Bloggfærslur mánaðarins, desember 2023
Sunnudagur, 3. desember 2023
Stærsta loftræstikerfi í heimi
Í stórskemmtilegum skoðanapistil í Viðskiptablaðinu um daginn er endað á nokkuð liprum orðum:
Þannig heyrðu hrafnarnir það frá fulltrúum atvinnulífsins sem þátt taka fyrir eigin kostnað að það hafi verið stórkostleg skemmtun að hlusta á íslenska embættismenn segja frá samningaviðræðunum sem þeir tóku þátt í og hvernig þær væru að þróast með tilliti til framtíðarhitastigs jarðar. Þær nefndu að eins og samningarnir stæðu þá stundina þá yrði hlýnun jarðar 1,7 gráður en þær væru að reyna að koma þessu niður í 1,5 gráður.
Já, þetta er víst bara svona: Aukin losun manna á koltvísýring ýtir hitastiginu upp, á mjög fyrirsjáanlegan og línulegan hátt, og minnkun á þessari tilteknu tegund losunar á þessari tilteknu lofttegund leiðir til minni hlýnunar á fyrirsjáanlegan og línulegan hátt.
Nú vinn ég í frekar stóru skrifstofuhúsnæði sem rúmar á góðum degi um 1500 manns og sit þar í rými með um 20 öðrum einstaklingum. Loftslagið í þessu húsnæði er algjörlega undir stjórn manna sem reka öflugt loftræstikerfi þar sem hita og kulda og raka má stjórna og aðlaga eins og til þarf til að ná ákveðnu raka- og hitastigi. En viti menn: Eftir því sem líður á morguninn og fleiri mæta á skrifstofuna, því heitara verður í rýminu. Það tekst sem sagt ekki að hemja loftslag innandyra þótt umhverfið sé algjörlega undir stjórn manna.
Og hvað þá af sömu nákvæmni og menn ætla núna að reyna beita á loftslagið.
Þetta er kannski ekki heppileg samlíking - loftslag breytist hægt yfir langan tíma og örfáar kommur geta leitt til mikilla afleiðinga, eða svo er sagt. En mér dettur kannski í hug að fólk sé búið að fylla hausinn á sér af heitu lofti frekar en vísindum og líði eins og það geti flogið eins og loftbelgur og telji að plánetan öll sé í raun eins og stjórnborð loftræstikerfis, frekar en flókið og ólínulegt samspil þátta sem verka hver á annan, jafnvel til skiptis.
Munum að margir af helstu æðstuprestum veirutíma sem þar töluðu um vísindin eru líka leikmenn í loftslagsleikritinu. Það skyldi þó ekki vera að loftslagsvísindin séu sama þvæla og veiruvísindin en tekur bara lengri tíma að afhjúpa það?
En að lokum:
- Vísindamenn deila ennþá mjög um hversu mikil áhrif losun manna á koltvísýringi hefur á hitastig Jarðar, og jafnvel um það hvort þau áhrif séu góð eða slæm (t.d. er Jörðin að grænka mjög núna vegna aukins styrkleika koltvísýrings í andrúmsloftinu, og það eykur bæði vöxt skóga og uppskeru)
- Það er engin samstaða meðal vísindamanna, en vissulega töluvert þöggun í gangi
- Þegar vísað er í loftslagsskýrslur Sameinuðu þjóðanna er ekki verið að vísa í raunverulegu vísindin sem þar liggja að baki heldur umpökkun blaðamannafulltrúa. Vísindamenn hafa jafnvel sagt sig úr starfi Sameinuðu þjóðanna eftir að hafa fundist vera frjálslega farið með niðurstöður þeirra
- Það er líklega að hefjast kuldaskeið en ekki hlýðskeið á Jörðinni eftir þægilega áratugi undanfarið
- Þessar loftslagsráðstefnur munu í framtíðinni fara í sögubækurnar með pílagrímusferðum trúaðs fólks, nema hvað ólíkt slíkum ferðum innan hinna hefðbundnu trúarbragða, sem hætta sennilega aldrei, þá hverfa loftslagsráðstefnurnar á endanum
Höldum fótunum í jarðsambandi og hausinn lausan við heitt loft þótt það sé erfitt með okkar stjórnmála- og blaðamenn að störfum.
![]() |
Forseti COP28 sagður afneita hlýnun jarðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 3. desember 2023
Klámkjafturinn á fjölmiðlum
Það vantar ekki tilfinningaklámið í fjölmiðlum þessa dagana, og sérstaklega í fyrirsögnunum:
Edda Björk vistuð í alræmdu fangelsi: Þetta er strangara en við eigum að venjast (mannlif.is)
Edda Björk vistuð í öryggisfangelsi í Noregi (ruv.is)
Edda Björk fær hryðjuverkameðferðina í Noregi Lokuð inni í sama fangelsi og Breivik og má aðeins hringja eitt símtal á viku (dv.is)
Ótrúlegt en satt virðist visir.is halda sig á jörðinni. Það gerir mbl.is líka.
Undir öllum þessum æðisgengnu fyrirsögnum kemur fram að vissulega sé fangelsið það sama og Breivik sat í á sínum tíma, en nú sé búið að breyta því í kvennafangelsi. Rétt fyrirsögn er því:
Kona vistuð í kvennafangelsi.
Ekki flókið, en greinilega samt. Vonum bara að kvennafangelsið sé samt án kvára. Slíkt hefur endað illa.
Á Íslandi er að því er ég veit bara einn blaðamaður sem hefur nennt að kafa aðeins ofan í mál barnaræningjans og það er Frosti Logason í þáttum sínum Harmageddon á Brotkast. Hann hefur meðal annars rætt við norska blaðamenn og rýnt í dómsúrskurðina sem liggja að baki því að Edda fékk mjög skerta umgengni (því hún hafði áður neitað að virða umgengnissamninga, t.d. með því að láta lækni setja að ástæðulausu gifs á fót barns til að koma í veg fyrir að það gæti ferðast), undir eftirliti þar sem samskipti áttu að fara fram á norsku (því það hafði sannast að hún eitraði mjög föður barnanna í huga barnanna og því haft eftirlit með samskiptum hennar), og svona mætti lengi telja. Ekki mín orð, en ég trúi þeim nógu vel til að endurtaka þau.
Er þá hægt að treysta blaðamönnum til að fjalla hér með heiðarlegum hætti um flókið mál með langan aðdraganda? Auðvitað ekki. Tilfinningaklámið er mun söluvænlegra. Sumir telja það hreinlega vera ómögulegt að kona geti rænt börnum sem hún fæddi, og þýðir þá lítið að tala um lög og reglu og réttarríkið og úrskurði og samninga og rétt barna til að umgangast föður og þess háttar. Blaðamenn vita þetta kannski og leggja ekki í dýpri nálgun á viðfangsefninu.
Ekki frekar en í svo mörgum öðrum málum þar sem sjálfstæðir blaðamenn hafa þurft að vinna vinnuna.
Annars er hugur minn allur hjá börnunum sem núna eru á vergangi eins og undanfarin tvö ár, sennilega skemmd til lífstíðar. Það má vel vera að þau elski mömmu sína, jafnvel meira en pabba sinn, en það var mamman sem varpaði sprengjunum - ítrekað og yfir mörg ár - og börnin eru rústirnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 2. desember 2023
Meðlagsfangelsið
Þegar leiðir foreldra skiljast tekur við allskonar ferli. Eigi þeir sameiginlegt húsnæði þarf að losna við það eða breyta eignarhaldinu. Eigi þeir gæludýr þarf að ráðstafa þeim. Verðmætum þarf að skipta og þar fram eftir götunum.
Og svo þarf auðvitað að huga að börnunum. Hvenær eiga þau að njóta nærveru móður og hvenær eiga þau að njóta nærveru föður?
Í löggjöfinni er mikil áhersla lög á hagsmuni barna þegar foreldrar skilja. Þau eiga rétt á að umgangast bæði foreldri. Skiljanlega, því stórar og litlar rannsóknir, íslenskar og erlendar, komast mjög skýrt og skilmerkilega að þeirri niðurstöðu að sé umgengni jöfn og regluleg þá vegnar skilnaðarbörnum jafnvel og börnum innan kjarnafjölskyldu á meðan börn með ójafna umgengni, og börn algjörlega án annars foreldris, vegnar mun verr.
Allskyns embætti eru til þess fallin að tryggja að lögum um vernd barna sé framfylgt. Lagatextinn virðist vera laus við fordóma gagnvart feðrum og leggja áherslu á börnin. Allt er gott, á pappír.
En þá tekur framkvæmdin við.
Hún sést best í tölunum. Og ekki bara tölum um hlutfall skilnaðarbarna með lögheimili hjá móður annars vegar og föður hins vegar, eða í tölum um fjárhag einstæðra foreldra þar sem mæðurnar virðast lifa í vellystingum miðað við meðalsgreiðandi feðurna. Nei, framkvæmdin sést líka í tölum um sjálfsvíg, þar sem einstæðir feður taka óþægilega mikið pláss.
(Öll þessi gögn eru til en ég get því miður ekki vísað á þau í bili. Verið er að vinna í einhvers konar birtingu.)
Það þýðir ekkert að ræða þetta. Ég reyndi það nýlega. Samskiptin voru vingjarnleg og yfirveguð en alltaf þurfti að lauma inn svolitlum setningum til að verja framkvæmd kerfisins á föðursviptingu barna:
Honum ber engin skylda að borga frístundir og námskeið.
En bíddu nú við, þá meinar mamman barninu að hitta pabba sinn, og afleiðingar slíkrar tálmunar engar, svo af hverju ekki að senda reikningana á pabbann?
Flestir fara offörum yfir því að hitt foreldrið þurfi að borga meðlag. Það vill nú svo til að það foreldri sem er mest á barnavaktinni getur síður tekið aukavinnu, aukavaktir - það þarf að skutla, sækja, sjá um læknisþjónustu, kaupa afmælisgjafir nú fyrir utan að halda heimili fyrir börnin.
En sú þvæla. Þegar leiðir foreldra skiljast þá fá báðir öll þau verkefni sem fylgja rekstri heimilis. Að gera annað foreldrið gjaldþrota, og ókleift að bjóða upp á sómasamlega aðstöðu fyrir börn sín, er ekki gott kerfi. Af hverju geta foreldrar ekki bara skipst á að taka þessar aukavaktir, þegar börnin eru hjá hinu? Nei, betra að mjólka annað foreldrið til dauða til að tryggja hinu stutta vinnudaga, allar vikur.
Mæður borga líka meðlög veistu.
Einmitt. Núll komma hvað prósent?
Langflestar konur vilja hafa föðurinn í lífi barnanna sinna að því gefnu að allt sé í lagi. Það virkilega léttir öllum lífið.
En hvað ef konan er í ólagi? Alltaf að kaupa aðkeyptan mat fyrir nýjasta kreditkortið? Alltaf á vergangi? Af hverju er konan hérna í dómarasæti að úrskurða hvort það sé í lagi með manninn sem hún valdi til undaneldis? Og af hverju tekur kerfið, í framkvæmd en ekki hönnun, þátt í slíkum hlutverkaleik? Kerfið gerir það, svo því sé haldið til haga.
Það er ekki skrýtið að rannsóknir hafi komist að þeirri niðurstöðu að kerfið sé miklu frekar hannað, eða í framkvæmd þannig, að áherslan sé á hag mæðra frekar en hag barna.
Ef hagur barna væri hafður að leiðarljósi þá ætti skilnaður að fela sjálfkrafa í sér jafna umgengni, tvöfalt lögheimili barna og engar meðlagsgreiðslur. Í einhverjum öfgatilvikum, þegar fátæklingurinn giftist milljarðamæringi, ætti að hvetja til samninga um einhvers konar stuðning þess ríka til þess fátæka svo börnin fari ekki úr hreysi i höll og svo aftur í hreysi. En annars á fullorðið fólk bara að geta staðið á eigin fótum, og með eigin skuldbindingum, og virt rétt barna til að umgangast bæði foreldri til jafns.
Að þessu sögðu má velta því fyrir sér hvort meðlagskerfið eigi að vera í huga þegar ungt fólk er að hittast á stefnumótum. Á sá sem er að sækja sér raunverulega menntun eða þjálfun sem felur í sér góðar líkur á verðmætaskapandi vinnu að leggja í barneignir með þessum hugmyndaríka en síblanka listamanni eða félagsfræðingi sem á varla fyrir saltinu í grautinn? Eru ekki meiri líkur en minni á að sambandið fjari á einhverjum tímapunkti út, og að einhver börn séu þá komin í heiminn þegar það gerist? Mun það ekki þýða að kerfið mun hirða allt af þeim sem þénar meira, og alveg örugglega ef sá aðili er faðirinn?
Jafnréttisparadísin á sér kannski skuggahliðar, en enginn segir neitt, því núna hallar á rétt kyn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 2. desember 2023
Kalli kóngur og krísan
Karl Bretakonungur hefur ítrekað spáð heimsendi. Þær spár rættust vitaskuld ekki. Hans spár eru þvæla. Þær má hunsa.
Auðvitað kemur heimsendir einhvern tímann. Sólin er að stækka og mun að lokum gleypa Jörðina og sólkerfið allt saman. Kannski kemur loftsteinn. Kannski fara af stað eldsumbrot um allan heim sem tortíma lífi á Jörðinni. Þá gæti kannski einhver sagt að Kalli kóngur hafi spáð rétt fyrir um heimsendi þótt það hafi verið af röngum ástæðum. Það er jú galdurinn við margar spár: Þær rætast á endanum.
