Hringrásarvitleysan

Það er eitthvað að koma mörgum Íslendingum á óvart þessa dagana að allt hringleikahúsið í kringum flokkun á rusli - tunnurnar, grenndargámarnir, móttökustöðvarnar, skilagjaldið, fækkun sorphirðudaga og síhækkandi sorphirðugjaldið - er meira og minna svikamylla. Það er í sjálfu sér ágætt að fólk sé að átta sig. En af hverju tók það svona langan tíma?

Flokkun á rusli og endurvinnsla eða endurnýting þess er einfaldlega spurning um verðmætasköpun. Sjái einhver hag sinn í því að gramsa í rusli í leit að efnum til verðmætasköpunar þá á það sér stað ef enginn stendur í vegi fyrir því. Hjá mínum gamla atvinnuveitanda var ruslið hreinlega selt því eitthvað annað fyrirtæki kunni að vinna verðmæti úr því. Ef lífrænn úrgangur er raunverulega verðmætur þá er einhver að kaupa hann af fólki og fyrirtækjum. Sama gildir um annan úrgang.

En enginn er auðvitað að leita að verðmætum í úrgangi. Íslendingar sigla pappír, plasti og öðru til fjarlægra ríkja gegn ógnargjaldi og mikið af þessu endar hreinlega í erlendum brennsluofnum frekar en íslenskum. Þetta jafnast á við að Íslendingar niðurgreiði orkureikninga annarra ríkja. 

Þetta er eitt stórt leikrit sem gagnast hvorki umhverfinu né loftslaginu og dregur í engu úr þörfum mannkyns til að afla sér nýrra hráefna til að búa til nýja hluti.

Venjulegt fólk á að geta losað sig við rusl í ruslatunnu. Allt rusl í eina tunnu (mögulega með rafhlöður og eitruð efni sem undantekningar). Síðan eiga sérfræðingar eða sérhæfðir aðilar að taka við og leita að verðmætum án þess að það bitni á þeim sem afhentu þau.

Slíkt fyrirkomulag eykur skilvirkni flokkunar og endurnýtingar eins og nýlegt norskt dæmi sýnir. Og í raun ættu dæmi að vera óþörf: Það segir sig sjálft að almenningur flokkar vitlaust og verr en fagmenn og færibönd, það er óhagkvæmt að sækja margar tegundir af rusli í mismunandi bílum úr hverri einustu ruslageymslu, opinbert og niðurgreitt bákn er aldrei að hugsa um hagkvæmni, auknar kröfur um flokkun eru ekki byggðar á óskum verðmætaskapandi fyrirtækja heldur embættismanna að eltast við tískusveiflur og seinast en ekki síst: Enginn hefur nennt að sýna fram á ávinninginn miðað við það sem áður var (allt rusl í eina tunnu), enda er hann enginn. Augljóslega.

Auðvitað er skítur eins oftar en ekki gull annars. Þannig hefur það alltaf verið og mannkynið hefur frá örófi alda alltaf reynt að nýta allt sem til fellur á meðan í því felast verðmæti. En hringrásarhagkerfið svokallaða, með öllum sínum tunnum og kröfum á venjulegt fólk, er hringavitleysa. Mikið er gott að sjá einhverja átta sig á því.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Ekki hægt að orða þetta betur og svo satt.

Hringleikahús fáranleikans.

Sigurður Kristján Hjaltested, 3.6.2023 kl. 18:30

2 identicon

Fyrir sama pening og Sorpustöðin sem framleiðir ónýta moltu og metan sem þarf að aka með flutningabílum til Akureyrar, hefði verið hægt að byggja sorpbrennslustöð sem framleiðir rafmagn.

GB (IP-tala skráð) 4.6.2023 kl. 08:59

3 identicon

Mér fannst uppákoman í Kópavogi skondin. Menn vilja flokka, en engin flokkunarstöð á að vera í bænum. Þeir látnu mega ekki búa við hlið flokkunarstöðvar, en þeir sem lifa mega og eiga að gera það, helst í öðru sveitarfélagi. Ráðamenn þar á bæ vilja semja við annað sveitarfélag til að taka við rusli bæjarbúa. Hvort eitthvert sveitarfélag sé svo vitlaust að hirða drasl Kópavogsbúa skal ósagt látið. Kannski fyrir rétta upphæð. Auðvitað á hvert sveitarfélag að sjá um eigið rusl og hafa stað til að fólk geti losað sig við það.

Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 4.6.2023 kl. 09:09

4 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þða væri gaman að fara aftur í tímann og segja einhverjum á 18 öld frá þessu sérstaka kerfi okkar.

Bara til þess að sjá svipinn á þeim.

Ásgrímur Hartmannsson, 4.6.2023 kl. 19:20

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hvað er svona skondið Helga að mínir bæjarráðsmenn vilji ekki flokkunarstöð sorps ofan i kirjugarði þar sem Lindarkirkja er. Varla er málinu þar með lokið og ótrúlegt að þau mál hafi ekki tekið á sig breytt fyrirkomulag miðað við stöðugt hærra sorphirðugjald,skoðið norska dæmið. 

Helga Kristjánsdóttir, 4.6.2023 kl. 19:34

6 Smámynd: Skeggi Skaftason

"Venjulegt fólk á að geta losað sig við rusl í ruslatunnu."

Þetta er svona viðhorf sem byggir á því að hið opinbera eigi að passa uppá fólk og sjá um allt mögulegt - "Ég vil bara kaupa allt sem mig langar í svo á borgin að koma og hirða allt ruslið frá mér!"

Álfsnes fyllist eftir rúman áratug að mig minnir. Hvar vilt þú fá næsta ruslahaug? Í bakgarðiinum hjá þér?

Skeggi Skaftason, 5.6.2023 kl. 10:28

7 Smámynd: Geir Ágústsson

Þetta grenndargámarugl er bara þvæla. Fólk er að borga fyrir sorphirðu dýrum dómum. Nú fyrir utan að það er verið að þrýsta einkabílnum úr greipum fólks og neyða það í "bíllausan lífsstíl". Á þá að hjóla með ruslið á bakinu?

Geir Ágústsson, 5.6.2023 kl. 10:41

8 Smámynd: Geir Ágústsson

Skeggi,

Það má kannski þakka fyrir að hvorugur okkar er að fá borgað fyrir að koma rusli frá með ábyrgum, umhverfisvænum og hagkvæmum hætti, en það eru til sérfræðingar í slíku (þó ekki Sorpa). Ég bý til að mynda skammt frá danskri verksmiðju sem brennir innlendu og innfluttu rusli til að framleiða rafmagn. Þú ættir að skella þér þangað á skíði ef þú átt leið hjá.

Geir Ágústsson, 5.6.2023 kl. 12:06

9 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Skeggi, "Kaupa? Þegar hið opinbera hirðir allt áður en það verður drasl" Það gerðist í hruninu og þú veist vel að Kaupþing/Búnaðarbankinn tók yfir Spron í hruninu með seðlum og klinki.

Helga Kristjánsdóttir, 6.6.2023 kl. 03:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband