Miðvikudagur, 13. júní 2007
Ég er ekki veðurfræðingur
Sennilega er rétt að fá eftirfarandi alveg skýrt og skriflegt niðurskrifað svo enginn fari að kalla mig veðurfræðing eða vísindamann (þótt ég þurfi að vísu að lesa töluvert mikið efni í veðurfræði af því þeir sem vilja að ríkið herði tak sitt á orkumarkaði heimsins gera það):
Ég veit ekkert hvort maðurinn er að hafa áhrif á veðrið eða ekki. Mér finnst samt ólíklegt að það séu meiri áhrif en áhrif eldfjalla, sólbletta, gammageisla, skýja, sjávar, blautsvæða og hvað það nú sem er spilar saman og myndar loftslag Jarðar.
Vísindamenn sem styðjast við dreifð gagnasöfn, tölvulíkön sem sífellt þarf að "leiðrétta" eftir veðurfréttirnar í morgunsjónvarpinu, hafa jarðsögulega MJÖG stutt tímabil með góðum mælingum (30-500 ár, fer eftir gagnasafni) osfrv. verða ekki bara "sammála" si svona á örfáum árum (20-30 árum). Seinast þegar þeir voru "sammála" þá var það vegna ísaldar, og ekki liðin nema rúm 30 ár síðan það var!
Breytingar á veðri réttlæta ekki árás á frjálsan markað og einkaeignarréttinn.
Mér er í raun alveg sama hvaða "hliðarverkanir" verða til af batnandi lífskjörum mannkyns. Ríkir hugsa betur um umhverfi sitt en fátækir, strandlengjur hafa færst til alla tíð, jöklar hopa og vaxa til skiptis, Ísland var heitara fyrir 1000 árum en tölvulíkön segja að það verði eftir 50 ár, osfrv. Á meðan við erum rík þá getum við byggt þar sem er land og klætt okkur eftir veðri.
Til að halda í lifistandard okkar þurfum við orku.
Jarðefnaeldsneyti og kjarnorka eru hagkvæmustu orkulindir nútímans, en lenda þar með á svarta lista þeirra sem vilja að ríkið herði tök sín á orkumarkaði heims.
Frelsið er ekki bara praktískt og hagkvæmt, heldur réttlátt. Veðurspár fá mig seint af þeirri skoðun.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Áhugaverður pistill:
http://daviddfriedman.blogspot.com/2006/12/global-warming-confusing-moral-and.html
Einar Örn (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 00:03
Þetta er kallað "hengiflugskenningin", þú hefur sennilega heyrt um hana. Svipar því að að aka á hámarkshrað fram að hengiflugi og bara gera ráð fyrir því að lendingin verði mjúk.
Svo minni ég aftur á að þó svo að ef til vill sé vel hægt að aðlagast breytingum á veðri á Íslandi er ekki sömu sögu að segja sunnar á bóginn, til dæmis í Afríku.
hee (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 09:23
Þetta er a.m.k. hóflegt áhyggjuleysi af afkomu mannkyns í breytilegum heimi, gefið að það geti haldið áfram að afla sér nægilegrar orku til að lyfta lífskjörum sínum.
Eftir 30 ár verða íbúar Bangladesh með svipaðar tekjur og Hollendingar í dag. Hef ég áhyggjur af Hollendingum? Nei, af því þeir eru ríkir, hafa aðgang að helling af orku og aðlögunarhæfir með eindæmum.
Geir Ágústsson, 14.6.2007 kl. 10:01
Þetta er ekki spurning um að hætta að nota alla orku heldur finna umhverfisvænni leiðir til orkuöflunar og ná fram sem mestri nýtni á þeirri orku sem notuð er. Til dæmis með meiri samnýtingu samgöngutækja. Það er enginn sem segir að þú farir á hausinn við eflingu almenningssamgangna og minni notkun einkabílsins svo dæmi séu tekin.
Þú talar um góða aðlögunarhæfni og það er einmitt þarna sem ég held að sé réttast að henni sé fundinn farvegur. Þér virðist vera eitthvað illa við tilhugsunina um að aðlagast lífi með meiri orkusparnaði og aukinni umhverfisvernd, en ef hlýnun jarðarinnar heldur áfram að aukast svona mikið af manna völdum eins og sannarlega eru sterk rök fyrir, þá er það mun heillavænlegri og raunhæfari aðlögun heldur en aðlögun að hlýrra loftslagi. Þú getur ekki bara skellt allri ábyrgð á framtíðarkynslóðir og íbúa þeirra svæða sem hvað verst verða fyrir barðinu á breytingunum.
Hvað sem þú gerir -ekki gera ekki neitt!
hee (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 13:20
Þúsundir einstaklinga, þar á meðal stóru olíufélögin sjálf, vinna að því dag og nótt að finna nýjar leiðir til orkuöflunar. Hátt olíuverð er að gera allskyns áður óhagkvæma orku eftirsóknarverðari og stórir peningar á orkumarkaði freista margra vísindamann og uppfinningarmanna.
Hver veit hvað kemur út úr þessum frjálsa markaði þúsunda einstaklinga? Fuel cellur sem nanótækni á sólarpanelum sjá um að hlaða? Örkjarnorkuvélar? Eitt er nokkuð víst; olía, kol og gas eru frekar ómeðfærileg orkuform og krefjast mikillar yfirbyggingar og þegar þessi 50-70 ár eru liðin þar til olíulindir eru orðnar þurrar er engin hætta á öðru en að ný og enn hagkvæmari orkulind hefur verið fundin upp (ekki hinar klunnalegu vindmyllur eða handónýt leið til að rafgreina rafmagn og nota miklu meiri kolaorku í ferlið en fæst í vetnisorku úr því).
Þú segir "gera", jafnvel "gera eitthvað", og gefur þér að eitthvað slæmt sé handan við hornið - eitthvað sem framtíðarkynslóðir munu lenda í sem afleiðing aðgerða okkar í dag - væntanlega ríkisaðgerða (hefur ekki sagt neitt sem bendir til annars en að þú sért dæmigerður áhugamaður um svoleiðis).
Gott og vel. Ég deili ekki þeirri svartsýni með þér, og vil vinsamlegast biðja þig um að siga ekki ríkisvaldinu á mig með aukasköttum á olíuna eða reglugerðafrumskóg á orkufrekt samfélagið. Það er í góðu að við deilum hérna á netinu og etjum einni trú eða vantrú á móti annarri, en um leið og löggan er byrjuð að eltast við kolefnisþrjóta og stinga þeim í fangelsi eða sekta þá um stórar fjárfæðir fyrir trú þína og "allra" vísindamannanna og hverjir það nú eru, þá hættir mér að standa á sama!
Geir Ágústsson, 14.6.2007 kl. 13:42
Ég verð nú að segja að þú færð mig til að brosa út í annað þegar þú biður mig „vinsamlegast“ um að siga ekki á þig ríkisvaldi og sköttum. Ertu að biðja mig vinsamlegast um að kjósa ekki vinstriflokka eða vinsamlegast að mæla ekki fyrir aðgerðum sem þér hugnast ekki? Kannski er þetta grín hjá þér, en þá var það nokkuð smellið.
Nú sýnist mér sem þú sért sammála hengiflugskenningu Illuga hægri-græna, en reyndar miðast hans kenning þrátt fyrir allt út frá því að vísindamenn hafi sennilega rétt fyrir sér um að hlýnun jarðar sé af manna völdum. Það er að vissu leyti ánægjulegt að sjá að þú skellir ekki algerum skollaeyrum við þeim varnaðarorðum ólíkt köppum á borð við Hannes Hólmstein.
Mér sýnist þú semsagt vera sammála því að ýmislegt þurfi að breytast til þess að sporna við þessum vanda sem kemur mun harðar niður á íbúum nærri miðbaug og kynslóðum framtíðarinnarheldur en okkur. Þú spyrð; Hver veit hvað kemur út úr þessum frjálsa markaði þúsunda einstaklinga? og ég svara því til að auðvitað veit ég það ekkert, en það getur verið að orkan verði umhverfisvænni. Það er þó alls ekkert gefið, enda setja margir gróða ofar umhverfisvernd í sinni forgangsröð. Það sem ég vil er að lausnir framtíðarinnar verði umhverfisvænni og að varnaðarorð vísindamanna verði tekið alvarlega.
