Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Lærdómur af hruninu: Enginn?

Svo virðist sem fáir hafi lært nokkurn skapaðan hlut af hruni ríkisábyrgða á fjárfestingum einkaaðila. Í flestum löndum kom í ljós að "tryggingar" á innistæðum voru innantóm loforð um ríkisútgjöld á glannaskap með ríkisábyrgð. Til að bjarga mannorði sínu ákváðu stjórnvöld víðast hvar að sópa skattgreiðendum undir hrunið.

Finnar ætla að gera gott betur og sópa sínum skattgreiðendum undir hrunið grískt hagkerfið. 

Hvers vegna?

Fyrir því eru pólitískar ástæður. Stjórnvöld vilja ekki viðurkenna að með kverkataki ríkisins á fjármálakerfinu, og ríkisábyrgðum til að styðja við það, fylgir óhjákvæmlega að kerfið hrynur. Hvort sem það er fyrr eða síðar er aukaatriði. 

Því lengur við stjórnvöld draga það að afnema ríkisábyrgðir og regluverk af fjármálakerfinu, þeim mun verri og dýpri verða niðursveiflurnar sem hrun fjármálakerfisins hafa í för með sér.


mbl.is Finnar til í að aðstoða Grikki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Harpan gerði illt verra

Atvinnuástand iðnaðarmanna er slæmt eftir að peningasvartholið við Reykjavíkurhöfn var reist. Það má jafnvel færa fyrir því rök að atvinnuástand iðnaðarmanna sé verra vegna Hörpu en án hennar.

Til að fjármagna Hörpu (bæði byggingu hússins og rekstur) þarf að taka fé út úr hinum verðmætaskapandi einkageira (annaðhvort strax með skattheimtu eða yfir lengri tíma með lántökum). Einkageirinn hefur því minna fé á milli handanna til að greiða niður skuldir, ráða starfsfólk, útvíkka starfsemi sína, og svo framvegis.

Harpa er afþreyingarstöð, áhugamál fyrir nokkra á kostnað annarra. Hún skapar engin verðmæti. Hún flytur verðmæti frá skattgreiðendum og til nokkurra útvalda. Bygging hennar eykur ekki verðmætasköpun, heldur drepur hana niður.

Ef menn hefðu stöðvað byggingu Hörpu á sínum tíma hefði mátt bjarga miklum verðmætum. Einkageirinn hefði fengið að halda í aðeins meira af sjálfsaflafé sínu. Hann hefði geta tekið við sé á ný. En í stað þess erum við með deyjandi einkageira og stórt skrauthýsi við Reykjavíkurhöfn.

Iðnaðarmenn þurfa ekki að undrast alltof mikið á atvinnuástandi sínu. Það er að hluta til verra en það hefði geta verið, einmitt vegna Hörpu, en ekki af því bygging hennar skildi eftir tómarúm á vinnumarkaðinum.


mbl.is Það er mjög dauft yfir öllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

'Hrófla við' er rétt lýsing

Morgunblaðið er duglegt við að endurbirta bloggskrif vinstrimanna. Hvers vegna það?

Hvað um það. Ólína Þorvarðardóttir virðist ekki sjá neina ókosti við að hrófla við kvótakerfinu. Hin stórkostlega tilfærsla á áður-framseljanlegum atvinnutækjum útgerðarinnar (veiðiheimildum) hefur víst eintóma kosti í för með sér (aðra en þá hagfræðilegu, að vísu). Eða svo er sagt.

Það er talað um "réttlætismál" að flytja veiðiheimildir frá þeim sem hafa þær í dag og til einhverra annarra sem hafa þær ekki, og til einhverra sem búa annars staðar en þeir sem ráða yfir þessum veiðiheimildum í dag. Þetta er auðvitað hálfgerð sturlun. Menn sem boða slíka þvingaða tilfærslu ríkisins á atvinnutækjum hafa eitthvað allt annað í huga en skynsama og arðbæra nýtingu á fisknum í sjónum í kringum Ísland. Það er ekki hægt stilla saman stórkostlega tilfærslu ríkisins á veiðiheimildum, og skynsamlega og arðbæra notkun veiðiheimildanna. 

Menn sem vilja hrófla við núverandi kerfi í átt frá eignarétti og framseljanleika eru að biðja um óhagkvæma útgerð á Íslandi í nafni einhverrar réttlætishugsjónar sem verður ekki rökstudd með tilvísun í annað en ...Kommúnistaávarpið!


mbl.is Hverjir eru heimildarmenn OECD?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn pappír engu betri en annar

OECD mælir með því að Ísland hætti að gefa út sinn eigin pappírsgjaldmiðil og hefji upptöku á öðrum pappírsgjaldmiðli - gjaldmiðli sem á vel á minnst mjög vafasama framtíð í höndum.

Það má vel vera að það sé skárra að hafa gjaldmiðil sem Þjóðverjar prenta en gjaldmiðil sem Íslendingar prenta sjálfir. En á íslensku krónunni og evrunni er ekki eðlismunur heldur stigsmunur. Báðir gjaldmiðlar eru háðir sömu lögmálum um framboð og eftirspurn, og hvort tveggja er mikið til háð því hversu miklar breytingar á eftirspurninni eru gerðar. Gjaldmiðill sem er prentaður í stóru upplagi og statt og stöðugt er dæmdur til að verða verðlaus. Gjaldmiðill sem í stöðugu upplagi og þannig með stöðugan kaupmátt heldur vinsældum sínum.

Vandamálið við krónuna er ekki smæð hennar, heldur eilíft fikt við hana.

Annars skil ég ekki áhuga íslenskra stjórnvalda á því að gefa út gjaldmiðil yfirleitt. Hvað er unnið með því? Jú, reglulega má rýra lífskjör almennings með gengisfalli og peningaprentun, en er það kostur? 

Íslendingar gætu haldið úti stöðugasta gjaldmiðli í heimi með því að setja íslensku krónuna á gullfót og sleppa henni svo lausri og frjálsri með því að leggja niður Seðlabanka Íslands. Væri það ekki ráð í tíma tekið? Heimurinn fer jú aftur á gullfótinn í einhverri mynd innan fárra ára, eða svo segir mér hugur. 


mbl.is OECD mælir með upptöku evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Olían upp eða réttara sagt: Dollarinn niður

Olíuverð er á uppleið, þ.e. olía verðlögð í dollurum. Eða, í stuttu máli með orðum Peter Schiff:

The supply of money is growing much faster than the supply of oil, so therefore the price of oil has to rise.

Einnig:

If you want to measure prices in gold, then you can see that the price of everything is falling. But in terms of paper, that’s not the case because paper is being printed. And so, prices are rising.

En hvað er svona merkilegt við gull? Ekkert, nema það að gull er ekki hægt að fjöldaframleiða, er erfitt að grafa upp og auka framboð á, er auðþekkjanlegt og meðfærilegt, og þess vegna miklu traustari tegund milliliðs í viðskiptum (peningar) en pappírinn sem við erum neydd með lögum til að kalla peninga. Silfur hefur svipaða eiginleika og gull. Silfur er því líka góður milliliður í viðskiptum.

Á öðrum stað segir:

It turns out that if we price gasoline in ounces of silver, we discover that it has been falling in value. That is, a gallon of gasoline on the day President Obama was sworn in was worth about a sixth of an ounce of silver. Today, the value of the same gallon of gasoline has fallen to less than a 10th of an ounce of silver.

Niðurstaðan er þessi: Með minnkandi kaupmætti almenninga er verð á öllu að falla. Hins vegar er peningaprentun flestra seðlabanka heims svo ör að verðlag í pappírspeningum er á uppleið. Þetta misræmi er stórkostlega eyðileggjandi fyrir öll viðskipti og alla verðmætasköpun. Þeir hagfræðingar sem boða peningaprentun sem lækningu við vandamálum fyrri peningaprentunar verða, í sögubókunum, dæmdir í sama flokk og "snake oil" sölumenn, sem selja kryddaðar vatnsblöndur og kalla meðal við öllu. 


mbl.is Olían mjakast upp á við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

KK-hagfræðin ennþá tekin alvarlega

Keynes-Krugman kreppu-hagfræðin virðist ennþá vera iðkuð af hinum háu herrum í Evrópu, rétt eins og í Bandaríkjunum og víðar. Hinn almenni Þjóðverji er fyrir löngu orðinn þreyttur á að þurfa bera hallarekstur og óráðsíu Suður-Evrópubúa á herðum sínum. Hinn almenni stjórnmálamaður í Þýskalandi virðist lifa í öðrum veruleika.

