Laugardagur, 29. apríl 2023
Unga fólkið og ímynduð vandamál
Að vera ungur er yndislegt. Maður er að kynnast fólki sem verður vinir til lífstíðar, kynnast sjálfum sér, læra á lífið, læra að vinna, læra að skemmta sér, læra á tilfinningar, læra að setja sér markmið og ná þeim, finna mörkin, læra að takast á við vonbrigði, læra að læra og allt þetta á meðan hormónar æða um líkamann sem er um leið að taka breytingum.
En það er líka nokkuð annað sem ungt fólk þarf að læra: Að láta ekki heilaþvo sig. Því miður tekst fæstum það. Ég var svo heppinn að kynnast hugsandi fólki sem skoraði á mig og ögraði hugsunum mínum. Það tók tíma - jafnvel alveg til fullorðinsára - að læra að meta þetta til fulls. Á að ráðast inn í Írak? Er hægt að bæta lífskjör með því að hækka skatta? Á að taka orð stjórnmálamanna alvarlega? Hvað með öll þessi hagsmunasamtök sem berjast fyrir friði á jörðu og réttindum minnihlutahópa? Er að marka þau öll eða bara sum? Breytist það jafnvel með tímanum?
Ég held því ekki fram að ég sjái alltaf sannleikann en þökk sé góðu fólki sem kenndi mér gagnrýna hugsun þá er ég varfærinn.
Og sem betur fer. Sá sem tekur mark á öllu sem fjölmiðlar, stjórnmálamenn, prófessorar og aðrir slíkir hópar segja er hræddur, fullur af ranghugmyndum og styður hagsmuni þeirra sem er alveg skítsama um velferð venjulegs fólks.
Tökum sem dæmi baráttu fólks með kynama (e. gender dysphoria) (orð sem finnst ekki í íslenskri orðabók en er einhvern veginn útskýrt hér). Geðlæknar og sálfræðingar hafa rannsakað slíkan ama í langan tíma og komist að því að hann hrjái um 0,005-0,014% karla og 0,002-0,003% kvenna. Þetta eru örfáir einstaklingar. Miðað við þessa tölfræði eru í mesta lagi 28 karlmenn og 6 konur með kynama á Íslandi miðað við tölur Hagstofunnar um mannfjölda. Fæstir þekkja því slíka einstaklinga og hvað þá að margir séu í skóla eða bekk eða á vinnustað með slíkum. Samúð fólks fyrir þeim sem hafa ama af einhverju tagi er eflaust mikil og engin ástæða til að fylla kennslustundir með umræðu um þennan pínulitla hóp umfram aðra, t.d. þá sem sem eru samkynhneigðir (mun stærri hópur).
Unga fólkið þarf auðvitað fyrst og fremst að tileinka sér námsefni og félagsþroska á sínum uppvaxtarárum. Þess í stað eru hugar þess fylltir af allskyns ímynduðum vandamálum, hræðsluáróðri, lygum og gagnslausu þvaðri. Unga fólkinu er kennt að vera með endalaust samviskubit yfir hugsunum sínum, venjum, lífsstíl og vali. Það fer vel með líkamann sinn en rústar þess í stað huga sínum. Það er þanið út af göfugum gildum en um leið er því kennt að horfa á heiminn eins og vondan stað hnignandi umhverfis, fordóma og yfirgangs.
Ég vona að sem flestir af yngri kynslóðunum læri að spyrna við fótum og hugsa á eigin spýtur. Ég efast samt um að það sé hægt á meðan allir eru sammála um mikilvægi þess að heilaþvo það rækilega, úr öllum áttum.
Ungt fólk harmar neysluvenjur landsmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.