Þriðjudagur, 30. maí 2023
Báknið blæs líka út eftir sameiningar
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, kynnti á fundi ríkisstjórnar í gær þau áform að sameina tíu af stofnunum ráðuneytisins í þrjár stofnanir. Orðið hagræðing er meðal annars notað til að lýsa þessari æfingu. En sjáum til með það.
Vissulega fækkar forstöðumönnum og forstjórum úr 10 í 3, en það er engin ávísun á hagræðingu. Mögulega verða allir þessir forstöðumenn taldir bráðnauðsynlegir í sameinuðum stofnunum og fá að vera áfram, með nýjan titil. Stærri opinberar stofnanir stækka jafnvel hraðar en þær litlu enda er hver viðbót starfsmanns nú orðin hlutfallslega minni og því hægt að bæta mörgum við án þess að heildin stækki mikið sem afleiðing.
Einhver blaðamaður ætti að taka saman lista yfir alla starfsmenn allra stofnananna tíu í dag og bera svo saman við starfsmannalista sameinaðra stofnana, t.d. ári eftir að sameining er að fullu gengin í garð. Mér finnst líklegt að samanlagður fjöldi starfsmanna verði meiri en í dag. Stór bákn stækka hraðar en lítil og eru duglegri að búa sér til verkefni.
Hefði ekki mátt leggja eitthvað af þessu batterí niður? Kannski skoða stofnanafrumskóginn eins og hann var fyrir 20 árum síðan og spyrja sig: Hvað bættist við og af hverju, og hefur það haft áhrif? Vissulega hafa lög og reglur breyst sem þrýsta á stækkun báknsins, en slík lög má afnema. Ekki dugir hér að benda á ESB og EES og kenna þeim stofnunum um - Íslendingar innleiða hraðar og á meira íþyngjandi hátt en mörg ESB-ríki (í Danmörku má ennþá gefa viðskiptavinum ókeypis plastpoka í ávaxta- og grænmetisdeildinni, svo dæmi sé tekið, enda henda Danir mjög sjaldan plastruslinu sínu í sjóinn þar sem það berst í lífríkið).
Ég vona að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra eyði ekki of miklu af starfsþreki sínu í þessa tilgangslausu æfingu sem mun ekki gera neitt nema espa opinbera starfsmenn upp og á endanum leiða til þess að báknið þyngist enn meira fyrir venjulega borgara.
Tíu stofnanir sameinaðar í þrjár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það getur verið hagræðing þó ekki króna sparist og starfsmönnum fækki ekkert. Hagræðing getur, til dæmis, skilað sér í auknum afköstum. Og vissulega stækkar báknið, en aðal vandamálið er að það nær ekki að halda í við fjölgun landsmanna. Sem dæmi má nefna að lögreglumenn per hverja þúsund íbúa eru orðnir svo fáir að nær öllu umferðareftirliti hefur verið hætt, og samt hefur heildartalan hækkað.
Vagn (IP-tala skráð) 30.5.2023 kl. 16:53
Sæll Geir,
Það er allavega mín skoðun að ástæðan fyrir því að sameina 10 stofnanir í 3 er sú að það er auðveldara að stjórnast í 3. yfirmönnum en 10. Það sem Guðlaugur er að gera er að auka vald sitt á línuna. Verður athyglisvert að sjá svo hverjir þessir 3 yfirmenn verða.
Trausti (IP-tala skráð) 30.5.2023 kl. 16:57
Ef vandamál ríkisútgjaldanna væri bara að tryggja sæmilega fjölgun lögreglumanna og annarra raunverulegra opinberra þjóna almennings þá væri Seðlabanka Íslands ekki einn síns liðs að berja niður verðbólgu á Íslandi.
Geir Ágústsson, 30.5.2023 kl. 19:50
Ég varð vel var við það að engu máli skifti þó allar löggurnar færu til Reykjavíkur til þess að horfa á fyrir-menni þvælast fyrir hér fyrir skemmstu.
Það hafði ekkert að segja.
Kannski eru þá of margar löggur. Finnst allt benda til þess.
Það vantar ekki heldur loftslagsráðuneyti.
Það sem okkur vantar er mannskapur þæi vegagerð. Best væri að fá allar þessar gagnslausu og dýru kjöt-bréfapressur til þess að hreyfa sig smá, og bora göng gegnum öll fjöll og undir alla firði, eins og þeir gera í Færeyjum.
Og laga götuna hérna fyrir utan hjá mér, það stórsér á malbikinu efti mafrga vetur og ekkert viðhald.
Ásgrímur Hartmannsson, 30.5.2023 kl. 22:48
Ómar Ragnarsson rekur reyndar ágætt dæmi um það á blogginu sínu í dag hvernig sameining getur leitt til aukins óhagræðis fyrir neytendur vegna aukins flækjustigs og lengri boðleiða. Það er ekki bara að kostnaðurinn aukist, þjónustan versnar líka.
Þorsteinn Siglaugsson, 31.5.2023 kl. 20:03
Ómar Ragnarsson rekur ekki neitt dæmi um það á blogginu sínu í dag hvernig sameining getur leitt til aukins óhagræðis fyrir neytendur vegna aukins flækjustigs og lengri boðleiða. Og nefnir engin dæmi þess að kostnaðurinn aukist eða að þjónustan versni. Eina dæmið sem Ómar rekur er hvernig hann vonaðist til að þurfa ekki sitt hvort læknisvottorðið fyrir flug og akstur. En sú von brást og eftir sem áður þarf hann tvö læknisvottorð.
Að hann skili vottorðunum nú inn á einn stað frekar en tvo, eins og var, nefnir hann ekki. Enda telst það sennilega ekki óhagræði að þurfa að fara á marga staði fyrir mann sem hefur unun af því að þvælast um borg og bý, upp um fjöll og firnindi, innanlands sem utan og jafnvel lítillega svekkjandi að fara bara á einn stað til að afgreiða sín mál.
Vagn (IP-tala skráð) 31.5.2023 kl. 22:14
Vagn,
Hæfileiki þinn til að púlla "Cathy Newman" og segja "Svo það sem þú ert í raun að segja er..." er aðdáunarverður.
Geir Ágústsson, 1.6.2023 kl. 07:01
Nefndu eitt dæmi.
Vagn (IP-tala skráð) 1.6.2023 kl. 09:31
Pistillinn fjallar um hvernig flóknar reglur til dæmis um réttindi til að stjórna bíl og flugvél geta kostað mikið umstang og stagl. Það þekkja það flestir í nútímanum hvernig er að tala við fólk í þjónustustörfum sem hefur takmarkaða þekkingu, og sérstaklega nema í sínu sérfagi. Evrópusambandið hefur gefið út mýgrút af flóknum og sérhæfðum reglum. Fyrir 50 eða 30 árum var stjórnsýslan einfaldari.
Kommúníska stjórnsýslan villist í sjálfri sér. Vísar hver á annann. Stofnanir eru sameinaðar en reglur rekast á. Enginn hefur yfirsýn, einn starfsmaður veit ekki hvað hinir sérfræðingarnir eru að gera.
Ég veit hvað Ómar er að fjalla um. Þegar afi minn tók fyrst bílpróf snemma á 20. öldinni gilti það fyrir mótorhjól, vörubíla, sendiferðabíla, einkabíla og skellinöðrur. Eitt próf fyrir öll þessi ökutæki.
Reglur hafa orðið flóknari þótt stofnanir séu sameinaðar. Manneskja sem vinnur í sömu stofnun verður að hafa samband við aðra sem vinna í sömu stofnun eða byggingu annarsstaðar, þótt búið sé að sameina stofnanir. Flækjustig minnkar ekki endilega þótt stofnanir séu sameinaðar.
Það sem Ómar var að segja er að kommúnismi, og ESB reglur, þetta kallar á fleiri og sérhæfðari reglur. Stofnanir eru sameinaðar, en það einfaldar ekki stjórnsýsluna.
Vagn og Geir eru að þræta um orðalag í pistli Ómars og hvernig beri að skilja hann.
Pistill Ómars um þetta heitir:"Hagræðing, styttri boðleiðir, sparnaður, - stundum hið gagnstæða?" Segir ekki nafnið á honum það sem Ómar vildi tjá?
Ingólfur Sigurðsson, 1.6.2023 kl. 13:35
Titillinn er spurning en ekki fullyrðing. Síðan kemur pistillinn og í honum er það ekkert frekar tekið fyrir, spurningunni ekki svarað.
Vagn (IP-tala skráð) 1.6.2023 kl. 15:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.