Miðvikudagur, 3. maí 2023
Ríkið passar ríkið
Fréttir af bákninu að takast á við báknið eru yndislegar. Nefndir, stofnanir, stofur, ráðuneyti og embætti senda bréf sín á milli. Kærur ferðast um, fram og til baka, og taka með sér nýja álitsgerð, umfjöllun, skýrslu, ályktun eða úrskurð í ferðalagið. Að lokum næst einhver niðurstaða. Endamarkinu er náð.
Og hvað gerist þá?
Tvennt:
- Einhver einstaklingur eða fyrirtæki fær reikning eða sekt eða bann á áformum sínum.
- Enginn hjá hinu opinbera finnur fyrir neinum afleiðingum.
Með öðrum orðum: Ríkið passar ríkið. Aðrir þurfa að opna veskið.
Í þeim örfáu tilvikum þegar ríkið ákveður að ríkið þurfi að sæta afleiðingum þá gerist það með einhverju leikriti, t.d. því að sýslumaðurinn í Reykjavík hafi farið í hópsögn í hagræðingarskyni. Bull. Starfsmenn brutu lög eða á venjulegu fólki (löglega eða ólöglega), eitthvað hneyksli var handan við hornið og ákveðið að skera það af sér í hvelli. Sýslumaðurinn í Reykjavík segir ekki upp starfsmönnum í hagræðingarskyni frekar en aðrir afkimar hins opinbera nema fá gríðarlega viðspyrnu frá hagsmunasamtökum opinberra starfsmanna og jafnvel einstaka skattgreiðenda sem hefur efni á að halda uppi bákninu (sem er líklega að halda uppi viðkomandi).
En hvað er til ráða? Ríkið hirðir peningana. Ríkið kærir ríkið. Ríkið sýknar ríkið, eða til vara starfsmenn ríkisins.
Lausnin er auðvitað sú að minnka umsvif ríkisins þannig að það hafi færri möguleika á að valta yfir fólk og fyrirtæki. Stofnunum, stofum, nefndum og embættum þarf að fækka. Það þarf ekki tvær eða þrjár stofnanir til að segja fisksala hvar á að setja ræsi, svo ég vitni í dæmi sem ég þekki persónulega. Nei, stundum er hreinlega betra að umbera samfélag þar sem færri atriði dagslegs lífs eru umvafin kæfandi faðmlagi reglugerða, eftirlitsstofnana og opinberrar afskiptasemi.
En á meðan slík óskhyggja rætist ekki heldur ríkið áfram að kæra og passa ríkið, og við hin fáum reikninginn.
Ráðherrar þurfi að gæta betur að gagnsæi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.