Vefþjóðviljinn ólíkur sjálfum sér

Ég er, að mínu mati, einn harðasti aðdáandi Vefþjóðviljans. Meiri háttar skortur á netaðgangi í langan tíma er eina leiðin til að halda mig frá að lesa hvert einasta tölublað vefritsins (eða "blaðsins" eins og Vefþjóðviljinn kallar útgáfu sína gjarnan). Ég leyfi mér því að fullyrða að ég hafi rétt fyrir mér um það sem nú verður sagt.

Tölublað dagsins er ekki í stíl við hefðbundin skrif Vefþjóðviljans. Það sem er í stíl við hefðbundin skrif er gagnrýni á eyðslu hins opinbera á fé vinnandi fólks. Gagnrýnin er beitt og ekki til að deila um - fé er verið að eyða í miklum mæli, fé sem hefði mátt eyða af launþegum sjálfum án kvartana nokkurs, og þá seinast kvartana launþeganna sjálfra.

Það sem er ekki í stíl er skortur á gagnrýni á meinta réttlætingu hins opinbera á eyðslunni. Gagnrýnin beinist gegn hinum rauðlituðu götuhornum Reykjavíkurborgar. Kostnaðarréttlætingin er sú að götuhornabreytingin muni gagnast hinum blindu eða sjónskertu. Þetta minnist Vefþjóðviljinn ekki einu orði á. Ég veit alveg að kostnaðurinn verður ekki varinn með því að vísa í meintar þarfir blindra og sjónskertra, en Vefþjóðviljinn hefði átt að taka skrefið til fulls og útskýra hvers vegna. 

Helgarsprok Vefþjóðviljans að þessu sinni olli mér vissum vonbrigðum. Efnisvalið er gott og gilt, og litabreyting á götuhornum Reykjavíkur er alveg ágætt skotmark á hið eyðslusama opinbera, en því miður mun pistillinn ekki þjóna tilgangi sínum vegna skorts á niðurrifi á rökum eyðsluseggjanna.

Það er eitt að vera ósáttur. Það er annað að vera ósáttur og útskýra hvers vegna. Vefþjóðviljinn hefur verið duglegur við að benda á ástæður ósættis síns (og annarra frjálslyndra) á offitu hins opinbera. Núna var bara sagt að ósætti sé til staðar, án frekari skýringa. Því miður, en vonandi í seinasta sinn!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: GeirR

Þetta hjálpar ekki eingöngu þeim fötluðu eða blindu heldur líka fólki með barnavagna og hjólreiðamönnum. Ég fagna þessari framkvæmd sem hjólreiðamaður og eflaust á þetta eftir að fækka slysum í umferðinni.

GeirR, 5.8.2007 kl. 01:58

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Er "eflaust" góð ástæða til að sturta milljónum á eftir framkvæmdinni?

Þá er ég ansi hræddur um að lásinn á opinberum sjóðum sé orðinn ryðgaður! 

Geir Ágústsson, 5.8.2007 kl. 10:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband