Laugardagur, 18. júlí 2009
'Könnunarviðræður' finnast ekki í orðaforða ESB
Margir halda að það sé til eitthvað sem heitir "könnunarviðræður" í orðaforða ESB. Svo er ekki. Ríki sækir um aðild, eða ekki. Íslensk "samninganefnd" er ekki að fara segja við ESB: "Já sko, við erum að sækja um aðild, en í raun ekki, því við viljum bara sjá hvað þið segið." Þetta er íslenskum almenningi samt talið í trú um.
Hvað ESB varðar þá er aðildarumsóknin fullgild umsókn, og ESB er alveg sama hvort íslensk samninganefnd hafi lofað almenningi á Íslandi þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki. Fyrir ESB hafa íslensk stjórnvöld nú þegar umboð til að renna Íslandi inn í sambandið. ESB er alveg sama um allt tal íslenskra ráðamanna um "könnunarviðræður" og einfaldar eða tvöfaldar þjóðaratkvæðagreiðslur. Hún les bara stjórnarskrá Íslands til að sjá hvaða ferli þarf að fara í gegnum til að fullveldið megi formlega afhenta til ESB. Hvað segir stjórnarskráin um slíkt? Ég held að hún hreinlega banni slíka afhendingu!
Danir í kringum mig spyrja þessa dagana hvort það sé rétt, að Íslendingar vilji núna gerast aðilar að ESB í ljósi þess að Íslendingar hafa sótt um aðild. Nei, segi ég, því það er búið að segja íslenskum almenningi að um könnunarviðræður sé að ræða, og að meira að segja harðir andstæðingar ESB-aðildar hafi látið blekkjast af slíku tali. Danir hafa aldrei heyrt um slíkt. Þótt Svíar, sem núna eru í forsæti yfir sambandinu, nenni að lesa svona hálfa aðildarumsókn, þá segir það ekkert um hvað samninganefnd ESB fær að heyra, eða næsta ríki sem tekur við forsæti ESB. Hvað ætlar íslenska samninganefndin að segja þegar henni er sagt að aðildarumsókn er aðildarumsókn, og ekkert annað sé uppi á borðinu? Ætlar hún að endurtaka þau skilaboð við íslensku þjóðina?
Eitt gott mun koma út úr því að Íslandi sæki formlega um aðild að ESB: Ríkisstjórnin missir enn einn blóraböggulinn sem afsökun fyrir því að gera nákvæmlega ekkert til að reisa efnahag Íslands við. Þeim fækkar nú ört, með Davíð Oddsson á brott úr Seðlabankanum, og ESB-aðild á borðinu. Hver ætli sá næsti verði?
Fréttaskýring: Rúmlega tuttugu hafa skráð sig úr VG | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.