Föstudagur, 13. júlí 2007
Há opinber álagning = hátt verðlag
Ef einhverjum finnst skrýtið að 300.000 manna smáeyja í miðju Atlantshafi búi við hærra matarverð en þjóðir með landlegu að meginlandi Evrópu (eða allt að því), þá þeir um það. Ef einhver heldur að "skortur á samkeppni" sé ástæðan bak við hið íslenska verðlag þá þeir um það. Fólk á þeirri skoðun getur einfaldlega reynt að bjóða betur með stofnun samkeppnisaðila, en mun fljótt komast að því að hundurinn liggur ekki grafinn í ofurálagningu, heldur opinberri álagningu!
Ef raunverulegur vilji er til að lækka vöruverð á Íslandi þá er einfaldlega að ráðast í eftirfarandi aðgerðir (eða afnám aðgerða):
- Afnema tolla, innflutningsgjöld, vörugjöld og virðisaukaskatt.
- Einkavæða hafnir Íslands.
- Leggja niður skatta og gjöld á fyrirtæki, t.d. þau sem stunda smásölu og vöruflutninga.
- Lækka eða afnema skattlagningu á laun, en þá minnkar þrýstingur á launahækkanir hjá starfsmönnum smásölu- og flutningsfyrirtækja, og þar með eykst ráðrúm til lækkunar álagningar.
- Afnema alla skatta og opinber gjöld á húsnæði, bifreiðar, skrifstofuvörur, húsgögn, gólfefni, veggefni og allt annað sem fyrirtæki kaupa og þurfa á að halda.
- Aflétta öllum skilyrðum á innflutning til landsins, en þó seinast á innflutning sýkts varnings þar til markaðsaðilar (fyrirtæki og neytendur) hafa áttað sig á að það er hlutverk þeirra að fylgjast með innkaupum sínum, en ekki opinberra starfsmanna.
Listinn gæti sjálfsagt orðið lengri, en ég er nú þegar byrjaður að nefna punkta sem krefjast ítarlegra útskýringa og kalla sjálfsagt á harðorðar athugasemdir í fjarveru þeirra.
Punkturinn er samt þessi: Verðlag er hátt vegna þess að skilyrðin, skattarnir, reglurnar, lögin, fyrirstöðurnar, tollarnir, vörugjöldin, virðisaukaskatturinn, launatengd gjöld, opinber gjöld á fyrirtæki osfrv osfrv er í himinhæðum. Slíkt er fljótt að bitna á smáum og fjarlægum markaði með takmarkaða innkaupagetu - mun fljótar en á stórum markaði með beintengingu við stórt meginland.
Matvæli dýrust á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:59 | Facebook
Athugasemdir
Það á ekki að vera mikið dýrara að flytja kiwi frá Nýja Sjálandi til Reykjavíkur en til Kaupmannahafnar og þó borga menn (reyndar hærri) skatta þar. Mér sýnist þú ofmeta þessa beintengingu.
Stærsti sökudólgurinn er augljóslega tollar, hvað sem bændasamtökin segja. Það segir sig sjálft að ef það þarf innflutningskvóta á ost og auk þess verndartolla sem geta hlaupið á hundruðum prósenta til að Íslenskur ostur standist samkeppni, þá er ostur dýrari en hann þarf að vera.
En því verður heldur ekki neitað að það er fákeppni á íslenskum markaði og það er nærtækasta útskýringin á miklum verðmun á innfluttum vörum. Það sem þarf að gera er að gera landið opnara. Hvers vegna eru engar Carrefour eða Wall-Mart búðir hérna?
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 17:31
Próf fyrir þig Geir.
"Eitt mikilvægasta verkefni þessarar ríkisstjórnarnar er að mínu viti endurskoðun á landbúnaðarkerfinu, m.a. með það fyrir augum að auka frelsi og lækka verð til neytenda."
Úr hvaða flokki kemur alþingismaðurinn sem skrifaði ofangreinda klausu. Úr...
a) Sjálfstæðisflokki
b) Samfylkingunni
Árni Richard (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 05:05
Árni, núna eru báðir flokkar í stjórn og því engin ástæða til að rifja upp kosningaloforð þeirra heldur bara að pressa á aðgerðir. Þú pressar á Samfylkinguna að pressa á Sjálfstæðisflokkinn, og ég pressa á yfirvöld eins og þau leggja sig.
Hans, opinber álagning og haftastefna á hvaða formi sem er truflar alltaf samkeppni og verðmyndun. Sjálfsagt er gott taktískt séð að byrja á að biðja um afnám tolla, en að fella niður allt hitt er ekkert síður nauðsynlegt.
Geir Ágústsson, 14.7.2007 kl. 14:42
Ég vil Benda á bækling sem bændasamtökin gáfu út í vetur en þar er bent á samhengi launa og veðlags sem og hlutfall matvælakaupa af ráðstöfunartekjum í ýmsum löndum á aðgengilegan hátt. þar er líka margt fleira til fróðleiks
Bæklinginn má nálgast hérGunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.7.2007 kl. 00:30
Gunnar, ég þakka góða ábendingu. Ég sé hins vegar margt í þessum bæklingi sem endurspeglar það hver gefur hann út: Sérhagsmunahópur sem reynir að nota ríkisvaldið til að forða sér frá ólgusjó hins frjálsa markaðar.
Ólgusjórinn er samt sá sem tryggir neytendum það besta á sem lægstu verði sem fyrst, og vona að hann skelli á íslenskum landbúnaði sem fyrst!
Geir Ágústsson, 15.7.2007 kl. 03:17
Þegar hóf minn búskap sem svínabóndi fyrir 20 árum voru starfandi 144 svínabú í landinu. í dag er þau 11 en framleiðslan samt þrisvar sinnum meiri í landinu.
Ég veit ekki um marga geira þar sem jafn margir hafa gefist upp eða orðið gjaldþrota Ég er ennþá að borga reikninginn fyrir 2003 2004 þegar ég gaf versluninni kjötið bara til að halda markaðinum og verð það sennilega í nokkur ár enn
Ef þetta kallast ekki ólgusjór frjálsra viðskipta þá veit ekki hvað
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.7.2007 kl. 18:56
Það er nú svo að það geta ekki allir gert allt sem þeir vilja á meðan þeir njóta ekki hylli markaðarins. Ef íslensk framleiðsla á svínakjöti er ekki samkeppnisfær við t.d. innflutt svínakjöt eða aðrar tegundir matvæla og kjöts þá er ekki um annað að ræða en að sætta sig við það.
Ég óska þér alls hins besta í rekstri þínum. Ég óska þess hins vegar ekki að þú hafir aðgang að fé Íslendinga með öðrum aðferðum en frjálsum viðskiptum.
Geir Ágústsson, 15.7.2007 kl. 20:48
Mjög stór hluti landbúnaðar framleiðslunar eru laun í framleiðslu og úrvinnslu. Á ég og mitt starfsfólk að sætta mig við fá 100 kr á tíman.
Ef ég fengi að borga 100 kr á tíman sem eru verkalaun í póllandi er engin vandi að keppa
Er þá ekki bara best ganga skrefið til fulls gefa allan pakkann frjálsan og afnema lágmarkslaun og leyfa frjálsan innflutnings vinnuafls. kollegar mínir í Þýskalandi og Hollandi eru að greiða vinnuafli frá austur evrópu í kringum 30.000 krónur á mánuði þá er vandinn leystur
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.7.2007 kl. 21:21
Ég sé ekki hvernig það sé réttlætanlegt að halda úti óhagkvæmum atvinnurekstri á einum stað til þess eins að halda hagkvæmum rekstri niðri eða úti á öðrum stað. Hvorki réttlætanlegt fyrir skattgreiðendur né þá sem eru að keppast um að komast inn á markaði og bæta kjör sín með því að ná hylli neytenda.
Eðlilega berðu ákveðnar taugar til þess starfs sem þú sinnir í dag. Það á við um flesta ef ekki næstum því alla. Þröng heimsmynd af því tagi á samt ekki að spilla sýn þinni á heildarmyndina sem er sú að frjáls markaður er markaður frjálsa samskipta og viðskipta, og skerðing á því frelsi er ófrelsi hins ófrjálsa markaðar sem setur frjálsan vilja í annað sætið hið minnsta.
Geir Ágústsson, 15.7.2007 kl. 21:32
Gunnar: Ef íslenskur landbúnaður getur ekki staðið undir íslenskum launum þá er best að við látum aðra um landbúnað og snúum okkur að einhverju sem við gerum betur, t.d mætti nota það fé sem sparaðist við að leggja af landbúnaðarstyrki til þess að lækka fyrirtækjaskatta og efla fjármálaeftirlitið og aðra þjónustu við fjármálastarfsemi.
Geir: Þú þyrftir að rökstyðja það betur hversvegna þessi "beintenging" ætti að veita svo mikið hagræði, flutningar eru a.m.k mjög ódýrir í dag.
Í mínum huga eru mjög sterkar líkur á því að fákeppni á matvælamarkaði eigi einhvern þátt í því að matvælaverð er hátt hérna, enda tveir stórir aðilar, Baugur og Kaupás, með stærstan hluta markaðarins. Sumir telja lausnina þá að efla samkeppniseftirlitið en ég tel það miklu einfaldara að opna hagkerfið frekar, t.d með því að einfalda lagaumhverfið, draga úr skriffinnsku og fella niður tolla og einfalda innflutningsreglur þannig að útlend fyrirtæki þyrfti ekki að koma sér upp sérstöku aðfangabatteríi fyrir Ísland.
Ég vil benda á það aftur að það eru borgaðir skattar í löndum með lægra matvælaverð. Skattar afbaka vissulega verðmyndun en þeir eru samt sem áður það gjald sem við greiðum fyrir að búa í siðmenntuðu samfélagi.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 15.7.2007 kl. 21:59
Hans:
Flutningskostnaður á Íslandi er ekki eins lágur og hann gæti verið af þeirri ástæðu fyrst og fremst að miklu meira er í gámunum sem koma til landsins en í þeim sem fara frá landinu. Innflutningur borgar því í raun fyrir bæði út- og innflutning á sömu gámunum - þeir koma fullir og fara út tómir. Íslenskur landbúnaður gæti fengið flutningspláss á spottprís ef hann væri nægilega markaðsmiðaður til að átta sig á því.
Út- og innflutningur á fjármálaþjónustu tekur ekki mikið gámapláss, svo mikið er víst!
Geir Ágústsson, 15.7.2007 kl. 22:11
Það er sennilega bara rétt sem Hans segir að ef íslenskur landbúnaður getur ekki keppt við launin sem eru greitt annars staðar í heiminum eigum við sennilega bara að hætta þessu og flytja þetta allt inn því ekki flytjum við það út en það má ekki snúa út úr því að það er auðvelt að fá ódýrt vinnuafl ef frelsi til þess ríkti en ekki höft.
Ég hef reynt að flytja út til Danmerkur svínakjöt og nógir kaupendur en það eru 475% innflutningatollur á íslenskt svínakjöt eins eru góðir möguleikar í Sviss en tollar og tæknilegar hindranir gera útilokað.
Bændur á íslandi urðu mjög kátir þegar fríverslunar við Færeyjar var gerður. það fór fyrir lítið því kjötskoðunin er afskekktri eyju sem er hafnlaus nema fyrir smábáta og þetta sexfaldar flutningskostnaðinn
þetta er svona svipað og að allar innfluttar ferskvörur yrðu metnar í Grímsey eða Flatey, semsagt tæknilegar hindranir.
Þannig þú sérð að flutningurinn út er ekki vandamálið Geir.
Það er margt skrýtið í kýrhausnum
Gunnar Ásgeir Gunnarsson, 15.7.2007 kl. 23:22
Athyglisvert svo ekki sé meira sagt. Tæknikratinn hefur tekið við skattskepnunni, í landbúnaði sem og á svo mörgum öðrum sviðum.
Geir Ágústsson, 15.7.2007 kl. 23:26
Gunnar: Eigum við þá ekki bara að stöðva innflutning á öllu sem er ekki framleitt af fólki á íslenskum launum? Við gætum til dæmis ræktað kaffi í gróðurhúsum í stað þess að kaupa það af fátækum bændum í Kólumbíu. Hvaða gagn gerir íslenskur landbúnaður skattborgurum þessa lands sem réttlætir að honum sé haldið uppi á skattfé og tollum?
Geir: Yfirsást þetta með gámana. Ég kemst ekki lengra með mín rök án þess að leggjast í upplýsingaöflun og útreikninga. Er samt sannfærður um að opnari markaður myndi leiða til virkari samkeppni. Þú vinnur þessa umferð.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.7.2007 kl. 00:31
Hans,
Smæðina í hverju sem er má bæta með hugmyndaflugi og tilraunastarfssemi. Þú hefur algjörlega 100% rétt fyrir þér með að opnari markaðir myndu breyta miklu - öllu! - en engu að síður er ekki hægt að ætlast til þess að skattpíndur markaður á hjara veraldar bjóði upp á sömu kjör og skattpíndir markaðir í nálægð við hvern annan.
Geir Ágústsson, 16.7.2007 kl. 00:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.