Föstudagur, 3. febrúar 2023
Pólitískuleikarnir
Einhver þrýstingur er nú á skipuleggjendur Ólympíuleikana að banna íþróttafólki með rússnesk eða hvít-rússnesk vegabréf að keppa. Orðalagið er vitaskuld ekki svona heldur það að banna Rússum og Hvít-Rússum að taka þátt, þannig að rækilega verði komið í veg fyrir að Pútín og Lukashenko geti mætt í sundfötum og keppt í skriðsundi og bringusundi við friðelskandi Saudi-Araba og hjartahreina fulltrúa Aserbaídsjan.
Rússneskir íþróttamenn eiga þá væntanlega í kjölfar slíks banns að fjölmenna á torg rússneskra borga og standa fyrir mótmælum gegn rússneskum yfirvöldum, ekki satt?
Eða fá þeir kannski á tilfinninguna að Rússar þurfi í auknum mæli að snúa sér til suðurs og austurs og leyfa þessum Evrópubúum og Ameríkönum að eiga sig?
Við erum að tala um ungt fólk að eltast við persónulega drauma sín. Hvað gerist ef þeir draumar eru teknir af því? Hvað vinnst með því að meina þessu íþróttafólki að umgangast annað slíkt, ræða við það um heima og geima og spreyta sig gegn því í drengilegri keppni?
Ég legg til að rússneska íþróttafólkið verði boðið sérstaklega velkomið á Ólympíuleikana. Það fái að velja hvort það keppi undir rússneska fánanum eða ekki. Það verði sérstaklega boðið til að tala við umheiminn, segja frá draumum sínum og væntingum og ræða við aðra. Að Vesturlönd hætti í augnablik að sá hatri og gremju í æðar rússnesks almennings og bjóði þvert á móti í opinskáar umræður þar sem allar skoðanir eru virtar og vegnar. Ef rétt er sem sagt er að málfrelsi eigi mjög undir högg að sækja í Hvít-Rússlandi, Úkraínu og Rússlandi þá eiga Ólympíuleikarnir að verða vettvangur til að leyfa fólki að tjá sig, óhindrað og óþvingað.
Þannig má halda Ólympíuleika íþróttafólks og sleppa Pólitískuleikum pólitísks rétttrúnaðar og ofsókna á almennum borgurum í nafni þjóðernis þess.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:00 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.