Föstudagur, 12. maí 2023
Gamaldags, segja Norðmenn
Það verður sífellt erfiðara að losna við ruslið. Sífellt meira af upphituðu rými fer undir rusl. Tunnurnar minnka, hólfin í þeim minnka og þær eru sóttar sjaldnar. Um leið hækkar sorphirðukostnaður.
Ísland og Danmörk eru á svipaðri vegferð hérna: Leggja sífellt meira á almenna borgara í nafni umhverfisverndar, hringrásarhagkerfis og hvað það nú er. Þó er aðeins auðveldar að losna við rusl í Danmörku en á Íslandi. Til að mynda er ennþá boðið upp á að sækja stóra og þunga hluti, eins og gamlar þvottavélar, skrifborð og annað eins, í mínu sveitarfélagi. Þessum hlutum þarf bara að koma fyrir utan lóðamarka og skrá í einhverju forriti í símanum að stærri hlutir, nú eða eitraðir, bíði þess að vera sóttir.
En hvað segja Norðmenn við þessu fyrirkomulagi endalausrar flokkunar á heimilissorpi? Eða þeir tæknilega sinnuðu í hið minnsta. Þeir kalla þetta "oldnordisk" og telja sig hafa betri leiðir til að nýta sorp og endurvinna.
Á einu svæði í Noregi er fólki leyft að henda sínu rusli eins og venjulega. Matarafgangar þurfa að vísu að fara í græna poka en þeir pokar enda svo í ruslinu eins og annað rusl, eða svoleiðis skil ég það. Ruslið er sótt og það síðan flokkað með notkun færibanda og tækni. Þeir sem standa að baki þessu kerfi segjast finna miklu meira plast en á svæðum þar sem fólk er þvingað til að taka afstöðu til sorpsins í meiri mæli.
Þetta þykir mér lofsvert. Það er eitt að stjórnmálamenn í fílabeinsturnum setji háfleyg markmið sem venjulegt fólk hefur hvorki áhuga né þekkingu á. Það er nokkuð annað að leggja heimili fólks undir ruslafötur og gera því erfitt fyrir að losna við rusl.
Íslendingar eru oft fljótir að tileinka sér nýjustu tækni eða nýjustu delluna og standa í löngum röðum til að kaupa nýjasta eplasímann og láta sprauta sig með óreyndu glundri og selja um leið umheiminum fullkomnustu færibandalínur heims fyrir vinnslu á fisk, kjúkling og kjöt. En í öðru eru þeir svo fastir í fortíðinni að það er eins og þeir telji það vera sérstaka dyggð.
Kannski það veiti einhverjum falska tilfinningu um umhverfisvernd og verndun lofthjúpsins að halda utan um margar ruslafötur með rangt flokkuðu rusli sem endar svo í sama haugnum eftir að hafa verið sótt af mörgum mismunandi bílum og er síðan siglt til útlanda á eldsneytisþyrstum skipum?
Kannski það.
Tunnudreifing hafin í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.