Glórulaus sósíalismi

Það er alveg frámunalega fáránlegt stundum að hlusta á Íslendinga tala um auðlindirnar "sínar", sem þarf að verja með kjafti og klóm frá því að renna til útlendra fjárfesta, vitaskuld alltaf á "gjafaverði", svona eins og ónýttar, upphitaðar vatnsbólur á 500m dýpi undir yfirborði Jarðar, sem enginn Íslendingur hefur efni á því að bora niður til, séu svona rosalega verðmætar.

Hver man ekki eftir Össuri Skarphéðinssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir ekki svo löngu að fljúga heimshorna á milli og fylgjast með "íslenskri þekkingu" í jarðvarmavirkjun í verki? Geysir Green og ég veit ekki hvað, frá Afríku til Indónesíu. Íslensk eignaraðild að útlenskum orkuverum þótti ekkert sérstakt hneykslismál þá, og ekki man ég eftir Skúla Helgasyni hafa svo miklar áhyggjur af "arðráni" Íslendinga á indónesískum herstjórnaryfirvöldum. Þvert á móti - með íslenskri eignaraðild kom fé, þekking og reynsla, uppbygging átti sér stað fyrir fjármagn sem annars hefði ekki verið til ráðstöfunar, og arðgreiðslur koma vitaskuld í staðinn. Það veit hver sparibókareigandi.

En svo þegar nokkrir Kanada-menn vilja í raun og veru koma með pening inn til Íslands, hvað gerist þá? Því er í alvöru velt upp hvort ríkið geti stokkið fyrr til, með fé skattgreiðenda og tæknilega sérþekkingu Skúla Helgasonar og annarra pappírspésa, til að stöðva aðkomu erlends orkufyrirtækis að HS Orku!

Já gott og vel Steingrímur J. - ef þér tekst að kreista 12 milljarða af blóði úr nú þegar stirðnuðum líkum íslenskra skattgreiðenda, þá verði þér að góðu. Reyndu hins vegar ekki að gefa fyrir því aðrar ástæður en glórulausan sósíalisma.


mbl.is Segir óraunhæft að ríkið kaupi hlut í HS Orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Heiðdal

Alveg sammála þer, fasismi er miklu betri en sósíalismi!  Stattu þig í baráttunni.

Björn Heiðdal, 27.8.2009 kl. 09:21

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Björn,

Þú talar í mótsögnum, eða notar hugtök vitlaust, eða bæði. Mátt gjarnan útskýra í lengra máli hvaða hugsanir léku um þinn haus þegar þú ritaðir athugasemd þína.

Fyrirfram þakkir.

Geir Ágústsson, 27.8.2009 kl. 09:34

3 Smámynd: Magnús Björnsson

Sammála þér með að það er örlítil tvöfeldni í þessu. Ég aftur á móti man ekki hvað þeir keyptu af virkjunum, dreifikerfum o.s.frv. hvað þeir voru að byggja af nýju eða hvað af þessu var í raun þekking við uppbyggingu (tækniþekking og reynsla án þess að eiga í apparatinu til framtíðar).

Hitt er að ég er ekki spenntur fyrir því að einkaaðilar eigi of mikið af fyrirtækjum eins og hsorku, hvað þá að það séu útlendingar. Innbyggt í kerfi þar sem einkaaðilar eiga og reka fyrirtæki er krafan um gróða en þegar þau eru í opinberri eigu er það kerfið og samfélagið sem dæmið snýst um (ég er ekki að tala um að það eigi að reka þetta með tapi til langs tíma eða ekki að byggja það upp heldur að vera réttu megin við núllið en ekki að græða formúgur). Ef þú átt í fyrirtæki villtu fá eitthvað fyrir þinn snúð, annað en að fyrirtækið gangi þokkalega, þú villt fá aura í vasann.

Í þessu dæmi með hsorku er ekki að sjá að miklir peningar komi inn í landið. Hluturinn er seldur á minna en hann var keyptur upphaflega (kallast tap) og aðeins hluti er borgaður út. Restin á að borgast eftir 7 ár (á sama verði) og eftir því sem manni skilst á fréttunum á að nota hagnað hsorku til að borga þetta.

Magnús Björnsson, 27.8.2009 kl. 09:46

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Magnús og Óskar,

Hvað finnst ykkur um kaup Geysir Green Energy og Reykjavik Energy Inverst og hvað allt þetta nú heitir í orkuvinnslu og fyrirtækjum og orkuverum út um allan heim, þá sérstaklega í löndum þar sem lítið fé er til ráðstöfunar til að viðhalda og byggja upp orkuframleiðslu og dreifingu?

Ef ykkar rök eiga við um alla, en ekki bara suma, þá eru GGE og REI og fleiri íslenskir fjárfestar bara hluti af hinum bölvuðu, gróðasækjandi "útlendingum", nema hvað þeir eru íslenskir útlendingar í útlöndum. Og eiga skilið allar ykkar skammir jafnmikið og hið kandadíska fyrirtæki á Íslandi. Sem ég skal með ánægju hýsa í þessu athugasemdakerfi.

Hvað varðar ríkisábyrgðir og ríkislán þá er ég vitaskuld alveg andsnúinn slíku lotteríi með skattheimt fé ríkisvaldsins. En það er önnur saga.

Geir Ágústsson, 27.8.2009 kl. 10:54

5 identicon

Óskar þú þykist nú vita hvað kapítalísmi er jám. Hinn íslenski kapítalísmi gekk mjög vel, en þegar vinstri fólk fór að snúast í ríki þetta ríki hitt þá fór allt á annan endann. Þið vinstri fólk eruð alveg eins og kristnir bókstafstrúarmenn sem hafa verið heilaþvegnir frá barnsaldri að trúa því að ehm ríkið bjargar því.

Þú ættir nú að vita það að Ice Save skall á ríkið þegar það keypti landsbankann og að stjórnendur hans vissu ekki betur en að það væri bara allt í lagi og svo kom í ljós að hann moraði í skuldum.

hfinity (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 23:01

6 Smámynd: Geir Ágústsson

Óskar,

Ríkisábyrgðir á bankainnistæðum og þjóðnýting gjaldþrota fyrirtækja eru ekki uppfinning kapítalismans.

En að aðalatriðinu: Hvað finnst þér um kaup Íslendinga á orkufyrirtækjum í útlöndum, svona almennt?

Geir Ágústsson, 28.8.2009 kl. 07:12

7 Smámynd: Einar Jón

Ég er erlendis þ.a. ég hef ekki fygst með öllu, en að mínu mati er útfærslan vandamálið. Mér finnst þetta að vissu leyti minna á kvótakerfið varðandi það að gefa einum aðila einkarétt á "sameigninni okkar", en ef þeir borga sanngjarna leigu (ólíkt kvótagreifunum) er sala á orkufyrirtækjum heimsins til allra þjóða útlendinga svo sem í lagi mín vegna.

En varðandi þessa sölu er hellingur af spurningum sem hefur ekki verið svarað (eða a.m.k. hef ég ekki séð alvöru svör).

Er leigan föst krónutala (eða evrutala) yfir allan samningstímann? Hvað er sanngjörn leiga í dag? Vitum við hvað er sanngjörn leiga eftir 7 ár?  Eftir 130 ár? Væri ekki eðlilegra að hafa það % af veltu af orkusölunni?

Af hverju kúlulán fyrir meirihlutanum af upphæðinni, ef það á í alvörunni að koma með fé inn í landið? Af hverju er það með 1.5% vöxtum en ekki 5.5% eins og IceSave-lánið (sem var svo hagstætt á sínum tíma)?
Og hafa menn ekki lært ennþá að með því að taka eingöngu veð í bréfunum sjálfum er leikur einn fyrir Magma að hreinsa innan úr fyrirtækinu og lýsa það gjaldþrota mánuði áður en kemur að skuldadögum? - eða bara neita að borga, skila bréfunum og labba burt með 7 ára hagnað í rassvasanum...

Ég geri ekki ráð fyrir að þú vitir svörin við öllum þessum spurningum, en væri ekki betra að einhver viti þau í stað þess að renna blint í sjóinn og drífa sig að selja bara til þess að selja?

Einar Jón, 30.8.2009 kl. 14:09

8 Smámynd: Einar Jón

Vísir er með nokkrar tölur sem mig vantaði. Samkvæmt þeim er auðlindagjaldið brot af því sem það er erlendis, en það er víst milli HS Orku og Reykjanesbæjar - hvort sem Magma kaupir eða ekki.

En miðað við tölurnar í fréttinni gæti Magma að öllum líkindum borgað fyrir kaupin með hagnaði næstu ára - svipað og Óli í Olís gerði.

Höfum við ekki fengið nóg af skuldsettum yfirtökum?

Einar Jón, 30.8.2009 kl. 14:23

9 Smámynd: Geir Ágústsson

Einar,

Jú sosem ekkert neinn aðdáandi skuldsettra yfirtaka, og hvað þá heldur ríkisábyrgða og ríkislána, eins og lesendum þessarar síðu er vonandi ljóst. Það er meira þessi hystería í kringum hina bandsettu "útlendinga" og hinar "sameiginlegu" auðlindir sem angrar mig, nema að því virðist vera þegar Íslendingarnir eru útlendingar í öðrum löndum. Þá erum við riddararnir á hvíta fáknum komnir til að bjarga heiminum frá orku- og peningaleysi.

Og ofan í vitleysuna kemur svo þessi umræða um að senda tugmilljarða að skattfé í kaup á fyrirtæki - peninga sem þarf að fá lánaða því ekki eru þeir til í hirslum ríkisins. Af hverju? Jú til að bjarga heitavatnsbólunum á Reykjanesi frá hinum bandsettu "útlendingum".

Annars virðist keyra mótsögn hérna sem ég skil ekki alveg og fæ vonandi hjálp við:

Er ríkið að fara lána Magma til að kaupa? Eða einhver annar armur hins opinbera?

Er það ríkið sem vill kaupa HS Orku til að "bjarga" fyrirtækinu frá Magma, sem þó er ekki að fara kaupa fyrir eigið fé heldur fyrir lán frá ríkinu?

Geir Ágústsson, 31.8.2009 kl. 13:59

10 Smámynd: Einar Jón

Ég hef ekki nennt að kynna mér hver er að lána hverjum, en mér finnst skítalykt af þessu. Aðal vandamálið er ekki að við séum að selja - heldur að þetta er brunaútsala, og engu líkara en að Svavar Gests hafi séð um samningsgerðina. Það er stór munur á að bjarga heitavatnsbólunum á Reykjanesi frá hinum bandsettu "útlendingum" og að koma í veg fyrir slæman samning.

Lára Hanna er með ágætis samantekt á málinu.

En salan er víst ákveðin seinna í dag, svo það er ósköp tilgangslaust að væla yfir þessu lengur. 

Einar Jón, 1.9.2009 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband