Fimmtudagur, 22. júní 2023
Þessir traustu og áreiðanlegu fjölmiðlar
Blaðamenn eru óáreiðanlegir kranar fyrir þvæluna sem vellur úr þeim sem þeir telja mikilvægt að þjóna.
Eða hvað?
Eru þeir kannski heiðarlegir fagmenn sem vinna af einlægni að því að miðla fréttum og upplýsingum sem blaðamannafulltrúar hins opinbera og stórfyrirtækja gleyma að nefna?
Kannski er bæði rétt, og jafnvel að flestir blaðamenn séu þarna einhvers staðar í miðjunni: Vilja ekki láta neinn uppnefna sig, en hafa samt varann á þegar þeim er sagt að skrifa eitthvað.
Alex Berenson er blaðamaður. Ekki endilega frægur fyrir að hafa unnið fyrir New York Times, en á veirutímum búinn að vera óþreytandi að benda á hætturnar við sprauturnar og veiruaðgerðirnar. Ég er alls ekki sammála honum í öllu en virði drifkraft hans og ákafa í að segja sannleikann eins og hann sér hann, og hann vandar sig í heimildavinnunni.
(Það er til lítils að leita að nafni hans á helstu leitarvélum. Það er búið að dauðhreinsa það og setja hann rækilega í hóp klikkhausa og nægir þar að nefna óhróðurspistilinn á wíki-pídía sem dæmi.)
Honum var á sínum tíma varpað út af tvitternum fyrir að segja hið augljósa: Veirusprauturnar eru í besta falli lyf, frekar en bóluefni, með margar aukaverkanir, sem þú þarft að taka rétt áður en veiran kemur og veitir sífellt verri vörn eftir því sem lengur líður, og þarf því að taka ítrekað.
Hvað um það.
Berenson þessi fann sér annað athvarf til að deila rannsóknum sínum og skoðunum: Substack (óhróðursinnlegg wíki-pídía um þann vettvang hérna). Þar skrifar hann enn í dag. Nýjasta innlegg hans er mjög áhugavert. Hann bendir á hvernig (óþarflega) virtur fjölmiðill, New York Times, snýr út úr staðreyndum sem henta ekki ritstjórnarstefnu hans. Skítt með innihaldið. Skítt með upplýsingagildið.
Ég er búinn að sjá eitt og annað um ástæður þess að blaðamenn hinna svokölluðu meginstraumsfjölmiðla eru ónothæfir. Ekki er alltaf um að ræða illan ásetning, metnað til að yfirgefa illa borgað blaðamannastarfið til að gerast blaðamannafulltrúi hins opinbera eða stærra fyrirtækis, getu- og viljaleysi til að sinna starfi sínu eða ást á stórum lyfjafyrirtækjum. Blaðamenn eru undir þrýstingi, hafa stolt, óttast uppnefni og þurfa að kaupa í matinn eins og aðrir. Allt þetta þarf að setja í samhengi við þrýstinginn að ofan um að rugga ekki bátnum, hver sem hann er.
Veirutímar hafa auðvitað afhjúpað þessa veikleika fjölmiðla sem reiða sig á gömul viðskiptalíkön, með stóra yfirbyggingu og minnkandi tekjur. Fyrir vikið hafa sprottið upp sveigjanlegri miðlar sem nýta sér tæknina betur eða draga að sér hugsjónafólk sem þarf ekki að þykjast vera stórstjörnur eins og sumir fréttaþulir hafa vanið sig á að vera.
Fyrir okkur, neytendur frétta, þýðir þetta auðvitað meiri vinna. Það er ekki lengur hægt að heimsækja stærri miðla eins og BBC og CNN eða dvergamyndir þeirra eins og RÚV á Íslandi og DR í Danmörku. Að neyta frétta er orðið flókið mál. Valkosturinn er samt verri: Að sitja óttasleginn í sófanum yfir kvöldfréttatíma sjónvarpsstöðvar og fá þá mynd af heiminum að grímur virki og að börn séu hættulegir smitberar.
Besta ráðið er auðvitað að hætta meira og minna að fylgjast með fréttum þessara svokölluðu traustu og áreiðanlegu miðla, nema mögulega veðurfréttum. Næstbesta ráðið er að horfa á fréttatíma eins og kvikmyndir og brosa aðeins þegar við erum vöruð við heimsendi, enn einu sinni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:15 | Facebook
Athugasemdir
Takk fyrir þessa færslu Geir. Þú ert ritsnillingur, en ennþá vanmetinn.
Arnar Þór Jónsson (IP-tala skráð) 23.6.2023 kl. 07:36
Áhugaverð lesning og vel skrifuð.
Þurfum að ala upp komandi kynslóðir á https://tuttletwins.com/ eða álíka því núverandi kynslóðir eru með eindæmum... slakar.
Skúli Jakobsson, 23.6.2023 kl. 15:40
Takk báðir.
Mér finnst ennþá ótrúlegt að hugleiða hvað "blaðamenn" láta blekkja sig. Þeir eru ekki að valda valdhöfum og sérhagsmunum neinum óþægindum. Þeir eru ekki að afhjúpa neitt. Þeir eru ekki að benda á neitt sem hefur ekki komið fram í opinberum yfirlýsingum. Af hverju völdu þeir þetta starf? Ekki vegna launanna, það er á hreinu.
Í íslensku samhengi eru það kannski, og því miður, vinstrimiðlarnir sem ríkir tæknigúrúar styðja sem eru að þrýsta á afsagnir og feluleiki. En vinstrimenn eru að sprengja bólurnar, ekki kýlin.
Geir Ágústsson, 23.6.2023 kl. 19:14
3 hugsanlegar ástæður fyrir slakri blaðamennsku.
1. Grunn "þekking" á fjölmörgum sviðum.
2. Enginn tími til að kafa ofan í nokkuð sem helst. Eins og hundar á eftir lóðatík.
3. Lægsta meðal gáfnafar af háskólagráðum.
My2cents.
Skúli Jakobsson, 23.6.2023 kl. 20:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.