Föstudagur, 6. júlí 2007
Af hverju fæðast fá börn í ríkum löndum?
Þorvaldur Gylfason skrifar grein í Fréttablaðið um minnkandi fæðingartíðni á Vesturlöndum og veltir ýmsu fyrir sér varðandi hana.
Hann segir réttilega:
"Færri barnsfæðingar í fátækum löndum stuðla jafnan að meiri hagvexti og velferð, þótt undarlegt megi virðast. Börn eru öðrum þræði eins og hver önnur fjárfesting. Fækkun barneigna gerir foreldrum kleift að búa betur að hverju barni, veita því meiri og betri menntun og betri skilyrði til að hafa eitthvað fram að færa á vinnumarkaði annað en vöðvaaflið eitt."
Einnig segir hann, réttilega:
"Í fátækum löndum hleður fólk niður börnum í þeirri von, að eitt þeirra verði þá kannski eftir heima hjá foreldrunum og líti eftir þeim í ellinni."
Þorvaldur segir svo (tölur í sviga er fæðingartíðni viðkomandi lands):
"Tyrkland (2,2), Bandaríkin (2,1) og Ísland (2,1) eru einu OECD-löndin, þar sem barnsfæðingar duga til að halda mannfjöldanum við. Öll önnur OECD-lönd búa við náttúrulega fólksfækkun, sem þau bæta sér upp með innflutningi fólks annars staðar að. Meðalfæðingartala ESB-landanna er 1,5 og þýðir mikla fólksfækkun þar."
Greinin endar svo á áskorun:
"Fátækar þjóðir þurfa að fjölga sér hægar til að lyfta af sér oki fátæktarinnar, og ríkar þjóðir þurfa að snúa fólksfækkun í hóflega fólksfjölgun til að troðast ekki undir."
Ef höfundur ofanritaðra orða væri ekki Þorvaldur Gylfason þá væri líklega hægt að tengja þau við hinn ófrjálslynda Frjálslynda flokk, en það er önnur saga.
Því sem er ósvarað er hvers vegna fæðingum hefur fækkað svo mikið í ríkjum OECD að við blasir fólksfækkun (sem eingöngu er haldið frá með fjölgun innflytjenda).
Hér er boðið upp á ágæta og mjög rökrétta skýringu á fækkun barna í hinum velferðarvæddu samfélögum. Ég hvet áhugasama til að lesa greinina í heild sinni svo ekkert sé slitið úr samhengi. Boðskapurinn er, í stuttu máli: Velferðarkerfið dregur úr hvata fólks til að eignast börn, því hvers vegna að eignast börn þegar ríkið - og allir aðrir - munu sjá fyrir manni í ellinni?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ef fólksfækkun má virkilega rekja til velferðarkerfis, hvernig er þá undantekningin Ísland skýrð? Málið er auðvitað ekki jafn einfalt og þessi Mises Institute Fellow vill meina -- barnseignir fólks ráðast af mörgum þáttum.
Síðan finnst mér svolítið skrítinn tónn yfir greininni -- að fækkandi barnseignir séu nauðsynlega slæmur hlutur. Ég er ekki sammála því. Ef það veldur efnahagslegum vandræðum er alltaf hægt að flytja inn erlent vinnuafl. Jarðarbúum í heildina fjölgar ört -- e.t.v. of ört. What's the big deal?
Sveinbjörn (IP-tala skráð) 17.7.2007 kl. 02:06
Ef fækkandi fæðingum má þakka því að fólk er betur í stakk búið til að sjá um sig sjálft (efnahagslega) í ellinni þá er auðvitað ekkert út á það að setja.
Ef ástæðan er hins vegar sú að fólk telur að einhver annar muni sjá fyrir sér í ellinni þá er það slæmt. Svona rétt eins og að þjófurinn fær sér ekki fasta vinnu því aðrir munu halda honum uppi þökk sé óvelkomnum en þvinguðum millifærslum hans frá öðrum til síns sjálfs.
Bætt heilsa á efri árum ætti þar að auki að leiða til þess að fólk helst lengur á vinnumarkaði, og því tóm þvæla að tala um að "byrði samfélagsins" vegna gamals fólks aukist bara þótt meðalaldur hækki - nema þá að kerfið þvingi fólk til að leggjast á spena annarra eftir að ákveðnum aldri er náð.
Geir Ágústsson, 17.7.2007 kl. 23:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.