Stundum geta blaðamenn einfaldlega sleppt því að fara á fætur á morgnana

Vinnudagur blaðamannsins er örugglega alveg æsispennandi. Hann fær tölvupósta og símtöl, les fréttatilkynningar og fréttir annarra miðla, hringir í mann og annan, fer á staðinn og skoðar aðstæður og finnur fyrir andrúmsloftinu, leggst yfir langar skýrslur og leitar að einhverju vafasömu eða safaríku, skorar á leyndarhyggju með kröfum um aðgang að læstum skjölum og gerir allt þetta á mataræði kaffibolla, sígarettu og núðlusúpu.

Öðru nær.

Ég fæ það oft á tilfinninguna að blaðamaður sé bara eins og hver annar bloggari eins og sá sem þetta skrifar: Skoppar um vefinn þar til hann finnur innblástur til að skrifa litla hugleiðingu. Blaðamaðurinn er jafnvel verri en bloggarinn því margir bloggarar leggjast í mikla heimildavinnu og bera á borð ný sjónarhorn og gögn í miklu meiri mæli en þessir hefðbundnu fjölmiðlar. Eitt besta dæmið um slíkt er blogg Kristínar Þormar

Hvað um það. Stundum les ég texta eftir blaðamenn sem fá mig til að hugsa: Af hverju fór viðkomandi á fætur þennan dag? Hann hefði betur tekið sér veikindadag og sleppt því að fylla tölvudrif og prentvélar með afurð sinni. Framlagið var verra en ekkert. And-framlag. Neikvætt framlag til umræðunnar.

Eitt alveg mjög gott dæmi um slíkt and-framlag er greinin Mun lærlingurinn sækja á læriföður?, aðgengileg hér (á bak við innskráningarvegg Morgunblaðsins, ekki áskriftarvegg). Ætlunin þarna er sennilega að fjalla um nýja vonarstjörnu Repúblikana í Bandaríkjunum og hvernig hann fer í taugarnar á fráfarandi forseta, Trump. Hin nýja vonarstjarna, Ron DeSantis, hefur skotist til vinsælda seinustu misseri og vann stærsta kosningasigur Repúblikana í seinustu ríkisstjórakosningum í Bandaríkjunum. Hann hefur verið orðaður við forsetaframboð í nokkurn tíma. 

En hver er hann?

Blaðamaður og pistlahöfundur er með ýmsar kenningar: Er nálægt Trump í skoðunum, á móti pólitískum rétttrúnaði, vill að fólk fái að ganga með skotvopn og andstæðingur fóstureyðinga (sem kallast í dag þungunarrof, af einhverjum ástæðum).

En bíddu nú við, gleymdist ekkert hérna?

Veirutímar, kannski?

Flórída bannað ekki litlum krökkum að fara í skóla á tímum veiru gamla fólksins. Fyrirtæki voru ekki þvinguð í lokanir og efnahagur ríkisins er í miklum blóma. Fólksfjölgun er gríðarleg í ríkinu og á myrkustu veirutímum var Flórída ríkið til að halda opna viðburði og tónleika. Stjórnmálamenn sem vildu loka Bandaríkjamenn inni með grímur fyrir vitunum fóru til Flórída til að skemmta sér. 

Ætli þetta komi því ekki svolítið við að ríki sem áður var alltaf á mörkum þess að falla í hendur Demókrata eða Repúblikana (svokallað "swing state") er nú rækilega í höndum Repúblikana?

Hefði pistlahöfundur ekki geta nefnt neitt þessu tengt í eins og einni setningu?

Ég veit að bandarísk stjórnmál eru flókin, sérstaklega af því allar skoðanir þurfa þar að rúmast í tveimur flokkum, og verða oft mótsagnakenndar innan þeirra. Og ekki ætla ég að kalla mig sérfræðing í þeim og raunar hvergi nærri. En greining blaðamanns á vinsældum Ron DeSantis fengi ekki lágmarkseinkunn á grunnskólastigi, og blaðamaður hefði betur sofið út þennan dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Verð að taka undir að blaðamaðurinn hefði vel mátt sofa lengur, jafnvel fram yfir hádegi. Það er óskaplega einfeldningslegt að reyna að leggja DeSantis að jöfnu við Trump. Eiginlega óafsakanlegt ef maður er blaðamaður.

Þorsteinn Siglaugsson, 5.12.2022 kl. 23:34

2 identicon

 En hvað um bloggara sem nennir ekki að vinna heimildavinnu og fullyrðir að leikari og pistlahöfundur sé fréttamaður? Pistlahöfundar eru ekki að skrifa fréttir, og eins og margir bloggarar, ekkert endilega að leita sér upplýsinga eða halda sig við raunveruleikann.

Vagn (IP-tala skráð) 6.12.2022 kl. 08:09

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Vagn,

Veistu, góð ábending. Ég lét blekkjast. Ég hélt að maður sem skrifar pistil í Morgunblaðið og við þann pistil skrifar mbl.is netfang væri starfsmaður Morgunblaðsins og jafnvel blaðamaður. Jafnvel einhver eins og Ásgeir Ingvarsson sem skrifar pistla á sama svæði og er svo sannarlega blaðamaður.

En nei, viti menn, höfundur þessa pistils er leikari. Kannski að leika blaðamann - hver veit. Leika sér að því að mála DeSantis eins og nýjan Trump. Leika sér að því að líta algjörlega framhjá öllu sem skiptir máli. Leika sér að því að mála einhverja mynd - eins og góðum listamanni sæmir - sem setur ranghugmyndir í höfuð lesanda. 

Vonbrigði mín með Morgunblaðið hafa aukist mjög núna.

Geir Ágústsson, 6.12.2022 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband