Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2023

Rostungurinn hinn nýi ísbjörn?

Í mörg ár hefur okkur verið sagt frá því hvernig hlýnun jarðar er að eyðileggja búsvæði ísbjarna. Þeir finna ekki lengur ís til athafna sig á og geta þar með ekki veitt seli. Síðan kemur auðvitað í ljós að ísbjörnum vegnar bara ágætlega og hefur fjölgað mikið og ísbjörninn verður því ekki lengur nothæf táknmynd hamfarahlýnunar af mannavöldum. Meira að segja öfgafyllstu samtök græningja tjá sig með eftirfarandi hætti, sem jaðrar við bjartsýni:

Þrátt fyrir að flest af 19 ísbjarnaheimkynnum heimsins hafi náð heilbrigðum ísbjarnafjölda aftur þá er munur á þeim. Sum eru stöðug, sum virðast sjá fjölgun og sum sjá fækkun vegna ýmiss konar álags.

**********

Although most of the world’s 19 populations have returned to healthy numbers, there are differences between them. Some are stable, some seem to be increasing, and some are decreasing due to various pressures.

Hvað er þá til ráða? Jú, að tengja komur rostunga til Íslands við hamfarahlýnun af mannavöldum! Úr frétt Ríkisútvarps Útvaldra Viðhorfa (RÚV):

Breytingar á lífríki sjávar birtast skýrast í hegðun stórra sjávarspendýra og varpi sjófugla, segir sjávarlíffræðingur. Það að hingað flækist fleiri rostungar og að bæði lunda og kríu fækki séu birtingarmyndir þess að hitastig sjávar sé að hækka.

Síðar er að vísu bætt við, í hálfgerðu framhjáhlaupi:

„Þessar tíðu komur til Íslands eru óvenjulegar, aftur á móti er Ísland gamalt búsvæði rostunga.“

Hvað er hérna ósagt? Það er svo margt. Ef marka má Bergsvein Birgisson og skrif hans í bókinni Leitin að svarta víkingnum þá voru á landnámsöld stórar rostungabyggðir á Íslandi sem landnámsmenn gengu á og flæmdu rostunginn til norðurs. Þegar rostungurinn er ofveiddur þá flýr hann búsvæði sín og lætur ekki sjá sig aftur. Líklega eru Íslendingar núna að sjá einhverja flækinga sem eru að prófa sig áfram við íslenskar strendur og ef það reynist þeim hættulaust þá snúa þeir kannski aftur, eftir 1000 ára hlé, og hreiðra um sig við strandlengjuna. 

Fréttamaður RÚV velur að spyrja ekki út í hvað átt er við með orðunum „gamalt búsvæði rostunga“ og manni finnst eins og það sé gefið í skyn að með „gamalt“ sé átt við mörg þúsund ár, en ekki landnámsöld, og auðvitað alls ekki nefnt að maðurinn hafi sennilega hrakið rostunginn frá Íslandi, ekki veðrið.

Allt annað er svo ágætlega í stíl við svipaðar og svokallaðar fréttir. Hver einasta breyting á einhverju í náttúrunni er undir eins orðin að vísbendingu um yfirvofandi hörmungar vegna hlýnunar jarðar sem er vitaskuld af mannavöldum og að sjálfsögðu fordæmalaus. Ekkert haft fyrir því að vísa í gögn, sýna línurit eða fá fleiri en eina túlkun. 

Allt eins og við eigum að venjast og í boði skattgreiðenda, því miður.


Sápuþvottur á plasti

Það getur verið athyglisverð æfing að bera saman hvernig ríki í Evrópusambandinu innleiðir ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins og hvernig ríki utan Evrópusambandsins innleiðir ýmsar tilskipanir Evrópusambandsins. 

Til dæmis Danmörk og Ísland.

Ég bý í fjölbýlishúsi í Danmörku, nánar tiltekið í sveitarfélagi sunnan við Kaupmannahöfn, og er núna staddur á Íslandi þar sem ég dvel einnig í fjölbýlishúsi. 

Í Danmörku set ég þurrt plast, þurran pappír og annað slíkt í poka og ber svo á 2-4 vikna fresti út í skúr við bílastæðið sem er tæmdur nokkrum sinnum á ári. Þangað rata gömul húsgögn, stórir pappakassar, leikföng og ýmislegt. Allt annað rusl set ég í poka undir eldhúsvaskinum og treð svo í lúgu á veggnum á ganginum, þar sem ruslið fellur niður í einhvern gám sem ég kem aldrei nálægt. 

Fagmenn taka við öllu þessu rusli og flokka það eins vel og hægt er, nýta sumt og brenna afganginum (og framleiða í leiðinni rafmagn og hita).

Nokkuð þægilegt, satt að segja. Ég þvæ ekki ruslið mitt. Ég þarf ekki að nýta annað rými en skápinn undir eldhúsvaskinum (fyrir báðar tegundir), og ég þarf ekki að fara í bíltúra með ruslið mitt.

Auðvitað svífa yfir vötnum hótanir um að frekari flokkun sé handan við hornið en þegar er búið að takast svo ágætlega að gera bíla óaðgengilega venjulegu launafólki (eins og í Danmörku) þá er erfitt að ætlast til að fólk geti komið ruslinu lengra í burtu en nokkra metra frá heimili sínu.

Færum okkur nú til Íslands. Ég sé að fólk er hérna byrjað að þrífa ruslið sitt með heitu vatni og sápu og setja svo tandurhreint í sérstaka poka sem fara í sérstakar tunnur eða gáma. Ruslalúgunum á að loka. Fernur eru pappír einn daginn en ekki þann næsta. Hvað með box sem eru bæði úr pappír og plasti? Enginn veit. Fólk þarf að eiga bíl til að komast í svokallaða grenndargáma eða móttökustöðvar og ekki boðið upp á að sækja stærri hluti eins og brotin húsgögn eða málningarfötur. Ruslið er því á ferð og flugi um allan bæ, og endar svo jafnvel í skipi sem siglir því til Svíþjóðar til að hjálpa Svíum að halda á sér hita.

Er hægt að kenna Evrópusambandinu um þessa þvælu? Nei, auðvitað ekki. Það sem gerðist er að fámennir ofstækismenn fengu frítt spil og óútfyllta ávísun til að innleiða stórt, dýrt og óskilvirkt klúður.

Sé einhver Evrópusambandstilskipun að baki þessari þvælu þá hefur hún verið túlkuð á strangasta mögulega vegu til að ónáða venjulegt fólk eins mikið og hægt er.

Það ætti að vera lítill vandi að vinda ofan af þessu og það mætti gera án þess að draga í neinu úr endanlegri flokkun og endurnýtingu ýmissa efna með því að leyfa venjulegu fólki að losna við ruslið og fagmönnum og færiböndum um að flokka það og koma í farveg. Að sjálfsögðu eiga Íslendingar að geta brennt því sem þarf að brenna í stað þess að niðurgreiða hitaframleiðslu í Svíþjóð og skipaflutninga þangað. Urðun er víða góð leið til að búa til jarðveg. Þetta á ekki að þurfa vera svona flókið og það er ekki hægt að saka Evrópusambandið um óþægindin. 

Þetta þarf að gerast sem fyrst svo ekki fari að myndast fleiri ólöglegir ruslahaugar á bak við tómar byggingar og í skurðum við þjóðveginn.

Hugleiddu þetta, næst þegar þú stendur þig að því að þvo tómt salatbox með heitu vatni og sápu á eigin reikning áður en þú kemur því fyrir í upphituðu húsrými sem ætti í raun að nýtast fólki.


Háskólagráður til sölu - þær hljóta þá að vera einhvers virði

Svolítil frétt frá Spáni segir að lögreglan þar á bæ hafi nú stöðva framleiðslu og sölu á fölsuðum prófskírteinum. Fyrir nokkur hundruð evrur hefur mörgum tekist að verða sér úti um skírteini og fá vinnu í kjölfarið og unnið við hana svo árum skiptir, eða eins og segir í fréttinni:

Elsta prófskírteinið var keypt árið 2013 og viðkomandi hafði starfað við fagið sem háskólaskírteinið hljóðaði upp á allar götur síðan.

Auðvitað er slæmt að falsa og starfa á fölsuðum forsendum en hversu mikils virði eru ýmis ekta prófskírteini? Mörg slík eru sennilega einskis virði og hafa verið hrein tíma- og peningasóun fyrir alla sem komu að framleiðslu þeirra. Fólk með pappír úr morgunkornskassa er að taka störf frá þeim með ekta pappír og sinna þeim svo árum skiptir án þess að nokkurn gruni neitt.

Mögulega er að einhverju leyti við fyrirtæki að sakast. Þau eru að gera kröfur um hinn og þennan ónauðsynlegan pappír til einfalda sér ráðningaferli og fækka umsækjendum. Mörg fyrirtæki hafa sem betur fer áttað sig á því að þannig er lokað á mikla hæfileika, en það virðist ennþá vera undantekningin.listr

Auðvitað þarf menntun til að sinna ákveðnum störfum. Raunverulega menntun. En ekki alltaf. Af hverju er til dæmis kostur að listrænn ráðunautur við Þjóðleikhúsið sé með háskólamenntun? Ég hefði haldið að listrænna ráðunautur, með alla sína skapandi hæfileika og óþol fyrir föstum formum, ætti jafnvel að vera algjörlega án formlegrar menntunar.

Er allt þetta daður við háskólapappíra hreinræktað snobb? Eða telja margir að þeir sem hafa klárað háskólanám hafi sýnt getuna til að fylgjast aðeins með og hafi lært að taka glósur, en að innihald námsins sé aukaatriði? 

Margt af duglegasta fólkinu sem ég þekki er án háskólagráðu. Háskólagráða í ýmsum fögum er algjörlega verðlaus pappír - ódýrari í raun en þær nokkur hundruð evrur sem útsjónarsamir einstaklingar hafa eytt í falsaðan pappír. Kannski að góð atvinnuauglýsing sé stundum sú sem beinlínis bannar háskólamenntuðum að sækja um? Nema auðvitað að þeir lofi því að þeir hafi hrist af sér allan heilaþvottinn.


Hið nýja tungumál

Fyrir einhverjum áratugum var gerð tilraun. Nýtt tungumál var búið til frá grunni og hugmyndin sú að ef allir lærðu það gætu allir talað saman þvert á heimshluta. Hið nýja tungumál, esperanto, náði engu flugi. Fólk vildi tala sitt eigið tungumál jafnvel þótt það væri flókið og troðfullt af óskiljanlegum tilvísunum í fyrri venjur og siði og jafnvel þótt það þýddi erfiðleika á ferðalögum.

Í dag á svipuð tilraun sér stað. Það á að breyta tungumálinu og hreinsa það af hinni gömlu synd að kynin séu tvö og að manneskja sé annaðhvort karl eða kona - hann eða hún.

Gott og vel. Það er um að gera að styðja frumkvöðlastarf þótt gjaldþrotið blasi við. Hér er því mitt framlag í þá vinnu, gjaldfrjálst.

Lýst er eftir tillögum að eftirfarandi nýyrðum:

amma — ? — afi (kynhlutlaust orð yfir foreldri foreldra)
Orðin afi og amma vísa til foreldra foreldra út frá kyni þeirra. Hvaða sambærilega nafnorð getum við notað um kynsegin fólk eða fólk sem við vitum ekki kynið á?

Hugmyndir:

  • Amlóð, hvorugkynsmynd af orðinu amlóði, þ.e. maður sem hefur lítinn dug og þol (til að segja barni sínu að hætta að uppnefna sig og bara kalla sig afa eða ömmu barnabarna sinna)
  • Resk, sem nafnorðsmynd sagnorðsins reskjast, og ætti að lýsa ágætlega þeirri hugmynd að ömmur og afar eru bara gamalt og visið fólk sem má svipta ömmu- og afa-titlum sínum 
  • Arfbyrði, sem afbrigði af orðinu arfberi, og hefur þann tvöfalda tilgang að lýsa ömmum og öfum sem arfberfum en um leið sem byrði á samfélaginu enda eru ömmur og afar væntanlega að flækjast fyrir afskræmingu tungumálsins

kk. — ? — kvk. (skammstöfun fyrir kynsegin)
Skammstafanirnar kk. og kvk. vísa til karlkyns og kvenkyns. Hk. vísar til hvorugkyns en er almennt ekki notað til að vísa til fólks. Hvaða skammstöfun dettur þér í hug sem vísar til kynsegin?

  • Huliðskyns, einnig skammstafað hk., sem lýsir því ágætlega að enginn veit hvað er í gangi og hvernig á að ávarpa viðkomandi eða umgangast. 
  • Hvergikyns, einnig skammstafað hk., sem lýsir því ágætlega að um leið og maður taldi sig þekkja kyn viðkomandi þá er það horfið og birtist dag einn að nýju, mögulega breytt, áður en það hverfur aftur
  • xx, sem almenn lýsing á vandamáli þar sem þarf að finna fyrir hvað x stendur. 

sú — ? — sá (kynhlutlaust ábendingarfornafn í eintölu)

Ábendingarfornöfnin sá (þann-þeim-þess) og sú (þá-þeirri-þeirrar) vísa til karlkyns og kvenkyns. Fornafnið það vísar til hvorugkyns en er almennt ekki notað til að vísa til fólks. Því þarf ábendingarfornafn sem hægt er að nota um kynsegin fólk og jafnframt er hægt að nota um fólk sem við vitum ekki kynið á. Nokkur dæmi um notkun ábendingarfornafna:

Sú / ___ / sá sem skorar flest mörk vinnur.
Sú er góð með sig / ___ er gott með sig / Sá er góður með sig

Hvaða ábendingarfornafn getum við notað um kynsegin fólk eða fólk sem við vitum ekki kynið á?

  • er mín hugmynd. Þetta er tökuorð og vísar til enska orðsins so, sem þýðir í ákveðnu samhengi „og hvað með það eða hvaða máli skiptir það. Sem dæmi um notkun:
    Af hvaða kyni er Siggi úr Grafarvogi í dag?
    Só.
    Annað dæmi:
    „Só er gott með sóg.“ (Færeyingar telja sjálfsagt að hérna sé verið að tala þeirra tungu)
  • Það (skýring óþarfi)

femme

Orðið femme er stytting á enska orðinu feminine og er notað til að lýsa kyntjáningu einstaklinga en einnig þeim einstaklingum sem fólk laðast að. Hugtakið felur í sér ákveðinn skilning á hvað telst vera ‚kvenlegt‘ í samfélaginu, oftast miðað við hefðbundnar kynjaímyndir. Það geta öll verið femme óháð kynvitund og sömuleiðis geta öll laðast að femme einstaklingum, óháð kynhneigð. Hvaða íslenska lýsingarorð dettur þér í hug yfir femme?

Hérna þarf í alvöru að byrja á að svara spurningunni: What is a woman? Þegar það hefur tekist er hægt að leggja eitthvað til.

Ég ætla ekki að leggja í orðin masc og allosexual að þessu sinni enda er erfitt að búa til tungumál sem enginn notar, en ég óska frumkvöðlunum velgengni í starfi sínu og vona að opinberir styrkir nýtist vel við það.


mbl.is Leita að kynhlutlausu „amma og afi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband