Stærðaróhagkvæmni

Okkur er tamt að tala um stærðarhagkvæmni. Skiljanlega. Segjum sem svo að tvö fyrirtæki sameinist. Tvisvar sinnum 500 manns verða að einu sinni 1000 manns. Tvær starfsmanna- og launadeildir verða ein. Tveir forstjórar verða að einum. Og þar fram eftir götunum.

Þegar fyrirtæki renna saman þá er það vegna þess að menn sjá í slíku ákveðna stærðarhagkvæmni. Þú þarft jafnmörg klósett í einni sæmilegri íbúð sem hýsir tvo og í tveimur stúdíóíbúðum sem hýsa einn hvor. Augljós hagkvæmni, ekki satt?

En það er líka til stærðaróhagkvæmni. Hún er ein ástæða þess að risastór fyrirtæki ráða ekki öllu. Þau eru of þunglamaleg. Ákvarðanatökur eru of tímafrekar. Ferlar of langir. Áhætta er drepin í fæðingu á fundum og með notkun allskyns tóla og tækja. Þau dragast aftur úr, safna á sig fitu og staðna eða í versta falli verða úrelt og hverfa. Þeir sem þekkja sögu Kodak og viðhorfa þess fyrirtækis á blómatíma filmunnar en um leið á tíma þegar stafrænar myndavélar voru að stíga sín fyrstu skref vita hvað ég á við.

Það er því vissulega til eitthvað sem mætti kalla stærðaróhagkvæmni.

Hún þýðir ekki umsvifalaust gjaldþrot. Fitan hleðst á skipuritið, jafnvel svo áratugum skiptir. Allskyns sóun á tíma og fé á sér stað en kemur ekki strax í ljós því stærðin á rekstrareiningunni er slík að fé er alltaf að streyma inn úr einhverri átt sem borgar fyrir sóunina. Lánstraustið er gríðarlegt vegna stærðar efnahagsreikningsins. Þökk sé fjölmennri sveit blaðamannafulltrúa og ljósmyndara er ásýnd velgengni og framfara alltaf fyrir augunum á fólki. Lánalínurnar eru lengi að þorna upp. 

Sem alveg rosalega gott dæmi um fyrirbæri í dag sem þjáist mjög mikið af stærðaróhagkvæmni er Reykjavíkurborg. Þetta þarf ég ekki að útskýra í löngu máli því fáir afneita því lengur að borgin er í bullandi vandræðum. Spurningin er bara: Hvað er til ráða?

Það sem er til ráða er að minnka stærð borgarinnar. Hún þarf að klofna í smærri, skilvirkari og aðlögunarhæfari einingar, eins og Kópavog, Hafnarfjörð, Garðabæ, Seltjarnarnes og Mosfellsbæ. Það þarf að færa ráðhúsið nær kjósendum og koma í veg fyrir að einn hluti sveitarfélagsins haldi hinum í gíslingu.

Til þess að geta gert slíkt kleift þarf sennilega að breyta landslögum og sjálfsagt að það sé gert. Einnig þarf að fækka lögbundnum verkefnum sveitarfélaga en til vara að banna sveitarfélögum að sinna öðrum verkefnum en þeim lögbundnu. Lágmarksútsvar þarf að afnema. Fasteignagjöld þarf að gera að krónutölu en ekki hlutfalli af ímynduðum verðhækkunum húsnæðis. 

Þetta er hægt og í raun frekar einfalt, og væri lagabreyting sem gæti á ný innleitt samkeppni um ánægju íbúa, og fyrir utan að vera frábær stefnubreyting frá núverandi stefnu, sem er sú að hámarka stærðaróhagkvæmni.

Er einhver á þingi að lesa og leita að baráttumáli sem skiptir venjulegt fólk meira máli en ímynduð vandamál vegna bensínnotkunar fjölskyldufólks?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Því stærri sem fyrirtæki verða, því meira lýkjast þau ríkinu.

Annars, allt góðar hugmyndir, þó þær verði seint framkvæmdar.  Þetta er vandinn við lýðræði, sem lýðveldi reyna að laga.  Að tveir úlfar og kind að kjósa um hvað á að vera í matinn hafi ekki í för með sér fyrirsjáanlega niðusrstöðu.

En hver ætti gulrótin að vera fyrir yfirvaldið?  Það virðist skynja hag sinn í miðstýringu. 

Ásgrímur Hartmannsson, 14.12.2022 kl. 21:06

2 Smámynd: Geir Ágústsson

Ásgrímur,

Ég vil byrja á að þakka þér fyrir þitt blogg. Það er alltaf alveg frábær samantekt á geðsýkinni, og ekki skemmir kaldhæðni þín fyrir.

En já, það er margt tapað með því að þjappa of miklu valdi saman, jafnvel þótt það vald sé upp á náð og miskunn neytenda á endanum. Stór fyrirtæki hafa reynt að brjótast út úr stærðaróhagkvæmni sinni. Sem dæmi má nefna "skunk works". En þetta er erfitt. Þegar stjórnendalögin eru orðin nálægt því 10 talsins er orðið erfitt að fá sveigjanleika. 

Geir Ágústsson, 14.12.2022 kl. 21:29

3 identicon

Kaupmannahafnarbúinn komst að því að þorpið Reykjavík væri of stórt. Það byggir hann sennilega á upplýsingum frá minnihlutanum í borgarstjórn. Upplýsingum sem virðast ekki vera sjáanlegar neinum þeim stofnunum sem ber að fylgjast með þess háttar eða nokkrum yfirleitt utan minnihlutans og klappliði minnihlutans.

Hann segir einnig töluvert um hagkvæmni og óhagkvæmni stærðar, mis gáfulegt og ekkert sem krafist hefur einhverrar hugsunar og heimildavinnu. Enda hagfræðin, eins og læknisfræði, framandi verkfræðingnum sem þarf því að treysta á aðra, og þá ræður pólitík frekar en áreiðanleiki vali, eða fjörugt ímyndunarafl.

Vagn (IP-tala skráð) 15.12.2022 kl. 02:03

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Ég bý reyndar ekki í Kaupmannahöfn heldur í um 40 þús. manna sveitarfélagi sunnan við Kaupmannahöfn þar sem skattar eru lægri og sveitastjórinn mun sýnilegri, mætir á viðburði og svarar fyrir reksturinn.

Annars útiloka ég ekkert aðrar skýringar á vandræðum Reykjavíkur en að borgin sé of stór. Til dæmis að hún sé einfaldlega hræðilega illa rekin. Þú ert kannski sá seinasti sem ég veit um sem heldur öðru fram.

Geir Ágústsson, 15.12.2022 kl. 06:30

5 identicon

Þar sem sömu vandræði er að finna hjá smærri sveitarfélögum getur stærð ekki verið um að kenna. Slæmur rekstur er svo matsatriði og mörg smærri sveitarfélög sem ekki standa sig eins vel. Það er fátt ef nokkuð sem bendir til að stærð sé að hafa einhver neikvæð áhrif á rekstur borgarinnar. Það er helst að stærðin veiti minnihlutanum greiðari aðgang að fjölmiðlum með sínar upphrópanir og ýkjur og auðveldi þeim að skapa neikvæða umræðu og andrúmsloft sem svo klappliðið gleypir hrátt.

Vagn (IP-tala skráð) 15.12.2022 kl. 10:00

6 Smámynd: Þórhallur Pálsson

Það er ágætis hugmynd að huga að stjórnsýslulegri uppskiptingu höfuðborgarsvæðisins, enda byggir núverandi skipting á sögulegum afleiðingum en ekki hagkvæmasta fyrirkomulaginu út frá raunveruleika dagsins í dag.
Ég hef oft áður bent á að miðborg Reykjavíkur og næsta nágrenni sé svæði sem landsmenn allir líta á sem höfuðstað alls landsins, enda er á því svæði saman komnar margar mikilvægustu stofnanir íslenska ríkisins og landsmanna allra.
Þetta svæði ætti því að réttu að lúta stjórn allra landsmanna, í stað þess að vera hluti af einu sveitarfélagi.
Svo mætti íhuga það hvort skattar af ríkiseignum (t.d. fasteignaskattar) eigi að renna til sveitarfélaganna.  Eigi á annað borð að skattleggja þessar eignir væri nær að tekjurnar rynnu í sameiginlegan sjóð sveitarfélaga langsins, t.d. jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Þórhallur Pálsson, 15.12.2022 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband