Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2016
Laugardagur, 30. júlí 2016
Bannað að velja
Á Íslandi er heimilt að verðtryggja lán. Það er ekki skylda. Það er val. Mörg óverðtryggð lán eru í boði, þar á meðal á húsnæði. Sumir velja þau. Aðrir ekki.
Er það virkilega áherslumál hjá sumum stjórnmálamönnum að fjarlægja þennan valmöguleika? Á að skylda mann sem á milljón til að lána hana óverðtryggt? Má hann þá breyta vöxtunum í staðinn? Er hann skyldugur til að taka á sig verðbólguna? Mun hann þá lána milljónina sína eða stinga henni ofan í skúffu?
Það er alveg hreint magnað að margir stjórnmálamenn leggja mikla áherslu á að minnka valfrelsi frá því sem nú er. Til hvers?
![]() |
Þetta er dæmi um loddaraskap |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Föstudagur, 29. júlí 2016
Ívilnanir eru viðurkenning á því að kerfið er gallað
Þegar stjórnvöld veita ívilnanir eru þau um leið óbeint að viðurkenna að reglur eru of margar og skattar of háir. Stjórnvöld eru að segja að ekki sé hægt að byggja upp ákveðinn rekstur í hinu almenna umhverfi og að sérstakar tilslakanir þurfi til að viðskiptahugmyndin gangi upp.
Aðrir, sem njóta ekki ívilnana, eru svo fórnarlömbin. Þeir þurfa að uppfylla allar reglurnar og borga alla skattana. Heilbrigðum fyrirtækjum, sem ráða við hærri skatta og fleiri reglur, er refsað. Þau fá að blæða á meðan aðrir njóta ívilnana.
![]() |
ESA samþykkir ívilnunarsamning |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 28. júlí 2016
Peningum allra ausið í áhugamál sumra
Ríkisstjórnin er komin í kosningaham og ausir nú fjármunum skattgreiðenda í allskyns málefni sem eru talin líkleg að útvegi atkvæði.
Nú skal það sannað fyrir kjósendum að ekki þarf að kjósa vinstriflokkana til að vinstristefna ráði ríkjum því allir flokkar hegða sér eins og vinstriflokkarnir. Gallinn er sá að kjósendur sjá oft í gegnum kosningasýninguna og velja samt vinstriflokkana til að tryggja framgang vinstristefnunnar.
Fyrir vikið sitja flokkar sem kalla sig miðju- eða hægriflokka eftir án stefnumála. Þeir segja eitt en gera annað. Kjósendum býðst ekki sá möguleiki að kjósa til valda flokka sem berjast raunverulega fyrir losun á kverkataki ríkisvaldsins.
Ég vissi að ráðherrar væru með mikil völd en vissi ekki að þeirra völd lægju utan takmarkana vegna fjárlaga, stefnuskrá eigin flokka og yfirlýsinga eigin ríkisstjórna. Eru engin mörk?
![]() |
Ríkissjóður er í betri færum en áður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 24. júlí 2016
Hið íslenska aðhald
Íslendingar gera miklar kröfur til þeirra einkafyrirtækja sem þeir stunda viðskipti við. Þar skal allt vera í lagi - varan, þjónustan, viðmótið, aðstaðan og verðið - því annars er kvartað. Þetta aðhald er gott og heldur fyrirtækjum á tánum. Fyrir vikið má yfirleitt reikna með því að allt sé í lagi - annars skal kvartað og helst á samfélagsmiðlum.
Þegar kemur að samskiptum og viðskiptum við hið opinbera er eins og aðhaldið gufi upp. Þá láta Íslendingar sig hafa það að standa í löngum biðröðum þar sem aðstaða er léleg (dæmi: Sýslumaðurinn í Kópavogi). Menn sætta sig við að borga himinháa skatta og ofan á það allskyns umsýslu- og pappírsgjöld. Viðmót starfsfólk er aukaatriði því þakklætið fyrir að fá yfirleitt að komast að er svo mikið. Opnunartímar eru aukaatriði - fólk tekur sér frí svo klukkustundum skiptir til að standa í röð og keyra á milli staða og finnst þetta allt vera skiljanlegt umstang til að útvega einfalda pappíra.
Ég held að ég geti sagt fyrir mitt leyti að þetta aðhaldsleysi þegar kemur að hinu opinbera sé ekki til staðar á hinum Norðurlöndunum. Þar gera menn líka kröfur á hið opinbera - að þjónustan sé skilvirk, að ekki sé innheimt mikið ofan á það sem skatturinn hefur nú þegar hirt og helst að hægt sé að ganga frá öllu í gegnum tölvu á hentugum tíma sólarhrings.
Hið íslenska aðhald mætti virkja víðar og til að gera það dugir ekkert minna en að einkavæða stóra afkima hins opinbera umráðasvæðis og koma í hendur einkaaðila.
![]() |
Pítsustaður rukkaði viðskiptavin um leigu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 21. júlí 2016
Bannað að rífa ónýtan kofa
Víða hafa sveitarfélög komið sér upp hentugu fyrirkomulagi sem snýst um að peningar skattgreiðenda eru bundnir í lóðir á umráðasvæði þeirra og þeir sem vilja byggja þurfa að leigja landið frekar en að geta keypt það.
Sveitarfélögin verða með þessu móti að risastórum leigusölum sem geta skipað leigjendum sínum fyrir nánast eftir geðþótta.
Að auki hafa sveitarfélög einhvers konar torskiljanlegt vald til að ráðskast með eigur sem standa á landi í einkaeigu innan landamæra sveitarfélagsins. Þau geta jafnvel bannað niðurrif ónýtra bygginga á landi í einkaeigu ef þannig liggur á þeim.
Skipulagsvaldið kemur því víða við. Með því segja sveitarfélögin hvers konar rekstur má vera á hverjum stað, hvað hann má hafa opið lengi, hvar má reykja og hvar ekki, hvernig málningin utan hússins eigi að vera á litinn og hvað herbergin eiga að vera mörg innandyra svo dæmi séu tekin.
Þetta er mikið vald og því er hiklaust beitt og jafnvel misbeitt og það virðist ekki vera hægt að gera neitt til að temja það.
Er ekki kominn tími til að endurskoða þetta fyrirkomulag aðeins?
![]() |
Segja byggingu óhentuga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 19. júlí 2016
Neytendastofu má óhætt leggja niður
Ríkisvaldið kemur víða við:
Neytendastofa kannaði ástand verðmerkinga hjá veitingastaðnum Silfur í Hafnarfirði og leiddi skoðunin í ljós að matseðil vantaði við inngöngudyr ...
Hvar var þessi matseðill eiginlega? Ég vona að viðskiptavinir staðarins hafi komist að því einhvern veginn að Big Mac var ekki í boði. Neytendastofa segir kannski frá því hvernig sú uppgötvun fór fram.
![]() |
Veitingastaðurinn Silfur sektaður |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Þriðjudagur, 19. júlí 2016
Litla bókin mín um skilvirkni, ókeypis fram á föstudag
Ég skrifaði á sínum tíma færslu hérna um litla bók sem ég skrifaði um skilvirkni. Bókin hefur fengið miklu betri viðtökur en ég bjóst við í upphafi og fyrir það er ég mjög þakklátur.
Nú langar mig að bjóða hverjum sem vill að sækja ókeypis eintak af bókinni (rafbók) á síðu Amazon. Möguleikinn er til staðar fram á föstudag.
Tengill á síðu bókarinnar á Amazon.
Ég vona að sem flestir stökkvi á þetta tilboð, lesi bókina, fái mikið út úr því og segi svo öllum frá henni!
Njótið vel!
Sunnudagur, 17. júlí 2016
Hver er valdaræninginn?
Tilraun til valdaráns í Tyrklandi var stöðvuð nú um helgina. Margir hafa fallið í átökum. Þúsundir eru komnir á bak við lás og slá og verða sóttir til saka.
Það sækir samt að mér hugsun: Hver er hinn raunverulegi valdaræningi, sá sem vill nýja valdherra eða sá sem þvingar fólk með valdi til að lúta sér?
Í sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna (Declaration of Independence) var á sínum tíma skrifað:
We hold these truths to be self-evident, that all men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty and the pursuit of Happiness.--That to secure these rights, Governments are instituted among Men, deriving their just powers from the consent of the governed, --That whenever any Form of Government becomes destructive of these ends, it is the Right of the People to alter or to abolish it, and to institute new Government ...
Bandaríkjamenn hafa auðvitað fyrir löngu sópað þessari yfirlýsingu undir teppið samanber sú herskáa stefna sem var rekin gegn Suðurríkjunum þegar þau vildu sjálfsstjórn, en eigum við hin ekki að vera aðeins opnari? Íslendingar lýstu yfir sjálfstæði frá Danmörku og eru sennilega flestir á því að það hafi verið heillaskref. Íslendingar (eða íslensk yfirvöld, nánar tiltekið) studdu sjálfstæðishreyfingar Eistrasaltsþjóðanna. Margir hafa samúð með málstað þeirra sem vilja sjálfstæða Tíbet, sjálfstæða Katalóníu og sjálfstætt Grænland. Svona mætti lengi telja.
Greinilegt er að í Tyrklandi búa margir sem vilja önnur yfirvöld en þau sem nú ríkja yfir þeim. Kúrdar eru augljóst dæmi en hið sama virðist gilda um marga Tyrki.
Eigum við á Vesturlöndum ekki að styðja við slíkar sjálfstæðishreyfingar og fordæma yfirvöld sem standa í vegi fyrir þeim? Er tyrkneska ríkið ekki hinn raunverulegi valdaræningi?
![]() |
Ellefu haldið í flugstöð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Föstudagur, 15. júlí 2016
Hægri-vinstriskalinn dugar ágætlega
Þeir sem forðast að "staðsetja sig" á hægri-vinstriskalanum eru yfirleitt vinstrimenn með örlitla samúð fyrir frjálsum markaði. Þeir trúa á sterkt ríkisvald og véfengja ekki rétt þess til að setja reglur um nánast hvað sem er og skattleggja nánast hvað sem er. Yfirleitt eru þeir þó með eitthvað hagsmunamál þar sem þeir telja ekki að ríkisvaldið eigi að skipta sér af. Fyrir Pírötum er það tjáningarfrelsi, svo dæmi sé tekið.
Þar með er ekki sagt að allir sem kalla sig hægrimenn séu markaðsanarkistar (eins og ég). Þeir trúa líka á sterkt ríkisvald en líta á það sem illa nauðsyn - undantekningu frá reglunni ef svo má segja. Þannig vilja margir sem kalla sig hægrimenn að ríkisvaldið fjármagni umsvifamikla menningarstarfsemi og niðurgreiði ákveðnar atvinnugreinar og standi við bakið á ríkiskirkju. Hins vegar eigi ríkið að halda sig fjarri á sem flestum öðrum sviðum.
Hægri-vinstriskalinn er ljómandi nothæfur þótt hann sé einföldun. Sé einhver almennt tortrygginn á frjálsan markað og frjálst val einstaklinga er hann vinstrimaður. Sé einhver almennt tortrygginn á ríkisvaldið (þótt hann umberi það á ákveðnum sviðum) er hann hægrimaður.
Ég er hægrimaður því ég lít á ríkisvaldið sem skipulagða glæpastarfsemi sem á ekki rétt á sér. Til nánari aðgreiningar frá öðrum hægrimönnum (t.d. Davíð Oddssyni og Bjarna Benedikssyni) kalla ég mig svo yfirleitt frjálshyggjumann. Til aðgreiningar frá frjálshyggjumönnum sem vilja þó að ríkisvald sé til staðar og starfræki dómstóla og lögreglu (eins og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni) kalla ég mig ýmist anarkista eða anarkó-kapítalista eða jafnvel markaðsanarkista.
En hvað með menn eins og Donald Trump og Barack Obama? Er þeir hægri- eða vinstrimenn? Það fer eftir því hvar almenn sannfæring þeirra liggur. Er hún hjá ríkinu eða markaðinum? Fái ég svar við því verður auðvelt að úrskurða.
Páll Magnússon er hugsanlega hægrimaður en með taugar til ríkisrekinnar afþreyingar. Það er minn úrskurður, í bili.
![]() |
Páll Magnússon íhugar framboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Fimmtudagur, 14. júlí 2016
Fánar geta bæði sameinað og sundrað
Í frétt segir svo frá:
Rússneski langstökkvarinn Darya Klishina hefur verið harðlega gagnrýnd í heimalandinu eftir að hún sótti um að fá að keppa á Ólympíuleikunum í Ríó undir hlutlausum fána.
Þetta hefur varla verið léttvæg ákvörðun fyrir neinn og hvað þá stúlkuna sem á hér í hlut. Hennar valkostir eru að sitja heima eða keppa undir hlutlausum fána. Ástæðan er að sögn lyfjamisnotkun annarra samlanda hennar en kannski býr meira að baki.
Íþróttamenn eru gjarnan álitnir vera eins konar sameiningartákn þjóðar. Íslendingar þekkja þetta vel eftir gott gengi á Evrópumótinu í knattspyrnu. Fánar geta samt sundrað líka. Yfirvöld eiga ekki að geta þvingað íþróttamenn til að koma fram fyrir hönd ríkisins. Íþróttamenn eiga hiklaust að fá að keppa á eigin forsendum undir hlutlausum fána ef þannig liggur á þeim. Fánar eru oftar en ekki bara táknmynd handahófskenndra lína á landakorti sem halda sumum inni en gjarnan öðrum úti.
Vonandi gengur henni sem best - á eigin forsendum!
![]() |
Rússar reiðir hugsanlegum ólympíufara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |