Mánudagur, 25. nóvember 2024
Orkuver á eldfjalli virkar, önnur komast ekki á koppinn
Það hefur satt að segja verið alveg aðdáunarvert að sjá hvernig tekist hefur að aðlaga lífið á Reykjanesi að virku eldsumbrotasvæði. Rör og vegir rofna en lagað jafnóðum. Orkuver aftengist en tengt aftur jafnharðan. Sprunga klífur bæ í tvennt en hann límdur saman aftur við fyrsta tækifæri.
Þetta geta Íslendingar. Þeir kunna að framleiða og dreifa orku, viðhalda vegum og rörum og halda úti innviðum.
Það er að segja þegar þeir mega það.
Mér fannst því svolítið skondið að sjá bland af fyrirsögnum og auglýsingum á mbl.is sem segir eiginlega alla söguna, sjá hér:
Til vinstri sjást stjórnmálamenn sem vilja framkvæma og ég trúi því að þeir vilji það í raun. Til hægri sést að vinna við nýjar rafmagnslínur í staðinn fyrir þær sem slitnuðu í eldsumbrotum er hafin. Og neðst til hægri er viðvörun frá Pírata um að nýtt hrun sé framundan.
Kannski hefur Píratinn rétt fyrir sér en væri þá um leið samsekur. Píratar leggja áherslu á lýðræði, gagnsæi, mannréttindi og réttarríki en ekki hagvöxt, öfluga innviði og ódýra orku. Píratar fengu hæstu einkunn í umhverfismálum síðustu alþingiskosningar frá Sólinni og stefna á að endurtaka það svo það mætti segja að kjörorð þeirra séu andstæða þeirra hjá Flokki fólksins (fyrst fólkið, svo allt hitt).
Hugrenningatengslin sem urðu til hjá mér eru þau að stjórnmálamenn og stofnanir sem þeir eiga að hafa stjórn á standa í vegi fyrir góðum verkefnum. Þeir gera það erfitt að byggja og virkja og halda aftur af frumkvæði og drifkrafti. Nema þegar þeir gera það ekki. Og þá gerist allt frekar hratt.
Virkjum!
Byggjum!
Já, auðvitað. Það vantar bæði orku og húsnæði og nægur markaður fyrir hvoru tveggja. En fyrst þarf að koma pírötum af öllu tagi úr veginum, bæði innan stjórnmála og stofnana. Í kjölfarið verður Ísland allt orðið að framkvæmdagleði eldsumbrotasvæðisins, nema kannski í Reykjavík þar sem borgarstjórn er annar Þrándur í götu og spádómar píratans rætast sennilega fyrst.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:55 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.