Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2023
Sunnudagur, 16. júlí 2023
Vantar meira fallbyssufóður
Þráteflið í Úkraínu er orðið óbærilega blóðþyrst. Frá Úkraínu berast nú fregnir um að hermenn keyri um götur borga og þvingi alla unga karlmenn sem þeir sjá inn í bíla og þeir keyrðir í burtu og á víglínurnar. Ungir karlmenn þora varla út úr húsi lengur af ótta við að vera handsamaðir og þvingaðir í herinn. Á meðan sitja Rússar á hundruð þúsunda varaliða sem hafa ekki einu sinni fengið kallið ennþá.
Það er engu líkara en að Vesturlönd séu viljandi og markvisst að magna upp átök sem hefðu aldrei átt að eiga sér stað. Hvaða hagsmuna hafa Vesturlönd af því? Er eitthvað falið inn í skápnum sem þarf að vera falið áfram? Er einhver kókaínslóð sem byrjar í Úkraínu og endar í Hvíta húsinu sem þarf að fela? Eða peningaslóð?
Senn kemur að því að Vesturlönd þurfa að átta sig á því að þau eru búin að mála sig út í horn og neyðast til að setjast við samningaborðið. Eftir því sem það dregst lengur, þeim mun hagstæðari verða þeir samningar fyrir Rússa. Þeir sem uppnefna aðra Pútín-sleikjur eru í raun að aðstoða Rússa. Nytsamir vitleysingar. Af þeim er nóg.
Segir gagnsókn Úkraínumanna misheppnaða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Laugardagur, 15. júlí 2023
Maíspokavitleysan
Eins og ég benti á í seinustu færslu er nú verið að segja fólki að fleygja ekki maíspokum í körfu með matarleifum því þeir brotna ekki niður. Þetta eru ákveðin vörusvik enda eru þessi pokar merktir sem niðurbrjótanlegir og gefið til kynna að þeir séu eins og hvert annað grænmeti - umhverfisvænir og grænir og allt það.
Þetta stingur líka í stúf við fræðsluefni Umhverfisstofnunar en á heimasíðu hennar segir (áhersla mín):
Síðastliðin ár hafa mikið af vörum komið á markað sem gerðar eru úr lífplasti (PLA-plast) og merkt eru "compostable" eða jarðgeranleg. Þetta eru til að mynda maíspokar, kaffihylki, hnífapör, djúsglös og annarskonar einnota vörur. Þrátt fyrir merkinguna er lífplast ekki niðurbrjótanlegt í heimajarðgerð af neinu tagi heldur einungis í miðlægri iðnaðarjarðgerð. Í sumum tilfellum eru þó þunnir maíspokar (eða aðrir sterkjupokar) notaðir utan um lífræn hráefni og geta þeir í vissum tilfellum brotnað niður.
Hvað er moltugerð Sorpu annað en iðnaðarjarðgerð? Af hverju getur hún ekki tekið við maíspokunum og fengið þá til að brotna niður? Þegar leitað er á heimasíðu Sorpu eftir upplýsingum um maíspokana og í hvaða tunnu það á að fara í kemur ekkert fram nema leitað sé að lífplasti eða LPA, og þá bent á blandaðan úrgang.
Vörusvik. Rangar upplýsingar. Blekkingar.
Það er verið að hafa fólk að algjörum fíflum þegar því er boðið að kaupa poka, kaffihylki og annað úr svokölluðu lífplasti sem, samkvæmt heimasíðu Sorpu, er urðað á Álsnesi á meðan plastið er sent til Svíþjóðar í frekari endurvinnslu (meðal annars framleiðslu á baneitruðum leikföngum) eða nýtt sem eldsneyti til orkuvinnslu ef hún er ekki möguleg.
Viltu maíspoka? Þá verður þeim mun meira urðað á Álsnesi.
Viltu plastpoka? Þá ertu að leggja til hráefni í endurvinnslu eða orkuvinnslu (í Svíþjóð).
Auðvitað var alveg hægt að reikna með því að sorphirða hins opinbera yrði að einni stjarnfræðilegri vitleysu sem kostar fúlgur fjár og bætir í engu umhverfi okkar. Fyrirkomulagið í dag fer samt vel fram úr mínum svartsýnustu væntingum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Föstudagur, 14. júlí 2023
Plastpokavitleysa
Fyrir nokkrum árum var verslunum á Íslandi bannað að afhenda eða selja burðarpoka úr plasti. Þeir hurfu nánast daginn eftir. Vitaskuld er vísað í tilskipun Evrópusambandsins þótt plastpokar séu ennþá algengir í aðildarríkjum sambandsins.
Í staðinn fyrir plastburðarpokana komu pokar úr pappír eða maís. Maíspokarnir eru svo sem ágætir fyrir léttan varning sem er ekki með hvössum brúnum en vitaskuld miklu rýrari vara en plastpokinn.
Maíspokinn hafði einnig yfirbragð umhverfisvænnar vöru, ólíkt plastpokunum, og aldrei spáð í hvað hefði verið mátt nota maísinn í ef ríkir heimshlutar væru ekki að kaupa hann til að framleiða poka.
Þar til núna.
Þessa dagana er að berast bæklingar inn í bréfalúgur á suðvesturhorni Íslands. Þar segir:
Ekki má setja plast- eða maíspoka í körfuna [fyrir matarleifar] þar sem þeir brotna ekki niður.
Þá höfum við það. Maísinn hefur einhvern veginn verið gerður óniðurbrjótanlegur. Eins og plastið.
Maíspokinn við flokkun er orðinn hluti af annaðhvort plastinu eða hinum óvinsæla flokki: Blandaður úrgangur. Það kemur ekki fram í bæklingi yfirvalda.
Þarf ekki að vinda ofan af þessari vitleysu og hleypa plastpokunum að aftur? Og leyfa fátæka fólkinu að borða maísinn í stað þess að breyta honum í eitthvað sem hefur eiginleika plastsins?
Fimmtudagur, 13. júlí 2023
Vígvellina vantar ferskt blóð
Eins og öllum er ljóst eru rússneskir og úkraínskir hermenn núna að deyja á sléttum Úkraínu og sennilega eitthvað fleiri af þeim síðarnefndu en þeim fyrrnefndu enda er erfiðara að ráðast á sterk varnarmannvirki en að verja þau.
Í stað þess að líta á átök Rússa og Úkraínumanna sem staðbundin átök með langan aðdraganda, augljós endalok og vel þekktar lausnir hefur átökunum verið breytt í óbein átök milli Vesturlanda og Rússlands. Og hvað er þá til ráða þegar hermenn stráfella?
Jú, fjölga þeim.
Ég les núna hugleiðingar þess efnis að innleiða á ný herskyldu í Evrópu. Slíkt úrræði gæti aflað hakkavélinni í Úkraínu ferskt kjöt. Synir okkar, bræður og frændur fengju að deyja til að tryggja aðgengi úkraínskra yfirvalda að rússneska minnihlutanum í Austur-Úkraínu. Er það ekki verðugur málstaður?
Einu sinni var hægt að benda á herskáa bandaríska hershöfðingja með hneykslun og segja þá bara vera að ganga erinda stórfyrirtækja og heimsveldis í leit að óvinum. Núna er ekki hægt að benda á neitt nema spegilmyndina á meðan ungu mönnunum er veifað bless á leið í ómerkta gröf í útjaðri Evrópu eftir að hafa barist fyrir vonlausan málstað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 12. júlí 2023
Viltu tjá þig? Fáðu þér sprautu!
Ég lagði nýlega örfá orð í belg á þræði á fésbókinni um daginn. Þráðurinn var um almenningssamgöngur og bílanotkun í Reykjavík og í raun ekkert annað.
Ég fékk fljótlega þetta svar:
Sex einstaklingar settu þumalputta sinn við þetta svar.
Ég endurtek: Þetta var umræða um samgöngur í Reykjavík og ég var í sjálfu sér ekki að andmæla neinu, taldi einfaldlega upp nokkrar staðreyndir og velti fyrir mér umræðuhefðinni.
Í öðru svari kom fram að við ættum að treysta sérfræðingunum, eins og á veirutímum.
Maður ætti kannski að fá sér sprautu til að geta rætt rökin með og á móti því sem sumir kalla bíllausan lífsstíl (þann að vilja fá allt heimsent, vilja ekki heimsækja landsbyggðina og búa í göngufæri við næstu áfengisverslun ríkisins).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Sunnudagur, 9. júlí 2023
Ísland að innan og utan
Ég er staddur á Íslandi þessa dagana með börnum mínum og alltof upptekinn með vinum og fjölskyldu til að skrifa pistla en vonandi er enginn að sakna þess og sem flestir í sömu stöðu og ég - að drekka í sig góða tíma með góðu fólki og njóta sumarsins.
Mér hefur alltaf liðið vel á Íslandi þótt ég sjái úr fjarska marga galla við íslenskt samfélag. Stjórnmálamennirnir eru ónothæfir, innviðir sprungnir, verðbólgan komin í himinhæðir á ný og svo skilst mér að veðrið hafi verið slæmt þetta sumarið þótt ég hafi ekki upplifað það mikið sjálfur, sólbakaður í dag eftir yfir 20 stiga hita á Suðurlandi. En gallana þekkja Íslendingar og kunna að eiga við þá. Ég tek lítið dæmi.
Fyrir nokkrum misserum voru bundin í íslensk lög allskyns boð og bönn um einnota plasthluti sem svo er lýst í frétt yfirvalda:
Bann við að setja tilteknar, algengar einnota vörur úr plasti á markað tekur gildi í dag. Meðal vara sem bannað er að setja á markað eru einnota bómullarpinnar úr plasti, plasthnífapör og -diskar, sogrör, hræripinnar og blöðrustangir. Matarílát, drykkjarílát, glös og bollar úr frauðplasti eru einnig óheimil. Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki.
Þetta er alveg galið, eins og augljóst er, en hvað gera Íslendingar? Jú, aðlagast.
Ég fór í íslenska verslun í dag og keypti ákveðin matvæli sem krefjast íhlutar úr plasti til að njóta almennilega. Sami íhlutur úr pappír verður fljótlega ónothæfur vegna notkunar og raka og þá er tvennt í boði: Henda matvörunni eða hafa með sér nokkra íhluti úr pappír og skipta reglulega út þar til matvælanna er að fullu neytt.
Áður en ég pantaði spurði ég hvort nefndur íhlutur væri fáanlegur í plasti. Svarið var já, og hann sóttur á földum stað. Ég pantaði matvöruna og naut vel.
Ég hafði heyrt sögusagnir þess efnis að þetta væri víða mögulegt enda vita allir að pappírslausnin er ónothæf.
(Ég forðast að nefna nákvæmlega hvaða íhlutur var hér á ferð eða hvaða matvæla ég var að neyta til að minnka líkurnar á að einhver góðborgarinn sigi lögreglunni á náunga sinn - nokkuð sem Íslendingar eru óvenjugóðir í því miður.)
Íhluturinn endaði í ruslafötu sem verður tæmd af fagmönnum og innihaldið flokkað og því fargað á viðeigandi hátt. Ekkert endar í hafinu eða á hálendinu. Ekki frekar en ef íhluturinn væri úr pappír.
Þessi viðskipti minntu mig á mörg svipuð sem ég hef átt á Íslandi þar sem sumt er afgreitt samkvæmt seinustu reglugerð eða annarri álíka þvælu en annað samkvæmt heilbrigðri skynsemi, í trássi við lög.
Auðvitað get ég sagt svipaðar sögur í dönsku samhengi. En þótt bæði Ísland og Danmörk taki við tilskipunum frá lagaverksmiðju Evrópusambandsins þá innleiða Íslendingar þær af þvílíku offorsi að menn þurfa að aðlagast mun hraðar með lausnir undir borðið eða öðrum úrræðum.
Mögulega mætti líkja Íslandi við ávöxt, eins og appelsínu. Börkurinn er bitur og stífur en innihaldið er sætt og ljúffengt, ef menn komast svo langt. Eitt að utan, annað að innan. Kannski ekki besta lausn, en betri en samfélög þar sem ávöxturinn er allur bitur og stífur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 7. júlí 2023
Sýndarmennska stjórnmálanna
Óumdeildir stjórnmálamenn eru gagnslausir. Þetta sagði einn umdeildasti og á sínum tíma gagnlegasti stjórnmálamaður Íslands nýlega og þessi orð koma mér oft til hugar þegar ég les fréttir um íslensk stjórnmál eða íslenska stjórnmálamenn. Stjórnmálamenn eru einstaklingar sem hafa boðið sig fram til að stjórna, taka ákvarðanir og berjast fyrir sinni sýn á samfélagið í blússandi samkeppni við aðra slíka einstaklinga með aðrar hugmyndir. Um leið taka þeir ábyrgð á orðum sínum og verkum og kenna ekki öðrum um eigin afglöp. Menn læra jú af mistökum og allt það.
Svona virka íslensk stjórnmál ekki, og mögulega er hægt að segja eitthvað svipað um stjórnmál flestra ríkja. Stjórnmálamenn virðast fyrst og fremst vera í vinsældasamkeppni sem felst í að lofa sem mestu fyrir annarra manna fé án þess að hægt sé að greina einhverja sýn eða hugmyndafræði í orðum þeirra og verkum, og allt með það að markmiði fyrst og fremst að hljóta endurkjör og forðast alvöruvinnu. Þeim finnst gaman að klippa á borða en leiðinlegt að laga göturnar. Þeir daðra við lista- og fjölmiðlamenn og keppast um að komast í sviðsljósið. Þegar klúðrin skjóta upp kollinum er embættismannakerfinu kennt um og skiptir þá engu máli hvað opinberir starfsmenn hafa varað mikið við yfirvofandi vandamálum.
Mögulega er borgarstjóri Reykjavíkur góður persónugervingur þessarar nútímalegu tegundar stjórnmálamanna. Reykjavík er hænufeti frá greiðsluþroti og heldur sér uppi á yfirdráttarlánum og skuldabréfasölu á háum vöxtum. Innviðirnir eru sprungnir, lítið fé til framkvæmda og viðhalds og biðlistar örlög margra sem þurfa á þjónustu sveitarfélags síns að halda. Hvað gerir borgarstjóri þá? Jú, daðrar við frægan skemmtikraft og tilbúinn að taka sér hlé frá slökkvistarfinu í ráðhúsinu, að því marki sem borgarstjóri tekur yfirleitt þátt í því, til að skemmta honum.
Ábyrgðin er auðvitað kjósenda. Þeir láta kerfisbundið plata sig og jafnvel farnir að venjast því að minni þjónusta gegn hærra verði í umhverfi vaxandi skuldasöfnunar sé eitthvað eðlilegt og sjálfsagt. Kannski finnst þeim tilhugsunin um heimsókn skemmtikrafts vera bærilegri en tilhugsunin um enn þyngri skattbyrði gegn enn minni þjónustu. Kannski er hlutfall kjósenda sem hefur aðgang að troginu orðið svo hátt að það hefur áhrif á niðurstöður kosninga. En það kemur að skuldadögum. Kannski borgarstjóri spili á fiðluna sína á meðan, með skemmtikraft sér við hlið.
Dagur B. býður Taylor Swift velkomna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Fimmtudagur, 6. júlí 2023
Ný leið til að láta loka á sig
Nú ætlar Meta, sem lokar á notendur á fjésbókinni og instagramminu í dag, að hleypa af stokkunum nýjum samfélagsmiðli. Fjölgar þá væntanlega um einn samfélagsmiðlunum þar sem lokað er á heiðarlegar raddir sem reyna að taka þátt í opinberri umræðu eftir ábendingar frá yfirvöldum.
Eigendur samfélagsmiðlanna fá í mínum bókum enn lélegri einkunnir en fjölmiðlarnir fyrir hörmulega frammistöðu á veirutímum. Á meðan flestir eru farnir að gera sér grein fyrir því hvað blaðamenn í dag eru í raun (málpípur og blaðamannafulltrúar yfirvalda og stórfyrirtækja frekar en sjálfstætt hugsandi verur) þá héldu margir að samfélagsmiðlar væru að einhverju leyti frjáls vettvangur skoðanaskipta. Jú, vissulega er lokað þar á hryðjuverkamenn og nasista, en varla á lækna og prófessora. Þetta reyndist tálsýn.
Vissulega hefur ástandið skánað. Tvítin eru ekki lengur undir hæl bandarískra yfirvalda að sama marki og áður, og miðill eins og Mastodon verður varla ritskoðaður, einfaldlega vegna þess hvernig hann er byggður upp (eða svo er mér sagt). Blaðamenn hafa fundið sér athvarf, og tekjuleiðir, í gegnum síður eins og Substack og Locals. Þetta er á réttri leið.
Fyrir okkur hin þýðir þetta samt að heimurinn verður flóknari. Í stað þess að geta einfaldlega gleypt fréttatíma frá morgni til kvölds til að afla upplýsinga og fá aðgang að viðeigandi sérfræðiþekkingu þarf að gera meira. Miklu meira. Fylgjast með allskyns efni og skoðanaskiptum. Efast. Hugsa.
Svona leið kannski manni á miðöldum sem trúði ekki öllu sem kom fá Vatíkaninu, eins og um ágæti þess að kaupa aflátsbréf og brenna konur á báli. Sá maður fékk ekki mikið út úr orðum prestsins eða höfðingjanna sem mergsugu þegna sína. Þeir sem mynduðu sínar eigin skoðanir voru reknir á flótta.
