Sunnudagur, 19. febrúar 2023
Ímyndaður heimur yfirvalda
Nýjasta framlag íslenskra yfirvalda til upplýsingaóreiðu, skautunar, blekkinga og áróðurs er ný skýrsla Fjölmiðlanefndar um upplýsingaóreiðu og skautun. Í henni kemur fram að þeir hópar sem þiggja svimandi fjárframlög úr vösum skattgreiðenda til að berjast gegn fordómum eru varla á ratsjá þeirra fordómafullu. Miklu frekar eru það þeir sem hafna ákveðinni lyfjagjöf sem njóta mestrar andúðar. Hötuðustu hóparnir eru þeir sem yfirvöld og strengjabrúður þeirra boða hatur og andúð á. Kannski það megi flokka sem árangursríka hatursherferð.
Til að fá innsýn inn í ímyndaðan heim yfirvalda, þar sem rætt er um fordóma sem eru varla til staðar og litið framhjá gríðarlegum fordómum sem yfirvöld boða, má skoða þessa frétt RÚV. Þar er töluvert vitnað í svolítinn verkefnastjóra hjá Fjölmiðlanefnd, sem með réttu ætti að heita Nefnd til boðunar upplýsingaóreiðu og áróðurs. Tökum saman tilvitnanirnar í hann:
Ég held að það sem útskýri upplýsingaóreiðuna hér á landi er að við erum að ganga í gegnum mjög viðkvæma tíma, það er alheimsfaraldur, beint inn í stríð og mikla verðbólgu. Þá erum við á viðkvæmum stað, fyrir óreiðu, fyrir fölskum upplýsingum,
Við þurfum að nota samfélagsmiðla á miklu ábyrgari hátt, tala saman eins og fólk, ekki eins og gervigreind eða algóritmi þar sem engar tilfinningar eru hluti af samtalinu,
Fólk virðist geta skrifað nánast hvað sem er á samfélagsmiðla, og jafnvel í fjölmiðla, um eitthvað sem þau eru engir sérfræðingar í og er bara í rauninni þeirra skoðun, og því er leyft að grassera undir niðri, og þegar það gerist þá kemur þetta upp á yfirborðið með meira hatri,
Vonandi fær þessi maður góð laun og hefur efni á að vera í sem mestu fríi að gera eitthvað annað en tala við fjölmiðla, en það er önnur saga.
Hvað er hann að reyna segja hérna?
Hann skammast út í gervigreindina sem sér um að fjarlægja skoðanir enda ýtir slíkt undir bergmálahella og skautun umræðunnar.
Hann skammast út í að hver sem er megi lýsa yfir sinni skoðun, sem einhvern veginn sleppur þá framhjá gervigreindinni. Hver sem er virðist meira að segja geta komið skoðunum sínum áleiðis jafnvel í fjölmiðla, og er þá illt í efni.
Hann telur að viðkvæmir tímar leiði til aukinnar upplýsingaóreiðu og jafnvel fordóma. Um leið gefur hann til kynna að eingöngu svokallaðir sérfræðingar eigi að fá að tjá sig um ákveðin mál. Kannski þetta tvennt fari ágætlega saman?
Hvað vill hann? Sérfræðingaveldi? Frekari takmarkanir á tjáningu eða meiri tjáningu, gefið auðvitað að það sé rétt tjáning að hans mati? Vill hann að þeir fordómafullu fái að tjá sig og mæti þá andspyrnu, eða mega þeir ekki tjá sig utan bergmálshella sinna?
Auðvitað stendur ekki steinn yfir steini, og ekki við öðru að búast. Fjölmiðlanefnd mætti leggja niður á morgun án þess að það hefði neinar slæmar afleiðingar í för með sér (nema tímabundið atvinnuleysi nokkurra verkefnastjóra og lögfræðinga sem yfirvöld koma á endanum fyrir í öðrum afkimum opinbers reksturs). Þessi nefnd talar út og suður um mikilvægi tjáningar, um fordóma sem eru varla til staðar og vandamál sem finnast ekki í raunveruleikanum og um nauðsyn þess að þagga niður í skoðunum fólks og ýta undir tjáningu svokallaðra sérfræðinga sem lítið vita. Sérstaklega eigi að koma í veg fyrir að rangar skoðanir komist í fjölmiðla.
Í þessum ímyndaða heimi yfirvalda þrífast innvígðir æðstuprestar hinnar opinberru áróðursvélar, á framfæri annarra. Við hin höfum ekki efni á að búa í ævintýraheimi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Facebook
Athugasemdir
Vel orðað Geir og rétt.
Sigurður Kristján Hjaltested, 19.2.2023 kl. 10:41
Það er farið að styttast í að þjóðfélagið lendi í alvarlegum vandræðum vegna þurfalninganna í opinberageiranum. Fjöldi opinberra starfsmanna er orðinn fáránlegur og þörfin fyrir endalausum skattahækkunum botnlaus.
Staðan á vinnumarkaðnum er að launin hjá þeim sem ná ekki endum saman mega ekki hækka því að þá fara mörg fyrirtæki á hausinn. En hvers vegna skyldi þetta vera svona? Hjá alþingi er mestur áhugi á auknum útgjöldum ríkissins í 1. sæti. En á meðan almenningur krefst þess að yfirvöld sjái um allt þá heldur þetta svona áfram í einhvern stuttan tíma.
Kristinn Bjarnason, 19.2.2023 kl. 13:34
Blessaður Geir.
Ætli ég sé ekki bara sammála Sigurði.
Og svo vil ég þakka þér Geir fyrir að hafa nennt að skrifa niður þessi kostulegheit; "Fólk virðist geta skrifað nánast hvað sem er á samfélagsmiðla, og jafnvel í fjölmiðla, um eitthvað sem þau eru engir sérfræðingar í og er bara í rauninni þeirra skoðun,".
Þetta er reyndar ágætis lýsing á því sem er kallað lýðræðisleg umræða, einn af hornsteinum tjáningarfrelsisins, sem aftur er forsenda lýðræðis.
Já, það er alveg ótrúlegt hvað fólk kemst eiginlega upp með í dag, svona var þetta til dæmis ekki á dögum Lúðvíkanna í Frakklandi eða Stúartanna í Englandi, enda nóg að gera hjá sprettharðri löggu að elta svona fólk sem ekki bæði skrifaði skoðanir sínar, heldur dreifði þeim meðal almennings.
Var þetta ekki eitthvað sem Sakarov gerði líka í Sovét í den?? Þá voru yfirvöld svo heppin að nóg var af lausum plássum á geðsjúkrahúsum borgarinnar og vandinn þannig séð leystur í bili. Spurning hvort þessi ágæti talsmaður fjölmiðlanefndar þurfi ekki að tékka á Kleppi, hvort lausnar sé þar að leita??
Ég held að það væri bara gott og hollt fyrir samfélagið ef hann tjáði sig sem mest við fjölmiðla, þá er örugglega stutt í Kleppsuppástunguna, og að lagt að námskeið Kötu Jak um innrætingu ríkisstarfsmanna verði útvíkkuð til alls almennings. Reynslu er hægt að sækja til Kína eða Víetnam um slík innréttingarnámskeið af svona stórum skala.
Hver þarf Dave Allen eða Mr. Bean þegar við eigum svona fólk??
Ég bara spyr.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 19.2.2023 kl. 13:53
Kristinn,
Þú getur rétt ímyndað þér kjarabótina sem fælist í töluverðri lækkun tekju- (á laun), fjármagnstekju- (á leigu) og virðisaukaskatts (á alla vöru og þjónustu). En það er ekki króna afgangs því báknið er alltaf einu skrefi á undan skattgreiðendum og þenur sig út um leið og svigrúm myndast, eða jafnvel áður en það gerist.
Geir Ágústsson, 19.2.2023 kl. 19:21
Ómar,
Athyglisverðir punktar. Já, kannski maðurinn þurfi að fá að tjá sig ennþá meira til að afhjúpa innrætið sem hraðast. Það er hvort eð er bara RÚV sem nennir að ræða við hann svo ég fyndi lítið fyrir því.
Geir Ágústsson, 19.2.2023 kl. 19:22
Keep on running.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 20.2.2023 kl. 07:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.