Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013
Föstudagur, 11. janúar 2013
Höfuðlausar hænur
Stjórnmálamenn haga sér oft og iðulega eins og höfuðlausar hænur, en þessi hegðunarárátta versnar yfirleitt eftir því sem stjórnmálamennirnir eru vinstrisinnaðri.
VG er auðvitað ágætt dæmi um þetta. Þar á bæ eru menn á móti aðild Íslands að ESB, en fylkja sér engu að síður að baki umsókn um aðild. Þar á bæ eru menn á móti olíu- og gasvinnslu, en hafa samt ekkert á móti því að veita leyfi og keyra bíla. Kannski eru þeir bara á móti því að fleiri íbúar Jarðar geti auðgast nóg til að hafa efni á bílum?
Vinstrimenn tala um gegnsæi og fagleg vinnubrögð en dæmin um þveröfuga framkvæmd eru fleiri en ég kann að nefna.
Vinstrimenn segja á ári 1 að landið sé byrjað að rísa, á ári 2 að landið sé komið í var, og á ári 3 að nú "hilli undir sjálfbæran ríkisrekstur". Þetta er auðvitað af því að tal stjórnmálamannsins og veruleikinn stangast á, og því þarf að umorða hina pólitísku og "hvítu" lygi frá ári til árs.
Samfylkingin er búin að fá systurflokk, hin ósýnilega Bjarta framtíð, til að sjúga til sín óánægjufylgið sitt en um leið styðja við sömu stefnu. Kannski ætla Vinstri-grænir að gera eitthvað svipað?
Olíuleit gegn stefnu VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 6. janúar 2013
Áramótaspá fyrir árið 2013
Nú þegar einu versta ári í íslenskri hagsögu er lokið er ekki úr vegi að líta fram á veginn og reyna að spá í það sem koma skal.
Heilsa hagkerfisins mun halda áfram að versna. Skuldsett neysla eykst. Lántökur fara vaxandi. Fjárfesting verður áfram við frostmark. Fólk flyst áfram frá landinu. Fyrirtæki ganga á eignir sínar og sjóði. Mörg fara á hausinn eða loka einfaldlega dyrum sínum. Sjávarútvegurinn heldur að sér höndum til að ráða við aukna skattheimtu. Ríkisvaldið heldur áfram að moka fé í taprekstur og fjárfestingu sem skilar engu, ekki einu sinni atkvæðum til ríkisstjórnarflokkanna. Skattar hækka og sumir mjög mikið.
Svona verður þetta líka fram yfir kosningar. Það gæti tekist fyrir Samfylkinguna og einhvern klónaflokk hennar (Björg framtíð eða Dögun) að krækja í nógu mörg atkvæði til að geta myndað ríkisstjórn með Framsóknarflokknum og kannski frá Vinstri-grænir að vera með. Sjálfstæðisflokkurinn virðist ekki ætla að skerpa línurnar og verða að raunverulegum valkosti fyrir þá sem flokka sig til hægri. Hann er ennþá of langt til vinstri - vill ennþá að ríkið reki seðlabanka, skattleggi suma meira en aðra og að ríkisvaldið sé með puttana í allskyns rekstri sem í eðli sínu er ekkert frábrugðinn pylsusölu eða bílaverkstæði, t.d. skóla og heilbrigðisstofnana.
Niðurstöður kosninganna verða því ekki afgerandi á neinn hátt. Þær munu leiða til flókinna stjórnarmyndunarviðræðna þar sem málamiðlanir verða allsráðandi. Niðurstaðan verður loðið plagg sem lofar í raun engu nema nýjum umbúðum á gamalt innihald. Hallarekstur verður áfram boðaður í fjárlagafrumvarpinu í lok ársins. Enginn raunverulegur niðurskurður á ríkisrekstrinum mun eiga sér stað. "Loforð" um að eyða verður að virða, en "loforð" um að skera niður verður að geyma til seinni tíma. Rétt eins og ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995 mistókst að útrýma hallarekstri fráfarandi vinstristjórnar mun næstu ríkisstjórn ekki takast að eyða hallarekstri núverandi ríkisstjórnar, sama hvernig hún verður samsett, en alveg sérstaklega ekki ef vinstriflokkarnir fá áfram að koma að ríkisstjórn.
Hagkerfið, í stuttu máli, mun því halda áfram að missa heilsuna.
Eitthvað jákvætt kemur kannski út úr þessari áframhaldandi kreppu. Kannski fá fleiri áhuga á því að skilja hvers vegna ráðherrar geta talað um "bata", "rísandi land", "hagkerfi í vari" og að eftir þrjú ár af vinstristjórn "hillir undir sjálfbæran ríkisrekstur" (að sögn forsætisráðherra).
Kannski eykst áhuginn á því að skilja hvað á sér stað í hagkerfi sem safnar skuldum og brennir sparnaði sínum til að fjármagna neyslu en treystir sér ekki í fjárfestingar.
Kannski, í lok ársins, þegar gjaldþrotahrina fjölmargra Evrópuríkja blasir við, fara fleiri að hlusta á þá sem hafa lengi varað við en litla áheyrn fengið.
Árið 2013 verður seinasta árið sem almenningur lét bjóða sér upp á kjaftæði. Þetta er spá vafin inn í von.