Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2022

Miklu, miklu meira svona

Svo virðist sem rússneskir hermenn hafi stráfellt óbreytta borgara og skilið lík þeirra eftir á víðavangi áður en þeir hurfu á brott. Rússnesk yfirvöld neita þessu, úkraínsk yfirvöld fullyrða þetta. 

En þá koma gervihnattamyndir til leiks!

Yf­ir­völd í Moskvu hafa neitað öll­um ásök­un­um og segja mynd­irn­ar falsaðar eða tekn­ar eft­ir að þeir yf­ir­gáfu borg­ina. En ný­leg­ar gervi­hnatta­mynd­ir frá miðjum mars-mánuði tekn­ar af Max­ar Technologies virðast staðfesta að lík hafi legið um borg­ina á sömu stöðum og her­menn Úkraínu­hers og blaðamenn fundu þau. Mynd­irn­ar eru tekn­ar áður en Rúss­ar yf­ir­gáfu Bút­sja.

Þessu fagna ég ákaft og ég er raunar ennþá hissa því að uppistaða frétta frá Úkraínu séu í formi textalýsinga, tilvitnana í einstaka menn og stillimynda sem gætu þannig séð verið af hverju sem er. Gervihnattamyndir, drónaupptökur og fréttaflutningur af vettvangi er einfaldlega af skornum skammti og það er engum til góðs. Ég man eftir því sem krakki að hafa horft á ógrynni lifandi fréttaefnis frá fyrstu innrás Bandaríkjanna í Írak. Síðan þá hefur tækninni fleygt gríðarlega fram. Hvað er því til fyrirstöðu að senda út lifandi gervihnattamyndir af átakasvæðum? Hvar eru stríðsfréttaritararnir? Þarf í alvöru að treysta á samfélagsmiðla og lokaða spjallhópa eða litla og óþekkta fjölmiðla?

Koma svo, blaðamenn! Þið getið gert betur en þetta!


mbl.is Svíar hefja rannsókn á stríðsglæpum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er markmiðið að skipta heiminum í tvennt?

Ekki veit ég hvernig á að koma rússneskum hermönnum út úr Úkraínu án þess að þeir telji sig hafa náð yfirlýstum markmiðum sínum (bæla niður nýnasistahreyfingar, veikja hernaðarmátt Úkraínu og verja íbúa austustu héraða Úkraínu). Ekki veit ég hvað er hægt að gera til að stöðva innrás Rússa í Úkraínu. Það má fordæma sem virkar ekki. Það má beita viðskiptaþvingunum sem virka ekki (enda engin samstaða um slíkt á heimsvísu). Það má gefa út yfirlýsingar og handtökutilskipanir sem hefur ekkert að segja. Það má frysta eignir og gera upptækar þótt það hafi engin áhrif.

En það sem ég óttast er að í öllum hamaganginum þá séum við að leggja línurnar að tvískiptum heimi.

Nú þegar eru Rússar í viðræðum við Miðausturlönd, Indland, Kína og fleiri um notkun gjaldmiðla og greiðslumiðlunarkerfa. Rætt er af fullri alvöru um að stunda alþjóðleg viðskipti með olíu með notkun annarra gjaldmiðla en Bandaríkjadollars en slíkt gæti haft svakalegar afleiðingar fyrir bandarískt hagkerfi sem treystir á útflutning verðbólgu til að standa undir sér. Valkostir við greiðslumiðlunarkerfi Vesturlanda eru að fæðast. Orka sem fór áður til Vesturlanda fer í auknum mæli suður og austur til Indlands, Pakistan, Rússlands og fleiri. Rússum er hent út úr allskyns samtökum en boðið viðræður við aðra jafnharðan. 

Nú fyrir utan að allir sjá hvað bandarísk yfirvöld og fleiri eru að leyfa sér að gera: Hirða eigur og frysta. Ríku olíuprinsarnir hljóta að vera hugsa sinn gang um hvar þeir geyma ránsfenginn sinn - ef heimurinn fær einhvern tímann áhuga á voðaverkum Saudi-Arabíu í Jemen, þar sem bandarískum vopnum er beitt á konur og börn, er hætt við að slíkar eignir verði næstar í frystikistuna!

Við viljum ekki tvískiptan heim, og sérstaklega ekki núna þegar Vesturlönd eru búin að grafa svo mikið undan eigin getu til að framleiða orku og bara hvað sem er að þau hafa hreinlega ekki efni á því. Það er lítið vit í að eiga stærstu sprengjurnar ef búrskápurinn er tómur.

Ég vona svo sannarlega að Rússar hypji sig út úr Úkraínu sem fyrst og beri fyrir sig einhverri ástæðu eins og að hafa náð markmiðum sínum eða hvað sem er. Og þá helst áður en heimurinn klofnar í tvennt.


Orka og Evrópa

Evrópa er föst á milli steins og sleggju og eigin skammsýni, vafin í óraunsæja hugmyndafræði.

Ekki kærir hún sig um meiri orku frá Rússlandi en þörf er á. Fyrir þetta geldur auðvitað almenningur með svimandi orkukostnaði. Þá meina ég svimandi. Og ágóðinn rennur í rússneska vasa. 

Ekki er hún að bora eftir olíu og gasi (nema Norðmenn auðvitað, þeir halda sínu striki). Þekktar olíu- og gaslindir standa ósnertar. Sumum er lokað þótt nóg sé eftir í þeim.

Ekki kærir hún sig um kol og heldur áfram að loka kolaorkuverum í miðri orkukreppu.

Hvað stendur þá eftir?

Að betla meiri orku út úr Aröbunum? Þeir hafa kannski ekki jafnmikinn áhuga á að eiga dollarasjóði í vestrænum bönkum og áður og farnir að líta til austurs. Og eru að auki uppteknir af ólöglegum innrásum og árásum - nokkuð sem er stundum óvinsælt í augum Evrópubúa.

Byggja vindmyllur?

Það er hæpið að treysta á Bandaríkjamenn. Þeir eru líka að skjóta sig í fótinn og fresta opnun fleiri olíu- og gaslinda. 

Ég geri mér grein fyrir því að mörg vandamál steðja að heiminum en í Evrópu þurfa menn enga óvini til að rýra lífskjör sín og skerða orkuöryggi. Þeir gera það svo ljómandi vel sjálfir, við sjálfa sig.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband