Þriðjudagur, 7. mars 2023
Getur íslenska ríkið skilað skattgreiðslum?
Athafnamaðurinn Haraldur Þorleifsson heyrði ekkert frá Twitter eftir að lokað var fyrir starfsstöð hans hjá samfélagsmiðlinum og erlendir fjölmiðlar höfðu greint frá því að hann hefði verið látinn fara. RÚV segir frá.
Haraldur segist í samtali við BBC helst hafa áhyggjur af því Musk efni ekki það samkomulag sem gert var þegar Twitter keypti Ueno á sínum tíma. Þetta er mjög stressandi. Þetta er eftirlaunasjóðurinn minn og mín leið til að sjá um mig og mína fjölskyldu nú þegar sjúkdómur minn ágerist. Að vera með einn ríkasta mann heims á hinum enda samningsborðsins er ekki eitthvað sem er auðvelt að sætta sig við.
Haraldur hefur látið gott af sér leiða, meðal annars með verkefninu römpum upp Ísland. Hann flutti til Íslands eftir að Twitter keypti fyrirtækið hans þannig að hann gæti borgað skatta af kaupverðinu hér á landi. Hann var valinn maður ársins af flestum fjölmiðlum á síðasta ári.
Ég spyr mig, eftir að hafa lesið þessa raunasögu: Getur íslenska ríkið ekki skilað svimandi skattgreiðslum Haralds svo hann geti komið peningum sem einu sinni voru hans fyrir í öruggara skjól? Mér finnst tilhugsunin um að íslenska ríkið hafi hirt af honum hundruð milljóna vera skelfileg. Þetta er maður sem lætur gott af sér leiða og hefur sýnt mikinn dugnað og fyrirhyggju með því að stofna fyrirtæki og selja það fyrir gott verð.
Núna rýrna sjóðir hans og mögulega þarf hann að fara í lögfræðiátök sem kosta sitt. Allt til þess eins að verja það sem hann á eða hefur tilkall til.
Hann ætti að gera eins og söngkonan Björk sem kom sjóðum sínum líklega fyrir í erlendum skattaskjólum á sínum tíma og ávaxtar þar sitt pund. Hún hefur geta lifað þægilegu lífi síðan, þrátt fyrir að hafa lítið selt af tónlist í áraraðir. Ef Haraldur sýndi fyrirhyggju þá mætti segja að Björk hafi séð inn í framtíðina: Framtíð hækkandi skatta, aukinna opinberra skulda og rýrnandi kaupmátts lífeyrissparnaðar.
Má gefa Haraldi annað tækifæri?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Hann samdi um að kaupverðið væri greitt út sem laun. Og eins og allir aðrir þá hefur hann greitt skatt af þeim launum sem hann hefur fengið greidd. Áföll og atvinnuleysi, sama hver á í hlut, eru ekki tilefni til endurgreiðslu skatta. Hann verður bara að sætta sig við þær hundruð milljóna sem hann á hætti Musk að borga.
Vagn (IP-tala skráð) 7.3.2023 kl. 12:47
Vagn,
Já, auðvitað býst ég ekki við að hann fái skatta endurgreidda. Það væri jú mismunun og sennilega brot á stjórnarskrá (ef einhverjum er sama um slíkt).
Nokkur hundruð milljóna ættu að duga ágætlega ef hann spilar ekki úr þeim eins og lottóvinningshafi, fleygjandi peningum í lögfræðinga og hugðarefni eins og enginn sé morgundagurinn.
Geir Ágústsson, 7.3.2023 kl. 13:43
Svo er gott að hafa grátið í fjölmiðlum og borið sig illa þegar sýna þarf fram á mikið hugarangur í skaðabótamáli að Bandarískum sið. Þannig má margfalda það sem Musk skuldar.
Vagn (IP-tala skráð) 7.3.2023 kl. 14:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.