Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008
Mánudagur, 10. mars 2008
Að láta fáa semja fyrir marga
Ótrúlegt er það umburðarlyndi íslenskra launþega að vilja framselja vald sitt til launaviðræðna og kjarasamninga í hendur verkalýðsfélaga. Eftir hverja einustu samninga gólar kórinn að launþegar hafi verið "sviknir", að ekki hafi náðst fram "sanngjörn kjör", og að næst verði að berjast fram í fingurgóma fyrir "leiðréttingu" og það helst með "hörku"!
Hverjir koma best út úr kjarasamningaviðræðum? Þeir lélegu, vitaskuld. Þeir sem skapa ekki næg verðmæti til að verðskulda laun síns "kjarahóps", en fá samt þau laun. Hverjir koma næstbest út úr svona viðræðum? Nú þeir sem eru að fá nákvæmlega það sem þeir fengju ef þeir gætu samið einir og sér um sín kaup og kjör. Hverjir koma svo verst út? Vitaskuld þeir sem leggja mest af mörkum, hafa mesta reynslu og/eða þekkingu og borga undir rassinn á þeim sem hvorki geta né nenna.
Þær "stéttir" sem hafa það best á Íslandi eru þær sem eru mannaðar einstaklingum sem þurfa á hverjum degi að sanna sig og bæta sig til að halda starfi sínu eða hljóta framhefð og launahækkun. Tilviljun?
Í Danmörku hefur hið opinbera gert tilraun til að brjóta upp þetta óhagganlega meðalmennskukerfi með fyrirkomulagi sem Danir kalla "Ny løn" sem gefur sveitarfélögum og opinberum stofnunum pínulítinn sveigjanleika til að verðlauna sína bestu starfsmenn. Ég skal ekkert fullyrða um "árangurinn", en viðleitnin er til staðar, og fæddist af engu öðru en brýnni nauðsyn til að stöðva fólksflóttann úr opinbera geiranum - fólksflótta þeirra hæfu og góðu.
Spurningin sem ég spyr mig er þessi: Mun hið opinbera á Íslandi, í fjarveru einkavæðingar og niðurskurðar á umsvifum sínum, grípa til einhverra svipaðra ráðstafana af eigin frumkvæði eða dugir neyðin ein til að fá einhverja hreyfingu í hina fastmótuðu ramma?
Kjarasamningarnir samþykktir með miklum meirihluta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 10. mars 2008
Krókaleiðir að markinu
Mikið er ánægjulegt að sjá Ingibjörgu Sólrúnu (klædda í stíl við sófann sem hún situr í) athuga möguleika á opnun íslensks lyfjamarkaðar. Mikið er samt leiðinlegt að sjá að krókaleiðir að því marki vera helst í skoðun.
Fyrir nokkrum mánuðum opnaði síða á netinu, Minlyf.net, sem bauð Íslendingum upp á að kaupa lyf frá Svíþjóð í gegnum póstverslun. Sjá t.d. frétt frá þeim tíma. Þetta framtak var samt kæft af íslenskum yfirvöldum. "Lyfjastofnun hefur úrskurðað að starfsemi MínLyf stangist á við lyfjalög." Af hverju ætti Lyfjastofnun að heimila svipaða starfssemi í gegnum Færeyjar? Á að breyta lögum? Á að reyna aftur án lagabreytinga, að þessu sinni með blessun utanríkisráðherra, en án frekari aðgerða?
Og hvað nú ef póstverslun með lyf í gegnum Færeyjar verður heimiluð? Opnar það þá ekki á póstverslun með lyf frá öllum öðrum ríkjum Evrópusambandsins? Og ef svo, af hverju þarf þá að blanda stjórnvöldum frekar í málið með rándýrum fundum opinberra starfsmanna á dagpeningum?
Mér sýnist allt bera að sama brunni, sem er sá að hið eina sem stendur á milli aðgengis Íslendinga að ódýrum lyfjum frá öðrum ríkjum sé fyrirstaða í hinu íslenska kerfi. Heimatilbúinn múr á milli Íslendinga og erlendra lyfjasöluaðila. Innlendir múrar, ekki erlendir.
Lausnin? Að íslensk yfirvöld breyti íslenskum lögum svo síður eins og Minlyf.net geti enn á ný hafið starfsemi sína, en án lagalegu óvissunnar eða mótstöðu Lyfjastofnunar. Þá hvort heldur frá Færeyjum, Svíþjóð, Kanada eða Kína.
Lyf flutt inn frá Færeyjum? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 9. mars 2008
Hamingjusömu hórurnar snúast til varnar
"Í vikunni sem leið voru stofnuð samtök starfsmanna kynlífsiðnaðarins í Danmörku, Sexarbejdernes Interesseorganisation (SIO). Markmið samtakanna er að rådgive og informere såvel beslutningstagere som sexarbejdere med det formål at opnå, at sexarbejderne kan arbejde under sikre forhold i beskyttede, sikre miljøer.
Meira á Ósýnilegu höndinni.
Fjallaði einhver íslenskur fjölmiðill um þetta eitt heitasta fréttamál vikunnar sem leið í Danmörku? Ég held ekki, og get getið mér til um ástæður þess.
Laugardagur, 8. mars 2008
Konan sem læknaði 'veika mann' Evrópu
Margaret Thatcher á arfleið sem er erfitt að slá út. Hún læknaði Bretland, "veika mann" Evrópu þegar hún tók við völdum, af efnahagslegri stöðnun, og aðstoðaði Ronald Reagan við að halda Sovét-grýlunni í skefjum sem á endanum varð til þess að Sovétríkin leystust upp.
Hún er vitaskuld ekki fullkomin, en miðað við flesta stjórnmálamenn (liðleskjur og afætur) var og er hún afburðarmaður. Járnfrúin sem herti breska stálið á ný og læknaði veika manninn.
Vonandi jafnar hún sig á þessum veikindum sínum sem fyrst.
Thatcher laus af sjúkrahúsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 9.3.2008 kl. 17:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 4. mars 2008
Bush þarf að sýna góðan endasprett
George W. Bush mundi gera vel með því að lappa upp á vængbrotinn forsetaferil sinn með því að þrýsta með öllu afli á að Bandaríkin geri sem flesta fríverslunarsamninga, þá sérstaklega við Mið- og Suður-Ameríkulönd sem reyna nú að standast mútugreiðslur úr olíusjóðum Venesúela.
Sósíalismi Suður-Ameríku er óðum að loka dyrum sínum á lífskjarabætingar þegna sinna rétt eins og sá austur-evrópski gerði á sínum tíma í Evrópu, og slíkt getur haft skelfilegar afleiðingar í för með sér. Opnun á alþjóðaviðskipti við þennan heimshluta, nánast á hvaða skilmálum sem er, getur því eingöngu verið til bóta.
Nú er að vona að Bush eigi enn eftir einhvern trúverðugleika sem hann svo nýtir til að tengja milljónir fátækra Suður- og Mið-Ameríkubúa við allsnægtir hins kapítalíska veisluborðs.
Enginn syndir á leku gúmmídekki frá Bandaríkjunum til Kúbu, eða smyglar sér undir gaddavírsgirðingu til að komast frá Bandaríkjunum til Venseúela (ef þannig má að orði komast). Straumurinn er í hina áttina. Ætli það sé ekki vísbending um eitthvað?
Bush styður forseta Kólumbíu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Mánudagur, 3. mars 2008
Sjaldgæf frétt utan Vefþjóðviljans og Þjóðmála
Þeir sem lesa eingöngu dagblöðin, þá sérstaklega Morgunblaðið, hljóta að gapa af undrun þegar þeir sjá skrifað:
"Greining á gögnunum sýndi fram á að konur voru ekki með marktækum hætti minna líklegar til að ná því sæti sem þær stefndu á, á framboðslista flokksins, en karlar."
Niðurstöður af þessu tagi eru oftast ekki fréttamatur í íslenskum fjölmiðlum. Yfirleitt eru það eingöngu Vefþjóðviljinn og Þjóðmál sem birta það sem er ekki augljóst við fyrstu sýn, verður það við nánari skoðun, en er ekki vinsælt að segja upphátt.
Ég fagna frétt Moggans um BA-ritgerð þessa, og vona að hún sé fyrsta skref blaðsins af mörgum frá hinum breiða og óumdeilda vegi pólitísks rétttrúnaðar og að hinum örlítið gagnrýnni en þrengri.
Verkefni um árangur kvenna í prófkjörum fær styrk FS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sunnudagur, 2. mars 2008
Tóbaksgjöld = lágtekjuskattur
Enn og aftur er landsmönnum gert ljóst að skattar og álög á tóbak eru fátækra- og lágtekjuskattur. Ríka, háskólamenntaða fólkið í skrifstofustörfunum veit þetta. Lágtekjufólk veit þetta. Alþingismenn vita þetta.
Einnig hafa menn einhverja hugmynd um ástæður þess að lágtekjufólk heldur áfram að reykja þrátt fyrir alla fræðsluna, vitneskjuna og áróðurinn um skaðsemi reykinga. Ein er til dæmis sú að þegar er erfitt að láta enda ná saman, og erfitt að lifa frá mánuði til mánaðar á sveiflukenndum yfirvinnutímaháðum útgreiddum launum, þá er erfitt að setja reykleysisnámskeið og afslappandi jógatíma ofarlega á vikuplanið. Tóbaksreykingar koma þá inn sem stressstillandi og eftirsótt nautn í amsti hversdagsins.
Vel menntað og sæmilega launað fólk hefur engan skilning á þessu. Þess vegna baular það á stjórnmálamenn um að hækka tóbaksgjöld og gera aðgengi að tóbaki erfiðara. Ekki af því annars freistast það sjálft til að hefja reykingar, heldur af því annað fólk (ómenntaði láglaunaskríllinn) á að fá að þjást fyrir fíkn sína og nautn. Það er jú byrði á okkar yfirskattlögðu hátekjulaunaávísunum í formi heilbrigðisútgjalda, ekki satt?!
Verkalýðsfélög og vinstrimenn heimta allskyns tilfæringar í skattkerfinu til að "bæta hag" lágtekjufólks og fátækra. Auka persónuafsláttinn, fjölga skattþrepum, þyngja jaðarskatta, og svona má lengi telja.
Ég sting hins vegar upp á annarri leið til að auka fjárhagslegt rúm þeirra tekjulægstu: Afnema tóbaksgjöld! Að ofansögðu má vera ljóst að það hefði bein jákvæð áhrif á lífskjör tekjulágra og fátækra strax í dag.
Ofanritað er einnig að finna á Ósýnilegu höndinni.
Reykingar eru orðnar fátíðari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)