Laugardagur, 4. mars 2023
Hvað er svona fyndið við helgarpabbann?
Mér var bent á að ríkisútvarp útvaldra viðhorfa (RÚV) tók að sér hið mikilvæga hlutverk um helgina að gera grín að svokölluðum helgarpöbbum (sjá hér, frá 40:25), þ.e. feður sem mega ekki hitta börnin sín nema aðra hverja helgi eða álíka.
Þessir helgarpabbar vita varla hvað börnin sín heita, vita ekki hvað eigi að gera með þeim í fríum og eru almennt ráðvilltir og aftengdir. Þetta er alveg rosalega skondið og allt það.
En höfum eitt á hreinu: Hugtakið helgarpabbi er afurð ríkisvaldsins og afleiðing nauðungar. Við skilnað vill hið opinbera meina, með valdboði, að pabbinn eigi að hitta börnin sín sem minnst og borga móðurinni sem mest. Mjög fáir karlmenn óska þess beinlínis að fá ekki að hitta börn sín og þurfa að halda uppi fyrrverandi maka sínum. Þeir geta reynt að fá valdboðinu hnekkt en flestir eiga ekkert erindi sem erfiði. Nei, kæri vinur, þú færð að borga. Allar bætur fara til mömmunnar. Þú færð reikninginn.
Þetta valdboð er ekkert aðhlátursefni. Í raun mætti líkja því við aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku sem entist langt inn í 20. öldina þar sem einum þjóðfélagshópi var haldið frá samfélaginu. Rosalega fyndið, ekki satt?
Kannski ríkisútvarp útvaldra viðhorfa (RÚV) taki næst að sér að gera grín að fólki í hjólastól sem kemst ekki leiðar sinnar, fólki sem er mismunað með lögum á grundvelli kynþáttar eða kynhneigðar eða fórnarlömbum nauðgana sem tekst ekki að sannfæra dómstóla um málstað sinn af því nauðgarinn er lögreglumaður og hluti af kerfinu sem á að útdeila réttlæti.
Sjáum hvað setur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:35 | Facebook
Athugasemdir
Kerfið væri sanngjarnara og eðlilegra ef það væri innbygður í það sá fjárhagslegi hvati að því meiri sem umgengnin er því minna þurfi að borga í meðlag og við jafna umgengni falli það alveg niður, enda gefur auga leið að þá hlýtur kostnaður beggja að vera því sem næst jafn. Auk þess væri það börnunum jafnan fyrir bestu eins þau eiga rétt á.
Guðmundur Ásgeirsson, 4.3.2023 kl. 21:10
Guðmundur,
Þú ert að komast nálægt kjarna málsins: Það er fjárhagslegur ávinningur í því fyrir móður að halda pabbanum eins fjarri og hægt er og réttlæta þar með eins há meðlög og hægt er til móður. Enda sýna gögn sem ég hef fengið að sjá að fjárhagur móður er raunar jákvæður við það að halda pabbanum fjarri og sem meðlagsgreiðanda. Hún fær að auki barnabætur og mæðralaun.
Mín ráð til ungra íslenskra manna í dag væru þau að eignast bara börn með konum sem hafa ekki tíma til að vera mæður því þær eru að klifra metorðastigann. Þá er kannski séns á að fá að hitta börnin og mamman mögulega nógu tekjuhá til að muna ekkert um meðlögin.
En að eignast barn með tekjulágri konu er kannski ávísun á vandaræði. Hún sér í manninum lottóvinning - happdrættismiða.
Segi þetta með öllum heimsins fyrirvörum um að fólk er mismunandi, happdrættisvinningar höfða ekki til allra og að konur sem hafa átt að góða feður og jafnvel eldri bræður skilji mikilvæga slíkra fyrirmynda í lífum barna sinna.
Geir Ágústsson, 4.3.2023 kl. 21:24
Einmitt það sem ég átti við, í núverandi kerfi er hvatinn öfugur.
Guðmundur Ásgeirsson, 4.3.2023 kl. 21:30
Ákaflega sorglegt hvernig hefur farið fyrir feðrum í skilnuðum síðustu áratugi og þetta er ekkert betra í Danmörku. Einhvernveginn fékk kerfið þá grillu að mæður ættu rétt á að niðast á feðrum og setja þá alla á sama stall. Kannski ég var ég heppinn en náði sameiginlegu forræði eftir skilnað þar sem við skiptum forræði yfir tveimur börnum. Veit af sögum um algert bann við að sjá börn eða móðir ákveður eftir samkomulag að rukka um meðlag þegar samkomulagið var um að sleppa því en kemst upp með það, óréttlætið er algert. Annað barnið hefur sagt við mig að bestu jólin voru þegar við vorum öll saman, eftir skilnað. Hver hugsar um hag barnanna?
Rúnar Már Bragason, 4.3.2023 kl. 22:54
Margar mæður nota börn sín sem peningamaskínur en fáir viðurkenna það. Forsjárlausir feður, eða með sameiginlega forsjá, er fátækasti hópurinn í samfélaginu séu þeir láglaunamenn. Fyrir utan að borga meðlag þá er Innheimtustofnun sveitarfélagana grimm komist þeir í skuld. Að þeir þurfi að lifa af virðist ekki vera í huga starfsmanna stofnunarinnar.
Maður með 2-3 börn þarf að leigja íbúð að þeirri stærð sem rúmar börnin þegar þau koma til hans. Hann borgar meðlög og er með þau 6-10 daga í mánuði án þess að ríkið sjái ástæðu til að jafna barnabætur eða greiða honum húsleigubætur. ENGINN VILJI er hjá stjórnvöldum að laga þessu skekkju. Meðlög ættu að vera frádráttarbær frá skatti.
Samfélagið borgar sólómæðrum (sem velja að eiga barn með sæðisgjafa) meðlag og því ætti ekki að létta undir með þessum feðrum á sama hátt. Sama með öryrkja, fær tvöfalt meðlag, frá föður og TR.
Þekki föður sem hefur börn sín og hefur haft í tvö ár. Móðir neitaði að flytja lögheimilið og hann hefur borgað meðlag með þeim og séð um þau. EKKERT stjórnvald getur gripið í taumana þó vitað sé að börnin eru hjá honum og verða.
Auglýsi eftir stjórnmálaflokki sem hefur áhuga að skoða og gera eitthvað í málaflokknum. Enn sem komið er hefur enginn lýst áhuga á að hjálpa þessum feðrum.
Spéfuglinn Gísla Martein á að banna í viðtækjum landsmanna.
Helga Dögg Sverrisdóttir (IP-tala skráð) 5.3.2023 kl. 09:11
Helga,
Þú virðist þekkja þetta mjög vel.
Ég tek nefnt að meðlög í Danmörku eru frádráttarbær frá skatti (hérna er skattafrádrátturinn af útreiknuðum skatti miðað við tekjur og hlunnindi, ekki skattstofni). Það munar vissulega um slíkt fyrir meðlagsgreiðendur og væri sjálfsagt að koma upp slíku fyrirkomulagi á Íslandi. Meðlag er jú bara eins og skattur, rétt eins og hefðbundinn skattur, og því í raun tvísköttun í gangi.
Geir Ágústsson, 5.3.2023 kl. 12:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.