Þriðjudagur, 12. mars 2024
Þurfum við öll þessi samtök í atvinnulífinu?
Ég veit að verkalýðsfélög eru vinsæl á Íslandi. Nánast allir eru í þeim og sætta sig við að láta þau semja fyrir sig um kaup og kjör, bjóða sér upp á aðgang að sumarbústað og gleraugnastyrkjum, bjóða upp á námskeið og fyrirlestra og svona mætti lengi telja. Það er gott að geta í skiptum fyrir félagsgjald treyst á ákveðna þjónustu, svo sem að stíga til leiks ef atvinnurekandi misnotar aðstöðu sína. Ég skil þetta allt saman. Ég er sjálfur í verkalýðsfélagi þar sem sitja lögfræðingar tilbúnir að aðstoða mig ef þörf er á. Engin sumarhús til leigu samt, svo því sé haldið til haga.
En það er allt í lagi að hugsa upphátt.
Þeir eru til sem telja að verkalýðsfélög hafi komið á ýmsum kjarabótum fyrir launafólk og ég skil vel að margir telji það. Án þeirra væru vinnudagarnir 10 klukkustundir og yfirvinna ólaunuð, ekki satt? En kannski kom hænan á undan egginu: Samkeppni um hæft starfsfólk þrýsti á vinnustaði til að bæta kjörin og stytta vinnudaginn til að laða að sér hæft fólk. Í dag eru til vinnustaðir þar sem vinnuvikan er fjórir dagar. Það fær starfsmenn annarra vinnustaða til að þrýsta á eitthvað svipað. Ekkert mál í raun ef þú ert ekki að sinna neinni þjónustu í rauntíma. Vinnuvikan styttist og í kjölfarið koma verkalýðsfélögin og þrýsta á lagabreytingar og eitthvað svipað fyrir alla aðra. Þetta er ein leið til að horfa á hlutina.
Að launafólk sætti sig við að bindast fast við launataxta hefur síðan ókosti. Lélegustu starfsmennirnir fá of mikið í laun og þeir bestu fá of lítið. Hvoru tveggja hlýtur að vera letjandi á hvorn sinn hátt.
Síðan eru það átökin. Þau kosta sitt - verðmæti sem hefðu annars runnið í hirslur fyrirtækja og þaðan í vasa launþega. Gleymum svo ekki þeim mörgu tilvikum þegar kjarabæturnar urðu að kjaraskerðingu vegna verðbólgu og gjaldþrota sem komu í kjölfarið.
Kannski voru verkalýðsfélög einu sinni nauðsynleg en eru núna orðin að bagga á samfélaginu. Þegar launþegar semja í breiðfylkingum þá þurfa atvinnurekendur að gera það saman, og gera það með því að stilla saman strengi og samræma launastefnur sínar. Er það ekki einokun? Hvernig væri ástandið ef bæði launþegar og atvinnurekendur væru án samhæfingar? Kannski það gæti aukið samkeppni um gott fólk og fengið fyrirtæki til að leita leiða til að skera sig úr í samkeppninni. Lagerstarfsmaður fær væntanlega lítið aukalega í vasann við að skipta frá einum lager til annars. Er hann ekki fastur?
Annars er mér nokkuð sama hvort fólk er í verkalýðsfélagi, og fyrirtæki í samtökum eða ekki, en í ljósi reynslunnar seinustu ár er kannski tækifæri til að endurskoða aðeins þetta kerfi átaka og breiðfylkinga og gefa launþeganum meira svigrúm til að prútta, og um leið minnka aðeins þá vernd sem launagreiðendur hafa gegn samkeppni um besta fólkið.
Vilji frekar valda samfélagstjóni en að hlusta á láglaunafólk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Kauptaxtar og kjör eru lágmark. Launþegum, og atvinnurekendum, er frjálst að semja um meira. Endalaust svigrúm til að prútta.
Vagn (IP-tala skráð) 13.3.2024 kl. 02:27
Sæll Geir, þú segir að þau séu vinsæl, er það? Stundum er kosningaþáttaka langt undir 50%, veit ekki hvort allir séu hrifnir af skylduiðgjaldinu en enginn hefur barmað sér yfir því. Ætli það sé ekki draumur að fá sitt sama hvaða niðurstaða fæst á borðinu, það væri kannski sanngjarnara að fá val um iðgjaldið, sumir hafa annað þarfara að gera við peninginn
Gunnar (IP-tala skráð) 13.3.2024 kl. 08:36
Vagn fer ekki alveg rétt með hvað varðar sveitarfélög og ríki sem dæmi. Þeir eiga að fara eftir kjarasamningi, s.s. sjúkraliða, hjúkrunarfræðinga, kennara. Kannski svigrúm fyrir mjög fámenna stétt. Ætli sveitarfélag að greiða t.d. grunnskólakennara hærri laun en taxti segir um er þeim vísað út úr sambandi ísl. sveitarfélaga. Þetta sagði mér sveitarstjóri. Allir skulu fara eftir samningi.
Launagreiðendur greiða af launum launamanns í orlofssjóð, sjúkrasjóð og menntasjóði stéttarfélaga. Kemur ekki stéttarfélagsgreiðslum við. Þau fara í rekstur yfirbyggingarinnar. Mönnum þykir voða fínt í kjölfar kjarasamnings að gera sagt að gjaldið í hinn og þennan sjóð hækki um 0.05% og kosti svo og svo mikið.
Stéttarfélög eiga að sameinast, meira en orðið hefur. Innan Kennarasambands Íslands eru t.d. tvö stjórnendafélög, leik-og grunnskóla. Fámenn félög og geta ekki rekið sig nema frá félagsgjöldum grunnskólakennara. Sama með tónlistarkennara sem eru innan KÍ. Laun innan sambandsins eru há og yfirbygging mikil. Verkalýðsfélög virðast þenjast út eins og ríkið.
Fyrir stuttu kom í ljós að Erna Guðmundsdóttir lögfræðingur fyrrum framkvæmdastjóri BHM gerði samning um 12 mánaða biðlaunagreiðslu. Finnst mönnum þetta eðlilegt?
Langt er síðan að við sáum launakjör verkalýðsforingja og þeirra sem vinna á skrifstofum félaganna. Get sagt með nokkurri vissi að launakjörin fylgja ekki launum félagsmanna. Þegar ég starfaði með Sjúkraliðafélagi Íslands og gerði athugsemd við þetta fékk ég bágt fyrir. Rétt eða rangt? Hver og einn verður að svara því.
Á síðasta þingi Kennarasambandsins var samþykkt að stjórn KÍ skoði lækkun á félagsgjaldi sem er hátt hjá kennurum. Enn hefur ekkert gerst og virðist stjórn ekki hafa mikinn áhuga að lækka félagsgjaldið. Get ekki túlkað framkvæmdaleysið öðruvísi.
Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 13.3.2024 kl. 08:57
Verkalýðsfélögin eru ríki í ríkinu. Þau eru farin að stjórnast um fjármál ríkisins.
Þau eyðilögðu einnig símenntun með að setja það inn að launagreiðendur borgi í sjóði. Eftir það senda lítil fyrirtæki enga á námskeið. Segja að geti borgað sjálf og fengið endurgreitt. Sem þýðir að fyrirtæki sjá engan hag í símenntun.
Það er hægt að tyggja meira upp en eftir stendur spurningin af hverju semja þau þá ekki lægri skatta eða skatttfrjálsa styrkina?
Rúnar Már Bragason, 13.3.2024 kl. 10:29
Ég hef heyrt það sjálfur (sem unglingur að vísu) og heyrt aðra segja frá því, hjá einkafyrirtækjum, að launahækkun sé nú ekki möguleg því nú þegar væri verið að borga hæsta taxta! Þessir taxtar eru því orðnir vörn atvinnurekanda gegn því að hækka laun. Í mínu tilviki hætti ég og fór í betur borgað starf (sem sumarstarfsmaður). Það lifðu það allir af en þurfti eflaust að finna annan handlangara í minn stað með tilheyrandi veseni.
Geir Ágústsson, 13.3.2024 kl. 17:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.