Bloggfærslur mánaðarins, desember 2023
Miðvikudagur, 13. desember 2023
Veirutímar
Myndin hér að neðan er tekin af mér í mars 2022 þar sem ég sat í flugvél á leið til Íslands og var beðinn um að setja á mig grímu, sem ég gerði (því vildi ekki láta fleygja mér út).
Eins og sést var ég töluvert skeggjaður á þessum tíma. Veirur ferðuðust óhindrað á milli skeggháranna og gerðu gagnslausa grímu jafnvel enn gagnslausari, og jafnvel að veiruhraðal.
Flugþjónarnir virtust ánægðir með að sjá grímuna og gerðu ekki neinar athugasemdir við að ég hafi ekki einu sinni breitt úr henni til að ná a.m.k. yfir aðeins stærra svæði á andliti mínu, né að ég hafi ekki einu sinni haft fyrir því að klemma henni á nefið á mér. Þeir vissu sennilega að fyrirmæli þeirra voru kjaftæði og bara ánægðir með að þurfa ekki að eiga við einhvern álhattinn.
Ég passaði mig svo það sem eftir var flugsins að vera alltaf að borða eða sötra eitthvað, enda heimilt að vera án grímu á meðan matar eða drykkja var neytt, veirum til mikillar skemmtunar.
Ég rifja þetta upp því ég var að horfa á viðtal John Stossel við Rand Paul, bandarískan öldungadeildarþingmann, sem er tiltölulega nýbúinn að gefa út bók, Deception: The Great Covid Cover-Up, sem rauk eftir þetta viðtal í 2. sæti á lista mínum yfir bækur sem ég ætla að lesa/hlusta á (í 1. sæti er The Great Awakening eftir Alex Jones þegar ég er búinn með An Immigrant´s Love Letter to the West eftir Konstantin Kisin).
Við vorum auðvitað blekkt af yfirvöldum sem voru ekki að boða vísindi, eins og þau héldu fram, heldur bara að gera eitthvað, byggt á minnisblöðum að utan. Gott og vel, við féllumst á það einu sinni og sumir lengur en aðrir, en næst verða eingöngu hin raunverulegu vísindi í boði og yfirvöld geta tekið aftursætið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 13. desember 2023
28. fundur Lygara, öskrara, grínara, glæpamanna og alþingismanna
Loksins kláraðist 28. fundur Lygara, öskrara, grínara, glæpamanna og alþingismanna, eða LÖGGA28 eins og það er oftast kalla (á ensku COP28). Vestræn ríki halda áfram að lofa því að taka af okkur ódýra orku, banna bílana okkar, láta okkur flokka sorp sem síðar er einfaldlega brennt eða breytt í eitraðan varning, hækka á okkur skattana og hræða börnin svo þeim langi jafnvel ekki að lifa, hvað þá að dreyma um að eignast eigin börn í framtíðinni.
Afgangur heimsins hlær með og fær jafnvel einhverja peninga út á það en heldur annars áfram af kappi að útvega ódýra orku eða fara úr engri orku í einhverja orku með notkun hagkvæmasta eldsneytisins.
Um daginn horfði ég á langt viðtal John Stossel við Bjorn Lomborg, og mæli með því að fólk sem sækist eftir jarðtengingu geri það líka. Lomborg trúir að vísu öllum þessum skýrslum um hlýnun Jarðar af mannavöldum en sér þó ekki ástæðu til að steypa okkur í gjaldþrot með því að henda miklu fé á eftir lausnum sem skila engu, á kostnað annarra lausna sem hafa margfalda ávöxtun í formi mannslífa og verðmætasköpunar.
Auðvitað munum við að lokum þurfa að hætta notkun jarðefnaeldsneytis. Eftir einhverja áratugi verður orðið erfitt að finna ódýra olíu og jafnvel ódýrt gas. Eftir nokkrar aldir verður líka orðið lítið um aðgengilegar kolanámur. Í millitíðinni rannsökum við aðrar gerðir orkuöflunar sem verða mögulega hagkvæmar seinna, og höldum áfram að þróa tækni sem er mögulega ekki hagkvæm fyrir alla en góð fyrir suma. Ekki spurning.
En allt þetta tal um ævintýraleg markmið fyrir árið 2030 eða 2040 eða jafnvel 2050 er ekkert nema aðför að venjulegu vinnandi fólki.
Kjósendur geta gert eitthvað til að spyrna við fótum. Þeir gætu til dæmis vopnað sig með grein dr. Helga Tómassonar, prófessors í hagrannsóknum og tölfræði, í Morgunblaðinu í gær. Ég hengi hana hér við fyrir þá sem eru ekki áskrifendur eða í hugsandi hópum á samfélagsmiðlum þar sem svona efni er vitaskuld dreift og deilt.
Kjósendur geta líka kosið. Það er ekki endilega frábært framboðið af flokkum en innan margra má finna einstaklinga sem hafa séð í gegnum þokuna, og skemmdarverkin.
LÖGGA28 laðaði að venju að sér einkaþotur og milljarðamæringa sem eiga hlutabréf í loftslagsiðnaðinum. Opinberir starfsmenn láta sig heldur ekki vanta enda hægt að uppskera vel í dagpeningum, flugpunktum og gistingu á lúxushótelum. En þetta er leiksýning. Því miður munu vestrænir stjórnmálamenn halda henni áfram þegar heim er komið, og þú færð að borga, en aðrir snúa sér aftur að dagvinnu sinni.
Upphaf endaloka jarðefnaeldsneytis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 12. desember 2023
Er ekki mikilvægast að bara líða vel?
Mér líður stundum illa. Ekki vegna sjúkdóma eða þunglyndis heldur vegna álags. Mér líður ekki illa í þeim skilningi að ég þjáist af vanlíðan heldur miklu frekar af því ég sé stundum ekki hvernig ég á að ná að klára öll þau verk sem liggja fyrir. Kannski þetta sé miklu frekar hægt að kalla samviskubit - ég tek á mig miklar byrðar, sem raðast svo óheppilega í tíma á mig, og leiða til drukknunartilfinningar á köflum.
Þetta líður svo allt saman hjá. Við eigum jú að reyna leggja okkar af mörkum og vera nothæf, og þá sérstaklega fyrir ungviðið okkar.
Svona leið mér oft í námi. Ég valdi í efstu bekkjum grunnskóla að fara í það sem þá var kallað hraðferð, í öllum fögum sem hægt að velja um slíkt. Þetta þýddi meira heimanám, þyngri skyndipróf og meira lesefni. Þetta olli álagi. Vanlíðan á köflum, því samviskubitið herjaði á mig.
Ég valdi þann framhaldsskóla sem ég taldi vera erfiðastan, sem á þeim tíma var Menntaskólinn í Reykjavík, og fór þar á þær námsleiðir sem voru taldar erfiðastar. Þetta olli miklu álagi.
Ég fór svo aðeins rólegar í háskólann, og valdi þar verkfræði. Það var af ýmsum ástæðum, en útilokunaraðferðin kom sterk inn. Námsálagið þar var á köflum alveg kæfandi, og margar nætur fóru í að klára skilaverkefni og læra fyrir próf.
Ég les því með bros á vör eftirfarandi orð borgarstjóra, læknisfræðimenntaður vel á minnst og því með svipaðan námsferil að baki og ég þar til kom að háskóla:
Sagði hann [Dagur B. Eggertsson borgarstjóri] að nauðsynlegt væri að skoða hvernig hægt best væri að nýta þessar niðurstöður til úrbóta. Við yrðum að setja okkur markmið að ná árangri í PISA þó ýmsir aðrir mælikvarðar væru mikilvægir líka eins og líðan barna í skólum sem væri almennt góð hér á landi.
Þarna er maður sem lærði í skóla að lesa sér til gagns og notagildis, lærði undirstöður reiknings, lærði að tileinka sér erfitt nám og klára það. Þarna er maður sem naut góðs af álagi í náminu og eftirfylgni með því. Hann fór í skyndipróf og lokapróf og tókst að standa sig vel í þeim af því hann tók nám sitt alvarlega og naut stuðnings til að sinna því, og auðvitað aðhalds líka.
Núna er verið að þynna allt þetta út í að líðan barna í skólum sé góð og að það eigi að vega upp á móti því að börnin séu ekki að læra neitt. Er líðanin svona góð því börnin hafa ekkert að gera og geta spilað tölvuleiki í símanum? Eða af því kennarinn er að hanga í sínum síma og vonar að krakkarnir séu að tileinka sér námsefni úr skjá spjaldtölvu eða ferðatölvu, sem þau eru svo bara alls ekki að gera?
Áherslan á vellíðan er kannski ágæt í sjálfu sér en hún er greinilega farin að bitna á ábyrgðartilfinningu, samviskusemi og hreinlega námi í skólum eins og það leggur sig.
Þá finnst mér mögulega við hæfi að stinga upp á því að reyna minnka aðeins þessa vellíðan í skóla og láta börnunum líða illa stöku sinnum. Svo þau geti einn daginn kannski orðið að læknisfræðimenntuðum borgarstjórum.
Tillögu vegna PISA vísað til skóla- og frístundaráðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Mánudagur, 11. desember 2023
Er ekki hægt að innleiða sjálfvirknilausnir?
Þeir sem hafa ferðast aðeins og heimsótt veitingastaði McDonalds sjá að þar hefur átt sér stað mikil breyting á undanförnum árum. Núna er yfirleitt tekið við pöntunum í gegnum sérstakar tölvur og það eina sem starfsmenn gera er að framreiða og afhenta pantanir.
Þetta var ekki endilega fjárfesting sem McDonalds fór út í að gamni sínu. Nei, þessari fjárfestingu var hraðað mjög vegna hækkandi launakostnaðar. Núna fá fáir starfsmenn mögulega hærri laun, en fyrir nýliðann í leit að sínu fyrsta starfi lokuðust dyr.
Sá sem græddi mest var mögulega sá sem lærði að byggja og forrita svona tölvur. Gott hjá honum!
Verkalýðsfélög segjast vera að berjast fyrir hagsmunum hins óbreytta launamanns en eru í raun að gera hann atvinnulausan. Það tekur tíma fyrir atvinnulífið að aðlagast breyttum aðstæðum - að fara úr því að smíða hestvagna yfir í að smíða bíla, og í að laga bremsuklossa í stað þess að rétta af hestaskeifur. En þegar verkalýðsfélög þröngva fyrirtækin út í horn þá hraða þau breytingunum og afleiðingin er sú að aðilar á vinnumarkaði ná ekki að aðlagast nógu hratt, og týna starfinu án þess að finna nýtt.
Ég er alveg ljómandi hlynntur tækni og tækniframförum sem gera hluti ódýrari og hraðari og minna háða mannlegum mistökum.
Kannski ekki alveg jafnhlynntur slíkri þróun og verkalýðsfélögin ómeðvitað eru.
En spyr mig nú samt: Hvenær tekur sjálfsali McDonalds við flugumferðarstjórn á Íslandi? Mögulega fyrr en menn þorðu að vona.
Mikill kostnaður mun falla á flugfélögin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 10. desember 2023
Hin nýja löggjöf: Sekur uns sakleysi er sannað
Á veirutímum vöknuðu margir upp við vondan draum. Svokallað stjórnarskrárbundið lýðræði, þar sem réttindi fólks eru skráð í stjórnarskrá sem um leið takmarkar völd hins opinbera, reyndist vera sviðsetning. Það kom í ljós að í raun geta yfirvöld gert það sem þeim sýnist að því gefnu að þeim takist að sannfæra meirihluta almennings um ágæti yfirgangsins. Stjórnarskráin reyndist ekki duga sem vörn af neinu tagi ef almenningur stóð ekki fastur á ákvæðum hennar.
Þetta er hin nýja tegund löggjafar.
Allt má réttlæta í nafni neyðarástands og undir þér komið að sanna sakleysi þitt frekar en að það sé ákæruvaldsins að sanna sekt.
Í mjög áhugaverðri hugleiðingu Russel Brand á jútjúb tekur hann fyrir frumvarp til laga í írska löggjafarþinginu þar sem á að færa lögreglunni töluvert mikil völd til að taka á því sem er kallað hatursumræða og hvatning til ofbeldis á samfélagsmiðlum. Lögreglan fær aðgang að skilaboðaþjónustum af ýmsu tagi og má hnýsast í það hvaða efni þú ert með á tölvunni þinni og ákæra þig eins og þú sért að fara dreifa því til að boða hatur og ofbeldi. Já, lögreglan má ganga út frá því að ef þú ert með ákveðið efni í fórum þínum þá munir þú ætla að dreifa því til að ala á hatri og hvetja til ofbeldis.
Hvaða efni er það svo sem er talið svona hættulegt? Lögreglan sker úr um það!
Til að bæta gráu ofan á svart þá verður hvergi í þessari löggjöf skilgreint hvað hatursumræða er. Það er til að koma í veg fyrir að ákærur falli á túlkunaratriðinu.
Írland er ekki eitt á þessari vegferð í átt að sovéskum aðferðum til að hafa hemil á tjáningu og málfrelsi fólks. Þetta er að verða tískan. Heimildir yfirvalda til að hnýsast í líf borgaranna eru auknar og ákærur byggðar á túlkun yfirvalda frekar en bókstaf laganna. Fólk er meðhöndlað eins og sekt þar til sakleysi er sannað. Neyðarúrræði af ýmsu tagi eru útvíkkuð og gripið til þeirra af sífellt minna tilefni. Og almenningur segir ekkert. Mótmælir í engu. Treystir kannski á stjórnarskránna þótt hún sé ein og sér og án varðstöðu alveg gjörsamlega ónýtur pappír.
Margir vöknuðu upp við vondan draum á veirutímum við að sjá í gegnum lygar yfirvalda. Við að sjá í gegnum lygar veiruvarna fóru margir líka að sjá í gegnum hinar lygarnar, enda spretta þær allar úr sama jarðvegi. Lygar í málefnum innflytjenda. Lygar í málefnum loftslagsbreytinga. Lygar í málefnum veiruvarna. Lygar um líffræði kvenna og karla. Lygar ofan á lygar.
Kannski var hlutfall almennings sem vaknaði úr þægilegum svefninum ekki mjög hátt, en raddirnar þeim mun háværari. Þegar næsta holskefla lyga skellur á okkur verður erfiðara en áður en selja þær. Þökk sé, vonandi, fólki eins og þér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 9. desember 2023
Auglýst eftir opinberum skoðunum íþróttamanna
Margir trúa ekki að í Rússlandi ríki raunverulegt lýðræði. Að þar sé skoðanakúgun. Að Pútín ráði þar því sem hann vill. Að kosningar séu ekki frjálsar.
Gott og vel, það má færa rök fyrir þessu.
En oft segir sama fólk að það þurfi að banna íbúum Rússlands að gera hitt og þetta - stunda viðskipti, keppa á íþróttamótum, ferðast. Svona rétt eins og þetta fólk sé einhvern veginn fulltrúar rússneskra yfirvalda og beri ábyrgð á aðgerðum þeirra.
Það er ekki hægt að halda báðu fram: Að íbúar í Rússlandi ráði engu um aðgerðir yfirvalda og um leið beri ábyrgð á þeim aðgerðum og þurfi að þjást fyrir það.
Núna verða rússneskir íþróttamenn bráðum yfirheyrðir um skoðanir þeirra á aðgerðum rússneskra yfirvalda í Úkraínu - innrásinni sem engan endi virðist ætla að taka en fer vonandi bráðum að verða grundvöllur friðarviðræðna. Byggt á niðurstöðu slíkrar yfirheyrslu verður ákveðið hvort viðkomandi íþróttamenn megi að fá að hlaupa, kasta hlutum, hoppa yfir eitthvað eða synda í keppni við aðra íþróttamenn.
Gott og vel, en af hverju að einskorða sig við skoðanir íþróttamanna á átökum í Úkraínu?
Hvað með skoðanir þeirra á innrás Bandaríkjanna í hin ýmsu ríki?
Hvað með skoðanir þeirra á meðferð Kínverja á minnihlutahópum?
Hvað með stuðning íslenskra yfirvalda (eða þeirrar ákvörðunar þeirra að hafa ekki beitt neitunarvaldi) við innrásina sem leiddi til tortímingar á Líbýu sem ríki um árabil? Aðgerð sem snérist líklega fyrst og fremst um að varðveita stöðu Bandaríkjadollars í heimsviðskiptum með olíu.
Hvaða aðrar skoðanir hafa áhrif á það hvort íþróttamenn megi sparka í bolta eða hoppa og sveifla sér, í keppni við aðra íþróttamenn?
Er skoðun óbreyttra borgara á tilteknum aðgerðum rússneskra yfirvalda það eina sem verður notað til grundvallar á skráningu í keppnismót?
Kannski það sýni svolítið hvar forgangur okkar liggur. Hann liggur ekki í að stuðla að friði, leysa deilur, varðveita samfélag manna og hjálpa bágstöddum.
Hann liggur í að klappa fyrir utanríkis- og peningamálastefnu Bandaríkjanna, og ekkert annað. Því miður.
Rússar fá að keppa á Ólympíuleikum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.12.2023 kl. 06:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fimmtudagur, 7. desember 2023
Pisa-partý
Enn og aftur eru niðurstöður Pisa-könnunar gerðar opinberar, og enn bætist í þær takmarkanir sem leggjast á þær og notagildi þeirra.
Enn og aftur sýna þær minnkandi lesskilning stráka og stelpna.
Enn og aftur koma þær fólki á óvart.
Ég átti fyrir ekki löngu síðan í samskiptum við íslenskukennara af gamla skólanum: Sá sem setur fyrir erfitt heimanám, leggur fyrir erfið verkefni og gerir miklar kröfur. Hann fær ekki að kenna lengur, svo því sé haldið til haga.
Hann talaði um X-grafið, þar sem einkunnir leita upp á við en Pisa-niðurstöður leita niður á við.
Hann minntist á foreldra sem hringja bálreiðir og kvarta yfir öllu heimanáminu.
Hann taldi að efnilegir nemendur fái ekki lengur áskoranir við hæfi.
Allt ætti þetta að blasa við foreldrum. Þeir skilja ekki hvernig sæmilegt einkunnaspjaldið er ekki að skila sér í lesskilningi og því að geta gefið til baka í kassastarfi. Þeir skilja ekki að þeirra símtöl til kennara og kvartanir vegna heimanámsins bitnar á menntun barnanna.
Þeir halda að það sé allt í hinu fínasta lagi þar til Pisa-könnunin kemur eða þar til kemur í ljós að framhaldsskólar sem setja kröfur hleypa ekki barninu þeirra inn.
Hrakandi gæði menntunar er vissulega vandamál en um leið manngert vandamál vælandi foreldra, kennara af nýja skólanum sem trúa ekki á mikla vinnu og erfið verkefni og sanngjarna einkunnagjöf og auðvitað skólastjórnenda sem eru hættir að bera ábyrgð.
Ég legg til að foreldrar skipti um gír núna: Kvarti yfir skorti á heimanámi, heimti að einkunnir endurspegli frammistöðu og að kennarar fái ekki símtölin nema þeir taki of létt á krökkunum.
Sjáum þá til hvað Pisa-partýið 2025 skilar okkur. Án þess að auka opinber útgjöld í hítina.
Fimmtudagur, 7. desember 2023
Raforkan framleidd á opinberum stofnunum
Eftir mörg ár af því að hunsa hávær aðvörunarorð og standa í vegi fyrir framkvæmdum í orkuvinnslu hefur tekið við nýr tími. Núna er einfaldlega hægt að setja lög þar sem tryggja megi á dögum orkuskorts að almenningur og lífsnauðsynleg starfsemi á borð við spítalla njóti forgangs að raforku.
Aldeilis ágætt það. Þeir sem þurfa nauðsynlega raforku, þegar hún er af skornum skammti, geta yljað sér við þá tilhugsun að með löggjöf er búið að tryggja raforku.
Það er að segja fyrir almenning og lífsnauðsynlega starfsemi. Önnur má jú sigla sinn sjó eins og á veirutímum - kannski fara á bætur hjá hinu opinbera ef verið er að brjóta samninga.
Já, það var alveg rétt hjá þeim sem sögðu að það þyrfti ekki að framleiða meiri raforku. Hún verður einfaldlega til á Alþingi núna og innan opinberra stofnana.
Er ekki hægt að setja fleiri góð lög sem tryggja almenningi önnur gæði líka? Af hverju að takmarka sig við raforku?
Ætla að setja neyðarlög um raforku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 5. desember 2023
Sagan öll um Eddu Björk og brottnumdu börnin
Ég geri fyrirsögn Nútímans að minni, því hún er góð.
Það hefur ýmislegt gengið á í umræðunni um íslenska barnaræningjann sem stal börnum og faldi. Margar spurningar hafa ítrekað skotið upp kollinum. Vildu börnin láta ræna sér? Líður þeim vel? Er verið að heilaþvo þau?
Loksins er búið að skola upp á yfirborðið forsögunni að baki því sem er ástandið í dag. Nokkuð sem blaðamenn eru einfaldlega óhæfir til að gera, með fáum undatekningum.
Ég er eindreginn stuðningsmaður þess að börn hafi til jafns í lífi sínu föður og móður. Innan og utan sambands og hjónabands. Alltaf, og sem mest, jafnan aðgang að báðum foreldrum. Reyni annað foreldri að ýta hinu út er það árás á börnin, nema í sjaldgæfum undantekningartilvikum (pabbi sem nennir ekki, mamma sem sprautar sig).
Frétt Nútímans er góð og eyðir vonandi 99% af rangfærslunum í umræðunni, gefið auðvitað að fólk slökkvi aðeins á yfirsnúningi sínum.
Nú er að sjá hvort börn fari úr því að hafa ekkert foreldri í lífi sínu í að hafa foreldri sem er ekki í fangaklefa fyrir mannrán. Eða hvort það takist ennþá að leika á kerfið. Sjáum hvað setur.
Hvað varðar mína þörf til að tjá mig um þetta mál þá held ég að hún sé horfin með frétt Nútímans og því flóði staðreynda og upplýsinga sem þar kemur fram. Kjósi fólk ennþá að halda sig við goðsagnir, þá það. Vonandi stendur eftir að mannrán hafa afleiðingar.
Mánudagur, 4. desember 2023
Rusl og verðmæti
Á heimasíðu dönsku orkustofnunarinnar segir:
Sorp hefur þróast úr því að vera vandamál í að vera eftirsótt auðlind. Þetta hefur skapað tækifæri fyrir vel starfhæfan markað fyrir úrgang sem gerir ráð fyrir aukinni samkeppni og skilvirkari úrgangsstjórnun. Hagræðing í sorpbrennslugeiranum hefur lengi verið á dagskrá stjórnmálanna.
Bíddu nú við, er sorp auðlind? Er sorp verðmætt? Er samkeppni um nýtingu á sorpi? Hvað er í gangi!
Í Danmörku eru starfræktar fjölmargar sorpbrennslustöðvar, oft í námunda við íbúðahúsnæði og hreinlega inni í hverfum. Á einni þeirra er meira að segja kaffihús á þakinu og skíðabrekka sem fólk má nýta, bæði á sumrin og veturnar.
Úr þessum verksmiðjum streymir lyktarlaus reykur. Ég heimsótti eina slíka um daginn og sá hvernig ruslabílarnir keyrðu inn, bökkuðu að gati í veggnum og sturtuðu þar sorpinu inn, beint úr ruslatunnum fólks. Vitaskulda á sorpið að vera flokkað rétt en búið að tryggja að ef rafhlaða springur að þá séu það ekki endalok ofnsins.
Þessar stöðvar framleiða hita og rafmagn og er stundum talað um þær sem orka úr sorpi stöðvar (Energy from Waste).
Þessar sorpbrennslustöðvar - alls 23 talsins í Danmörku þegar þetta er skrifað - eru auðvitað misstórar. Menn segja of stórar fyrir íslenskar aðstæður. Mengunarbúnaðurinn sé líka of dýr - of dýr fyrir íslenskar aðstæður. Þegar er búið að ákveða að urða minna er því ekki annað í stöðunni en að borga fúlgur fyrir útflutning á sorpi. Það er ekki of dýrt fyrir íslenskar aðstæður, að því er virðist.
Gleymum því að í Danmörku finnast sorpbrennslur sem brenna svipuðu magni á ári og Sorpa urðar í dag, og uppfylla allar kröfur. Þegar kemur að samanburði við útlönd er bara við hæfi að bera saman borgarlínur.
Gleymum því að tæknin er orðin mjög fullkomin. Ekki bara er reykurinn lítið annað en lyktarlaus og hvít gufa og að askan fer í gegnum mjög kröfuhart ferli þar sem næst meira að segja að vinna hráefni úr henni.
Gleymum þessu öllu!
Borgum frekar útlendingum fyrir að taka við sorpinu með skipaútflutningi sem kostar margfalt á við urðum, og leyfum þeim að njóta hitans og rafmagnsins sem hlýst af íslenska hráefninu.
Því við þurfum jú að hugsa um heildina en ekki bara okkur sjálf, ekki satt?
Á þessari síðu hefur áður verið minnst á íslensku orkuskiptin - að Íslendingar séu að fara úr rafmagni yfir í olíu. Sú lýsing nær ekki bara yfir fiskimjölsverksmiðjurnar. Hún nær líka yfir sorpið. Í stað þess að framleiða rafmagn með sorpbrennslu er olíu eytt til að sigla því í erlenda rafmagnsframleiðslu. Fjarlægðin á milli þess sem er sagt og þess sem er gert í íslenskum orkumálum vex í sífellu.
Sorpa kynnir gjaldskrárhækkun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |