Undirbúningur hefur staðið í mörg ár

Nú veit ég ekki hvað 67,8% þátttakenda í skoðanakönnun Fréttablaðsins hafa í huga með hugtakinu "hefja undirbúning aðildarumsóknar" en ég veit ekki betur en að slíkur undirbúningur hafi átt sér stað í mörg ár með mikilli framleiðslu á skýrslum og athugunum.

Niðurstaðan er sú að aðild að Evrópusambandinu þýðir:

  • Engar varanlegar undanþágur frá fiskveiðistjórnarkerfi sambandsins - íslensk landhelgi verður evrópsk og spænskir fiskibátar munu fiska við hlið íslenskra
  • Íslendingar þurfa sennilega að leggja niður krónuna, t.d. með því að beintengja hana við evruna (eins og gert er er við dönsku krónuna), á meðan Íslendingar geta í dag valið á milli fjölda gjaldmiðla
  • Í stað þess að landbúnaðarstyrkir fari úr vösum skattgreiðenda og í gegnum íslensk landbúnaðarráðuneyti og þaðan til bænda, þá lengist leiðin í; íslenskir skattgreiðendur - íslenskt fjármálaráðuneyti - Brussel - íslenskt landbúnaðarráðuneyti - íslenskir bændur (sama niðurstaða, lengri leið, meiri pappírsvinna)
  • Íslendingar hætta að geta samið beint við ríki eins og Chile, Kína og Kanada um fríverslun og niðurfellingu viðskiptahafta og þurfa að stilla sér á bak við samevrópskan viðskiptaráðherra sem semur fyrir Íslands hönd. Ítalir ná kannski að knýja á viðskiptahindranir við Kína og Íslendingar geta ekkert gert í því
  • Skattalækkanir verða að flóknu samningsmáli við sambandið því Þýskaland, Frakkland og fleiri ríki eru ekki alltof hrifin af skattasamkeppni innan sambandsins; Eistland, Írland og fleiri lönd hafa fengið skammir í hattinn fyrir "of lága" skatta
  • Íslendingar drattast loksins til að fella niður tolla á varningi keyptum innan sambandsins þótt slík niðurfelling geti ekki átt sér stað einhliða við fleiri viðskiptasvæði (í dag stendur ekkert nema skortur á pólitískum vilja í veginum fyrir einhliða niðurfellingu allra viðskiptahafta og tolla við útlönd)

Sumsé, kostir og gallar sem eru þekktir í dag vegna viðamikils undirbúnings. Ástæða þess að Íslendingar hafa ekki sótt um aðild er einmitt sú að mönnum hefur almennt fundist ókostirnir vera fleiri en kostirnir. Undirbúninginn vantar hins vegar ekki. 


mbl.is 67,8 vilja hefja undirbúning aðildarumsóknar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fyrsta atriðið hjá þér er villandi, hjá ESB gilda lög að sjávarútvegsfyrirtæki verði að hafa efnahagsleg tengsl við það land sem fiskimiðin tilheyra.

Núna eru margir pólverjar á skipunum, sé ekki muninn á að hafa pólverja eða spánverja. 

Íslenska kvótakerfið mun áfram vera við lýði, enginn mun geta veitt án þess að kaupa kvóta, eignaréttinn.

Samningsstaða ESB er mun sterkari en Íslendinga í fríverslunarsamningum.

Ég hef aldrei heyrt að ESB hafi staðið í vegi fyrir tekjuskattalækkunum.

Til lands tíma skiptir ekki máli hvaða gjaldmiðil Íslendingar taka upp, á endanum verður bara einn gjaldmiðill í heiminum, sem mun lágmarka ríkisafskipti af hagkerfinu með Seðlabanka sínum. 

Árni Richard (IP-tala skráð) 21.4.2008 kl. 20:01

2 Smámynd: Geir Ágústsson

"Sjálfur veit [Björn Bjarnason] frá því að við sátum nokkrir þingmenn í Evrópunefndinni að allar upplýsingar um kosti og galla aðildar liggja meira og minna fyrir í skýrslu þeirrar nefndar og þeir þættir þurfa ekki frekari rannsóknar við. "

- Össur Skarphéðinsson 

Óvissan er því, að því er virðist, engin. Ég virðist samt ekki geta fundið umrædda skýrslu, því miður, því ég mundi gjarnan vilja lesa um t.d. hin ýmsu sérákvæði og undanþágur (sjálfur ætla ég samt ekki að segja neitt gegn eignarhaldi útlendinga á íslenskum kvóta frekar en á íslenskum sumarhúsum og þakíbúðum).

Á 19. öld var meira og minna einn alheimsgjaldmiðill - gullfóturinn ("dollar", "mark", "franki", "pund" og fleiri gjaldmiðlanöfn eru nöfn á þyngdareiningum gulls) - sem var svo yfirgefinn þegar stríð og "welfare programs" urðu of frek á skattfé til að geta fjármagnað þau með skattheimtu án óróa hjá almenningi. Verðbólga (peningaprentun) varð fyrir valinu í staðinn. Engin mótmæli frá mér ef aðskilnaður stjórnmála og peningamála verður heimsóttur á ný.

Samningsstaða Íslendinga í fríverslunarumræðum (t.d. við Kanada, Chile, Kína, ESB o.fl. lokaðar viðskiptablokkir) er ljómandi góð ein og sér. Engir Ítalir að heimta ofurtolla á kínverska framleiðslu og engir Spánverjar að verjast fríverslun með fiskafurðir. Eingöngu Íslendingar að grýta eigin höfn með því að verjast fríverslun með landbúnaðarafurðir.

Evrópusambandið hefur ekki "staðið í vegi fyrir" (tekju)skattalækkunum, eingöngu gefið þeim illt auga. Hér er talað um að jöfnun skattahlutfalla í sambandinu "has been achieved" (þvílíkt markmið!) með skilyrði um lágmark 15% virðisaukaskatts í aðildarlöndunum. Einnig að fókusinn sé m.a. á "jöfnun skatthlutfalla" á skatt á hagnað fyrirtækja. Jibbí! 

Geir Ágústsson, 21.4.2008 kl. 20:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband