Oftrú á vísindin, eða bara þar sem hentar?

"Ekki er vísindamönnum treyst til að segja fyrir um jarðskjálfta og eldgos með meira en nokkurra klukkustunda fyrirvara (yfirleitt mun minna). Margir efast um getu vísindanna til að áætla sjálfbært aflamark á fisknum í sjónum. Veðurspáin hlýtur yfirleitt vissa tortryggni og af fæstum talin marktæk meira en örfáa daga fram í tímann. Margir algengir sjúkdómar blómstra enn víða um heim þrátt fyrir að vísindamenn hafi haft þá til meðhöndlunar svo áratugum skiptir. Oftrúin á vísindin er hvergi til staðar nema þar sem dyr alheims-sósíalismans virðast ætla opnast upp á gátt. Á bál þessarar oftrúar vilja margir kasta hinni kapítalísku iðnvæðingu sem nú loksins er byrjuð að breiðast almennilega um heiminn."

Fleiri hressandi setningar í þessum dúr hér. Njótið!  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Enn og aftur virðast loftlagsmál verða málaflokkur þar sem hægri menn virðast stökkva í eina sæng með postmodernísku afstæðishyggjufólki og bókstafstrúaröfgafólki og afneita vísindalegri þekkingu sem eitthvað húmbúkk.

 Að segja: "Ég hafna réttmæti þeirrar aðgerðar, og hafna réttmæti þess almennt að traðka á iðnvæðingu mannkyns, sama hvað vísindamönnum tekst að reikna sig fram til"..... þetta er náttúrulega dæmi um algera blinda trú á kennisetningu sem ekki má raska með vísindalegum gögnum.  Að hafna réttmæti vísindanna til að kynna gögn sín með vönduðum og trúverðugum hætti er skammarleg afstaða að mínum dómi.

Rök þau sem lögð eru fram í skýrslum IPCC eru afskaplega vönduð. Þau eru byggð á ótrúlega mörgum vísindarannsóknum frá mörgum fræðasviðum. Um niðurstöðurnar ríkir almenn sátt í vísindasamfélagi loftlagsvísindamanna. Síðan koma pólitískir kennisetningarmenn eins og Geir Ágústsson og hafna vísindalegri aðferðafræði að því að niðurstöður vísindanna brjóta í bága við pólitískar skoðanir. Þetta finnst mér ótrúlega líkt því sem gerðist austan járntjaldsins á síðustu öld þegar vísindamenn máttu ekki stunda rannsóknir sem gátu truflað kennisetningu ráðstjórnarríkjanna.

Sem betur fer eru flestir hægri menn í Evrópu búnir að hafna slíkum öfgamönnum en þeir finnast þó enn eins og á þessari og fleiri vefsíðum má sjá.

Magnús Karl Magnússon, 18.11.2007 kl. 16:52

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Magnús, það eru margar leiðir til að hafna CO2-heimsendaspádómunum:

1) Með vísindalegum mótrökum (af þeim er heill sægur) og yfirvegaðri hugsun.

2) Með því að benda á að vísindaniðurstöður eru hlaðnar óvissu en pólitíkusar sem skrifa útdrættina fyrir IPCC gera lítið úr þeim og fjölmiðlamenn éta síðan upp yfirhlaðnar yfirlýsingar sem stundum og stundum ekki eru skrifaðar af vísindamönnum.

3) Með því að benda á að loftslagsvísindi eru ekki hrein gagnrýnin vísindi heldur orðin háð gríðarlegum fjárframlögum úr opinberum sjóðum sem síður en svo virðist vera til að gera margar rannsóknir á loftslagsmálum áreiðanlegar. Oft er lagt uppi með fyrirfram gefna niðurstöðu til að tryggja að fjárstreymið til loftslagsrannsókna haldi áfram. Svo sannarlega ekki undarleg breytni en e.t.v. ekki til að byggja upp vísindalegan trúverðugleika.

4) Með því að hafna því að einstaklingsfrelsi sé pólitísk verslunarvara og frjáls markaður opinn fyrir pólitískum afskiptum. Marxistar reyndu að nota "vísindi" til að réttlæta hið almáttuga ríkisvald. Þeir voru kvaddir í kútinn. Nú er komið að græningjum að hljóta sömu örlög.

Ég nota fyrst og fremst punkt 4) sem útgangspunkt en punktar 1-3 eru líka gagnlegir. Svo já,  "pólitískir kennisetningarmenn" eru vissulega andsnúnir sósíalisma bakdyramegin.

Evrópubúar geta vissulega skert eigin lífskjör og óttast hina hálfu gráðu sem hitastigið á eftir að bæta við sig á næstu 50 árum. Þeir mættu samt láta fátæka og aðra heimshluta eiga sig. Alveg endilega. Og hætta að borða lífrænt ræktað.

Geir Ágústsson, 18.11.2007 kl. 18:27

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég skil heldur ekki hvernig baráttan gegn öfgum (róttækum ríkisstýrðum afskiptum af alþjóðlegum markaði með orkugjafa) geri mig að öfgamanni, en orð þín máttu vitaskuld velja að vild!

Geir Ágústsson, 18.11.2007 kl. 18:29

4 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

1) Með vísindalegum mótrökum... því miður hef ég aldrei séð nein mótrök sem mér hafa fundist sannfærandi frá þér í skrifum þínum um loftlagsmál. Vefsíðan sem þú bendir mér og öðrum á sannfærir mig svo sannarlega ekki (frá Cooler Heads Coalition). Þetta er ekki vefsíða skrifuð af vísindamönnum (sem útaf fyrir sig segir ekki að hún geti ekki verið sönn útaf fyrir sig!). En ef þú veist eitthvað um hvernig vísindalegar samræður, þá gerast þær á vettvangi vísindalegra skrifa ("peer-reviewed" vísindarit). Vísindaleg rök og mótrök eru þannig lögð fram f.o.f á vettvangi slíkra agaðra skrifa þar sem vísindalegar kröfur eru gerða til gagna og túlkana. Þannig skapast vísindaleg þekking. Hún verður ekki til á vefsíðum líkt og þessum.

Skýrslur IPCC eru þannig samantekt á slíkum vísindalegum gögnum þar sem vitnað er í þúsundir slíkra vísindagreina, þær eru vegna og metnar og verða þannig grunnur að consensus. Þú segir að IPCC hafi lítið með vísindi að gera en meira með pólitík. Ég hef grun um að skoðanir þínar megi fremur flokka þannig en skýrslur IPCC. Ef að þín túlkun hefði eitthvern sannleiksvott fyndist mér harla einkennilegt að skýrslur IPCC hafa stuðning flestra samtaka fræðimanna á þessu sviði og ég held að ég geti fullyrt að þú getur ekki bent á ein einustu samtök vísindamanna á sviði loftlagsmála sem hafa dregið í efa túlkanir IPCC.

2) Skýrslur IPCC eru skrifaðar af vísindamönnum - hvorki skýrslurnar sjálfar eða hinar ýmsu samantektir innihalda neitt sem vísindamennirnir eru ekki sáttir við.

3) Mig rennur í grun að þú hafir ekki hugmynd um hvernig vísindi almennt eru fjármögnuð. Opinberir vísindasjóðir um allan heim (og sérstaklega í Bandaríkjunum) eru aðal styrktaraðili vísinda. Þetta gildir um loftlagsvísindi, læknavísindi og flest önnur svið vísinda og eru allir sammála um að slíkt kerfi er einmitt sú leið sem tryggir best sjálfstæði, gagnrýna hugsun og frelsi vísindanna. Ég leyfi mér að spyrja þig Geir; Hvernig í ósköpunum vilt þú að vísindamenn fjármagni rannsóknir sínar? Þessi út-tuggni frasi um að niðurstöður séu gefnar fyrirfram til að tryggja áframhaldandi styrkjaflæði eru gripinn úr lausu lofti án nokkurra gagna málinu til stuðnings. Af hverju gildir þetta um loftlagsvísindi frekar en önnur vísindi? Eða beinist gagnrýni þín að því að vísindaleg starfsemi á öllum sviðum sé ómarktæk af því að vísindamenn njóta opinberra styrkja. Reyndu að vera samkvæmur sjálfum þér. Það kann að vera að skoðanir þínar liggi ansi nálægt postmodernísku öfga-afstæðishyggjufólki sem hafnar allri vísindalegri þekkingu sem kúgunartæki!! Og af hverju eru loftlagsvísindi ekki hrein gagnrýnin vísindi meðan t.d. líf- eða læknavísindi gætu verið það? Bæði líf- og læknavísindi og loftlagsvísindi njóta mikilla opinberra vísindastyrkja. Sama gildir um rannsóknir fræðimanna á sviði hagfræði (m.a. fræðistörf manna eins og Milton Freidman og væntanlega einnig hagfræðingsins Arthur Laffer sem var nýlega hér í boði Hannesar Hólmsteins).

4) Bullið um að loftlagsvísindi hindri eistaklingsfrelsi eða séu sósíalismi í dulbúningi er að mínu mati hrein þvættingur. Ef að CO2 losun er ekki í samræmi við sjálfbæra þróun hér á jarðkringlunni þá hlýtur að mega  markaðsvæða þessa losun rétt eins og aðrar takmarkaðar auðlindir. Er kvótakerfið hér á Íslandi sósíalismi? Ég ætla að leyfa mér að efast um að Ragnar Árnason prófessor við HÍ sé sammála því?

Í lokin vil ég biðja þig að benda mér á hvaða vísindalegu ályktanir í skýrslum IPCC frá þessu ári þú ert ósammála og á hvaða rökum þær ályktanir þínar séu byggðar. Ég er orðinn þreyttur á þínum frösum um að IPCC séu einhver holdgervingur óvísindalegra vinnubragða.

Magnús Karl Magnússon, 18.11.2007 kl. 21:45

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Magnús,

Mér þykir orðið ljóst að þú ert jafnhrifinn af alheims-stjórnmálavæðingu alþjóðslegs orkumarkaðar og ég er andsnúinn. Þá það.

"The world is in much better shape than this doomsday scenario paints" sagði einn af höfundum IPCC-skýrslanna ("lead author of the IPCCs Third Assessment Repor" nánar tiltekið), og vonandi halda menn áfram að hafa kveikt á ísskápum sínum og tölvum og nota eldsneytisknúin ökutæki til sönnunar um að þeir trúi því (þótt þeir í orði kveðnu vilji meina að slík orkunotkun hafi áhrif á veðrið á morgun). Já, og hætti að berjast gegn því að afgangur mannkyns geti búið við sama lúxus.

Geir Ágústsson, 18.11.2007 kl. 22:37

6 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Þessi tilvitnun þín er í John Christy frá 2001 (6 ár síðan) og koma nýjustu skýrslu IPCC ekkert við. Þú heldur þig við sama heygarðshornið, blandar alltaf pólitík í málið og getur á engan hátt stutt röksemdir þínar við vísindalega gagnrýni. Né heldur reynir þú að svara mótrökum mínum.

Annars vegar snúast málin um hvort vísindaleg rök séu fyrir því að losun gróðurhúsalofttegunda sé vandamál og hins vegar þarf að finna pólitíska lausn ef að við teljum að um vandamál sé að ræða. Ég tel að um vandamál (raunar stórt vandamál) sé að ræða. Lausnin er ekki einföld og þykist ég ekki hafa neina patent lausn en ég er sannfærður um að það þarf í gerast í  samvinnu við markaðskerfið. Ég vil raunar benda þér á að franski hægri maðurinn Sarkozy var að gera einhverjar róttækustu tillögur um sem enn hafa litið dagsins ljós í þessum málum. Sem sagt það eru ekki bara vinstri sósíalistar sem telja þetta vera vandamál.

Magnús Karl Magnússon, 18.11.2007 kl. 22:54

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Rétt athugað hjá þér, núna virðast "allir" vera búnir að hoppa á bát vísindakirkjunnar og þá á að kalla stjórnmálamennina til til að "leysa vandamálið".

En eins og einn "expert reviewer" hjá IPCC segir, "It is rather awkward that leading figures within the IPCC milieu seem incapable of coping with the competition of ideas."

Svo frekar en að þú vísir mér frá því ég vil ekki að þú sigir ríkisvaldinu á hinn frjálsa markað í nafni vísinda þá áttu að fagna því að ég hægi á því ferli og neyði þig til að hugsa þig tvisvar um áður en þú tvöfaldar orkureikning minn og helmingar matarreikninginn.

Geir Ágústsson, 18.11.2007 kl. 23:09

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Þess má geta að Christy þessi hefur mjög nýlega endurnýjað (læst frumheimild) sömu fyrirvara sína við vinnubrögð IPCC frá 2001. Skoðanir hans hafa því ekki breyst mikið á árum þar sem IPCC hefur heldur ekki gert það!

Geir Ágústsson, 18.11.2007 kl. 23:17

9 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Geir,

Hvað hefur þú á móti vísindum og vísindalegri aðferðafræði? Af hverju segir  þú "að hoppa í bát vísindakirkjunnar"? Hvurs lags fordómar eru þetta í garð vísindalegrar aðferðafræði. Segðu okkur hver afstaða þín er í þessum málum.

Spurning númer 1.

Telur þú að magn sk. gróðurhúsalofttegunda hafi aukist í andrúmsloftinu frá iðnvæðingu?  

Spurning númer 2.

Ef að magn gróðurhúsalofttegunda hefur aukist, telur þú að sú aukning hafi eitthvað að gera með losun frá okkur mönnum?

Spurning númer 3.

Telur þú magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti hafi einhver áhrif á hitastig?

Spurning númer 4.

Telur þú að hitastig "glóbalt" hafi hækkað á  síðari hluta 20 aldar?

Spurning númer 5.

Telur þú að "maðurinn" hafi haft einhver áhrif á hugsanlega hækkun hitastigs á síðustu árum.

Spurning númer 6.

Telur þú að loftlagsvísindi séu vísindagrein ?

Spurning númer 7.

Ef að loftlagsvísindi eru vísindagrein, hvernig telur þú að stjórnmálamenn eigi að mynda sér upplýsta stefnu um hvort vísindaleg ástæða sé til að hafa áhyggjur af uppsöfnun gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti ("hint", eiga þeir að skipa nefnd vísindamann um málið eða hefur þú einhverjar aðrar góðar hugmyndir).

Spurning númer 8.

Ef að það er sameiginleg niðurstaða nefndar vísindamanna á sviði loftlagsvísinda að allmikil hætta sé á að uppsöfnun gróðurhúsaloftegunda valdi skaða fyrir komandi kynslóðir, eiga stjórnmálamenn að bregðast við með einhverjum hætti?

Mér finnst þú vaða út og suður. Þú vitnar í John Christy. Hann er í aðalatriðum sammála flestum niðurstöðum IPCC, en finnst stundum að það sé fulldjúpt í árinni tekið hjá þeim. Ert þú í aðalatriðum sammála þessari skoðun?

Björn Lomborg er sammála því að hitastig á síðari 20 aldar hafi aukist mikið og að maðurinn eigi þar vissulega mikinn þátt í því. Hann hefur aðra skoðun en flestir kollegar hans á því hvort það eigi að bregðast við. Ert þú í aðalatriðum sammála þessari skoðun?

Mér finnast öll skrif þín helgast af því að þú ert sammála ÖLLUM sem á einhvern hátt gagnrýna IPCC eða loftlagsvísindi en ég get með engu móti áttað mig á því hver skoðun þin er önnur en sú að vísindi sem hugsanlega hafa áhrif á óheftan vöxt hagkerfisins eru SLÆM vísindi.

Magnús Karl Magnússon, 19.11.2007 kl. 00:59

10 identicon

Ja, ræææææt....

Ef rökfærslan gegn loftslagsbreytingum er sú að um sé að ræða sósíalisma í dulargerfi segir það meira um þann sem staðhæfir það en hina.  Miðað við að öll helstu rökin gegn þessum breytingum eru á þann hátt að eldfjöll spúi meiru (rangt) eða að þetta snúist um rannsóknastyrki (rugl) þá er nokkuð ljóst að andmælendur séu að mótmæla af pólitískum ástæðum en ekki upplýstum.

Það eitt að maður geti fyrirfram giskað á hvar fólk stendur gagnvart gróðurhúsaáhrifum út frá pólitískum skoðunum þess segir allt sem segja þarf; að það leiti einungis að gögnum sem styrkja skoðun þess en hunsi allt annað sem mælir gegn henni.  Að ásaka vísindamenn, sem hafa mun meiri hagsmuna að gæta í eigin mannorði en pólitískri hollustu, um slíkt hið sama er smánarlegt og ber vott um rökskort.

HP (IP-tala skráð) 19.11.2007 kl. 13:57

11 Smámynd: Ívar Pálsson

Hver sá sem les allar síðustu skýrslur IPCC sér þær hafa þróast þannig að andmælendur innan raða þess fjarlægjast hópinn eða að varnaðarorð þeirra fara í smáa letrið og falla síðan út í næstu útgáfu. Þar er tvennt sem vekur athygli: IPCC er sammála um að jafnvægi verði ekki náð nema á amk. 100-150 árum (upp í 1000 ár) og að yfirborð sjávar mun hækka næstu aldir, nær óháð aðgerðum. Samt er þessum farsa haldið áfram, að telja fólki trú um að aðgerðir þeirra breyti einhverju, sérstaklega á Íslandi sem er með núllprósent af engu í þessu samhengi.

Ívar Pálsson, 19.11.2007 kl. 19:52

12 Smámynd: Magnús Karl Magnússon

Ívar:

Annað hvort hefur þé ekki lesið skýrslurnar eða ekki skilið þær. Það er næsta augljóst að við lestur þeirra þá hafa ályktanir skýrst VEGNA AUKINNA GAGNA. Flest vafaatriði hafa minnkað,óvissa minnkað en það sem helst hefur mátt gagnrýna er að menn hafa verið fullvarkárir í fyrri spám sínum. Sem sagt það bendir frekar til þess að hraði breytinganna sé meiri enn menn ætluðu. Þegar talað er um jafnvægi eftir tugi eða hundruði ára þá er það að sjálfsögðu ekki jafnvægi óháð því sem gert er. Ef að ekkert verður gert þá verður ekkert jafnvægi á næstunni. Ef að mikið verður dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda þá mun vonandi nást jafnvægi áður en illa er farið. En þú hlýtur að átta þig á því að gróðurhúsalofttegundir hafa langan helmingunartíma í andrúmslofti. Heldur þú að hækkun yfirborðs sjávar muni halda áfram að hækka óháð aðgerðum eða ert þú þarna að mistúlka það sem í skýrslunni segir. Auðvitað telja menn að hækkun muni halda áfram þrátt fyrir að mikið verði gert en með samstilltu átaki má vonandi draga úr hraða hækkunarinnar og vonandi muni jafnvægi nást áður en í óefni er komið. Ég vona að þú skiljir svona grundvallaratriði.

Þegar þú talar um farsa - hvað er það nákvæmlega í niðurstöðum IPCC sem kalla má farsa. Eru einhverjar vísindalegar ályktanir sem þú telur að séu rangt dregnar? Hvaða niðurstöður eru það og hvers vegna? Skýrslurnar eru vandaðar, fullar af tilvísunum í frumheimildir og almennt studdar af vísindasamfélaginu. Mér þætti vænt um að fá útskýringar hjá þér hvaða ályktanir falla undir skilgreiningu þína á farsa.

Nú hefur nýlega skollið á Bangladesh hræðilegur harmleikur. Sá fellibylur (cyclone) er væntanlega ekki beint tilkominn vegna gróðurhúsaáhrifa en skv. spám vísindamanna muni slíkir harmleikir verða mun algengari þegar líður á öldina. Hvers vegna? Jú annars vegar mun yfirborð sjávar að hækka og fyrir láglent land eins og Bangladesh þýðir það mun verri flóð í tengslum við óveður. Hins vegar telja flest módel að tíðni slíkra óveðra muni aukast. Er ekki ástæða til að hugsa sinn gang? Er ekki ástæða til að við látum íbúa þessara og annarra svæða sem munu gjalda þessara veðurfarsbreytinga njóta vafans?

Magnús Karl Magnússon, 19.11.2007 kl. 20:43

13 Smámynd: Ívar Pálsson

Magnús Karl, ég tel mig skilja þessar skýrslur alveg eins vel og þú. Gögn IPCC aukast og sýna það sem þeim er ætlað, t.d. með þeirri aðferð að fella burt tugþúsundir gagnahópa af því að engin loftslagsbreyting átti sér stað á tímabilinu: 

Working Group II Contribution to the IPCC. Fourth Assessment Report Climate Change 2007: Climate Change Impacts, Adaptation and Vulnerability. Summary for Policymakers

Page 3: 7   A subset of about 29,000 data series was selected from about 80,000 data series from 577 studies. These met the following criteria: (1) Ending in 1990 or later; (2) spanning a period of at least 20 years; and (3) showing a significant change in either direction, as assessed in individual studies.

En ég er samt farinn að gefa mér að leifarnar af IPCC hópnum hafi rétt fyrir sér um að hlýnunin sé að aukast einungis til þess að við getum farið að eiga við aðalmálin eins og þau eru orðin, áfellisdómana á heilu þjóðirnar og aðgerðir sem hver þjóð krefst af annarri. Þar hefst umræddur farsi fyrir alvöru. IPCC staðfestir að harðar aðgerðir kæla ekki loftslag á jörðinni til fyrra horfs í áratugi eða jafnvel árhundruð, því að fyrst þyrfti að ráðast á aukninguna sem er margföld á við aðgerðirnar og verður ekki stöðvuð, enda mesti hagvöxtur í heimi þar. Hækkun sjávarmáls verður ekki færð til fyrra horfs í 1000 ár. Þetta er ekki rangtúlkun, heldur beint úr skýrslunum.

Fólki er bent á ísbirni sem veiðar hafa mest áhrif á, en aðgerðir í loftslagsmálum færa þeim ekki norðurpólinn, sem mun bráðna, ekki samkvæmt mér, heldur IPCC. Fólk verður að hlusta á restina af þessum IPCC hagsmunahópum, allt sem þau komast að og horfast í augu við það að aðgerðirnar breyta engu. Strönd Bangla Desh fór oft á kaf í æsku minni og á eftir að fara á bólakaf síðar. Sá sem byggir á sandi á óshólmum (einnig sbr. New Orleans) þarf einfaldlega að flytjast í burtu. Norður Afríka var eitt sinn gróðursæl, en er skrælnandi. Við breytum þessu ekki eða getum boðið þeim í lífeyriskerfið okkar. Notum milljarðana í að borga skuldir sjúkrahúsanna okkar.

Ívar Pálsson, 19.11.2007 kl. 22:09

14 Smámynd: Geir Ágústsson

Þeir sem ætla sér að mæla það sem beinlínis má kalla SUÐ (hitastigsbreytingar á milli áratuga) mega vitaskuld gera þeð, en ættu að beina öðrum aðferðum til að hræða mig frá því að Grænland verði aftur landbúnaðarvænt, Vatnajökull hörfi niður í landsnámsaldarstærð sína og vínviður þrífist aftur í Norður-Englandi.

Geir Ágústsson, 20.11.2007 kl. 20:07

15 Smámynd: Geir Ágústsson

Magnús,

Ég lít ekki á Björn Lomborg sem hinn alvitra gúrú, og er ósammála honum um margt. Þó ekki í því að í stað þess að eyða púðrinu í vofuleit þá beri að einbeita sér að vandamálum sem drepa og kvelja núna, í dag, milljónir manna, sem umfram margt annað þjást af orkuskorti (þótt ekki væri nema til annars en kæla og varðveita matinn sinn). Hvort vatnsyfirborð hækkar eða lækkar er svo bara spurning um að flytja ísskápinn sinn á hærra land, í stað þess eins að flytja hungrið þangað.

Geir Ágústsson, 20.11.2007 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband