Sunnudagur, 7. maí 2023
Málfrelsið: Frelsið til að endurtaka línur yfirvalda
Í svolítilli upprifjun á fréttum veirutíma rakst ég á þessa yndislegu frétt The Guardian: Joe Rogan has Covid and his treatment will make health experts feel ill (Joe náði sér að fullu á fjórum dögum, svo því sé haldið til haga). Ég kalla fréttina yndislega því fyrir mér er hún enn eitt sýnidæmið um allt sem var að á veirutímum. Eingöngu mátti veifa einni skoðun - þeirri sem var ríkjandi hverju sinni (og breyttist að vísu í sífellu, en á hverjum tíma var skoðunin ein). Læknum var kippt úr sambandi við menntun sína og skjólstæðinga. Blaðamenn, svokallaðir, töldu það vera hlutverk sitt að rægja og þagga niður í læknum, prófessorum og öðrum sem voguðu sér út af einstiginu. Stjórnarskrár urðu að skeinispappír. Allt í einu mátti ekki klippa hár, sem er athöfn sem felur í sér að einn einstaklingur stendur við hliðina á öðrum, en í fínu lagi að standa í langri röð í áfengisverslun (bara muna grímuskylduna og metrana tvo eða þrjá eða tíu eða hvað það nú var). Listinn er endalaus.
Það sem er yndislegast við frétt The Guardian er samt neðanmálið þar sem miðillinn er að biðja um peninga:
The free press is under attack from multiple forces. Media outlets are closing their doors, victims to a broken business model. In much of the world, journalism is morphing into propaganda, as governments dictate what can and cant be printed.
Já, er það, The Guardian? Stendur frjáls og óháð blaðamennska höllum fæti? Stendur viðskiptalíkanið ekki undir sér? Getur verið að blaðamenn geti sjálfum sér um kennt? Nei, auðvitað ekki. Allt samfélagsmiðlum að kenna!
Almenningur vill fréttir. Það er á hreinu. En miðlarnir hafa gleymt því. Þeir lifa á styrkjum, ekki tekjum. Í íslensku samhengi má nefna að nánast allir fjölmiðlar njóta ríkisstyrkja og engum gengur sérstaklega vel. Tveir fjölmiðlar halda samt áfram að ganga, eins og klukka, án ríkisstyrkja: Fréttin.is og Útvarp Saga. Og jafnvel þótt menn geti haft mismunandi skoðanir á efni þeirra og efnistökum er eitt víst: Þeir þora þegar aðrir sofa. Þeir þora til dæmis að fjalla um sprengingu í umframdauðsföllum víða um heim. Þeir þora að benda á hræsni lækna og samstarf yfirvalda og stærstu lyfjafyrirtækja heims. Þeir þora að standa vörð um íslenskar konur sem eiga um sárt að binda í kjölfar sprautu og enginn virðist nenna að hlusta á. Þeir þora að gagnrýna hættulegar afleiðingar þess að dæla vopnum í átök. Þeir þora að tala um unga fólkið sem er að hrynja eins og flugur.
Slá þeir stundum á ranga strengi? Varpa ljósinu á eitthvað sem síðar reynist rangt? Auðvitað. En rétt eins og vísindin þá stefna fréttir ekki á að færa okkur einhvern endanlegan sannleika heldur samhengi og atriði málsins sem gefa okkur, neytendum frétta, tækifæri til að móta okkar eigin skoðanir.
Það er tímanna tákn að á meðal miðla sem heimila gagnrýna blaðamennsku og óvinsæl sjónarhorn er að myndast einhvers konar verðstríð í kaupum á aðilum sem þora að tjá sig, og gera það vel. Á sama tíma skreppa aðrir miðlar saman, eins og gamlar blöðrur sem ná rétt svo að halda sér frá því að fletjast alveg út því hið opinbera þarf á þeim að halda, eins og blaðamannafulltrúunum sem þeir eru orðnir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:14 | Facebook
Athugasemdir
"Í íslensku samhengi má nefna að nánast allir fjölmiðlar njóta ríkisstyrkja..."
Hvað er það aftur kallað þegar ríkið og einkageirinn rennur saman?
Þetta orð sem allir hald að sé blótsyrði.
Ásgrímur Hartmannsson, 7.5.2023 kl. 20:09
Ásgrímur,
Já, það mætti ætla að menn séu ekki að lesa þetta plagg eins og viðvörun úr fortíðinni heldur leiðbeiningar til framtíðar.
Geir Ágústsson, 8.5.2023 kl. 10:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.