Núna er okkur sagt frá sprautum og hvað þær eru öruggar og skilvirkar, því hverjir eru vondu og góðu kallarnir í heiminum, af hverju hagkvæmt eldsneyti er hættulegt fyrir loftslagið, hvað reiðufé sé slæmt og auðvitað hvað er mikilvægt að trúa ekki einhverjum samsæriskenningum.
Eru nýju trúarbrögðin eitthvað skárri en þau gömlu?
Er vöntun á nýjum samfélagsmiðli til að boða fagnaðarerindi yfirvalda og stórfyrirtækja, með sínu himnaríki og sínu helvíti?
Dæmi hver fyrir sig.
Nýr samfélagsmiðill en ekki fyrir alla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 5. júlí 2023
Þetta með að sprengja upp eigin innviði
Enn og aftur berast okkur einhliða fréttir um að Rússar ætli sér að sprengja upp eigin innviði (innviði undir þeirra stjórn, og með þeirra fólk á svæðinu). Þeir eiga að hafa sprengt upp eigin gasrör, eigin stíflu og núna er okkur sagt að þeir ætli að sprengja upp þeirra eigið kjarnorkuver (að mati Rússa sjálfra).
Ekki sérstaklega góð langtímaáætlun í því þegar takmarkið er að ná stjórn á landsvæði án þess að þúsundir andspyrnuhreyfinga skjóti upp kollinum, en gott og vel, þessu trúa margir.
Á veirutímum þróaði ég með mér þumalputtareglu: Ef sprautuáróðursfjölmiðlarnir eru sammála um eitthvað þá er það líklega þvæla en til vara áróður.
Þegar fjölmiðlar geta ekki einu sinni verið sammála um hvað við eigum að borða mörg egg á dag þá er furðulegt að þeir geti orðið sammála um flókna röð atburða sem er að eiga sér stað hér og nú án þess að trúverðugar og rekjanlegar upplýsingar liggi fyrir. Eins og í tilviki sprautnanna sem voru varla búnar að fá neyðarleyfi og undanþágur á mettíma undir huliðshjúp þegar allir fjölmiðlar gátu fullyrt að þær virkuðu vel og væru nokkuð öruggar.
Það getur vel verið að Rússar séu á fullu að undirbúa eyðileggingu eigin innviða en úr því allir fjölmiðlar eru sammála um það þá er ég efins.
Varar við aðgerðum Rússa í kringum kjarnorkuver | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 4. júlí 2023
Ríkiseinokun deyr
Ég dag heimsótti ég eina af mörgum verslunum áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, sem er sem kunnugt er með fleiri útibú en nokkur önnur keðja matvöruverslana á Íslandi. Þar var sem betur fer lítið að gera og fleiri starfsmenn á vakt en viðskiptavinir í búðinni og því auðsótt að fá afgreiðslu.
Kannski var þetta í eitt af seinustu skiptunum sem ég fer í slíka verslun. Útsjónasömum aðilum hefur tekist að finna löglega leið til að selja áfengi ódýrar til neytenda og neytendur eru vitaskuld alltaf að leita leiða til að slá á verðbólguna með því að hagræða í innkaupum. Þeir vilja ekki borga fyrir þunga og dýra yfirbyggingu sem skilar sér í engu nema hærra verði. Þeir vilja ekki niðurgreiða lélega kaupmenn sem bjóða upp á það sama og góðir kaupmenn, nema dýrar.
Núverandi fyrirkomulag löglegrar verslunar með áfengi er auðvitað ekki gallalaust. Áfengisverslanir þurfa að greiða erlendum ríkjum tekjuskatt af hagnaði sínum, sem er frekar glatað. Pappírsvinnan er sennilega mikil. En núverandi fyrirkomulag er samt betra en hið fyrra. Maður óttast það helst að stjórnmálamenn sjái ástæðu til að gera eitthvað og eyðileggja gott samband seljenda og kaupenda með nýjum lögum, eftirlitströllum og hindrunum. Stundum er besta niðurstaðan sú að stjórnmálamenn geri ekkert. Þá skemma þeir a.m.k. ekkert í leiðinni.
Barátta neytenda við verðbólgu yfirvalda virðist vera að ganga sæmilega. Sú barátta þýðir væntanlega að ríkiseinokun þurfi að deyja, en það er gott mál.