Það er engin hamfarahlýnun á Jörðinni í gangi og jafnvel teikn á lofti um að kuldatímabil sé að hefjast, svipað því og sumir kalla litlu ísöld miðalda í Evrópu. Sem betur fer hefur hlýnað síðan þá, nálægt því þægilega hitastigi sem landnámsmenn á Íslandi og Grænlandi upplifðu fyrir um 1000 árum, en það ástand ætlar ekki endilega að endast, því miður.
En þýðir það að mannkynið eigi bara að fá að dæla eitri og mengun í andrúmsloftið? Auðvitað ekki, enda mikilvægt að gera greinarmun á mengun og losun gróðurhúsalofttegunda (eins og vatnsgufu og koltvísýrings). Mannkynið er orðið frekar duglegt í að takmarka mengun. Um leið og fólk fær að ná ákveðnum lífsgæðum þá fer það að atast í þeim sem menga loft, land og vatn. Það fer að krefjast hreinnar náttúru. En til að komast þangað - frá því að svelta og í að verða krefjandi - þarf hagkvæma orku og í dag kemur sú orka fyrsta og fremst frá bruna á jarðefnaeldsneyti og losun á koltvísýringi í andrúmsloftið.
Þessa dagana funda tugþúsundir af mest mengandi og losandi fólki heims í ríku olíuframleiðsluríki og predika þar úr fílabeinsturni á þinn kostnað. Hræsnin verður varla mikið meiri og það má líta á þessa sýningu sem hreinasta leikrit sem er hvorki fyndið né áhugavert. Það er við hæfi að hæðast að þessum sirkus og gera lítið úr öllu umstanginu, og í framhaldinu byrja að gagnrýna fjáraustrið sem skattgreiðendur eru þvingaðir til að standa undir svo opinberir starfsmenn geti skemmt sér á lúxushótelum.
Því Kalli kóngur í krísu er persóna sem kemur okkur ekkert við nema sem skotmark brandara.
![]() |
Hvetur til raunverulegra aðgerða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 1. desember 2023
Vilji barna og mannrán
Mikil læti eru nú í gangi á Íslandi af því íslensk yfirvöld vilja framselja ákærðan lögbrjót til Noregs.
Þessi lýsing á aðstæðum er hlutlaus og felur ekki í sér neina skoðun. Í henni eru engar staðreyndavillur. En tilfinningar eru sjóðandi heitar og menn kjósa að orða hlutina öðruvísi.
Því er haldið fram að einhver vilji barna eigi að fá að ráða. Það er mjög óvenjulegt fyrirkomulag í íslensku samfélagi. Börn eru hiklaust gerð föðurlaus gegn vilja sínum. Það er daglegt brauð. Vilji barnanna skiptir engu máli. Hann ætti kannski að gera það, en gerir það ekki.
Nú fyrir utan að lýsingar á vilja barnanna koma úr einni átt og engum öðrum skoðunum hleypt að hljóðnemanum.
Því er haldið fram að ef mamma mokar börnum upp í flugvél og stingur af úr landi með þau að þá sé það ekki mannrán því mæður geta ekki rænt börnum sínum. Bara feður. Jafnréttisparadísin á Íslandi er ekki komin lengra en það.
Ég hef engra hagsmuna að gæta í þessu hávaðamáli en leyfi mér að hafa töluverðar efasemdir um að hávaðaraddirnar séu einhvers konar raddir réttlætis sem berjast fyrir vilja barnanna. Miklu frekar held ég að hér séu tækifærissinnar á ferðinni - fólk sem lemur gjarnan niður feður og gerir börn þeirra föðurlaus - en stekkur núna á hinn vagninn og tekur upp hanskann fyrir manneskju sem oft og ítrekað hefur tapað sínum forræðismálum, meðal annarra mála sem viðkomandi hefur komið sér í, af því viðkomandi er með rétta tegund kynfæra.
Maður vonar auðvitað að börnin beri ekki of mikinn skaða af ástandinu - af því að sjá æstan skríl veitast að föður þeirra, af því að vera rifin út úr daglegu lífi sínu og flogið yfir hafið og endað þar á vergangi, af því að vera núna á milli tannanna á fólki sem fullyrðir hvaða skoðun þau hafa í miðri ringulreiðinni.
Forræðismál fara oft í ræsið þar sem niðurstaðan er föðurlaus börn. Núna er mamman búin að koma sér í fangelsi og börnin verða móðurlaus. Ekki er það betra, en heldur ekki verra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)