Einn helsti spámaður Keynes-hagfræðinnar í dag, Paul Krugman, fær ennþá að skrifa pistla sem einhverjir lesa ennþá. Það er sennilega helsti styrkleikur hans - að skrifa svo mikið að það gleymist hvað hann skrifaði áður.

Þessi maður, sem einlæglega trúir því að peningaprentun sé lækning á vandamálum sem skapast vegna peningaprentunar, biðlaði til dæmis til yfirvalda í Bandaríkjunum um að koma landinu út úr fjármálakreppunni með því að... prenta peninga! Seðlabanki Bandaríkjanna prentaði meiri peninga á nokkrum mánuðum en samanlagt áður í 100 ára sögu hans. Bandaríkin eru á leið í ennþá verri kreppu.

Það á ekki að bjarga Grikklandi, Portúgal, Spáni, frekar en Íslandi þegar Steingrímur J. er endanlega búinn að rústa hagkerfi Íslands. Öllum þessum löndum vantar bara tvennt til að komast á beinu brautina: Aðskilnað ríkis og fjármálastarfsemi (með því að afnema ríkiseinokun á peningaútgáfu og slíta á alla ríkisábyrgðir í fjármálakerfinu) og ríkisrekstur sem kostar minna en sem nemur skatttekjunum. 

Voila!

 


mbl.is Hvetur banka til að styðja Grikki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju að fjárfesta í útgerð?

Hvað sem mönnum finnst um hina stórkostlegu ríkisvæðingu og þjóðnýtingu á veiðiheimildum þá hljóta menn að vera á einu máli um að svarið við spurningunni "Af hverju að fjárfesta í útgerð?" sé núna orðið: "Það á ekki að fjárfesta í útgerð - sú fjárfesting er glatað fé!"

Þeir sem eiga aflaheimildir í dag eru að horfa upp á þær þjóðnýttar í frekar stórum sneiðum, og skattheimta á það sem þó tekst að afla er að aukast og aukast.

Sá sem fjárfestir í útgerð í dag gerir sér vonandi grein fyrir því að það er glötuð fjárfesting. Sá sem á útgerð í dag og er að ákveða hvort hann eigi að eyða milljarði í að setja skipið í slipp eða stinga milljarðinum í læstan skáp á sífellt auðveldara með að taka ákvörðun. 

Sá sem á bát bundinn við bryggju síðan viðkomandi seldi frá sér allan kvóta fyrir stórfé á sínum tíma - hvað með hann? Hann hugsar sér gott til glóðarinnar. Það er verið að færa honum aflaheimildir aftur, endurgjaldslaust, í skjóli pólitískrar velvildar. 


mbl.is Milljarður í hærra veiðigjald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bakhjarl VG: Sárþjáðir skattgreiðendur

Morgunblaðið er ekki að gera neinum greina með því að endurbirta ummæli sjáumglaðs þingmanns á vef sínum.

Það sem oft gleymist, og sérstaklega á hinu háa Alþingi, er að allir hafa einhverja hagsmuni. Það getur vel verið að kvótakerfið, sem vinstrimenn á Íslandi festu í lög á sínum tíma en ætla að skjóta niður núna, hafi orðið að tekjulind fyrir einhverja sem, af einhverjum ástæðum, hallast frekar til hægri en vinstri í stjórnmálum, og eru þá frekar hlynntari stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins en Vinstri-grænna. Og kannski fer það í taugarnar á einhverjum vinstrimönnum. En hvað með það? Það er enn sem komið er heimilt að styðja stjórnmálaflokka með frjálsum framlögum og tryggja þannig að fólk geti veitt þeim aðhald á milli kosninga. Enn sem komið er.

