Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016
Miðvikudagur, 13. júlí 2016
Dæmigerð pólitísk málamiðlun
Lokun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli er dæmigerð pólitísk málamiðlun sem hentar engum. Í besta falli mun þessi lokun valda óþægindum en í versta falli dauða einhvers sjúklings eða sjúklinga. Hvað ætli mörg sjúkraflug þurfi að enda með dauðsfalli áður en neyðarbrautin verður opnuð aftur? Tíminn mun leiða það í ljós.
Í stað þess að taka hálfan flugvöll úr sambandi hefði annaðhvort átt að halda flugvellinum óbreyttum eða loka alveg og koma á öðru fyrirkomulagi fyrir sjúkraflug. Innanlandsfluginu er almennt heldur engin greiði gerður með þessu. Hvað segja landsbyggðarþingmenn við því?
Reykjavík sárvantar peninga til að moka ofan í hallarekstur sinn og skuldsetningu því lengra kemst borgin ekki í skattheimtu og ekki dettur neinum þar í hug að skera niður báknið. Er það ekki einfaldlega kjarni málsins hér?
Neyðarbraut breytt í flugvélastæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 12. júlí 2016
Ný söguskoðun vinstrimanna
Í þessari grein Píratans Smára McCarthy eru helstu þættir í nýrri söguskoðun vinstrimanna dregnir saman. Greininni hefur verið deilt af kappi og margir taka undir efni hennar.
Það væri meiri vinna en ég hef tíma fyrir núna að hrekja allt sem kemur fram í greininni. Það tekur minna pláss að fullyrða en hrekja, því miður. Þó stenst ég ekki að draga fram nokkur atriði sem vert er að nefna.
Í greininni er það nefnt að Warren Buffett, einn ríkasti maður heims, segist borga lægri skatta en ritarinn hans. Það er bara að hluta til rétt. Hann borgar lægri skatt af fjármagnstekjum sínum en ritarinn af launatekjum en áður en fjármagnstekjur má greiða út þarf fyrirtækið sem greiðir þær að borga skatta af hagnaði sínum. Samanlagt hefur því Buffett greitt meira í skatt en ritarinn hans. Með því að skilja hluta af skattheimtunni útundan er Buffett að reyna ná fram pólitískum boðskap sem stenst ekki skoðun. Þetta er nánar útskýrt hér.
Í greininni er ekkert gert úr þeirri einkennilegu tilviljun að með tilkomu seðlabanka með nánast ótakmarkað vald til að prenta peninga hefur orðið til nýtt peningakerfi á heimsvísu. Nýir peningar dreifast ekki jafnt í alla vasa. Þeir byrja hjá þeim sem standa næst bankakerfinu og valda aukinni eftirspurn eftir ýmsum varningi og þjónustu sem breiðist síðan út til hagkerfisins. Verðlag hækkar jafnt og þétt. Þeir sem hafa fastar tekjur eða sitja eftir í launahækkunum fá verðbólguna í höfðuðið af fullum þunga. Þeir sem fengu peningana fyrstir gátu notið kaupa sinna á hinu gamla verðlagi.
Ofan á seðlabankakerfið er svo búið að byggja víðtækt net af tryggingum á t.d. innistæður (beint) og gjaldþrot (óbeint). Til að torvelda aðgengi hafa bankarnir svo stuðlað að því að háir aðgangsþröskuldar bíði þeirra sem vilja keppa við þá.
Eða, eins og segir á einum stað (í mikilvægri grein):
Bankar eru ekki venjuleg einkafyrirtæki heldur ríkiseinokunarfyrirtæki. Ríkið reisir háa aðgangsþröskulda að fjármálaþjónustu með reglugerðum og ábyrgist síðan rekstur bankanna með yfirlýsingu um að Seðlabankinn sé lánveitandi til þrautavara og innstæðutryggingu.
Það má segja að þetta sé hinn raunverulegi flutningur á fjármagni úr vösum fátækra í vasa ríkra. Hefur enginn velt fyrir sér hvers vegna menn sem sýsla við fjármagn geta uppskorið háa bónusa og lifað hátt, nánast sama hvernig árar? Af hverju eru ekki aðrar greinar atvinnulífsins að greiða svona háa bónusa?
Skortur á hagfræðiþekkingu er engum með frumlegar söguskoðanir til bóta.
Það er líka til lítils að gagnrýna ríki fyrir að bjóða upp á hagstæð kjör fyrir þá sem eiga peninga eða vilja eyða peningum. Íslendingar eru að reyna laða til sín kvikmyndaframleiðendur til að framleiða afþreyingu með því að borga beint úr ríkissjóði fyrir hluta af útgjöldum kvikmyndaframleiðenda. Allar ríkisstjórnir - þar á meðal fráfarandi ríkisstjórn - hafa talað fyrir sértækum skattaívilnunum fyrir útvalin iðnfyrirtæki. Ferðamannaiðnaðurinn nýtur hagstæðari kjara gagnvart skattayfirvöldum en flestar aðrar greinar. Það er ekki í tísku að tala fyrir almennum skattalækkunum á allt og alla, hvorki á Íslandi né annars staðar. Stjórnvöld leita því leiða til að keppa í kjörum og fjármagnsöryggi á aðra vegu. Hér væri vissulega til bóta að koma frekar á almennum skattalækkunum sem allir njóta góðs af en það er ekki vð frjálshyggjumenn að sakast að svo sé ekki raunin.
Að lokum verð ég að staldra aðeins við þessa setningu:
Stærsta vandamál samtímans er efnahagslegur ójöfnuður. Ekkert einstakt vandamál er stærra að umfangi og ekkert vandamál er rót jafn margra annarra vandamála.
Nei, ójöfnuður er ekki rót annarra vandamála heldur afleiðing. Nú er ójöfnuður ekkert sérstakt vandamál í sjálfu sér - það er alveg skiljanlegt og eðlilegt að Brad Pitt sé ríkari en ég og þú og að börn hans haldi áfram að vera rík vegna sjóðssöfnunar föður síns og móður. Í frjálsum markaðshagkerfinum er hreyfanleiki upp og niður tekjustigann mikill enda byggist auðsköpun í slíkum hagkerfum á eltingaleik við síbreytilegar kröfur neytenda. Ójöfnuður er vandamál að því marki að lög og reglur og fyrirkomulag peningamála gera suma ríka á kostnað annarra, t.d. með notkun, framleiðsu og viðhaldi á stöðugri verðbólgu.
Hin nýja söguskoðun vinstrimanna er fyrst og fremst byggð á tveimur stoðum:
- Skilningsleysi á hagfræði
- Öfund
Vonandi má bæta úr hvoru tveggja og komast nær kjarna málsins svo allir geti rætt um hin raunverulegu vandamál sem blasa við af yfirvegun og þekkingu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Mánudagur, 11. júlí 2016
Ekki fer alltaf saman vilji og verk
Þau eru mörg hagsmunamálin sem herja á hirslur hins opinbera á Íslandi, bæði sveitarfélaga eða ríkis. Raunar eru allir ósáttir við skort á opinberum stuðningi við hugðarefni sín eða þá sem minna mega sín eða þá sem vilja fara á ráðstefnur í útlöndum.
Þeir sem treysta á opinbera framfærslu eru um leið að vona að há skattlagning dugi til að fjármagna þá framfærslu því hin háa skattlagning hefur hirt allt það fé sem færi annars í að fjármagna þá framfærslu. Um leið er vonin sú að fáum öðrum takist að bætast á listann yfir þá sem hið opinbera hefur á sinni framfærslu. Þó hafa listaunnendur og íþróttaunnendur yfirleitt virt það þögla samkomulag að hvorugur kvartar yfir styrkjum til hins þótt það sé ljóst að það sem annar fær getur hinn ekki fengið.
Nú hefur Kópavogur ákveðið að hætta stuðningi við Tónlistarsafn Íslands. Það þýðir líklega að einhverjum öðrum hefur tekist að komast á spenann þar á bæ. Kannski kostaði EM-skjár bæjarins of mikið, nú eða Óperudagarnir. Það mætti kannski segja að EM og óperan hafi valdið lokun Tónlistarsafns Íslands. Eða hvað?
Best væri auðvitað að hið opinbera hætti að skattleggja í nafni styrkjaúthlutana og leyfði skattgreiðendum sjálfum að fjármagna hugðarefni sín. Kannski kæmi það miklu betur út fyrir Tónlistarsafn Íslands að vera upp á náð og miskunn notenda og neytenda frekar en hins opinbera. Þá geta þeir sem segjast vilja að eitthvað hljóti fé sýnt vilja sinn í verki í stað þess að kenna bara öðrum um.
Það sakar ekki að prófa, er það? Er hin leiðin ekki þrautreynd?
Ganga út hokin með kökk í hálsinum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 10. júlí 2016
Atvinnuleysi bundið í stefnuskrá
Bandaríkin virðast vera á svipaðri vegferð og Norðurlöndin fyrir um 30-40 árum. Báknið þar er að þenjast út og því haldið fram að hin örfá prósent þeirra ríkustu geti borgað reikningana. Það er tálsýn. Svíar og Danir hafa áttað sig á því að þessi stefna grefur undan verðmætasköpun samfélagsins og leiði til slæmra langtímaafleiðinga. Þeir hafa því spólað töluvert til baka þótt báknið sé vissulega ennþá stórt.
Bandaríkin eru, líkt og t.d. Svíþjóð á sínum tíma, að dragast aftur úr í samkeppnishæfni, hagvexti og hreyfanleika innan hagkerfisins. Velferðargildran heldur sífellt fleirum í einskonar velferðarfangelsi þar sem öll viðleitni til að klifra tekjustigann er ónýtt með flóknu samspili tekjuskerðinga bóta og hárrar skattheimtu á hærri laun.
Bandaríkjamenn eru líka á góðri leið með að eyðileggja gjaldmiðill sinn og hann prentaður í risastórum upphæðum til að fjármagna skuldir hins opinbera, hernaðarbrölt og stækkandi bákn.
Bandaríkin þurfa greinilega að fá að ljúka þessari vegferð sinni með einhverjum hörmungum þar sem spilaborgin hrynur og byrjað er upp á nýtt. Annar möguleiki er sá að einstaka ríki spyrni við og lýsi yfir auknu sjálfstæði frá alríkisvaldingu í Washington. Ekki standa öll ríki illa og þau vilja ekki sökkva með hinum sem standa verr.
Sjáum hvað setur.
Samþykktu lágmarkslaun í stefnuskrá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 9. júlí 2016
Nokkur orð um fasisma
Obama er í hjarta sínu sósíalisti að ég held en stjórnarfar hans líkist samt miklu frekar fasisma, og lof mér nú að útskýra áður en ég verð vændur um að fylgja lögmáli Godwins eða stunda Reductio ad Hitlerum.
Á einum stað er fasismi skilgreindur svo:
Fascism is the system of government that cartelizes the private sector, centrally plans the economy to subsidize producers, exalts the police state as the source of order, denies fundamental rights and liberties to individuals, and makes the executive state the unlimited master of society.
Höfundur bætir svo við: "This describes mainstream politics in America today. And not just in America."
Athugið að hér er fasismi ekki skilgreindur út frá einhvers konar notkun ofbeldis eða hatursumræðu. Ofbeldið er fylgifiskur fasismans og afleiðing en ekki forsenda.
Obama hefur unnið hörðum höndum að því að auka miðstýringu í bandaríska stjórnkerfinu, t.d. í heilbrigðiskerfi þeirra. Hann hefur hent fé skattgreiðenda á eftir mörgum einkafyrirtækjum gegn því að hið opinbera fái ítök í þeim, t.d. General Motors. Hann lætur seðlabankann í Bandaríkjunum framleiða mikla verðbólgu til að hið opinbera geti haldið áfram að skuldsetja sig og auka við völd sín.
Menn óttast að ef Donald Trump verði forseti Bandaríkjanna þá sé voði í vændum. Margir hafa kallað Trump fasista. Að mínu mati væri Trump mjög eðlilegur arftaki Obama. Hann þyrfti ekki að breyta mjög miklu, bara bæta í þá stefnu sem Obama hefur framfylgt: Aukin miðstýring, öflugra alríkisvald og frekari rýrnun á réttindum einstaklinga.
Ekki væri Hillary Clinton mikið skárri - manneskja sem virðist standa utan við almenn lög í bandarísku samfélagi. Hún talar líka fyrir fasisma þótt hún noti ekki eins skrautlegt orðalag og Trump.
Obama er fánaberi fasisma í Bandaríkjunum. Nú er að sjá hver tekur við af honum.
Obama styttir Evrópuferð sína | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Föstudagur, 8. júlí 2016
Vandamálið við sósíalismann
Miðvikudagur, 6. júlí 2016
Ríkisvaldið græðir á vinnu annarra
Ríkisvaldið nýtur nú góðs af auknum umsvifum í hagkerfinu. Þessu má líkja við vampíru sem nýtur góðs af blóðframleiðslu manns sem er duglegur að neyta járnríkrar fæðu.
Einkaaðilar eru að fjárfesta, leggja fyrir, taka áhættu, prófa sig áfram, þefa uppi markaði, selja vörur og þjónustu og yfirleitt að ná góðum árangri. Ríkisvaldið mætir svo á svæðið og hirðir vænan hluta ágóðans.
Við sjáum hér hvað ríkisvaldið flækist duglega fyrir. Nú standa skattar yfirleitt í stað eða eru að lækka lítillega. Seðlabankinn og viðskiptabankarnir eru að framleiða mjög litla verðbólgu. Þetta tvennt nægir oft til að einkaaðilar nái að blómstra. Ímyndum okkur hvað gæti gerst ef ríkisvaldið lækkaði skatta svo um munar og verðbólguframleiðslunni væri jafnvel snúið við þannig að almenningur gæti notið verðhjöðnunar!
Hið opinbera er hér að fá eitthvað fyrir ekkert í skjóli skattlagningarvaldsins. Nú er nauðsynlegt að skattar verði lækkaðir hressilega svo ríkisvaldið hirði ekki allan ágóðann og sólundi í vitleysu.
Innheimtar tekjur aukast um 19,6% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Þriðjudagur, 5. júlí 2016
Eingöngu glæpamenn eiga að bera vopn, eða hvað?
Þegar einhver verður fyrir voðaskoti er það alltaf komið í fréttirnar.
Þegar glæpamaður ryðst inn á svæði með óvopnuðum almenningi og skýtur fólk í stórum stíl kemst það í fréttirnar.
Þegar einhver stöðvar glæp með heiðarlegri notkun skotvopna er það aldrei komið í fréttirnar. Fréttin yrði líka leiðinleg: Glæpur stöðvaður - ekkert gerðist. Hver nennir að lesa um slíkt?
Fyrir vikið halda margir sjálfsagt að löghlýðnir borgarar sem eiga skotvopn séu alltaf að brytja niður fjölskyldumeðlimi og nágranna. Menn halda líka að þau skotvopn sem glæpamenn búa yfir fari með lögbanni á slíku eignarhaldi. Það sem gerist bara er að almenningur er afvopnaður. Glæpamennirnir eiga áfram sín skotvopn.
Best væri auðvitað að enginn ætti skotvopn og jafnvel að þau væru ekki til. Þau eru samt til og því er mikilvægt að það séu ekki bara glæpamennirnir sem eiga þau. Sögulega hefur líka verið þörf fyrir að almenningur sé a.m.k. jafnvel vopnaður og yfirvöld. Jafnvægis verður að gæta. Annað svarar til að gera almenning að varnarlausum hænum sem refurinn getur leikið sér að því að slátra án mótspyrnu.
Skaut son sinn á skotsvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 3. júlí 2016
Skatta- og bótagildra unga fólksins
Þeir sem vilja að ríkisvaldið niðurgreiði hitt og þetta vilja um leið að ríkisvaldið skattleggi mikið svo það hafi úr miklu fé að spila.
Háir skattar og háar bætur fléttast saman í eins konar net sem ungt fólk flækist í. Ungt fólk er enn að bæta við sig þjálfun og reynslu sem leiðir síðar til launahækkana en á meðan mætir það fullum þunga skattkerfisins. Þegar tekjurnar hækka fara bæturnar að hrynja af því og ráðstöfunarstekjur standa í stað.
Velferðarkerfið svokallaða er velferðarnet - net sem festir fólk eins og flugur í vef kóngulóarinnar. Þeir sem verja velferðarkerfið eru að tala máli kóngulóarinnar.
Tekjudreifing breyttist lítið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |