Föstudagur, 19. október 2007
Hannes klikkar ekki! Og nei, CO2 er ekki óvinur þinn
Barátta Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar við sósíalisma nútímans - loftslagsbreytingar af mannavöldum - er aðdáunarverð. Annað get ég varla sagt.
Nýjasta grein hans, Óþægileg ósannindi, ber þess til dæmis skýrt merki að Hannes stendur vaktina þegar vinstrimennirnir hrópa á aukin ríkisafskipti í nafni heimsendaspádóma (sögulega vel þekkt þema sem sífellt finnur nýjar leiðir til að nútímavæða sig).
Hvað svo sem framtíðin ber í skauti sér (hita, kulda, rigningu, rok eða allt í bland) þá er eitt alveg á kristaltæru: Þeim mun ríkari sem mannkynið er, og þeim mun betur tækjum og tækni búið, því auðveldara mun því reynast að takast á við hvaða þær breytingar á náttúru og loftslagi sem munu eiga sér stað, með eða án mannlegra athafna.
Gefum okkur til dæmis að nútímaleg tölvumódel spái því rétt að margtrilljarða skerðing á auðsköpun mannkyns og gríðarlegt magn reglugerða og takmarkana á brennslu jarðefnaeldsneytis muni valda því að hitastig er einni gráðu lægra eftir 50 ár en ef ekki væri fyrir margtrilljarða sóunina, reglugerðirnar og haftirnar. Er eitthvað "tryggt" með því? Hvað ef sólblettum fjölgar, gammageislun frá útgeiminum vex, skýjafar breytist, eldgos brjótast út og jarðflekarnir fara af stað á fullum krafti? Er þá ekki allt fyrir bí? Hvað nú ef hin reglulega ísöld rifjar upp að það er komið að sér fyrir löngu og skellur á?
Vinstrimenn vilja kenna kapítalistunum um ýmislegt (og nota gjarnan nútímalegar og hóflega verðlagðar tölvur sínar og hraða nettengingu til þess). Þeir geta samt ekki kallast annað en mannhatarar þegar þeir vilja fórna orkufrekri auðsköpun mannkyns á altari EINSKIS. Þeir vilja stækka ríkisvaldið en fjandinn ef ég ætla að leyfa þeim að gera það bakdyramegin og í nafni "umhverfis" og "loftslags" án mótmæla!
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þegar helsti baráttumaður frjálshyggjunnar og prófessor í stjórnmálafræðum tjáir sig um loftslagsþróun þá er það hinn eini sannleikur. Þá skipta áratuga rannsóknir vísindamanna og vísindastofnana engu máli.
Hvenær skiljið þið frjálshyggjumenn að þið eruð löngu búnir að mála ykkur út í horn með heimskunni?
Heimskunnar vegna er þó ekki líklegt að þið munið skilja.
Það er í svona umræðum sem það er beinlínis skylt að tala um heimskingja.
Árni Gunnarsson, 19.10.2007 kl. 18:14
Vísindamenn deila um þetta eins og annað. Hitastig, vindhraði, rakastig og annað breytist í sífellu og menn eru hvergi nærri á einu máli um hvað stjórnar hverju og í hversu miklum mæli. Gleymdu því ekki að Hannes í grein sinni gerir lítið annað en að endurtaka það sem breskur dómur sagði um svokallaða heimildarmynd Al Gore.
Vinsamlegast rökstyddu mál þitt eða tjáðu þig á öðrum vettvangi.
Geir Ágústsson, 19.10.2007 kl. 20:28
Merkilegt þetta með ríkisvaldið og umsvif hins "opinbera". Aldrei blæs það jafn mikið út en einmitt þegar djélistinn er við völd, þá fitnar það einsog púkinn á fjósbitanum og tekur sífellt meira til sín, sem hlutfall af þjóðarframleiðslu. Varðandi þessa deilu um loftslagsbreytingarnar þá held ég að við eigum að láta loftslagið og lífið á jörðinni njóta vafans. Svo vil ég segja um þessa deilu, að það tók langan tíma að fá alla til fallast á að jörðin væri ekki flöt. Reyndar munu þeir enn til sem trúa því. Svo má ekki gleyma því að það er fínn bisniss í þessu loftslagsmáli. Sjáðu til dæmis þetta Kolviðardæmi. Það er hægt að velta miklum fjármunum í kolefnisjöfnun, kvótaviðskipti og svo framvegis. Það er það sem kapítalisminn snýst um ekki satt, að velta sem mestum fjármunum fram og til baka og hirða virðisaukann, þ.e. hagnaðinn! Sem sagt gott fyrir kapítalismann!
Auðun Gíslason, 19.10.2007 kl. 21:30
það er fátt hættulegra fyrir kapítalismann en einmitt samvinna fyrirtækja og ríkisvalds um þvingaðan tilflutning á fé úr vösum fólks og í vasa fyrirtækja, t.d. í nafni "atvinnumála", "umhverfis" eða hvað það nú er sem er heita málið hverju sinni.
Ég legg til að mannleg velferð fái að njóta vafans, og framtíðar-völvuspár um hitastig lofthjúpsins fái ekki að njóta vafans.
Geir Ágústsson, 20.10.2007 kl. 00:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.