Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

Af hverju ekki 20.000 kjarasamningar?

Mörgum hefur verið talið í trú um að þeim sé betur borgið með því að fá laun samkvæmt kjarasamningum en að semja sjálfir við atvinnuveitanda sinn.

Ég sé einfaldlega ekki hvernig það getur verið rétt.

Kjarasamningar eru í umsjón stéttarfélaga. Rekstur þeirra kostar sitt. Stundum kostar hann svo mikið að stéttarfélögin byrja að byggja sumarbústaði og kaupa rándýrar íbúðir í erlendum stórborgum til að koma peningunum út. Þetta borga meðlimir félaganna fyrir, hvort sem þeir "nýta" sér gæðin eða ekki.

Kjarasamningar sópa mörgum mismunandi einstaklingum undir sama hatt og flokka með einföldum hætti, t.d. eftir menntun, starfsaldri og ábyrgð. Ekki er hægt að meta getu starfsmanna á blaði. Slíkt verður alltaf huglægt mat yfirmanna. Ekki er hægt að verðlauna afburðarstarfsmanninn sérstaklega. Ekki er hægt að draga úr kostnaði vegna lélegra starfsmanna. Þeir lélegu eru því niðurgreiddir á kostnað þeirra bestu. Slíkt er letjandi fyrir báða hópa. 

Kjarasamningar eru stórir samningar sem fela í sér stórar fjárhæðir. Að það takist að semja um 1% launahækkun eða 2% getur skipt miklu máli fyrir stóran hóp fyrirtækja. Hagsmunasamtök þeirra berjast því fyrir sem minnstum launahækkunum, því ef allt þarf að ganga yfir alla línuna er hætt við að rekstrargrundvellinum sé hreinlega kippt undan mörgum fyrirtækjum. Ef fyrirtæki gætu sjálf í auknum mæli samið við hvern og einn starfsmann sinn væri hægt að gera hlutina betur og snjallar: Verðlauna þá bestu með hærri hækkunum á meðan aðrir standa í stað - nema þeir bæti sig auðvitað.

Ríkisvaldið er samt útsjónarsamt. Það semur við stóra hópa í einu. Það hefur marga fyrirvara á. Ríkissjóður er tómur og skuldsettur á bólakaf. Margir hafa engan annan atvinnuveitanda til að leita til og eru því fastir í neti hins opinbera. Hjúkrunarfræðingar, svo dæmi sé tekið, þurfa að kyngja því sem þeim er skammtað, flytja úr landi eða skipta um starfsvettvang.

Þetta er hálfgert Stokkhólms-einkenni þar sem gíslar hins opinbera vilja hvergi annars staðar vera - en í gíslingu!

Dettur engum í hug að hugleiða annað fyrirkomulag?


mbl.is Hátt í 200 samningar lausir í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumt er afstætt

Hvað ætli yrði um norsk ungmenni ef þau yrðu sent 60 ár aftur í tímann til íslensks sjávarþorps? Þar sæju þau unga krakka vinna 10 klukkutíma á dag við að salta síld og sópa gólf, jafnvel án hlífðarhanska, í kulda og vosbúð og fyrir lítil laun.

Hvað ætli yrðu um norsk ungmenni ef þau sæju allar hinar meintu þrælabúðir verða gjaldþrota og öll ungmennin sem þar vinna vera send aftur út í sveit til að vinna þar enn lengri vinnudaga við frumstæðan landbúnað og fyrir brotabrot af núverandi launum þeirra?

Hvað ætli yrði um norsk ungmenni ef þau sæju afleiðingar þess að kaupa EKKI tískufatnaðinn sem knýr áfram þróun stórra, fátækra svæða í heiminum í dag?

Halda norsku ungmennin kannski að það sé tilviljun að fataframleiðsla sé stunduð víða á hinum fátækari svæðum heimsins í dag? Svo er ekki. Fataframleiðsla krefst mikils mannafla og hlutfallslega lítilli fjárfestinga í dýrum tækjum og tólum sem krefjast mikillar þekkingar og menntunar. Fataframleiðsla hefur hentað mörgum fátækum svæðum til að stökkva upp á næsta stig lífskjara. 

Ef kostnaðurinn við þess konar framleiðslu er hækkaður upp úr öllu valdi (t.d. með hærri launum, meiri kröfum og þess háttar) er hætt við að hún leggist af. Hvað tekur þá við? Þá eru börnin aftur send út á ruslahauga til að grafa þar eftir einhverju til að selja, eða betla, eða strita á ökrum frá morgni til kvölds.

Ég vil auðvitað ekki mæla neinu þrælahaldi bót, og finnst sorglegt að vita til þess að víða um heim þurfi börn að byrja vinna frá unga aldri (eins og afar okkar og ömmur á sínum tíma), og víða heimilar hið opinbera að verksmiðjur spilli landi og grunnvatni bænda og landeigenda í nafni iðnvæðingar og það blástimpla ég ekki. En að loka búllunni og senda börnin í enn verri aðstæður - það vil ég ekki. 


mbl.is Norskir tískubloggarar sendir í þrælabúðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð byrjun, eða upphaf og endir?

Bandaríski smásölurisinn Costco hefur tekið ákvörðun um að opna verslun hér á landi.

Mjög gott. Ef marka má fréttir þá var þetta ekki létt ákvörðun og þurfti jafnvel að hagræða einhverju í íslenskri löggjöf og skattaumhverfi til að hún yrði tekin.

Á íslenskan smásölumarkað er þá kominn enn einn risinn (aðrir eru t.d. Bauhaus og IKEA). Vonandi skilar það sér í aukinni samkeppni og lægra verði og/eða betri þjónustu við neytendur.

Á Íslandi eru einnig starfsstöðvar alþjóðlegra flugfélaga og álframleiðenda. Meira dettur mér samt ekki í hug. 

Hvar eru alþjóðlegu bankarnir, olíufélögin, landbúnaðarframleiðendurnir, skipafélögin og áfengisframleiðendurnir og útgerðirnar svo fátt eitt sé nefnt?

Ef Bauhaus og Costco sjá markað á Íslandi þá hlýtur nú að vera eftir einhverju að slægjast, og ekki hægt að tala um "of lítinn" markað fyrir alþjóðlega risa. 

Ég er með kenningu: Fyrirtæki í allskonar konar rekstri komast ekki inn á hinn íslenska markað því hann er of dýr, of flókinn, of hátt skattlagður eða of fjandsamlegur fyrir útlendinga. Auðvitað eru ákveðnir hlutir sem Íslendingar eru að jafnaði góðir í á alþjóðamælikvarða, t.d. í að reka útgerð, en margt má örugglega skrifa á kerfi sem umbunar óhagkvæmni, t.d. af því eitthvað þarf að vera alveg rosalega íslenskt, og þar með dýrt, eða rosalega skattlagt, og þar með dýrt, eða rosalega regluvætt, og þar með dýrt. 

Íslenskir neytendur, sem að jafnaði eru íslenskir skattgreiðendur, mættu hugleiða þetta. 


mbl.is Costco opnar á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins! Heiðarlegur stjórnmálamaður!

Ef rétt er að Björgvin G. Sigurðsson hafi notað peninga útsvarsgreiðenda í Ásahreppi til að borga beint og milliliðalaust undir eigin neyslu þá held ég að ég leyfi mér að kalla hann heiðarlegan stjórnmálamann (og fer þar með í sama flokk og Árni Johnsen).

Heiðarlegur, af því að orð og aðgerðir fara saman: Stjórnmálamenn lofa meira og minna allir að hafa fé af skattgreiðendum og eyða í það sem þeir, sem stjórnmálamenn, vilja eyða í.

Flestir stjórnmálamenn eru ekki nægilega heiðarlegir því þeir gera eitthvað annað en þeir segja. Þeir segjast vera eyða fé í "almannaþágu" og þess háttar, en þeir eru í raun að eyða til að borga eigin frama upp metorðastiga hins opinbera.

Ég ætla að klappa fyrir BGS ef á hann sannast bein og milliliðalaus eyðsla hans á fé skattgreiðenda til beinna persónulegra nota. Menn eins og hann eru sjaldgæf eintök stjórnmálamanna - þeirra sem reyna ekki að fela þann ásetning sinn að vilja þrífast og dafna á fé annarra.

(Aukalegur ávinningur fyrir frjálshyggjumenn er svo að hérna afhjúpast stjórnmálamaðurinn fyrir almenningi réttilega sem afæta og eiginhagsmunaseggur, og það verður kannski til þess að almenningur fer að sýna vott af andspyrnu gegn yfirgangi hins opinbera.)

Húrra, BGS! Þú hefur gert meira gagn fyrir pólitíska hugsjón mína en 100 blaðagreinar!


mbl.is Matarinnkaup og út að borða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útkall vegna kannabislyktar?

Tíma lögreglunnar má sóa á óteljandi vegu og það má gera innan ramma laganna. Lögreglunni mætti raunar halda upptekinni við eitthvað allan sólarhringinn án þess að hún stöðvi einn einasta ofbeldisglæp eða komi í veg fyrir einn einasta þjófnað.

Lögin banna nefnilega svo mikið að það er engin leið að koma í veg fyrir öll lögbrot sama hvað lögreglan hefur marga lögregluþjóna á vakt.

Lögreglan gæti auðvitað reynt að stilla sig af og láta t.d. símhringingar vegna lyktar af ýmsu tagi eiga sig. Hún gæti líka ákveðið að líta framhjá sumu sem samkvæmt bókstafi laganna er lögbrot en skaðar í raun engan nema e.t.v. andlega heilsu siðapostulanna. Hérna er ljómandi innblástur í því samhengi.

Nú ætla ég auðvitað ekki að fara hvetja neinn til borgaralegrar óhlýðni, enda væri það sennilega lögbrot og ég ætti yfir höfði mér heimsókn frá lögreglu og handtöku. Ég vil hins vegar biðla til lögreglunnar um að reyna einbeita sér að því sem máli skiptir, og helst engu öðru. 


mbl.is Kannabislykt og drykkjulæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sekur uns sakleysi er sannað; Íslendingum er drullusama um málfrelsið

Eftir árásirnar og morðin í París á blaðamönnum sem hafa þorað að tjá sig á skoplegan hátt um íslam og múslíma hefur mikil móðursýki gripið allskonar fólk af allskonar ástæðum.

Það er nú eins og það er. Sumir vilja beina aukinni athygli að múslímum, en aðrir að vopnaeigendum og enn aðrir að þeim sem leyfa sér tjá sig óvarlega.

Íslendingar hafa ekki haft áhuga á mál- og tjáningarfrelsi í langan tíma. Fyrirtæki mega varla nota lýsingarorð í efstastigi, þeir sem selja tóbak mega ekki segja frá því, lyf má ekki auglýsa, tannlæknar mega ekki auglýsa verðskrár sínar, ekki má tjá sig of óvarlega um trúarbrögð, og blaðamenn eru oft dregnir fyrir dómstóla fyrir skrif sín. Málfrelsi á Íslandi er í raun takmarkað við það sem er talið til réttra, viðtekinna skoðana. 

Miðað við t.d. Danmörku mætti e.t.v. segja að málfrelsi á Íslandi sé mjög takmarkað. Í Danmörku má auglýsa lyf (a.m.k. margar tegundir þeirra) og áfengi (nánast hvar og hvenær sem er), segja frá sér og fyrirtæki sínu í efstastigi og skrifa stórum stöfum á skilti að tóbak sé til sölu innandyra. Og fáir Danir setja út á myndir Jótlandspóstsins. Þær voru bara spaug, og spaug um hvað sem er er í góðu lagi. 

Nú er mér í sjálfu sér alveg sama að hverjum hver vill beina kastljósinu í kjölfar atburðanna í París. Sumir stjórnmálamenn munu reyna veiða atkvæði út á móðursýki, og aðrir út á þá sem reyna að veiða atkvæði út á móðursýkina.

Það sem ég vil hins vegar benda á að allt tal á Íslandi um mikilvægi mál- og tjáningarfrelsisins er hræsni á mjög háu stigi. Íslendingar kæra sig voðalega lítið um mál- og tjáningarfrelsið. 

Og hitt, að það að álíta fólk sekt uns sakleysi er sannað er mjög dæmigert viðhorf á Íslandi. Eða eru bankamenn hrunsins ekki enn að kljást við innistæðulausar ákærur? Eru menn sem eiga fé á Íslandi ekki allir með eitthvað misjafnt í pokahorninu? Eru stjórnmálamenn ekki spilltir uns sekt er afsönnuð? Eru allir sem skara framúr ekki á sterum eða hljóta sérmeðferð? Íslendingar hafa það sem dæmigert viðhorf að dæma allt og alla í kringum sig sekt um eitthvað. Að það sé núna tilfellið um múslíma er hluti af reglunni, en ekki undantekning frá einni slíkri. 


mbl.is Spyr um rannsóknir á múslímum á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðnýtum gleraugnaverslanir!

Ég er með heilsukvilla sem óleiðréttur gerir mig nánast óstarfhæfan. Ég er nærsýnn. Mjög nærsýnn. Ekki er nóg með það heldur er ég líka með sjónskekkju. Án gleraugna eða augnlinsa kæmist ég ekki mikið lengra á daginn en úr rúminu og á klósettið og e.t.v. í ísskápinn þar sem ég gæti þreifað mig áfram eftir einhverju ætilegu. Óleiðréttur er heilsukvilli minn því nánast lamandi fyrir líf mitt.


Við mér blasir samt vandi. Ég get ekki notið heilbrigðiskerfis hins opinbera til að aðstoða mig við heilsukvilla minn. Skattpeningur minn fer ekki í lækningu eða meðhöndlun á þessum heilsukvilla mínum eða þróun á bættri eða ódýrari tækni til að eiga við hann. Ég þarf að leita til hinna svokölluðu einkaaðila! Þeir bíða í röðum eftir að taka við peningunum mínum og selja mér úrræði sem í ofanálagt eru skattlögð í himinhæðir af hinu opinbera. Það er því ekki nóg með að heilbrigðiskerfi hins opinbera geti ekki boðið mér neitt heldur þarf ég að borga skatt af þeim úrræðum sem mér þó standa til boða!


Þetta er auðvitað hneyksli og verður ekki leiðrétt nema með einni aðgerð: Þjóðnýtingu gleraugnaverslana! Í leiðinni mætti þjóðnýta alla aðstöðu til svokallaðra leiseraðgerða á augum sem geta læknað marga sjóndapra með allt að því varanlegum hætti. Skatta þyrfti auðvitað hækka til að geta útvíkkað hið opinbera heilbrigðiskerfi með úrræðum fyrir sjóndapra. Lýkur þar með öllum vandræðum þessa stóra hóps í samfélaginu. Rándýr tískugleraugu með glampafríu yfirborði og rispuvörn víkja fyrir hagnýtum lausnum, flöskubotnagleraugum sem rispast og stöðluðu úrvali af annars konar varningi. Hver veit, kannski tekst jafnvel að knýja augnlækna og sjóntækjafræðinga í stöku verkfall vegna óánægju með kjör!


En annar kostur er líka í stöðunni. Hann er að fleiri og fleiri með heilsukvilla fái notið þeirrar frábæru þjónustu, úrvals og samkeppni sem sjóndaprir njóta. Hann er sá að einkavæða heilbrigðiskerfi hins opinbera og um leið fækka rækilega í laga- og reglugerðarfrumskóginum í kringum heilbrigðisþjónustu af öllu tagi, auk þess að lækka skatta sem nemur rúmlega kostnaðinum við hið opinbera kerfi í dag.


Þá gæti einhverjum dottið í hug að spyrja: Hvað gerist ef ríkisvaldið dregur sig úr fjármögnun og veitingu heilbrigðisþjónustu? Um það er erfitt að spá. Eitt er víst: Ef þú fjarlægir kyrkjandi tak af dýri og hreinlega sleppir því lausu er ekki víst að það hlaupi í nákvæmlega þá átt sem þú sást fyrir, en engu að síður má fullyrða að dýrið muni nú vaxa og dafna og þrífast mun betur en áður.


Sjóndaprir geta keypt sér háþróaða tækni á blússandi samkeppnismarkaði framleiðenda, seljenda og sérfræðinga til að vinna á heilsukvilla sínum. Ég óska þess að þeir með annars konar heilsukvilla geti búið við sama ástand.

Geir Ágústsson

Grein birt í Morgunblaðinu 9. janúar 2014, aðgengileg áskrifendum hér.


Úr Kóraninum

Að gefnu tilefni langar mig að benda á eftirfarandi orð úr Kóraninum:

So when the sacred months have passed away, then slay the idolaters wherever you find them, and take them captives and besiege them and lie in wait for them in every ambush, then if they repent and keep up prayer and pay the poor-rate, leave their way free to them; surely Allah is Forgiving, Merciful. (9:5)

Fight those who do not believe in Allah, nor in the latter day, nor do they prohibit what Allah and His Apostle have prohibited, nor follow the religion of truth, out of those who have been given the Book, until they pay the tax in acknowledgment of superiority and they are in a state of subjection. (9:29)

O Prophet! strive hard against the unbelievers and the hypocrites and be unyielding to them; and their abode is hell, and evil is the destination. (9:73)

O you who believe! do not take the Jews and the Christians for friends; they are friends of each other; and whoever amongst you takes them for a friend, then surely he is one of them; surely Allah does not guide the unjust people. (5:51)

The punishment of those who wage war against Allah and His apostle and strive to make mischief in the land is only this, that they should be murdered or crucified or their hands and their feet should be cut off on opposite sides or they should be imprisoned; this shall be as a disgrace for them in this world, and in the hereafter they shall have a grievous chastisement, (5:33)

Nokkrir fyrirvarar eru hér við hæfi:

  • Ég veit alveg að Biblían segir líka ýmislegt sem virkar harðneskjulegt í dag. Ég les gjarnan yfirlit yfir slíkar tilvitnanir ef einhver nennir að setja slíkt saman.
  • Ég er hvorki múslími né kristinn. Ég er hreinlega afstöðulaus gagnvart tilvist æðri máttarvalda. Kannski eru þau til, kannski ekki. 
  • Ég geri mér alveg grein fyrir að ekki allir sem fylgja einhverju trúarriti fylgi hverjum einasta bókstaf, heldur er oft um valferli að ræða þar sem sumt er túlkað strangt og annað ekki. Hugsanlega er einhver grundvallarmunur hér á afstöðu kristinna og múslíma til þeirra trúarrita. 

mbl.is „Ofbeldi er aldrei svar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðhjöðnun er góð

Í þessari grein á Visir.is má finna samantekt af flestum vitleysunum sem viðgangast í allri umræðu um hagfræði í dag.

Þar segir til dæmis:

Eitt helsta stýritæki seðlabanka, vextir, verður óvirkt í verðhjöðnun því vextir geta ekki farið undir 0 prósent. Verðhjöðnun fylgir yfirleitt samdráttur og langvinn verðhjöðnun getur haft mjög skaðlegar afleiðingar fyrir efnahag ríkja.

Þetta er einfaldlega ekki rétt nema að því leyti jú að Seðlabanki Íslands verður óþarfur og má því leggja niður, um leið og peningaútgáfa er gefin frjáls og ríkisvaldið getur einbeitt sér að einhverju öðru en að féfletta sparifjáreigendur og framleiða misvísandi tölfræði

Látum ekki hræða okkur með bulli um að kaupmáttur íslensku krónunnar þurfi sífellt að vera rýrna um nálægt því 2,5% á ári (þ.e. helmingast á um 30 ára fresti). Það er einfaldlega ekki rétt og það ætti okkar eigin tilfinning líka að segja okkur.

Eða eins og segir á einum stað:

There is absolutely no reason to be concerned about the economic effects of deflation—unless one equates the welfare of the nation with the welfare of its false elites.

Og hananú!


Hin íslenska örorkustétt

Hlut­fall fólks á Íslandi sem horfið hef­ur af vinnu­markaði vegna þess að það er metið sem ör­yrkj­ar er á meðal þess hæsta sem þekk­ist en níu pró­sent þjóðar­inn­ar eru í dag ör­orkuþegar. Hlut­fallið hef­ur farið hratt vax­andi á liðnum árum en á ár­inu 1986 voru um 3,5 pró­sent þjóðar­inn­ar ör­orkuþegar.

Jahá!

Ætli þetta hafi haft einhver áhrif á vægi atkvæða milli hinna ýmsu stjórnmálaflokka? Nú eða stefnu atkvæðaleitandi stjórnmálaflokka? 

Mér finnst þetta vera sláandi tölur.

Og það sem verra er: Þessi þróun er enn á blússandi siglingu. Nú á til dæmis að skera niður eitthvað hámarkstímabil á atvinnuleysisbótum. Mun það leiða til fjölgunar öryrkja? Það kemur í ljós. 

Þetta hlýtur að bitna mest á þeim sem í raun og veru eru öryrkjar eða óvinnufærir. Ekki er hægt að fjármagna endalausa fjölgun öryrkja og þá þarf að skera niður upphæðina til hvers og eins þeirra. 

Sá sem hélt því fyrstur fram að ríkisrekið velferðarkerfi væri góð hugmynd var örugglega bara að segja eitthvað til að réttlæta stækkandi ríkisvald. 


mbl.is Vinnumarkaðurinn skreppur saman
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband