Miðvikudagur, 3. janúar 2024
Margar leiðir til að stuðla að skattahækkunum
Einn versti galli ríkisstjórnar Íslands er ekki að hún er hugmyndafræðilega gjaldþrota og geti ekki tekið neinar gagnlegar ákvarðanir fyrir land og þjóð, ella hætta á að springa. Nei, stærsti gallinn er sá að til að líma ríkisstjórnina saman fá allir flokkar að halda úti ráðherrum eins og litlum ríkjum í ríkinu. Þeir fá allir að banna og leyfa eins og þeim hentar, og eyða og eyða og eyða eins og enginn sé morgundagurinn. Allir þessir ráðherrar fá að fjármagna kosningabaráttu á kostnað skattgreiðenda, að því er virðist óheft.
Alveg gapandi dæmi um þetta er dekur menningar- og viðskiptaráðherra við RÚV. Núna á að minnka samkeppni ríkismiðilsins við einkarekna fjölmiðla á auglýsingamarkaði en dæla einfaldlega skattfé í hirslur hans í staðinn.
Af hverju ekki að minnka umsvif miðilsins? Nú eða leggja hann niður? Halda mögulega úti Rás 1, ef því að skipta. Mögulega að breyta eitthvað af neyslufé RÚV í styrki til innlendrar framleiðslu á efni sem einkaaðilar geta svo séð um að senda út.
En nei, RÚV skal fá að standa á sínum litla tindi, með sína bólgnu sjóði og óstöðvandi hallarekstur, og spýja upplýsingaóreiðu og pólitískum áróðri út, óáreitt, á kostnað skattgreiðenda.
Skaðinn er kannski ekki svo mikill lengur. Hver tekur mark á RÚV í dag? En þetta kostar auðvitað, og skýtur skökku við að blása meira af lofti í þessa bólu á meðan yfirvöld boða aðhald og sparsemi fyrir aðra.
Nýskipaður fjármálaráðherra sagði nýlega í viðtali:
Ríkið á fyrst og fremst að sinna grunnþjónustu samfélagsins, kjarnanum. Og sinna henni almennilega. Öðru eigum við að leyfa öðrum að finna út úr og sinna ...
Hvernig rímar framleiðsla á lélegri afþreyingu og pólitískri upplýsingaóreiðu við þessa lýsingu? Illa. Mun fjármálaráðherra stíga inn í? Það efast ég um. Gerðu það sem ég segi, ekki það sem ég geri. Stjórnmálin í hnotskurn.
Hömlur á auglýsingar en tekjutap bætt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.