"Fjárhagslegt bakland" Sjálfstæðisflokksins er sennilega að stærri hluta í einkageiranum en gildir um flesta aðra flokka. "Fjárhagslegt bakland" Vinstri-grænna er í gegnum skattheimtu á fólki sem kannski og kannski ekki er sammála stefnumálum Vinstri-grænna. Hvort er skárra? Hið fyrrnefnda, segi ég.

Rökin fyrir róttækri ríkisvæðingu sjávarútvegsins eru veik og enda flest ef ekki öll á kommúnískum slagorðum um "endurdreifingu" og "réttláta skiptingu" á takmörkuðum gæðum. Þeir sem hafa lesið meira en formála í sögubók vita hvernig sú "skipting" endar.

Sá endir er upphaf stefnu Vinstri-grænna og þingmanna þess flokks. 


mbl.is „Sagan samofin kvótakerfinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt, en óvinsælt

Ragnar Árnason, prófessor í fiskihagfræði, er óhræddur við að afhjúpa nekt keisarans í öllu tali um róttækar breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu á Íslandi. Það virðist fara rosalega í taugarnar á stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar, en það er sennilega til merkis um að Ragnar hafi rétt fyrir sér.

Hverjum dettur í hug að róttæk tilfærsla á fiskveiðiheimildum muni hafa aðrar afleiðingar í för með sér en hliðstæð tilfærsla á landareignum í Zimbabwe? Hefur einhver veitt hagfræðileg rök fyrir því að svipting á eignarétti sé skaðlaus fyrir verðmætasköpun í útgerð á Íslandi? Er "réttlætis"barátta þeirra sem vilja sópa til sín veiðiheimildum annarra virkilega allri heilbrigðri skynsemi sterkari? Svo virðist vera.

Menn eru að ráðast harkalega á persónu Ragnars Árnasonar fyrir hreinskilnar athugasemdir hans.  Verði þeim að góðu. Ragnar lætur það vonandi ekkert á sig fá, og heldur áfram að benda á þá borðliggjandi staðreynd að þegar menn þjóðnýta verðmæti, þá verða þau verðmæti að engu.


mbl.is Atlaga að sjávarútvegi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er vandamálið takmarkað aðgengi?

Seinustu áratugi hafa flest vestræn ríki, með Bandaríkin í broddi fylkingar, reynt að takmarka aðgengi að ýmsum "lyfjum", svo sem hassi, kókaíni og ýmsu "læknadópi". Þessi stefna hefur ekki dregið úr notkun þessara efna og fjölgun "seljenda" og "fíkla" í fangelsum hefur verið gríðarleg. Neytendur eru neyddir út á götu til að kaupa efnin á uppsprengdu verði, og fjármögnun neyslunnar krefst oftar en ekki annarra lögbrota, svo sem innbrota og þjófnaðar, svo ekki sé minnst á vændi.

Er ekki kominn tími til að staldra við og endurskoða þessa nálgun á "hættuleg" efni? 

Hvernig væri að íhuga að stefna í þveröfuga átt, og afnema bann við kaupum og sölu á "vímuefnum"? Gera þau að almennri neysluvöru. Láta sömu lög og reglur gilda um þau og t.d. hóstasaft og andlitskrem? Saga almenns aðgengis að efnum eins og ópíum og heróín er síst þessari stefnu í óhag. 

Svo ekki sé minnst á óréttlætið sem felst í því að stinga fólki í steininn fyrir að stunda frjáls viðskipti með "óæskileg" efni:

A free man must be able to endure it when his fellow men act and live otherwise than he considers proper. He must free himself from the habit, just as soon as something does not please him, of calling for the police. (#)

Hættum að "senda skilaboð" með því að senda fólk í fangelsi. Samfélagið er betur statt þegar fólk tekur þátt í því, hvort sem það er undir áhrifum áfengis eða ekki.


mbl.is Viðbragðshópur gegn lyfjamisnotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband