Ég hlakka til að sjá hvernig þessu verður framfylgt!

Ný reykingalög taka gildi 15. ágúst í Danmörku. Þeim svipar um margt til hinna íslensku en þó eru nokkrar undantekningar á. Til dæmis er "heimilt" að innrétta sérstakt reykingaherbergi en þar má ekki selja veigar. Einnig sleppa staðir, sem eru undir 40 fermetra að flatarmáli í veitingarými, næstum því við ofríki yfirvalda. Það sem mestu máli skiptir er samt viðhorf Danans. Mun þessu verða framfylgt?

Dönsk lögregla hefur í nægu að snúast, enda vantar ekki verkefnin sem ríkisvaldið hefur gefið henni með óteljandi bönnum á hinu og þessu, auk þess sem háir skattar hafa skapað gríðarstóran svartan markað umfangsmikils og skipulags smygls á gosi, öli og sælgæti til landsins, auk mjög útbreiddrar svartrar launavinnu. Hvorki pizzubakarar né sjoppueigendur í Danmörku borga sérlega mikið í skatt, enda er verðlag hjá þeim ákaflega hagstætt!

Lögreglan nær sjaldan að fylgja öllum boðum og bönnum eftir - gerir gjarnan "átök" sem mikið ber á í fjölmiðlum en að þeim loknum fara hlutir fljótlega í sama farið aftur. 

Lögreglan hefur einnig í nægu að snúast að slást við skemmdarverkafólkið frá fyrrum Ungdomshuset sem núna gerir út frá Christianiu.  Hasssala er einnig komin út um allan bæ eftir að lögreglan gerði ítrekað áhlaup á Christianiu og dreifði frjálsum viðskiptum sem áður voru mikil þar út á tugi klúbba og skemmtistaða, sem auðvitað krefst mun meiri orku til að fylgjast með og hafa "tök" á.

Í Danmörku er bannað að reykja víða. Kaffihúsakeðjan Baresso er reyklaus, og McDonalds veitingastaðirnir sömuleiðis. Þar er heldur ekki reykt og það virt að eigendurnir kæra sig ekki lengur um slíkt innan síns húsnæðis. Reykingabann er einnig við lýði á Aðallestarstöðinni í Kaupmannahöfn, en þar er engu að síður reykt! E.t.v. ekki eins mikið og áður, en að því er virðist algjörlega án afleiðinga fyrir þann sem reykir.

Danskir veitingamenn virðast ætla rísa á lappirnar í þessu máli og berjast fyrir eignarrétti sínum, ólíkt því sem þeir íslensku gerðu. Ég held samt að þeir þurfi ekki að hafa svo miklar áhyggjur. Fyrir utan einstaka táknrænt áhlaup og þökk sé undanþágum hinna dönsku reykingalaga þá munu Danir áfram geta kveikt sér í einni þegar þeir, af fúsum og frjálsum vilja, ganga inn í húseign annarra sem afhenta áfengi í skiptum fyrir nokkrar krónur.

Sjáum hvað setur, en ég held að danska lögreglan hafi of mikið að gera nú þegar til að nokkur önnur en táknræn framfylgni muni eiga sér stað á reykingabanni í dönsku einkahúsnæði.


mbl.is Danskir veitingamenn æfir vegna reykingabanns
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband