Brjálaðir samsæriskenningasmiðir gerðir út af öfgamönnum

Mikil er biturð þeirra sem létu blekkja sig á veirutímum og neita að sjá að sér. Þeir ríghalda í lygarnar og þótt það sé orðið alveg óbærilega erfitt þá má ekki sleppa því þá særist stoltið. 

Á þessu eru auðvitað undantekningar. Um daginn lýsti einn sem lét blekkjast á veirutímum því yfir að hann hefði verið einfeldningur. Það er stór pilla að kyngja en um leið er virðingarvert að stíga fram og játa mistök sín. Sjálfur geri ég það gjarnan, eins og í tilfelli innrásar Bandaríkjanna auk leppa inn í Írak á sínum tíma. Að játa mistök sín er hreinsandi fyrir sálina.

Þeir sem ríghalda í lygina þurfa oft að fá útrás og hvaða útrás er betri en að spinna einhverjar sögur um brjálæða samsæriskenningasmiði sem eru gerðir út af sérvitrum auðmönnum? Og nei, ég er ekki að tala um áróðursher Bill Gates og hans líka sem eiga hluti í stórum fjölmiðlum og stilla saman strengi þeirra til að tryggja eigin hagsmuni. Brjálaða fólkið er venjulegt fólk sem hlustar á hlaðvarp Joe Rogan og les tíst Elon Musk.

Í frétt sem mætti kannski frekar kalla skáldsögu segir í fyrirsögn:

Sátu um vísinda­mann eftir „á­skorun“ Rogan og Musk

Bíddu nú við, voru Rogan og Musk að skora á fólk að sitja um heimili vísindamanns? En sú ósvífni!

Nei, auðvitað var það ekki svo.

Stutta útgáfan er sú að vísindamaður nokkur og barnalæknir að auki, Dr. Peter Hotez, sem varaði einu sinni við tilraunasprautum í börn en fær nú borgað fyrir að boða þær, var í rólegheitum að úthúða Rogan og kalla hann fasista á samfélagsmiðlum þegar Rogan hefur samband og býður honum upp á að koma í rökræður í hlaðvarpi hans. Hotez segist vilja mæta í viðtal, ekki rökræður. Yfir 2 milljónir dollara safnast sem greiðast í góðgerðarmál ef Hotez mætir í rökræður, en hann gefur sig ekki.

Margir reiðast þessu og þessum vísindamanni, sem kallaði Rogan fasista, en Hotez vill samt koma í viðtal til Rogan, en bara ekki í rökræður. Tveir menn ákveða, án nokkurrar áskorunar frá Rogan eða Musk, að reyna sannfæra Hotez í eigin persónu og á friðsaman hátt enda ekki að sjá að neinn glæpur hafi verið framinn. Hotez þessi verður skelkaður og óttast að mennirnir séu vopnaðir og drífur sig á samfélagsmiðla að segja frá þessum hræðilega viðburði.

Ég hef lent í því að fólk sem ég þekki lítið eða ekkert komi að mér og kalli mig jafnvel nöfnum eða hafi frá einhverju að segja sem ég hef ekki beðið um að heyra. Það er kannski bara afleiðing þess að gera skoðanir sínar kunnar. En þegar þú kallar fólk úti í bæ fasista á samfélagsmiðlum er kannski hætta á því að það veki viðbrögð og að fólk vilji fá að bregðast við.

Að öðru leyti er fréttin álíka þvæla. Menn eru kallaðir samsæriskenningasmiðir og boðberar kenninga sem er búið að hrekja og ýmislegt annað gott. Ekki vottur af sanngirni eða því að benda á þykkar bækur álhattanna, rækilega studdar heimildum. Ekki dropi af hrósi til hlaðvarpsstjórnanda sem er í raun og veru og af miklum heilindum að reyna færa opinbera umræðu til fólks með því að fá hugsandi menn til að mætast í rökræðum. Ekkert. Bara uppnefni og reyfarakennd frásögn um hættulega boðbera umsáturs um heimili barnalækna.

Kannski blaðamaður ætti frekar að líta á Rogan sem fyrirmynd og reyna að læra eitthvað af honum. Það er a.m.k. ekki að sjá svigrúm til að verða enn verr starfi sínu vaxinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband