Laugardagur, 24. júní 2023
Stjórnsýslan sem öllu ræður
Mikið hlýtur að vera þreytandi að standa í einhvers konar rekstri á Íslandi. Inngangan í völundarhús stjórnsýslunnar getur tekið óendanlega langan tíma, kostað gríðarlegt fé og jafnvel lagt fyrirtæki að velli - drepið þau í fæðingu. Öll leyfi sem að lokum tekst að fá þarf svo að endurnýja reglulega með ærnum tilkostnaði án sýnilegs ávinnings og samkvæmt löggjöf sem breytist dag frá degi, að frumkvæði Evrópusambandsins.
Sérstaklega er þetta átakanlegt í tilviki Landsvirkjunar sem vinnur af kappi að því að afla Íslendingum rafmagns en fær ekki að hefjast handa og fær enga tímaramma til að vinna út frá.
Landsvirkjun hefur verið að endurskoða áætlanir sínar vegna fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar í kjölfar þess að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi úr gildi virkjanaleyfi sem Orkustofnun hafði gefið út. Fram kom hjá orkumálastjóra þegar úrskurðurinn lá fyrir að ómögulegt væri að segja til um hversu langan tíma myndi þurfa til að leysa úr málinu.
Hjá Landsvirkjun starfa engir vitleysingar. Þar er fólk sem hefur komið að undirbúningi, smíði og rekstri fjölmargra virkjana og þekkir þær út og inn, þar með talið nærumhverfi þeirra. Þar eru lögfræðingar sem þekkja íslenska löggjöf og vita hvað þarf að gera og skrifa til að fá leyfi fyrir hinu og þessu.
Þar til í dag.
Komið hefur í ljós að einhver Evrópusambandslöggjöf standi núna framar íslenskri löggjöf, eða eins og segir í úrskurði:
Þá gildi sú meginregla að lög um mat á umhverfisáhrifum skuli túlka rúmt og með hliðsjón af markmiðum umhverfismatslöggjafarinnar, sbr. dóm Evrópudómstólsins frá 24. október 1996 í máli C-72/95, þar sem dómurinn hafi vísað til rúms gildissviðs og víðtæks tilgangs tilskipunar 85/337/EBE.
Tilvísanir í tilskipanir Evrópusambandsins eru kryddaðar yfir allan úrskurðinn. Vissulega hafi verið unnið að byggingu Hvammsvirkjunar í áraraðir en á meðan hefur lagaverksmiðjan á meginlandinu framleitt tilskipanir sem hafa verið innleiddar í íslensk lög. Þetta er kapphlaup: Menn undirbúa eitthvað samkvæmt lögum, báknið svæfir málið í skúffum sínum svo árum skiptir, löggjöfin er á meðan uppfærð og öll upphaflega vinnan nú ekki lengur samkvæmt lögum.
Bætum við þetta að innviðir á Íslandi eru sprungnir í loft upp. Góður vinur minn þurfti að fara til útlanda til að komast til geðlæknis og fá viðeigandi úrræði við ástandi sínu. Heilu fjölbýlishúsin eru rýmd af Íslendingum til að koma þar fyrir svokölluðum hælisleitendum. Ríkissjóði blæðir í allskyns fyrir alla nema skattgreiðendur.
Og núna má ekki lengur veiða stóra hvali - nokkuð sem hefur fylgt búsetu á norðurhjara veraldar í ár og aldir. Og það þarf að taka mark á því þegar einhver skilgreinir sig sem kisu. Jahérna.
Mikil er ábyrgð þeirra stjórnmálamanna sem leyfa þessu ástandi að halda áfram, bæði á sviði ríkisvalds og sveitastjórna. Mikil er ábyrgð kjósenda þegar þeir kjósa auglýsingar og slagorð en ekki innihald og hugsjónir.
Guð blessi Ísland. Að undanskildri stjórnsýslunni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:50 | Facebook
Athugasemdir
Þegar það gengur vel á Íslandi þá stækkar opinberi geirinn sem aldrei fyrr. Allar líkur á að velgengni muni rústa þjóðinni.
Kristinn Bjarnason, 24.6.2023 kl. 13:06
Það er með ráðum gert hjá ESB-stjórnendum -- kerfi sem sigrar land og þjóð okkar.
Helga Kristjánsdóttir, 24.6.2023 kl. 14:16
Það er tíma- og orkusóun að hefja rekstu á Íslandi, síðasta áratuginn. Ísland er innfallið. Flótti héðan er hið eina raunhæfa í stöðunni. Þeim fjölgar frá viku til viku sem undirbúa flótta, bæði einstaklingar og fyrirtæki.
Guðjón E. Hreinberg, 25.6.2023 kl. 01:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.