Föstudagur, 24. apríl 2009
Hin fyrirsjáanlega ríkisstjórn að fæðast
Ríkisstjórn Samfylkingar og VG verður athyglisverð - nánast eins og knattspyrnuleikur þar sem allt getur gerst, en þar sem allir vita í raun að búið er að ákveða leikkerfin fyrirfram.
Mun hún sækja um samruna inn í Evrópusambandið? Vinstri-grænir væru vísir til að fórna einarðri andstöðu við slíkt til að halda völdum.
Mun hún beita löggjafarvaldinu til að stöðva "stóriðju"framkvæmdir sem nú þegar er búið að ganga frá og samþykkja? Vinstri-grænir væru vísir til að fórna einarðri andstöðu við þær til að halda völdum.
Mun hún stöðva alla umræðu og vinnu hins opinbera vegna hugsanlegrar olíuvinnslu á Drekasvæðinu sem gæti hafist innan eins eða tveggja áratuga? Samfylkingin væri vís til að fórna miklum áhuga sínum á þessu máli til að halda völdum.
Það er eitt og annað sem þessir flokkar eru ósammála um. Þó er margt sem báðir flokkar hafa talað um á jákvæðum nótum, og þar munu þeir láta hendur standa fram úr ermum, enda enginn ágreiningur á ferð.
Dæmi:
- Hærri skattar á meðaltekjur og háar tekjur
- Hærri skattar á fjármagnstekjur og hagnað fyrirtækja (sem er að vísu varla til staðar neins staðar í dag)
- Aukin ríkisútgjöld til hinna ýmsu afkima ríkisvaldsins
- Báðir flokkar eru óhræddir við að skuldsetja ríkisvaldið (skattgreiðendur)
- Alls kyns boð og bönn, t.d. á fækkun fata gegn greiðslu, eru mjög ofarlega á lista þessara flokka, meira að segja á tímum efnahagskreppu þar sem margt gæti talist mikilvægara
- Auðlindir Íslands séu færðar úr eigu einstaklinga og í hendur ráðherra, sem hafa vitaskuld tröllatrú á stjórnunarhæfileikum sínum, þótt þeir hafi ekki látið reyna á þá í atvinnulífinu
Eitthvað fleira má sjálfsagt týna til.
Ofantalin eru í sjálfu sér ekki atriði til að deila um. Komandi vinstristjórn mun haga sér eins og skattheimtandi brjálæðingar sem sekkur Íslandi í skuldafen og gerir ekkert sem mun byggja upp hagkerfið, þótt ásetningurinn sé annar.
Deilan snýst ekki um hvort það verði raunin eða ekki. Hún snýst bara um það hvort fólk vilji það eða ekki. Ef þú, kæri lesandi, vilt hærri skatta og sökkvandi hagkerfi, þá kýstu auðvitað til vinstri, og ég get lítið sett út á það, enda þú frjáls þinnar skoðunar, og þitt atkvæði er þitt atkvæði, og það er lýðræði á Íslandi. Sjálfur er ég ekki þannig þenkjandi. Gölluð peningamálastefna, sem allir flokkar voru sammála um en Sjálfstæðisflokkur og Samfylking leiddu á meðan hún brotlenti. sendi Ísland 10 ár aftur í lífskjörum. Enginn flokkur hefur boðað aðra peningamálastefnu. Hagstjórnina myndi ég samt vilja sjá færast í hendur Sjálfstæðismanna. Sú verður ólíklega raunin. Þá það.
Vinstristjórn á Íslandi hefur aldrei setið út heilt kjörtímabil án Framsóknarmanna sem nú eru svo gott sem horfnir af sjónarsviðinu. Ég vona að sú viðleitni haldi áfram þótt svartsýni sé sennilega við hæfi. Jafnvel biturð, svo ég játi það nú.
Góðar kosningar!
Sögulegar kosningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:31 | Facebook
Athugasemdir
Vinstri stjórn hefur aldrei verið mynduð án Framsóknarflokks og aldrei setið heilt kjörtímabil. Síðustu stjórnir Steingríms sátu út kjörtímabilið sem endaði 1991 en þær byrjuðu ekki fyrir en ár var liðið af því og var haldið við með því að kaupa sérhagsmunapotara í smáharki einn og einn eða fáa í einu. Það má hafa af því vissar áhyggjur að þessi verðandi rauðstjórn sitji ekki nógu lengi til þess að fólk nái að átta sig almennilega á því hvað vinstri stjórn er.
Skúli Víkingsson, 24.4.2009 kl. 17:54
Skúli,
Það mun ekki taka rauðstjórn langan tíma að sýna ásetning sinn. Seinast var sá ásetningur svo skýr að það tók 16 ár að afmá hann úr minningum fólks, og heil kynslóðaskipti kjósenda hreinlega til að afla rauðstjórn meirihluta á ný. Lifi smá í voninni um að sagan endurtaki sig.
Í millitíðinni þarf samt tiltekt hjá hægrinu. Skipta um peningamálastefnu, lofa að sópa hressilega út hjá hinu opinbera og stefna á tugprósenta skattalækkanir og stöðvun allra björgunarframkvæmda á gjaldþrota fyrirtækjum. Svokallaður "skýr valkostur" það, annað en hin hálf-sósíalíska landsfundarfundargerð Sjálfstæðisflokksins.
Geir Ágústsson, 24.4.2009 kl. 18:06
Það sem virðist vefjast fyrir ótrúlega mörgum kjósendum er að tekjur verða til af atvinnustarfsemi sem borgar sig, en ekki í ríkiskassanum. Ég vona að Rauðka setji ekki allt á hliðina strax, en óttast að þeir geri eitthvað í þá áttina. Það kemur ekki allt fram strax og orsakasamhengi virðist mörgum hulið því miður.
Skúli Víkingsson, 24.4.2009 kl. 18:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.