Föstudagur, 30. desember 2022
Hin ýmsu heiti skattlagningar
Skattar heita ekki alltaf skattar. Stundum heita þeir gjald, svo sem vörugjald og úrvinnslugjald. Stundum heita þeir tollur. Stundum kemur skattheimtan fram í skrifræði og reglugerðum sem leggja mikinn kostnað á seljendur og kaupendur varnings og þjónustu.
Auðvitað er þetta allt saman gert í nafni velferðar, umhverfis, heilsu, menntunar, löggæslu, innviða, jafnréttis og þess háttar. Auðvitað er öll þessi skattheimta að stuðla að blómgun nútímalegs samfélags. Ef þú fengir að halda eftir meiru af launum þínum færi allt til andskotans. Landið yrði að barbararíki, náttúran hyrfi undir malbik og plastmengun dræpi allt lífríki sjávar.
Nýjasta útspil yfirvalda er hugtakið hringrásarhagkerfi. Það er snjallt. Maður fær það á tilfinninguna að allar umbúðir, matarleifar og úrgangur fái nýtt líf í gegnum endurvinnslu eða sem hráefni í framleiðslu á næstu umferð umbúða og varnings og um leið má hlífa náttúruauðlindum plánetunnar fyrir frekari ágengni. Plastflaskan í dag er orðin að Barbie-dúkku á morgun og þess háttar. Dagblaðið verður að eggjabakka sem verður að einhverju þriðja. En þetta kostar fé svo nú þarf að skattleggja meira fyrir allar umbúðir og varning. Hringrásin er ekki ókeypis. Í raun er hún óendanlega dýr því alltaf er hægt að finna eitthvað sem fellur til sem þarf að koma í hringrás.
Með því að finna upp óendanlega dýr verkefni (eins og hringrás, umhverfisvernd og jafnrétti kynja og kynþátta) getur hið opinbera haldið áfram að þenjast út eins og blaðra, sem er um leið níðþung byrði á almenningi. En tilgangurinn er göfugur og áætlanir þínar með eigin laun þurfa að bíða - jafnvel til eilífðar. Og þú skalt þakka fyrir það.
Úrvinnslugjald hækkar um áramót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:10 | Facebook
Athugasemdir
Einn stór skattur heitir lífeyrissjóður. Samtryggingarsjóður sem hverfur þegar þú deyrð er skattur. Þeir eiga peningana sem hafa réttinn á að nota þá.
Kristinn Bjarnason (IP-tala skráð) 30.12.2022 kl. 11:18
Góður punktur sem gleymist oft, td þegar álögur á launafólk eru bornar saman á milli ríkja.
Geir Ágústsson, 30.12.2022 kl. 12:59
Skattlandið Ísland. Skýringin er að engin hrein hægri stjórn hefur verið við völd á Íslandi í áratugi. Eða nokkurn tímann? Skattar eru lagðir á unnið fé og við andlát. Alls staðar eru krumlur stjórnvalda, frá vöggu til grafar.
Birgir Loftsson, 30.12.2022 kl. 13:35
Er eitthvað sem bendir til þess að sóun muni minnka og að þessi hækkun muni gera eitthvað annað en að hækka verðlagið og koma verst við þá sem hafa minnst á milli handanna?
Án efa munu valdir einkaaðilar með réttar vottanir hafa vel upp úr þessu.
Ekki gleyma að lífeyrissjóðirnir með pening almennings fjárfesta ekki með þína fjárhagslegu hagsmuni að leiðarljósi heldur hvað þeim þykir “siðferðislega” rétt.
Daníel (IP-tala skráð) 30.12.2022 kl. 15:21
Lúmskasti skatturinn af öllum er kallaður verðbólga.
Reyndar er "verðbólga" skilgreind sem hækkun verðlags, beinlínis röng þýðing á hugtakinu "inflation" sem þýðir að eitthvað blæs út eða er blásið út. En hvað er þá blásið út sem veldur því að verðlag hækkar? Svarið er: peningamagn í umferð. Þegar það blæs út ("inflation") verður meira magn af peningum til að kaupa sama magn af vörum og þjónustu, sem þýðir að þá er hver peningur minna virði en áður. Þetta er jafnan kallað peningaprentun (þó hún fari núorðið reyndar fram rafrænt). Vörurnar og þjónustan kosta ennþá jafn mikið en peningarnir sem kaupa þau verða einfaldlega minna virði. Þegar þetta gerist þá færast verðmæti (í formi kaupmáttar) úr höndum flestra, til hinna fáu sem fá nýprentuðu peningana í hendur. Það er ígildi skattlagningar og tilfærslu verðmæta milli þjóðfélagshópa.
Þessa nýprentuðu peninga lána bankar svo út og innheimta af þeim vexti. Enginn gaf þeim leyfi til þess og kjósendur voru aldrei spurðir hvort einkafyrirtæki ættu að hafa slíka heimild. Með þessu framferði eru þeir í raun að taka sér gjald af almenningseign (gjaldmiðlinum).
Nú um áramótin, ættum við kannski að hætta að tala um "verðbólgu" og byrja að kalla fyrirbærið sínu rétta nafni: peningaprentun.
Og hætta að tala um útlánsvexti og nota í staðinn orðið sjálftaka.
Guðmundur Ásgeirsson, 30.12.2022 kl. 16:24
Guðmundur Ásgeirsson. Þetta er líklega að mestu rétt nema að hluti verðbólgunnar nú hófst með verðhækkunum vegna minna framboðs á hrávöru tengt stríðinu í Úkraínu, sem og hversu margir hættu að vinna vegna Covid. Til að bæta sér upp tapið vegna þessara verðhækanna hafa hinir ýmsu aðilar farið í að prennta peninga á einn eða annan hátt m.a.s. verkalýðurinn sem fær launahækkun úr loftinu til að mæta þessum verðhækkunum. Bankarnir græða svo á öllu saman í formi vaxtahækanna og verðbreytinga sem er auðvitað eins og þú segir, peningaprenntun sem svo veldur verðbólgu.
Bjarni G. Bjarnason (IP-tala skráð) 30.12.2022 kl. 19:29
Ekki verðbólga heldur peningaprentun.
Hún var stóraukin á tímum faraldursins, þvert gegn aðvörunum ýmissa aðila við afleiðingunum, þar á meðal Hagsmunasamtaka heimilanna, sem stjórnvöld kusu að hunsa. Svo komu afleiðingarnar, verðhækkanir vegna rýrnunar á verðgildi peninga af völdum of mikillar peningaprentunar.
Ef ekki hefði verið fyrir þessa auknu peningaprentun hefði orðið lítil verðbólga og jafnvel verðhjöðnun í faraldrinum, þannig að þegar kostnaðarhækkanir utan frá skullu á við lok faraldursins og í kjölfar innrásar rússneska hersins, þá hefði það ekki komið fram í svo mikilli innlendri verðbólgu sem raun ber vitni. Það er að segja ef ekki hefði verið fyrir hina miklu peningaprentun sem þá hafði safnast upp og beið þess að komast út í hagkerfið um leið og takmörkunum var sleppt.
Með öðrum orðum eru þetta allt afleiðingar óhóflegrar peningaprentunar.
Launahækkanir hafa EKKI í för með sér peningaprentun og eru því EKKI uppspretta útþenslu ("inflation", sem er ranglega kölluð verðbólga). Launagreiðendur geta ekki prentað peninga heldur þurfa þeir að afla þeirra til að geta greitt laun. Launabreytingar hafa því engin áhrif á peningamagn í umferð og valda því ekki því sem ranglega er kallað verðbólga.
Bankar þurfa aftur á móti ekki að afla peninga til að geta lánað þá út heldur er nóg að ýta á takka í tölvu og þá "prentast" nýir peningar sem hægt er að lána út. Það veldur þenslu ("inflation") og þar liggur munnurinn.
Auk þess er verðbólga skilgreind sem hækkun vöruverðs, en ekki hækkun launa. Verð á vörum og þjónustu er ákveðið af atvinnurekendum þ.e. launagreiðendum, ekki launþegum sem taka við laununum. Þess vegna er samkvæmt skilgreiningu útilokað að launþegar og laun þeirra geti valdið verðbólgu.
Hættum að segja verðbólga og segjum í staðinn peningaprentun.
Guðmundur Ásgeirsson, 30.12.2022 kl. 19:51
Guðmundur,
Frábær punktur! Verðbólga er mögulega svæsnasta skattlagningin. Og það sem verra er, og þú bendir á: Hún er fyrirsjáanleg afleiðing meðvitaðra ákvarðana.
Ég þarf að skrifa nýjan pistil greinilega. Hef gleymt alltof mörgum árásum á launþega og þá sem reyna að leggja fyrir.
Geir Ágústsson, 30.12.2022 kl. 21:23
Allt umfram tíund, er rán.
Guðjón E. Hreinberg, 30.12.2022 kl. 23:58
Verðbólga kemur ekki til af peníngaprentun, heldur tvennu öðru, þegar gjaldbyrði vegna reglugerða og stofnana er of mikil byrði á efnahagslífinu og þegar ríkið greiðir of-vexti af eigin lánabyrgði og notar til þess eigin seðlaútgáfu. Þá tútnar út.
Peníngamagn í umferð útskýringin, er gamaldags Rothschild áróður.
Guðjón E. Hreinberg, 31.12.2022 kl. 00:00
Guðjón.
Ríkið getur vissulega líka "prentað" peninga, það heitir hallarekstur.
En það breytir því ekki að 95% af því sem er kallað peningamagn í umferð eru rafræn útlán sem banki prentaði og breytti samstundi í innlán. Þannig virka bankar, þó þeim hafi aldrei verið veitt leyfi til peningaprentunar.
Sjá útskýringu varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika:
Eru bankar eins og hraðfrystihús? - bofs.blog.is
Guðmundur Ásgeirsson, 31.12.2022 kl. 01:18
Guðmundur,
Sammála því að verðbólgu eigi einfaldlega að kalla peningaprentun.
Á 3 mín 45 sek er hægt að skilja verðbólguáhrif bankastarfsemi hér:
https://www.youtube.com/watch?v=gf5p1cx9cRE
Geir Ágústsson, 31.12.2022 kl. 08:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.