Aðgangur að og gæði heilbrigðisþjónustu er markaðsmál, ekki pólitískt mál

"Ef vægi heilbrigðisútgjalda heldur áfram að vaxa mun á endanum þurfa að koma að því að einhver hluti heilbrigðisþjónustu verði veittur á frjálsum markaði án fjárstuðnings frá ríkinu."

Þetta ritar Jón Steinsson í grein á Deiglan.com, og undir þau orð get ég fyllilega tekið! 

Kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu í Evrópu og Bandaríkjunum hefur vaxið stjórnlaust svo áratugum skiptir. Margir halda að þetta sé eitthvað náttúrulögmál sem fylgi því að sífellt eru að koma á markað fullkomnari tæki og lyf sem kosti meira og meira í þróunarkostnaði. En er ekki hægt að segja svipaða sögu um nær því allt annað? Hafa útgjöld heimila vegna bílakaupa verið að vaxa samhliða gríðarlegum framförum í eldsneytisnýtingu, öryggi og þægindum? Hvað með tölvur, farsíma og flugferðir? Hvað með öll þau svið sem ríkið hefur lítil sem engin afskipti af? Hefur kostnaður þar verið að vaxa stjórnlaust? Nei, þvert á móti.

Fullkomnari tækni sem fleiri og fleiri hafa aðgang að þýðir ekki endilega að kostnaður neytenda/notenda vex stjórnlaust. Slíkt á sér eingöngu stað þar sem ríkið bannar samkeppni - keppni um fjármagn þeirra ríku sem á endanum borgar undir tækni sem nýtist þeim efnaminni á töluvert betri kjörum.

Ríkið þarf ekki að endurhanna sífellt flóknari og umfangsmeiri áætlanir til að tryggja að efnalítið fólk hafi efni á góðri heilbrigðisþjónustu. Ríkið þarf bara að hætta að banna framtak einkaaðila. Slíku afnámi banns þyrfti ekki einu sinni að fylgja sérstakt fjármagn úr vösum skattgreiðenda eins og þegar einkaskólum var leyft að starfa á Íslandi. Ríkið þarf ekki að gera eitt né neitt nema fækka verkefnum lögreglunnar um eitt - eftirlit með starfssemi "ólöglegra" lækningastofa á Íslandi. 

Slíkt mundi ekki leiða til neinna stórkostlegra framfara í einni svipan, en hefur nákvæmlega engar slæmar afleiðingar fyrir kerfið eins og það er í dag. Engar! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband