Mánudagur, 22. janúar 2024
Kæri stjórnmálamaður, af hverju fórstu í stjórnmál?
Eftir mikla yfirlegu yfir löngum ræðum og viðtölum hef ég komist að niðurstöðu: Flestir stjórnmálamenn eru handónýtar handtöskur sem fylgja bara þeirri línu sem þeim er mokað á. Þeir taka aldrei sjálfstæða ákvörðun, mynda sér ekki sína eigin skoðun í neinu máli, svíkja samvisku sína, tjá sig í skjóli ótta við almenningsálitið og gera í raun ekkert nema það sem þeir telja líklegt til að ná endurkjöri. Kjósendur verðlauna svo slík gólfteppi með atkvæði sínu og tryggja að þetta hugarfar verði áfram ríkjandi.
Reyndar þurfti enga langa yfirlegu yfir neinu til að komast að þessari niðurstöðu. Þetta blasir hreinlega við, eins og flóðljós á íþróttavelli.
Það er því við hæfi að spyrja sig að því af hverju flestir stjórnmálamenn fóru í þessa vegferð sína. Eru það launin? Athyglin? Fríðindin? Félagsskapurinn?
Ekki er það sú ástríða að setja mark sitt á þróun samfélagsins til betri vegar. Þó er þetta fólk sem sat í nemendaráðum á öllum skólastigum og varð jafnvel að formanni slíks félags á yngri árum. Fólkið sem hélt ræður. Skipulagði árshátíðir. Fólk sem lét prenta af sér litríka bæklinga á unga aldri, þyrst í athygli og hrós.
Lausnin á þessu ástandi er augljós: Að taka sem mest af verkefnum og fjármunum úr höndum hins opinbera og koma í hendur þinna og annarra á hinum frjálsa markaði í frjálsu samfélagi. Þá geta ráðhúsin og þinghúsið orðið að frekar skaðlausum kjaftaklúbbum fólks sem þráir ekkert heitar en að sjá andlit sín í litríkum bæklingum.
Því fyrr því betra. Og þá geta fagmennirnir tekið við.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Facebook
Athugasemdir
Þú spyrð af hverju fólk vilji vera stjórnmenn: Launin, athyglin, fríindin eða félagsskapurinn? Ég held þú gleymir einu mjög mikilvægu sem er: Sérhagsmunafélögin vilja hafa "sitt fólk" á Alþingi til að hugsa sem best um sína hagsmuni.
Sigurður I B Guðmundsson, 22.1.2024 kl. 21:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.