Þriðjudagur, 21. mars 2023
Bílar og bændaánauð
Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) leggur til að svokölluðu kílómetragjaldi verði komið á fót. Gjaldið myndi koma í stað núverandi skattlagningar á eldsneyti ökutækja en með því myndu eigendur rafmagnsbíla einnig þurfa að borga fyrir afnot af vegakerfinu.
Á þetta verður auðvitað ekki hlustað. Yfirvöld vilja fleiri rafmagnsbíla sem þýðir meira slit sem þýðir hærri álögur á hagkvæma bíla og venjulegt launafólk endar því á að eiga engan bíl og við erum að nálgast miðaldir þar sem fæstir gátu komist mjög langt frá þorpinu sínu, sem heitir núna 15 mínútna hverfi.
En góð tilraun.
Er ég eitthvað að ýkja? Nei. Ég var staddur á íslenskri útihátíð seinasta sumar og þar var mýgrútur af hjólhýsum, fellihýsum og tjöldum og bílar á hverju tjaldstæði. Þeir voru meira og minna allir knúnir með jarðeldaeldsneyti, og þá sérstaklega þeir við hlið veglegustu hjólhýsanna. Ég sá eina Teslu, en frænka mín átti hana og hún svaf í venjulegu tjaldi sem þurfti ekki að draga neitt (og lenti í vandræðum með að finna hleðslustöð fyrir 90 mín rúntinn í bæinn).
Rafmagnsbílar veita ekki sama ferðafrelsi og bílar knúnir orkuþéttu eldsneyti, og þannig er það.
Kannski breytist það, en þyngdin, sem minnkar ekkert með minnkandi hleðslu eins og tankurinn með minnkandi magni, slítur vegum hraðar, og fjármagn til að laga það slit þornar upp með undanþágum rafmagnsbílaeigendanna, sem fer jú fjölgandi af ýmsum ástæðum (og sennilega þá helst þeirri að ríkt fólk er að kaupa sér flotta græju, umfram allt).
Rafknúin farartæki eru samt, svo þeirri skoðun minni sé haldið til haga, frábær. Rafmagnshjól má hér sérstaklega nefna og hafa gert mörgum kleift að lengja vegalengdir og fjölga brekkum á leið sinni. Rafmagnsskútur hafa minnkað álag á leigubíla. Rafknúin farartæki hafa marga kosti og minni galla en mörg þúsund kílógramma lúxusbílar og svifrykið sem þeir þyrla upp.
FÍB á þakkir skilið fyrir ágætt en að mörgu leyti gallað innlegg sitt í umræðu sem er nú þegar búið að skrifa í stein og heitir: Fáðu þér rafmagnsbíl en hafir þú ekki efni á því skaltu þakka fyrir að Borgarlínan er á leiðinni, samkvæmt glærunum.
FÍB vill að allir greiði kílómetragjald | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Sæll.
Fækka þarf sköttum og lækka - ekki fjölga.
Hvað með þá sem búa á Suðurnesjum en sækja vinnu í Rvk? Þetta er ekki hugsað í gegn hjá FÍB.
Stefnan á að vera að bæta lífskjör fólks - ekki rýra.
Helgi (IP-tala skráð) 21.3.2023 kl. 21:15
Helgi,
Þeir hjá FÍB vinna með reiknilíkön og þau geta framleitt hvaða niðurstöðu sem er, eins og reiknilíkön hins opinbera. Þannig þekki ég konu sem tók lán og bjóst við vaxtabótum en þá var reiknilíkanið uppfært og hún fékk engar slíkar bætur. Reiknilíkanið hafði hana einfaldlega ekki í huga. Að lækka almennt skatta og álögur, og forgangsraða frekar en þenja út, er ekki til í hugarheimi yfirvalda og opinberra stofnana.
Geir Ágústsson, 21.3.2023 kl. 21:46
Helsti ókostur þessara hugmynda Félags íslenskra bifreiðaeigenda (í þéttbýli?) er að með þessum útreikningum munu þeir sem búa í dreifbýli (og aka mest lengri vegalengdir) niðurgreiða "mengunargjaldshlutann" fyrir þá sem fyrst og fremst aka í þéttbýli.
Þar sem brunahreyflar eyða alla jafna töluvert meira eldsneyti í þéttbýlisakstri en á lengri leiðum kæmi fast kílómetragjald byggt á útreiknuðum meðalútblæstri illa niður á þeim sem þó brenna mun minna eldsneyti á hvern ekinn kílómetra.
Þá væri einfalt að leggja þyngdargjald á ökutæki sem ekki eru með brunahreyfil, sem rukkað yrði á sama hátt og bifreiðagjöld. Ef menn vilja endilega tengja það við ekna kílómetra, þá verði þeim að góðu við að koma í veg fyrir svindl á slíku kerfi. Það væri þá líklega einfaldara að setja gjald ("þungaskatt") á rafhleðslu á opinberum hleðslustöðvum, í líkingu við gjöld á brunaeldsneyti.
Það er nauðsynlegt að eigendur rafknúinna ökutækja leggi sitt af mörkum til innviða á borð við vegakerfið, það er hins vegar afskaplega illa ígrundað að leggja til "meðaltalsmengunargjald" á hvern ekinn kílómetra fyrir ökutæki með brunahreyfil. Slíkt gjald getur aldrei orðið annað en dreifbýlisskattur.
TJ (IP-tala skráð) 22.3.2023 kl. 13:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.