Ég veit að *hóst* sumum frjálshyggjumönnum svíður í peningakassann við tilhugsunina um umhverfisvænni framtíð, en það er nú bara einu sinni þannig að stundum þarf að hugsa um sjálfan sig í fleirtölu.
hee (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 14:50
Ég þakka fyrir "mér finnst að..." innlegg þín og finnst alltaf gaman að fá innlit inn í huga annarra. En vinsamlegast ekki gera þína persónulega skoðun að lögreglumáli eða berjast fyrir því að hið opinbera geri þínar skoðanir að framkvæmd sinni, hvort sem "þú vilt" umhverfisvænna þetta og hitt.
"Mér sýnist þú semsagt vera sammála því að ýmislegt þurfi að breytast til þess að sporna við þessum vanda sem kemur mun harðar niður á íbúum nærri miðbaug og kynslóðum framtíðarinnarheldur en okkur."
Þú snérir alveg rækilega út úr orðum mínum þarna með því að segja að ég sjái einhvern vanda sem þurfi að "leysa". Ég benti bara á að olía og kol eru ómeðfærilegir orkugjafar sem allir vita að endast ekki að eilífu og eitthvað annað kemur í staðinn. Mátt uppnefna þetta með hvaða hengiflugs- og dómstalstali sem þú vilt.
Seg mér, hvaða vanda ertu að tala um? Þennan sem er "handan við hornið", eða einhverjum öðrum? Í dag eru til eftirfarandi vandar: Malaría, skortur að aðgengi að vatni, HIV/AIDS, vannæring, kólera, fátækt, viðskiptahaftir, stríð, osfrv osfrv. Núna eru þessi raunverulega vandamál dagsins í dag komin ÚT AF dagskrá milliríkjahittinga og í staðinn kominn tölvuútreiknaður vandi sem á að herja á eftir áratugi!
Það er ekki heil brú í þessu.
Geir Ágústsson, 14.6.2007 kl. 15:13
Frjálshyggjumönnum svíður að sjá peningum sínum (sem skattheimta gefur engin grið) hent í trúarbrögð og dómsdagstal sem byggist á því að "trúa" á tölvulíkön og ákveðnar samsetningar vel valinn gagnasetta - túlkanir sem eru alveg eins líklega til að vera rangar og vera réttar.
Ef einhver fengi að minnsta kosti bóluefnissprautu eða vatnssopa fyrir skattheimt féð þá væri minni sviði vegna skattheimtunnar.
Geir Ágústsson, 14.6.2007 kl. 15:16
Þú varst semsagt ekki að grínast? Hvernig á ég að fara að því að gera mína persónulegu skoðun að lögreglumáli? Guð minn góður (segi hin guðlausa ég), hverslags skoðanakúgun ertu að reyna að boða? Þú gerir þér væntanlega grein fyrir því að ég er jafn valdalaus og þú, en bý við sama málfrelsi og þú -geri ég ráð fyrir. Og hvað sem þú segir, þá mun ég halda áfram að berjast fyrir því að umhverfið fái að njóta vafans. Hversu vinsamleg sem bón þín er þá verð ég ekki við henni. Sjálf er ég ósammála því að íslenskir frjálshyggjumenn boði raunverulegt frelsi, en mikið er gott að þeir tjái sig sem mest svo að fólk sjái hvernig þeir presentera sinn málflutning.
Vandinn sem ég er að tala um hér og nú er hlýnun jarðar af manna völdum, ég hélt að það væri þér alveg ljóst. Og mikið finnst mér ósmekklegt af þér að saka mig um að skella skollaeyrum við öðrum vandamálum bara af því að ég tala um þetta. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að það eru ýmis aðkallandi vandamál sem brýnt er að leysa. Malaría, fátækt, stríðsrekstur og hlýnun jarðar af manna völdum eru þeirra á meðal. Hugðarefni umhverfisverndarfólks takmarkast sjaldnast við eitt atriði, það væri eins og að halda því fram að hugðarefni frjálshyggjumanna takmarkaðist við það eitt að klám mætti vera til sýnis hvar sem er.
Ég ítreka að ég veit vel að olía og kol endast ekki að eilífu, en hins vegar tel ég brýnt að dregið verði strax úr losun gróðurhúsalofttegunda og að umhverfisvænstu orkukostirnir verði alltaf valdir. Þar held ég að við séum ósammála.
Svo vil ég vinsamlegast benda þér á að trú og vísindi eru alls ekki sami hluturinn. Flest höfum við heyrt afar sannfærandi rök fyrir því að hlýnun jarðar stafi af manna völdum -að minnsta kosti vitum við eflaust flest að hlýnun jarðar hefur verið hraðari síðustu ár en venjulegt getur talist-. Það eru einfaldlega vísindaleg rök sem hníga að því -ekki óskhyggja einhverra hippa. Það hefur ekkert með trúarbrögð að gera.
Bókstafstrúarfólk „trúir“ á sköpunarkenninguna. Ég hallast frekar að þróunarkenningunni. Byggist afstaða okkar beggja á nákvæmlega sama grunni? Er ef til vill ekki til neinn sannleikur í þínum huga heldur bara mismunandi trú?
hee (IP-tala skráð) 14.6.2007 kl. 15:40
Þá er bara eftir að svara einnig spurningu.
Þú segir: "..hins vegar tel ég brýnt að dregið verði strax úr losun gróðurhúsalofttegunda og að umhverfisvænstu orkukostirnir verði alltaf valdir."
Ég spyr: Hvernig, ef þvingun hins opinbera (löggjafarvalds og lögreglu) er ekki í myndinni? Til dæmis ef mig langar að sleppa 1000 tonnum af CO2 út í loftið (t.d. að gamni mínu), en þú telur að það sé óæskilegt, hvernig leysist þessi deila okkar?
Geir Ágústsson, 14.6.2007 kl. 17:12
Það eru ýmsar leiðir til þess, til dæmis með því að efla almenningssamgöngur og gera þær aðgengilegri til þess að fleiri fari að nota þær í stað einkabílsins. Svo er hægt að setja umhverfisskatt á þá sem fara yfir ákveðið mark í losun gróðurhúsalofttegunda, og/eða beita ívilnunum á einstaklinga og fyrirtæki sem eru umhverfisvæn. Ég hef aldrei haldið því fram að ekki þyrftu lög og reglur þó svo að þér virðist eitthvað illa við slíkt. Það geta þurft lög og reglur varðandi umhverfisvernd alveg eins og það geta þurft lög og reglur í umferðinni.
Ef þig langar að menga bara til að menga þá verðurðu að skilja að það er ekki þinn réttur né þitt frelsi. Það er heldur ekki sjálfsögð frelsiskrafa að þú fáir að keyra of hratt í umferðinni bara af því að þú vilt það. Að vísu er það viðhorf allt of margra en sem betur fer höfum við lög og lögreglu til að hafa eftirlit með slíku. Þetta er semsagt ekki deila milli okkar af því að við höfum mismunandi skoðanir þó svo að þú teljir þig hafa hag af því að setja það þannig upp.
Og ég ítreka að þetta er ekki eitthvað sem ég vil af því að mér finnst hitt eða þetta óæskilegt. Mín afstaða byggist á þeim vísindalegu rökum sem ég hef séð og heyrt fyrir því að hlýnun jarðar sé af manna völdum. Engum andmælendum þeirrar kenningar hefur einfaldlega tekist að hrekja þau rök og því eru ansi margir sammála, þótt þú sért það ekki og ekki Hannes Hólmsteinn, Vefþjóðviljinn og fleiri.
Annars tek ég líka fram að það er sjálfsagt ýmislegt hægt að gera til að ná fram þeim viðsnúningi sem við þurfum á að halda umhverfinu til góða. Áðurnefndir kostir eru bara brot af þeim og ég viðurkenni að ég hef ekki allar konkret lausnir á takteinum. En það væri kannski lágmark, svona til að byrja með, að taka mark á þeim vísindalegu rökum sem vissulega hníga að því að jörðin sé að hlýna af okkar völdum, í stað þess að afneita þeim af því að þetta er sannarlega óþægilegur sannleikur.
hee (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 09:35
Athyglisvert. Allt í nafni vísinda þá og því hugarfari að "umhverfið gangi fyrir". Vísindin eru reyndar ekkert nýtt tæki þeirra sem vilja þenja út ríkisvaldið (sem er bein niðurstaða hugmynda þinna).
Þá er það næsta spurning:
Ef umhverfið "gengur fyrir", hvað er það þá sem kemur á EFTIR?
Án þess að vilja leggja þér, orð í munn, en bara til að þú skiljir hvað ég er að pæla með spurningunni, þá gæti það sem gengur á eftir t.d. verið: Iðnaðarsamfélagið, orkuþörf nútímamannsins (og framleiðsla sem krefst þeirrar orku), landþörf mannkyns, hráefnaþörf mannkyns og matvælaframleiðsla mannkyns. En, eins og ég segi þá vil ég láta þig um að svara spurningunni og ekki eyða púðri í mínar fyrirframgefnu vangaveltur.
Minni á að orka sem þú kallar "umhverfisvæn" getur ekki nema að litlu leyti komið í stað annarrar orku sem áætlanir þínar ganga út á að minnka notkun á, svo þú getur ekki bæði átt kökuna og borðað hana - minnkað orkunotkun og haldið í afurðir hennar.
Geir Ágústsson, 15.6.2007 kl. 10:30
Fyrirgefðu ef ég tala ruglingslega eða fer að þínu mati útfyrir efnið. En þetta er stórt mál með mörgum hliðum og, eins og þú sérð, afskaplega mikið hitamál fyrir mig.
Ég skal svara spurningunni um hvað kemur EFTIR umhverfinu, og það er einfaldlega mengunin í núverandi mynd. Þess vegna vil ég til dæmis að greitt verði fyrir almenningssamgöngur í umferðinni og tel það mikilvægara heldur en að greitt verði gata hummer-bílstjóra í umhverfinu. Ef þú skilur hvað ég meina. Þetta er eitt dæmi af mörgum. Annað dæmi er endurvinnsla, ég myndi gjarnan vilja að við hvert heimili væru tunnur fyrir pappír, ál, lífrænan úrgang og almennt rusl. Það er einfaldlega ýmislegt í okkar nánasta umhverfi og lífsstíl sem má gjarnan víkja fyrir umhverfissjónarmiðum.
Þess vegna máttu skilja að ég lít ekki á malaríu, HIV, vatnsskort og stríðsrekstur sem einhver b-mál á eftir umhverfismálunum. Allt eru þetta brýn vandamál sem þarf að leysa, en það þýðir ekki að það takmarkist eitthvað af aukinni umhverfisvernd. Enda segir sig sjálft að hlýnun jarðar (af hvaða völdum sem hún kann að vera) orsakar enn meiri þurrka í álfum á borð við Afríku, og því enn verra aðgengi að vatni. Þess vegna, ef þessar kenningar vísindamanna (hversu tortrygginn sem þú ert í garð vísindanna ) eru réttar, þá einfaldlega bitnar frelsi þitt til að menga að gamni þínu á öðrum. Er það ekki andstætt frjálshyggjunni?
hee (IP-tala skráð) 15.6.2007 kl. 12:55
Þú tekur samt ekki á afleiðingum þess að setja hömlur á það form orku sem fólk og fyrirtæki af hagkvæmnisástæðum (mest fyrir peninginn) setja. Þú vilt hækka kostnað við að sækja rusl, kaupa sér bensín og komast á milli staða (ég hef ekki séð neitt sem bendir til að "heildarútgjöld" - skattar+miðaverð - vegna almenningssamganga sem einhver notar séu ódýrari en hellingur af bílum, leigubílum og rútum á götunum).
Í stuttu máli; í nafni hitamálsins umhverfisverndar þá á kostnaður vegna ýmissa athafna sem fólk kýs að stunda í dag að hækka.
Þetta hefur afleiðingar - margar og neikvæðar - fyrir pyngju fólks og fyrirtækja, auk hagvaxtar og auðsköpunar. Jújú, gefum okkur það að "ástand umhverfisins batni" (án þess að ég sé sannfærður um að það verði afleiðingarnar), en ástand mannkyns versnar.
Er það verðmiði sem þú ert tilbúin að samþykkja?
Geir Ágústsson, 15.6.2007 kl. 18:21
Í stuttu máli: Þú neitar því ekki að áætlanir þínar kosta fé og fyrirhöfn og þvinga til breyttrar hegðunar. Viltu hugleiða afleiðingar þess, eða er mikilvægara en allt annað að þessar hugmyndir - sem kannski og kannski ekki bæta "ástand umhverfisins" en rýra ótalmargt annað - komist til framkvæmda?
Geir Ágústsson, 15.6.2007 kl. 19:56
Ég hef aldrei sagt að ég haldi að þessar breytingar séu í alla staði auðveldar fyrir hvern sem er, alla síst fyrir fólk eins og þig sem finnst þessi náttúruvísindi vera ógnvaldur. Ég vil færri bíla á göturnar og öflugri almenningssamgöngur (sem dæmi) og til þess þarf ábyrga stefnu hjá stjórnvöldum svo að þannig megi verða. Að menga í því magni sem við gerum núna er einfaldlega óábyrgt og við þurfum að breyta því og axla ábyrgð, sem við höfum ekki gert að nægilega miklu magni hingað til. Ég vil í raun líkja þessu við það ef það væru engar reglur um hámarkshraða í umferðinni. Það væri stórhættulegt og eina leiðin til að draga úr hættunni væri að setja lög um hámarkshraða. Vissulega myndi það þýða að þú og ég værum þvinguð til þess að halda okkur undir ákveðnum hraða og við kæmumst ekki eins fljótt á milli staða með því að draga úr hraðanum. Engu að síður eru slík lög mikilvæg fyrir almannaheill og framtíðina.
Semsagt: þessar áætlanir þýða vissulega það að við þurfum að breyta okkar lífsstíl að mörgu leyti, en það margborgar sig og þýðir ekki að við förum öll á hausinn. Þetta þýðir einfaldlega að við erum að axla sameiginlega ábyrgð á okkar gjörðum, komandi kynslóðum til góða. Þú talaðir um aðlögunarhæfni og ég ítreka að það er hér sem verður að reyna á hana. Við getum vel aðlagast því að endurvinna meira, nota umverfisvænni orkugjafa og búa við öflugar almenningssamgöngur. Það er hins vegar ekki hægt að ætlast til þess að íbúar á vissum svæðum sunnar á bóginn aðlagist enn meiri þurrkum heldur en þeir búa við nú þegar. Það þurfa allir vatn að drekka, en það þurfa ekki allir að geta ekið um á hömmer.
hee (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 15:29
Hvað finnst þér um skrif eins og þessi? Er við hæfi að setja þig og höfund þessara skrifa undir sama hatt, og að munurinn felist ekki í eðli málflutnings ykkar heldur því hversu langt þið viljið að mannkynið víki (á ný) fyrir náttúrunni? Sem sagt, að þið viljið bæði setja "hámarkshraða", en þú biður um 50km/klst á meðan hinn vill 10km/klst?
Ef ekki, hver væri þá raunverulegur eðlismunur málflutnings ykkar?
Geir Ágústsson, 16.6.2007 kl. 17:22
Ég er ýmislegt, til dæmis umhverfisverndarsinni, hvalfriðunarsinni og krati. Allt eru þetta góðir málstaðir en það þýðir ekki að ég styðji hryðjuverk í þeirra nafni eða telji mig vera öfgasinnaða, þó svo að sumir séu það auðvitað. Ekki dytti mér heldur í hug að líkja þér við George Bush og Gunnar í Krossinum sem þó eiga það sameiginlegt að vera hægrimenn. Sá síðarnefndi sagði til dæmis einhvern tíman að allir sannkristnir menn væru hægrimenn. Hvað um það.
Þú skilur vonandi samlíkinguna við hámarkshraðann. Það væri ef til vill hægt að halda því fram að bann við hámarkshraða og ölvunarakstri skertu "frelsi" okkar, en þú ert alveg áreiðanlega sammála því að þær gera það í raun ekki, enda auka þær öryggi okkar til muna. Ég lít aðgerðir til að sporna við hlýnun jarðar sem nauðsyn fyrir framtíð okkar og aðbúnað komandi kynslóða.
Að vísu útiloka ég alls ekki að það geti komið í ljós að hlýnunin stafi af náttúrulegum orsökum, en til þess að ég dragi þá ályktun þarf ég einfaldlega að sjá fyrir því vísindaleg rök sem jafnframt eru sterkari en þau sem benda til hins gagnstæða. Hingað til hef ég þó ekki séð neinn takast að hrekja þetta, ekki frekar en nokkrum hafi tekist að hrekja þróunarkenninguna og færa vísindaleg rök fyrir sköpunarkenningunni.
hee (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 17:39
PS. svo ég komi með spurningu:
Finnst þér reglur um hámarkshraða og ölvunarakstur vera frelsisskerðandi?
hee (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 17:39
Tekur þú undir eftirfarandi orð Paul Watson úr áðurnefndri grein? Ég held þau séu þér alls ekki á móti skapi, og bæði notið þið tilvísun í vísindi til að tala fyrir skoðunum ykkar:
"Today, escalating human populations have vastly exceeded global carrying capacity and now produce massive quantities of solid, liquid, and gaseous waste. Biological diversity is being threatened by over-exploitation, toxic pollution, agricultural mono-culture, invasive species, competition, habitat destruction, urban sprawl, oceanic acidification, ozone depletion, global warming, and climate change. It’s a runaway train of ecological calamities.
It’s a train that carries all the earth’s species as unwilling passengers with humans as the manically insane engineers unwilling to use the brake pedal."
Skemmtilegt hvernig þið talið bæði um hámarkshraða og þörfina á að "stíga á bremsuna"
Síðar segir hann:
"We need to radically and intelligently reduce human populations to fewer than one billion."
Ég er viss um að þú takir ekki undir þessi orð, sem þó eru rökrétt afleiðing af því að setja hámarkshraða - réttara sagt hámarkssætafjölda - á útvíkkun á athafnasemi mannsins í formi orkunotkunar.
Varðandi hámarkshraða (sem er svolítil hliðarumræða sem þú ert að knýja á hérna) þá eiga eigendur vega auðvitað sjálfir að setja umgengisreglur um notkun þeirra. Í dag á ríkið vegakerfið (því miður) og setur því eðlilega umferðarlög sem leiðbeiningar um hegðun og atferli á því.
Vinsamlegast hættu að kalla mig "hægrimann" ef þú ætlar að blanda saman sögulegum misskilningi og nútímaruglingi á hugtakinu "hægri" saman við mínar skoðanir. Orðið "frjálshyggjumaður" á mun betur við mig til að eyða misskilningi, sem þér er samt að sjálfsögðu frjálst að viðhalda.
Geir Ágústsson, 16.6.2007 kl. 17:49
Ég er ekki sammála því að það eigi að grípa til aðgerða til að fækka mannfólki í heiminum, hjálpi þér ef þú vilt reyna að klína þeirri skoðun upp á mig. Það er til fólk sem hefur sömu afstöðu og ég í ýmsum málum en stingur að mínu mati upp á kolvitlausum og hættulegum lausnum á vandamálum nútímans og framtíðarinnar. Paul Watson er að mínu mati kolruglaður hryðjuverkamaður þó svo að ég færi ekki að hætta að vera hvalfriðunar- og umverfisverndarsinni bara út af honum. Ég tel mig tala fyrir skynsömum lausnum en ekki öfgum.
Það skal líka tekið fram að ég veit fullvel að það er mikill munur á frjálslyndum hægrimönnum annars vegar og stjórnlyndum hægrimönnum hins vegar. Þú og George Bush eruð báðir skattalækkunarsinnar en ef til vill er það það eina sem þið eigið sameiginlegt. Engu að síður má vel segja að þið séuð báðir hægrimenn. Aldrei dytti mér í hug að setja alla hægrimenn undir sama hatt og ég var þess vegna að koma með þetta dæmi til að sýna þér hvað slíkt er fáránlegt. Ekki skil ég af hverju þú vilt gefa í skyn að ég styðji Paul Watson í hans aðgerðum, það er alveg jafn heimskulegt og ef ég gerði þig að holdgervingi fyrir skoðanir G.Bush og Gunnars í Krossinum.
Ég er vinstrisinnuð og fer ekkert í launkofa með það þó svo að Stalín hafi verið öfgasinnaður vinstrimaður. Ef manneskja vill klína hans skoðunum upp á mig segir það einfaldlega allt um ályktunarhæfni þeirrar manneskju, sem klárlega gæti ekki talist mjög mikil.
hee (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 18:12
Þegar ég segi, "Ég er viss um að þú takir ekki undir þessi orð.." þá er ég ekki að "reyna að klína þeirri skoðun upp" upp á þig.
Ég er hins vegar að segja að þótt ég viti að þú sért EKKI þessarar skoðunar þá er þessi skoðun eða hugmynd rökrétt afleiðing þess að minnka svigrúm til orkuframleiðslu með höftum og ríkisafskiptum.
Geir Ágústsson, 16.6.2007 kl. 18:23
Ég á ennþá eftir að sjá einhver rök fyrir því að aukinn útblástur gróðurhúsalofttegunda eigi eftir að hafa einhver neikvæð áhrif á lífsskilyrði fólks við miðbaug umfram það sem náttúrulegar sveiflur í hinu og þessu myndu framkalla upp á eigin spýtur. Sahara breyttist úr skógi vöxnu landi í eyðimörk á 300 árum og það er ekkert sem bendir til að maðurinn hafi haft nokkuð með það að gera. Ef eitthvað svipað myndi eiga sér stað í dag væri skuldinni vafalaust skellt á gróðurhúsaáhrif.
Eins og Geir bendir á virtust vísindamenn vera sammála fyrir nokkrum árum að jörðin væri á leið í litla ísöld en svo bæta þeir einhverjum breytum við líkönin sín og allt í einu erum við komin með dómadagsspá um áður óþekkt hitaskeið og ef ekkert verður að gert verður jörðin óbyggileg eftir 100 ár. Það eru allt of margar óþekktar stærðir sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í þessum líkönum til að hægt sé að halda því fram að gróðurhúsalofttegundirnar séu að breyta jörðinni á einhvern drastískan hátt sem þarf nauðsynlega að koma í veg fyrir. Möndulhalli jarðar hefur breyst um hálfa gráðu á undanförnum 9000 árum, á sama tíma hefur braut jarðar um sólu breyst þannig að áður var jörðin næst sólu í júlí en er nú næst sólu í janúar og svo mætti áfram telja. Á ég að trúa því að hlutir eins og þessir hafi minni áhrif á veðurfar á jörðinni til lengri tíma en útblástur iðnríkjanna.
Hildur talar um þessa skemmtilegu hengiflugskenningu en má ekki að sama skapi líkja hræðsluáróðri hennar við kenninguna um fossinn við enda jarðarinnar, hún þorir ekki að nálgast sjóndeildarhringinn af ótta við að þar sé einhver foss sem hægt sé að detta fram af! Getur verið að það sé enginn dómsdagur handan við hornið? Er mögulegt að lífsskylirðin á jörðinni séu í raun að batna án þess að við séum að eyðileggja hana í leiðinni? Er það svo óhugsandi að ætla að veðurfar á jörðinni fylgi náttúrulegum sveiflum og við séum að nálgast topp á hlýindaskeiði sem er einfaldlega aðeins hærri en á undanförnum hlýindaskeiðum?
Nú ef við ákveðum að trúa því að koltvísýringur sé afkvæmi djöfulsins og að magn hans í andrúmsloftinu þurfi nauðsynlega að minnka afhverju þá að einblína svona svakalega á orkuiðnaðinn? Ef rétt reynist að olíu og kolabirgðir jarðar dugi bara í 50-70 ár í viðbót leysist það vandamál þá ekki bara af sjálfu sér, minnkar ekki útblásturinn af sjálfu sér vegna minnkandi birgða og á sama tíma fáum við nýja og "hreinni" orkugjafa? Mér sýnist mun brýnna vandamál vera t.d. eyðing regnskóga sem hjálpa einmitt til við að binda koltvísýringinn. Helmingur skóganna hefur verið hogginn niður sem þýðir væntanlega að helmingur þess CO2 sem þeir áður bundu verða eftir í andrúmsloftinu og því hefur verið spáð að eftir 20-30 ár verða aðeins um 20% af upprunalegri stærð eftir. Þetta er varanlegt vandamál sem kemur ekki til með að leysast af sjálfu sér því ef ekkert er að gert hverfa skógarnir á endanum og CO2 magn í andrúmsloftinu eykst því eðli málsins samkvæmt og veldur skv. dómadagsspám því nánast eyðingu jarðar í leiðinni. Væri ekki nær að beina spjótum sínum að amazon og indónesíu en Exxon og BP?
Svenni (IP-tala skráð) 16.6.2007 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.