Þar eru svörin svolítið önnur: Fordómar, hindranir og of miklar kröfur.
Ég er ekki að segja að það sé ekki mótvindur á mörgum. En ég held að vinnusemi, metnaður og skipulag séu mögulega góð hráefni fyrir lífið.
Við þetta má svo bæta að það er í raun ótrúlegt að ennþá sé að vaxa úr grasi ungt fólk sem leggur mikið á sig. Er ekki verið að kenna því að það sé nóg að rétta út hendi til að fá örugga framfærslu, aðgang að öllu og starf við hæfi? Sem betur fer er einhver dýpri rödd í flestum sem hafnar slíkum boðskap.
Megi viðtöl við dúxa verða sem flest og jafnvel birtast utan útskriftarvertíðarinnar. Stærri uppspretta bjartsýni á samfélagið finnst varla.
Snýst um metnaðinn að ná árangri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 26. maí 2024
Ástin sigraði veirutakmarkanir
Ég skrapp í stutta ferð til Íslands um helgina til vera viðstaddur brúðkaup. Það var hið besta mál að öllu leyti. Þar ræddi ég við einn frænda minn sem á núna von á barni með kærustu sinni og ég spurði hann hvernig hann hefði kynnst henni.
Svarið kom mér skemmtilega á óvart.
Þau höfðu verið, og eru, hluti af stórum vinahópi sem hafði á veirutímum stolist til að hittast og skemmta sér saman á tímum samkomutakmarkana, gjarnan i sumarbústöðum. Skyndilega hafi þau áttað sig á hrifningu til hvors annars og eftir það varð ekki aftur snúið.
Ástin sigraði samkomutakmarkanir.
Ungt fólk hafði gefið skít í slíkar takmarkanir en vitaskuld passað sig á að flagga ekki óhlýðni sinni framan í hrædda fólkið.
Ég hef heyrt alltof fáar slíkar sögur, af fólki sem lét ekki óttann grípa sig og stjórna lífi sínu. Af fólki sem hittist, knúsaðist og kysstist þótt drápsveira væri að stráfella mannkynið, að sögn.
Það kviknaði í mér von. Sú von, að ef yfirvöld reyna aftur að gera eitthvað svipað að þá gefi venjulegt fólk, án álhatta og samsæriskenninga, skít í það, jafnvel opinskátt og upphátt.
Og leyfi ástinni að sigra óttann.
Er ég of bjartsýnn?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Fimmtudagur, 23. maí 2024
Borgarstjórn dettur óvænt á lausn allra sinna vandamála
Parísarhjól verður sett upp á Miðbakka í sumar. Einkafyrirtæki sér um allt og greiðir borginni fyrir lóðaleigu. Vandamál leyst. Meira að segja borgarfulltrúar Pírata treysta sér ekki til að reisa parísarhjól og er það hressandi hógværð.
Vonandi tekst þetta vel og afhjúpar óvænta lausn hjá borginni: Að sleppa því að klúðra og láta aðra um að gera hlutina rétt. Það eina sem borgin þarf að gera er að koma sér úr veginum og drepa ekki allt í gjöldum og umsóknum og leyfisveitingum.
Svona mætti reka alla leikskóla og grunnskóla líka. Bara láta fé fylgja börnum og skipta sér að öðru leyti ekki af rekstri skóla og öllu sem því fylgir.
Þannig gæti borgin leyst allt klúðrið í kringum sorphirðu.
Það er kannski von fyrir Reykvíkinga ennþá, en sjáum hvað setur.
Parísarhjól á Miðbakka í sumar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagur, 22. maí 2024
Hvað skuldar þú ríkinu?
Ríkisskattstjóri heldur úti tímariti. Það heitir Tíundin og vísar til fyrstu skattheimtu Íslandssögunnar þegar tíund af sérhverjum tekjum eða ákveðinni eignamyndun átti að renna til kirkjunnar.
Með réttu ætti þetta tímarit í dag að heita Helmingurinn, en það er önnur saga.
Skattkerfið er óendanlega flókið og þökk sé tæknivæðingu og sjálfvirkni er hægt að bæta í það flækjustigum. Hið opinbera fær fullt af upplýsingum sjálfkrafa inn í kerfið sitt og getur út frá því reynt að reikna út hvað hver og einn á inni eða skuldar, hvaða frádrættir gilda og svona mætti lengi telja. Í lok uppgjörs er svo ákveðið hvort viðkomandi skuldar meira í skatt eða þarf að borga meira í skatt.
Með réttu ætti tímarit ríkisskattstjóra að heita Völundarhúsið.
Höfum eitt á hreinu: Það er ekki sniðugt að svindla á skatti og brjóta lög. Betri er blankur maður og gjaldþrota en sá í fangaklefa.
Það má samt spyrja sig að því hvert hlutverk skattkerfisins er. Er það að afla hinu opinbera nægra tekna til að standa undir rekstri á þjónustu og framkvæmdum sem allir eru sammála um, eða til að klappa sumum á öxlina og berja á öðrum?
Er hlutverk skattkerfisins að innheimta á fyrirsjáanlegan hátt eða afla fjölda opinberra starfsmanna starfa í að eltast við venjulegt fólk?
Er markmiðið að afla tekna fyrir hið opinbera eða sjá til þess að tæla fólk og fyrirtæki í gildrur?
Mér finnst svörin ekki endilega blasa við.
Auðvitað eru þeir til sem svindla á kerfinu, hvaða nafni sem það nú nefnist. En er flókið kerfi eða einfalt betra fyrir slíka einstaklinga?
Hérna þarf að innleiða svolitla hreinskilni. Skattkerfið er of flókið og ruglingslegt. Það fælir fólk frá því að afla verðmæta. Það gefur glæpamönnum færi á að misnota kerfið. Það kostar of mikið í framkvæmd af fé sem gæti annars runnið í góð verkefni. Það hefur misst sjónar af markmiði sínu og er orðið pólitískt verkfæri.
Hver er þá lausnin?
Jú, að fækka svokölluðum skattstofnum, fækka undanþágum, lækka skatthlutföll, fækka þrepum og undanþágum, og leyfa samfélaginu að skilja skattkerfið.
Niðurstaðan hlýtur að vera sú sama og samanburður á Svíþjóð og Sviss á sínum tíma: Bæði ríki öfluðu svipað mikilla skatttekna á íbúa, en Sviss gerði það með helmingi lægri skattbyrði en Svíþjóð.
Stundum er minna meira.
85 milljón króna sekt fyrir skattalagabrot | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þriðjudagur, 21. maí 2024
Tilgangslausar vottanir á kostnað neytenda og skattgreiðenda
Þetta er nýr tími, hér áður gátu menn opnað og svo var farið yfir þetta en nú má ekkert gera fyrr en öll leyfi eru komin.
Þetta sagði Helgi Vilhjálmsson, betur þekktur sem Helgi í Góu, í viðtali árið 2011. Óhætt er að fullyrða að þessi þróun hafi haldið áfram á fullri ferð síðan þá. Sífellt er líka bætt við kröfulistann sem endar á að vera fjármagnaður af neytendum og skattgreiðendum.
Ein af nýjustu vitleysunum er svokölluð jafnlaunavottun. Henni er svo lýst:
Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. ... Með innleiðingu hans geta fyrirtæki og stofnanir komið sér upp stjórnunarkerfi sem tryggir að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum og feli ekki í sér kynbundna mismunun. Jafnlaunastaðalinn ÍST 85 ...
(Ég hætti að lesa þegar ég sá að það er til íslenskur jafnlaunastaðall. Hjálpi mér!)
Núna hefur alþingismaður afhjúpað þessa svokölluðu vottun sem gagnslausan pappír og ætlar að berjast fyrir því á þingi að þessi vottun hætti að vera barefli í höndum ríkisins og verði þess í stað að valkvæðri peningasóun fyrir fyrirtæki og opinbera aðila, eða jafnvel afnumin með öllu.
Mikið var hressandi að sjá það!
Það er nefnilega svo að þegar hið opinbera hefur innleitt eitthvað að þá er nánast ómögulegt að losna við það. Herskarar ráðgjafa, opinberra embættismanna og svokallaðra sérfræðinga fá sitt lifibrauð af því að selja þjónustu sína til að uppfylla hinar ónauðsynlegu kröfur, og vitaskuld spyrna þeir við fótum. Þeir sem hafa eytt stórfé í ekki neitt vilja ekki sjá þá eyðslu tapast í klósettið. Hagsmunir hafa myndast sem er auðvitað reynt að halda í.
En minnumst nú orða Helga í Góu. Einu sinni var hægt að opna rekstur og þurfa svo að sæta eftirliti. Núna þarf að vera milljónamæringur til að geta byrjað að steikja kjúkling. Síðan, ef vel gengur, þarf að votta sig hægri og vinstri til að forðast sektir. Loks þarf að þola kvartanir viðskiptavina sem halda að hækkandi verðlag megi skrifa á eitthvað annað en aukinn kostnað og minnkandi samkeppni.
Er ekki bara best að gerast opinber starfsmaður?