Fleiri 'félagsleg undirboð' takk!

"Stjórn AFLs lýsti einnig fullum stuðningi við yfirlýsingar formanns félagsins og framkvæmdastjóra síðustu daga og jafnframt að verði ekki gripið tafarlaust til harðra aðgerða í vinnustaðaeftirliti af hálfu Vinnumálastofnunar muni félagið grípa til allra þeirra aðferða sem það telji skila árangri til að berjast gegn félagslegum undirboðum."

Athyglisvert hugtak - "félagsleg undirboð". Hvað þýðir það? Að Pólverji taki að sér starf á Íslandi og þiggi fyrir það mun lægri laun og vinni við verri kjör en Íslendingurinn gæti hugsað sér að sætta sig við? Ef svo er þá eru félagsleg undirboð eitthvað sem Íslendingar ættu að líta mjög jákvæðum augum á. Fyrir því eru nokkrar ástæður:

  • Atvinnuástand á Íslandi er mjög gott núna og nóg af störfum sem þarf að vinna en eru e.t.v. óunnin því það vantar mannskap eða það er of dýrt að laða að sér aðgengilegan mannskap sem krefst sífellt hærri launa og betri vinnuaðstæðna.
  • Félagsleg undirboð þýða að verkefni má leysa fyrir minna fé en ella - fé sem í staðinn leitar e.t.v. í arðbærari fjárfestingar annars staðar og verður þannig með til að byggja upp framtíðarstörf á Íslandi sem borga enn betur en þau sem standa til boða í dag, t.d. fyrir iðnaðarmenn.
  • Mikil starfsmannavelta útlendinga á Íslandi getur ekki annað en gagnast Íslandi í framtíðinni, t.d. þegar fátækar kynslóðir í Póllandi eru orðnar ríkar og byrjaðar að fjárfesta sjálfar.
  • Það að reyna stöðva hin félagslegu undirboð er slæm hagfræði hvernig sem á það er litið og fullkomlega sambærileg verðstýringum á mjólk og gallabuxum. Háu verði á vinnuafli er viðhaldið með þvingunum og hótunum og neytendum (kaupendum iðnaðarmannavinnu) því gert að skerða lífskjör sín til að þóknast hagsmunum verkalýðsforkólfa (eða láta verkið falla niður dautt).

Seinasti punkturinn er uppáhaldið mitt en hinir eru jafngóðir fyrir það. Fleiri félagsleg undirboð takk!


mbl.is AFL segist munu grípa til aðgerða bregðist Vinnumálastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Ragnarsson

Það er stutt bilið milli nýfrjálshyggju og fasisma, ef það er þá eitthvert.

Jóhannes Ragnarsson, 10.9.2007 kl. 15:44

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég fer að taka þessar furðulegu athugasemdir sem persónulegri stríðni. Nefni það nú samt enn einu sinni að lágmarksríkis-frjáls-markaður-stefnan og alræði ráðstjórnarríkjanna eru nokkurn veginn eins fjarlægir pólar og hægt er að hugsa sér.

Geir Ágústsson, 10.9.2007 kl. 15:55

3 Smámynd: Fríða Eyland

Þessi illa meðferð á erlenda vinnuaflinu er mannsal, bara spurning hvernig má beita mannsali það eru jú mörg afbrigðin.

Það er svo ógeðsleg peningalyktin af þessu að manni sundlar, hugsa um ömurleg örlög pólverjans fótalausa.

Þá er stóra spurningin má þetta þá bara?

Merkilegt hvað má og hvað ekki, fyrir hvaða sakir menn missa æruna og hvað ekki.

Þetta er okkur til skammar sem þjóðar.. ég vil sjá hart tekið á svona aumingjaskap

Fríða Eyland, 10.9.2007 kl. 16:01

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Veistu það Geir, ég er bara alveg sammála þér núna. Ég legg til að Pólverjar og Filippseyingar verði ráðnir sem forstjórar og bankastjórar hér á landi í öllum stærstu fyrirtækjunum.

Það væri hægt að lækka launin þeirra umtalsvert, segjum að þeir fengju ekki nema 20 milljónir í árslaun í stað 200 milljóna. Það gæti líka orðið til að lækka okurvextina. Íslenska (eða þá pólska) útrásin myndi tvíeflast.

Æ smá vandamál, það þyrfti kannski að kenna þeim íslensku. Og kannski ekki, gera bankastjórarnir og forstjórarnir eitthvað annað en að sitja inni á skrifstofu?

Theódór Norðkvist, 10.9.2007 kl. 16:03

5 Smámynd: Geir Ágústsson

Það er naumast það eru margir tilbúnir að stía Pólaverjanum og atvinnuveitandanum í sundur og segja Pólverjanum að hann eigi að gera eitthvað annað annars staðar og láta það eiga sig að semja um kaup og kjör á Íslandi, eða banna honum að semja um eitthvað annað en Íslendingum finnst vera sér samboðið (og vera þannig ólíklegur til að fá starfið).

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að Pólverjinn kann lítið að meta góðmennsku og sjálfsupphafningu sem heldur honum atvinnulausum. Ef ykkur finnst hann vera semja um léleg kaup og kjör þá er ykkur velkomið að millifæra á reikning hans án þess að byrja á að gera hann atvinnulausan.

Geir Ágústsson, 10.9.2007 kl. 16:09

6 Smámynd: Fríða Eyland

Hvað finnst þér ekkert athugavert að greiða ekki tryggingar og launatengd gjöld. 

Ég hélt að  það væru fyrirmæli  í lögum um þessi efni fyrir atvinnuveitendur og þeir bæru nokkrar skyldur til starfsfólks

Ætli það sé gott að vera í sporum pólverjans sem missti báðar fætur eða hvað heldur þú Geir ? 

Annars sagði Jón Ragnarsson allt sem þarf, .............

Fríða Eyland, 10.9.2007 kl. 16:46

7 Smámynd: Fríða Eyland

Á auðvitað að vera Jóhannes Ragnarsson, sem sagði réttilega "Það er stutt bilið milli nýfrjálshyggju og fasisma, ef það er þá eitthvert."

Fríða Eyland, 10.9.2007 kl. 17:28

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Hérna er fólk að rugla saman eplum og appelsínum. Þeir sem brjóta lögin eru auðvitað lögbrjótar og ef lögreglan er ekki of upptekin við að hella niður áfengi utandyra og drepa í sígarettum inn á veitingastöðum á hún að sjálfsögðu að framfylgja lögunum.

Hitt er annað mál að ef Pólverji - innan gildandi lagaramma (eða utan þeirra ef hann vill taka sénsinn) - semur um ákveðin kaup og kjör, "undirbýður" sig miðað við ríkjandi verðlag íslenskra starfsmanna, þá er það bara allt í góðu lagi! Okkar persónulega álit á 100 kr tímakaupi er hvorki meira né minna en það - persónulegt álit!

Þið sem reynið að klífa upp á altari góðmennskunnar með því að blanda saman lögbrotum og þeim gríðarmikilvæga rétti að mega sjálfur semja um kaup sín og kjör ættu að reyna annars staðar.

Þið sem skiljið ekki muninn á frjálsum markaði og fasisma skiljið væntanlega ekki muninn á frjálsum samningum og löglegri þvingun. Þið um það.

Geir Ágústsson, 10.9.2007 kl. 17:59

9 Smámynd: Fríða Eyland

Afsakaðu meðan ég æli

Fríða Eyland, 10.9.2007 kl. 18:23

10 Smámynd: Fríða Eyland

Fríða Eyland, 10.9.2007 kl. 18:23

11 Smámynd: Ívar Pálsson

Ég er sammála færslu þinn Geir. Raunar sé ég ekki hvernig er hægt að vera ósammála, nema ef vera skyldi af tilfinningasemi eða fylgjandi hagfræði- útópíu einokunarsinnans þar sem ekki er tekið tillit til framboðs á ódýrara vinnuafli annars staðar frá, heldur spennt upp umframeftirspurn sem gerir það lífsins ómögulegt að ná í iðnaðarmann sem skilar verki á tíma og á hóflegu verði. Sem betur fer náðist í hóp Pólverja sem smíðuðu pall fyrir félaga minn, skiluðu góðu verki nákvæmlega á umsömdum degi og á umsömdu verði. Þvílíkur munur!

Ívar Pálsson, 10.9.2007 kl. 18:34

12 identicon

Eitt smá innlegg í þetta: fram að þessu hefur kjarasamningur milli samtaka atvinnurekanda og samtaka launþega verið túlkaður sem lög sem eru að vísu breytileg án aðkomu Alþingis en byggjast engu að síður á lögum um skipan mála á vinnumarkaði.

Þannig að það að greiða undir þeim lágmörkum sem þar koma fram er lögbrot og þess vegna er þetta má lögreglu og dómstóla.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 10.9.2007 kl. 19:32

13 Smámynd: Geir Ágústsson

Ívar, ég held að það sé nákvæmlega þessi hagfræði- útópía einokunarsinnans sem sé að verki hér, á fullum krafti!

Magnús, ég ætla rétt að vona að það þótt Palli smiður sé meðlimur í verkalýðsfélagi þýði ekki að Siggi smiður - ekki meðlimur - megi ekki semja um önnur kaup og kjör! Stendur ekki eitthvað í stjórnarskránni sem virðir samningsfrelsi Sigga smiðs? 

Geir Ágústsson, 10.9.2007 kl. 19:50

14 Smámynd: Sigurður Karl Lúðvíksson

Einhver að halda um ennið á fr. Eyland og þrífa svo upp æluna. Svo má kannski kenna henni nokkra vinsæla slagara í hagfræði meðan hún er að jafna sig á sannleikanum.

Sigurður Karl Lúðvíksson, 10.9.2007 kl. 19:56

15 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ívar, má ég spyrja hvort þessir Pólverjar sem smíðuðu pallinn fyrir félaga þinn voru löggiltir smiðir? Ef ekki, hvað ætlar þá félagi þinn að gera ef pallurinn hrynur næsta sumar, t.d. ef timbrið var fúið, eða gleymdist að negla eða skrúfa á réttum stöðum?

Þeir sem ráða réttindalausa iðnaðarmenn til starfa hafa ekkert í höndunum ef illa fer. Þannig getur það orðið miklu dýrari lausn að ráða fúskara og borga minna fyrir, heldur en að ráða mann með réttindi, sem er skaðabótaskyldur samkvæmt lögum.

Theódór Norðkvist, 10.9.2007 kl. 21:28

16 Smámynd: Geir Ágústsson

Theódór, hvað hefur þú á móti því að það sé einfaldlega undir hverjum og einum komið hvað mikinn kostnað á að leggja í vegna einhvers konar trygginga? Hvað ef ég ákveð til dæmis að kaupa timbrið sjálfur, ráða fúskara, setja sem skilyrði fyrir verklokum að Siggi frændi samþykki verkið, og taki svo áhættuna? Nú eða bara að loka augunum og vona að pallurinn haldi?

Eða er ÞINN smekkur á öllu þessu orðinn að einhvers konar allsherjarviðmiði sem þar að auki á að binda í lög? 

Geir Ágústsson, 10.9.2007 kl. 21:41

17 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þetta eru ómerkilegir útúrsnúningar og þú veist það, Geir. Mín vegna máttu ráða mann sem getur ekki neglt einn nagla í eina spýtu skammlaust til að smíða fyrir þig pall, en þá tekurðu afleiðingunum sjálfur.

Ég er einfaldlega að benda á að það eru lög um skaðabótaskyldu í landinu hjá faglærðum iðnaðarmönnum. Ég sé á heimasíðu þinni að þú ert verkfræðingur. Myndirðu vera ánægður með það að ég, sem hef engin slík réttindi, tæki að mér að hanna brú og þú myndir missa af verkinu, af því að ég gæti boðið mun lægra í verkið, þar sem ég er ekki löggiltur og ræð síðan bara fúskara til að klára málið?

Svona lög eru til að vernda faglærðar stéttir og kaupendur þjónustunnar, ekki til að svipta fólk frelsi. Má kannski ekki vernda þegna landsins fyrir neinu af því að allir eiga að vera frjálsir og bera ábyrgð gjörða sinna? Eigum við þá ekki að leggja niður sjúkrahús, taka niður vegrið á þjóðvegum landsins, leggja niður björgunarsveitir og almannavarnir?

Theódór Norðkvist, 10.9.2007 kl. 21:59

18 Smámynd: Geir Ágústsson

Spurning: Myndirðu vera ánægður með það að ég, sem hef engin slík réttindi, tæki að mér að hanna brú og þú myndir missa af verkinu, af því að ég gæti boðið mun lægra í verkið, þar sem ég er ekki löggiltur og ræð síðan bara fúskara til að klára málið?

Svar: Ég yrði sennilega súr að missa af verkinu, vitandi vits að fyrir hærra verð hefði ég geta boðið upp á betri tryggingu fyrir verkinu, en þar við situr.

Geir Ágústsson, 10.9.2007 kl. 22:05

19 Smámynd: Geir Ágústsson

Spurning: Má kannski ekki vernda þegna landsins fyrir neinu af því að allir eiga að vera frjálsir og bera ábyrgð gjörða sinna? Eigum við þá ekki að leggja niður sjúkrahús, taka niður vegrið á þjóðvegum landsins, leggja niður björgunarsveitir og almannavarnir?

Svar: Þeir sem kaupa þjónustu eða varning, vitandi vits (þökk sé t.d. bloggurum eins og þér) hvaða áhættur eru fólgnar í lægra verði, geta gert það sem þeir vilja. Það þýðir ekkert endilega að ég mundi taka sömu ákvarðanir, en það er bara þannig. 

Geir Ágústsson, 10.9.2007 kl. 22:07

20 Smámynd: Þórbergur Torfason

Geir mér sýnist þú ekki átta þig á einu einasta sannleikskorni í þessum leik. Í fyrsta lagi eru þessir menn upphaflega ráðnir í sínu heimalandi af umboðsaðila sem kölluð er starfsmannaleiga (útleggst þrælasala). Í öðru lagi tekur þrælasalan mjög stóran hlut af greiddum launum sem umboðsþóknun. Í þriðja lagi eru sjálfsögð mannréttindi þessara farandþræla oft á tíðum þverbrotin eins og margoft hefur komið fram í fréttum. Í fjórða lagi erum við með heilu eftirlitsstofnanirnar sem eiga að fylgjast með að ekki séu brotnir gildandi kjarasamningar eða almenn mannréttindi á þessum farandþrælum, stofnanir sem eru reknar fyrir skattgreiðslur frá mér og þér. Í fimmta og síðasta lagi, nú er svo komið að það er meira að segja búið að stinga upp í viðkomandi stéttarfélög sem þó ættu helst að hafa um allan þennan gjörning að segja. Hvernig stendur á því að Vinnumálastofnun er starfrækt? Ef þitt sjónarmið réði, væri hún ekki til. Gott og vel einu framsóknarafdrepinu færra. Hvernig stendur á því að stéttarfélögin hafa ekkert um málið að segja? Varla eru eintómir aflóga framsóknarmenn þar í forsvari. Nei mér segir svo hugur að á þessum tímapunkti sé búið að stilla verkalýðshreifingunni upp að vegg í þessu máli vegna komandi kjarasamninga. Þeim er sagt að halda að sér höndum annars verði erfiður vetur framundan í kjarasamningum.

Þórbergur Torfason, 10.9.2007 kl. 22:13

21 Smámynd: Geir Ágústsson

Ég sé bara ekki hvernig Villi verkalýðsforkólfur á að hafa eitthvað með að segja að Palli Pólverji ráði sig til vinnu (sem er væntanlega besti kostur hans á þeim tíma) og taki að sér verk sem Ívar Íslendingur greiðir umsamið verð fyrir. Gott og vel verður Villi verkalýðsforkólfur óvinsæll meðal skjólstæðinga sinna, en allir aðrir eru ánægðari ef viðskiptin eru ekki stöðvuð af íslenskri lögreglu.

Vinnueftirlitið er framlenging á laganna armi og sér um að framfylgja lögum. Til lögbrota er ég ekki að hvetja þótt mér finnist ekki öll lög jafngóð. Ekki er heldur víst að öll lög séu nauðsynleg - og vinnueftirlitslög eru það fyrsta sem dettur út þegar frjálsum markaði er leyft að keppa um vinnuafl í harðri samkeppni um kaup og kjör og verð og verklag.

Geir Ágústsson, 10.9.2007 kl. 22:21

22 Smámynd: Theódór Norðkvist

Geir, því miður vita ekki allir hvaða áhættur eru fólgnar í lægra verði (allavega ekki þeir ráðamenn sem samþykktu tilboð Impregilo, sem þó voru margvaraðir við því að það yrði ekki hægt að standa við það án þess að svindla á lögum um réttindi verkamanna.)

Ekki er leyfilegt að starfa sem læknir án þess að hafa réttindi, viltu kannski að slátrarar hjá SS geti starfað við uppskurði á fólki? Það er til eitthvað sem heitir fagréttindi.

Ég verð að taka undir með Þórbergi að Vinnumálstofnun er nánast leppur gróðahyggjuaflanna í landinu og verkalýðsfélögin eru máttlaus. Það væri réttast að stinga þessum mönnum í fangelsi sem eru búnir að brjóta réttindi ítrekað á verkamönnum, aðallega erlendum.

Theódór Norðkvist, 10.9.2007 kl. 22:32

23 identicon

Samkvæt áðurnefndum lögum um skipan mála á vinnumarkaði hefur félagsaðild ekki neitt með kjarasamninga að gera. Þeir eru lágmarksviðmið. Öllum er svo frjálst að gera betur en ekki er heimilt að gera ver.

Það er ekki hægt að skjóta sér undan kjarasamningum mað því að vera ófélagsbundinn. Þetta á bæði við við atvinnurekendur og launþega. Eina leiðin til að gera slíkt er með verktöku en á kemur aftur til það sem kallast Reiknað endurgjald og er það skattalega viðmið sem RSK setur til greiðslu lágmarks tekjuskattar af launum. Menn geta þó alltaf greitt hærri skatt % en ættlast er til af greiddum launum, en á ekki von á að nokkur geri það. 

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 06:35

24 Smámynd: Ívar Pálsson

Theódór, félaga mínum var sama hvort smiðirnir voru löggiltir (í Póllandi eða á Íslandi) eða ekki. Verk þeirra og frágangur annars staðar sýndu að hér voru fagmenn að verki. Efnið var úr Húsasmiðjunni. Fylgst var með framgangi verksins og það tekið út með sæmd í lokin. Æ fleiri vilja það sama þegar þau sjá þennan frágang og hátt allan.

Íslenskir iðnaðarmenn eru þeir bestu þegar þeir: 1) mæta á staðinn á tíma 2) lofa ekki upp í ermina á sér, á marga staði í einu 3) bjóða sanngjarnt verð og standa við það 4) ganga frá og skila á réttum tíma. Ástæðan fyrir vinsældum Pólverjanna eru tíð brot á m.a. ofangreindum liðum. Öll landsins stimpil- og handstýringarbatterí pína fólk ekki endalaust til þess að liggja undir þeirri áþján að vera t.d. með heimili sitt í gíslingu íslensks iðnaðarmanns vikum og mánuðum saman. Svo þegar raunveruleikinn bankar á dyrnar, alvöru samkeppni á sanngjörnu verði, þökk sé EES atvinnufrelsi, þá á að stöðva „ósómann“ með úreltum haftabatteríum. Nei takk, lifi frjáls samkeppni! Annars verður þá flest hvort eð er búið til í einingum á láglaunasvæðum heimsins og smellt upp hér í samkeppnisleysinu.

Ívar Pálsson, 11.9.2007 kl. 11:15

25 Smámynd: Theódór Norðkvist

Félagi þinn hefur verið heppinn með iðnaðarmenn og haft vit á að kanna orðspor þeirra. Það er nauðsynlegt að gera. Kannski ég fái heimilisfang þeirra þegar ég er orðinn ríkur og get smíðað mér pall!

Hinn fullkomni íslenski iðnaðarmaður svindlar ekki, slórar ekki, mistekst ekki og finnst ekki!

Theódór Norðkvist, 11.9.2007 kl. 12:04

26 identicon

Ívar, hvað er sanngjarnt verð fyrir iðnaðarmann? Og hvað er sanngjarnt fyrir aðra það er spurningin.

Ef trésmiður er með 4000 kr.- útselt án VSK þá er dæmið ca. svona: Af þessum 4000 krónum fer um 30% í rekstur á fyrirtækinu s.s. bíl, verkfæri, endurskoðun, tryggingar o.s.fv. þá standa eftir 3077 kr.- Um 60% fara af því í launagjöld, veikindadaga, orlof, tryggingar, tryggingagjald o.s.fv. þá er eftir 1923 kr.- sem eru laun iðnaðarmannsins sem jafnaðarkaup fyrir alla unna tíma. Þetta er ekki svo mikið meira en góður stafsmaður í fatabúð lætur bjóða sér sem jafnaðarkaup fyrir 9-10 klst líkamlega vinnu að deginum og svo er ekki óeðlilegt að það komi um 1-2 klst heimavið í pappírsvinnu o.s.fv á hverjum degi.

Allt þetta gerir um 360.000 kr.- á mánuði fyrir atvinnurekandann / smiðinn. Ég verð að segja að mér finnst þetta ekki mjög hátt kaup. Þannig að sanngjarnt verð, hvað er það?

Ósóminn sem allir iðnaðarmenn standa frammi fyrir er að það vilja allir hlutina strax og viðkvæðið er að ef þú kemur ekki strax þá er það bara einhver annar og það er með öllu vonlaust að skipuleggja sig að einhverju viti á þessum markaði sem ég kalla "bögg markaðinn" en það er markaðurinn þar sem verið er að vinna fyrir einstæklinga sem nánast allir hafa óraunhæfar hugmyndir um verklegar framkvæmdir.

En það er ekki neitt mál að lækka verðið með því að ráða Pólverja á svörum launakjörum, enda skýn það í gegn að svo hafi verið í þessu tilfelli.

Magnús Orri Einarsson (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 12:40

27 Smámynd: Ívar Pálsson

Theódór, góð lýsing á íslenskum iðnaðarmanni!

Magnús Orri, er sanngjarnt ekki bara það sem þú ert tilbúinn til að greiða og hinn aðilinn að samþykkja, ef engin misneyting eða þvingun er í gangi? Ég get alveg tekið undir varðandi útreikninga þína, sem sjálfstæður atvinnurekandi í 20 ár að svona tölur eru enginn draumur í dós. En krafan um aukna samkeppni og lægri kostnað er stöðug og eðlileg. Verkalýðsfélög verða að þróast með samfélaginu eins og það sjálft. Svo er alltaf erfitt að fá fólk til þess að vinna á „bögg- markaðnum“ eins og þú nefndir.

Ég get róað þig með því að okkur fannst félagi minn samþykkja furðu hátt tilboð í umrætt verk. Annaðhvort voru Pólverjarnir fljótir að læra, eða að íslenski smiðurinn sem stýrði verkinu er góður í rjómafleytingu, þar sem þeir fá undanrennuna. 

Ívar Pálsson, 11.9.2007 kl. 13:45

28 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ef Pólverjar eða aðrir útlendingar sem hér vinna eru hér aðeins í stuttan tíma, þá eiga þeir sjálfsagt auðvelt með að selja sig ódýrt, ef þeir ætla að taka peninginn með sér heim. Af þeirri ástæðu er samkeppnisaðstaða þeirra gagnvart Íslendingum ósanngjörn.

Ég tek hinsvegar undir það sjónarmið að það þarf að taka á okursamfélaginu. Okur gegnsýrir allt þjóðfélagið, bæði sala á þjónustu og vörum. En ég held að félagsleg undirboð séu ranga leiðin. Það þurfa að vera lágmarkslaun, annars myndast bara þrælamarkaður í landinu. Það vita allir að lágmarkslaun í flestum starfsstéttum eru ekki nema til að hlæja að þeim.

Ef verktaki getur boðið lægra með því að draga úr kostnaði og stilla launakröfum í hóf, en virðir samt lágmarkslaun, þá er ekki nema gott um það að segja.

Theódór Norðkvist, 11.9.2007 kl. 14:20

29 Smámynd: Geir Ágústsson

Ef félagi Ívars gat fengið verk vel unnið á lægra verði en gengur og gerist þá er það bara hið besta mál - og ef verktakinn var til í þetta þá er það bara hið besta mál - og ef allt fór fram án þess að nokkur einasti aðili grúskaði í laun og kostnaðartölur hins þá er það bara hið besta mál.

Og er Theódór vill borga hátt verð fyrir eitthvað til að sofa betur á næturnar, þá er það hans mál og sennilega hið besta fyrir hans sálarró og Moggabloggsvini hans! 

Geir Ágústsson, 11.9.2007 kl. 18:52

30 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég skil ekki til hvers þú ert að blanda moggabloggsvinum mínum í þetta. Ég er ekkert að skrifa hér í nafni þeirra, einungis að lýsa mínum skoðunum og ég veit ekkert hvaða skoðanir þeir hafa í þessu máli.

Ég vil helst borga sem minnst fyrir hlutina, eins og fram kemur í innleggi mínu hér á undan þar sem ég gagnrýni okur. Ég er aðeins að benda á að nauðsynlegt sé að lærðir iðnaðarmenn með réttindi hafi yfirumsjón með endurbótum og nýbyggingum á húsnæði, vegna þess að annars er kaupandinn  óvarinn gegn mögulegum göllum. Þá er undir hælinn lagt hvort verksalinn er tilbúinn að bæta fyrir sín mistök.

Theódór Norðkvist, 11.9.2007 kl. 22:29

31 identicon

Theódór: Ert þú að kvarta yfir því að á faglærðum iðnaðarmönnum  hvíli kvaðir sem ekki hvíla á ófaglærðum eða yfir því að ófaglærðir fái yfir höfuð að starfa?

Ég gæti fallist á að fyrra umkvörtunarefnið eigi rétt á sér en ekki það seinna.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 11.9.2007 kl. 23:38

32 Smámynd: Theódór Norðkvist

Sæll Hans. Í raun mega ófaglærðir smiðir ekki taka að sér verk í löggiltum iðngreinum eins og trésmíði, rafvirkjun, pípulögnum o.þ.h., samkvæmt iðnaðarlögum. Ég er alltaf óhress með það þegar lög eru brotin. En þetta er látið viðgangast.

Theódór Norðkvist, 12.9.2007 kl. 00:19

33 identicon

En var Geir ekki einmitt að benda á að slík einokunarlög eru óæskileg?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 01:22

34 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég er bara ekki sammála því að þetta séu einokunarlög. Þetta eru lög sem eru sett til að tryggja vönduð vinnubrögð. Ég er ekki lögfræðingur og veit því ekki hve langt þessi lög ná, ég held að þau gildi ekki um minniháttar framkvæmdir eins og að skipta um rúðu í glugga, eða sneril á hurð.

Ég vil ekki lenda í því að láta smíða fyrir mig pall sem hrynur eins og spilaborg í garðveislu næsta sumars. Ég veit um fólk sem hefur lent í handvömm ófaglærðs iðnaðarmanns og stórtapað á því.

Skemmst er að minnast frétta af óvönduðum frágangi fjölbýlishúsa í Reykjavík. Það er ekkert grín að lenda í svoleiðis og þurfa að fara út í tímafrek og kostnaðarsöm málaferli til að rétta sinn hlut.

Theódór Norðkvist, 12.9.2007 kl. 01:49

35 identicon

En þarf einhver lög til þess a vernda fólk fyrir því?

Það er eðlilegt að iðnskólar og aðrar stofnanir sem þjálfa iðnaðarmenn veiti mönnum einhvern pappír þegar þeir ljúka námi. Það er líka eðlilegt að ríkið refsi þeim sem blekkja verkkaupa um að þeir hafi slíkan pappír. Um það gildir það sama og önnur fjársvik.

Það á hinsvegar ekki að banna neinum að kaupa þjónustu einhvers sem er ófaglærður. Ef verkaupinn veit af því þá er það hans upplýsta val að taka áhættuna.

Ég sé ekki að það þurfi neitt sérstakt lagabatterí í kring um ábyrgð á verkinu. Menn geta samið um það sín á milli, rétt eins og þegar verslað er með t.d raftæki.

Ég sé heldur ekki að það sé þörf á þessu eftirliti til þess að tryggja þeim sem ekki nenna að kanna orðspor og slíkt gæði. Það er vel hægt að hugsa sér markaðslausn á því, t.d verktakamiðlun sem væri með verktaka á skrá og ábyrgðist verk þeirra. Fólk myndi þá borga miðluninni þóknun í skiptum fyrir öryggið.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 12.9.2007 kl. 02:19

36 Smámynd: Geir Ágústsson

Þessi umræða minnir mig á svipaða "gæðakröfu" löggjafarvaldsins í dómsmálum - annaðhvort ver maður sig sjálfur fyrir dómstólum eða þarf að kaupa rándýran sprenglærðan lögstimplaðan lögfræðing. Siggi frændi má ekki opna munninn fyrir mína hönd í dómssal þótt hann sé besti ræðumaður Íslands, með alla nauðsynlega þekkingu á málavöxtum og kann vel að rata um frumskóg lagasafnsins.

Er verið að tryggja vönduð vinnubrögð eða hlusta á kall faghópanna sem heimta vernd frá "ódýrri" "ófaglærðri" samkeppni? Eru leiðsögumenn ekki einmitt að dansa þann dans þessa mánuðina? Má þá Theódór ekki lengur ganga á Hekluna með erlendum ferðamanni af því hann gæti sagt einhverja vitleysu - verandi ófaglærður auðvitað!

Geir Ágústsson, 12.9.2007 kl. 08:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband