Þriðjudagur, 29. nóvember 2022
Til varnar 37 milljarða útgjaldaaukningu
Fjármálaráðherra leggur til að frumútgjöld ríkissjóðs á næsta ári verði 37 milljörðum meiri en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í september. Á þessu eru auðvitað skýringar: Heilbrigðiskerfið þarf að bæta á sig fitu, greiða þarf vexti af lántökum veirutímanna, flóttafólk þarf húsnæði sem þarf að sækja á leigumarkað í samkeppni við almenning, illa rekin sveitarfélög þurfa svolítið meira í sína sjóði og erlend stórfyrirtæki sem framleiða afþreyingu ofan í frítíma okkar þurfa endurgreiðslur á sköttum sem öðrum stendur ekki til boða.
En það vantar samt einhverjar skýringar, er það ekki? Eitthvað sem skýrir hvers vegna ríkissjóð eigi að reka með halla á næsta ári á sama tíma og útgjöld úr honum eigi að auka. Eitthvað sem útskýrir af hverju það er góð hugmynd að bæta við skuldir sínar til auka neysluna, í stað þess að hagræða og einbeita sér að grunnþörfunum.
Lítum aðeins framhjá litríkum línuritum hins opinbera og kíkjum undir húddið. Hvað er ríkisvaldið eiginlega að vasast í? Hvaða mörgu tannhjól eru að snúast á kostnað skattgreiðenda, fyrir utan þessi sem við heyrum um í sífellu?
Til að skilja það eru fáir staðir betri en Starfatorg.is þar sem ríkisvaldið auglýsir laus störf á sínum vegum.
Þar er nú auglýst eftir sérfræðingi í að fá rafbílaeigendur til að borga sinn skerf í uppbyggingu og viðhald vegakerfisins um leið og tekjulágir eru þvingaðir í strætó:
Störf við að móta nýtt fyrirkomulag tekna af samgöngum til framtíðar
Við leitum að lausnamiðuðum sérfræðingum með áhuga á að taka þátt í að móta samgöngugjöld framtíðarinnar.
Fjármála- og efnahagsráðuneytið og innviðaráðuneytið áforma að setja á fót verkefnastofu um samgöngugjöld og flýtifjármögnun samgönguinnviða. Vegna orkuskipta í vegasamgöngum fara hefðbundnar skatttekjur ríkissjóðs af ökutækjum og eldsneyti þverrandi. Þá hafa stjórnvöld áform um að flýta samgönguframkvæmdum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni, einkum í jarðgangagerð.
Í ljósi þessa leggja ráðuneytin áherslu á að mótuð verði heildstæð framtíðarsýn um breytt fyrirkomulag gjaldtöku af ökutækjum, eldsneyti og afnotum vegakerfisins sem geti orðið sjálfbært til langrar framtíðar. Verkefnastofunni er ætlað að vinna að úrlausnarefnum á þessu sviði í samstarfi við sérfræðinga ráðuneytanna og sérstaka samráðsnefnd um málefnið. Markmiðið er að allir helstu þættir í nýju kerfi samgöngugjalda verði gangsettir fyrir árslok 2024.
Hér dugir ekkert minna en háskólagráða á meistarastigi. Þekking á samgöngumálum er kostur. Og látum nú ekki hugtakið verkefnastofa byrgja okkur sýn. Hér er um að ræða enn eina opinberu nefndina.
Ríkinu vantar einnig móttökuritara með háskólagráðu:
Sérfræðingur á vestursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs
Vatnajökulsþjóðgarður auglýsir laust til umsóknar starfs sérfræðings á vestursvæði þjóðgarðsins með aðsetur á Kirkjubæjarklaustri. Starfsstöðvar vestursvæðis eru Skaftárstofa á Kirkjubæjarklaustri, Nýidalur, Tungnaáröræfi/Hrauneyjar, Eldgjá, Langisjór og Lakagígar. Starf sérfræðings heyrir beint undir þjóðgarðsvörð á svæðinu. Um er að ræða fjölbreytt og skemmtilegt heilsársstarf.
Helstu verkefni og ábyrgð
- Umsjón með gestastofu og þjónustu við gesti á svæðinu.
- Dagleg verkstjórn og utanumhald um vinnu landvarða og annarra starfsmanna í samvinnu við þjóðgarðsvörð.
- Gerð og miðlun fræðslu og annarra upplýsinga til gesta og starfsmanna.
- Móttaka hópa og utanumhald viðburða í gestastofu.
- Samstarf, eftir því sem við á, við stofnanir, skóla, ferðaþjónustuaðila, félagasamtök, atvinnulíf og aðra hagsmunaaðila í samstarfi við næsta yfirmann.
- Önnur tilfallandi verkefni svo sem eftirlit með innviðum, öryggismál og fleira.
Hér fá skattgreiðendur svo sannarlega eitthvað fyrir sinn snúð enda ekki stætt á öðru þegar ríkissjóður safnar skuldum og hækkar skatta til að jafna sig á heimatilbúnum rekstrarvandræðum veirutíma.
Síðan má ekki gleyma hinum aðkallandi og áríðandi utanríkismálum, en þar vantar nú manneskju með háskólagráðu á meistarastigi:
Verkefnisstjóri í alþjóðamálum
Forsætisráðuneytið óskar eftir að ráða verkefnisstjóra í alþjóðamálum til starfa með alþjóðafulltrúa ráðuneytisins á skrifstofu stjórnskipunar og stjórnsýslu.
Helstu verkefni og ábyrgð
Verkefnisstjórinn sinnir málefnum er tengjast formennsku Íslands í ráðherranefnd Evrópuráðsins (nóvember 2022 til maí 2023) og er tengiliður við utanríkisráðuneytið sem ber ábyrgð á framkvæmd og skipulagi fyrirhugaðs leiðtogafundar Evrópuráðsins hér á landi í maí 2023.
Lengri er sú starfslýsing ekki. Færni í frönsku er kostur.
Já, hið opinbera heldur sig svo sannarlega við vel afmörkuð verkefni, rekstur nauðsynlegra grunnstoða, viðhald þéttriðins öryggisnets fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda í lífinu og passar um leið upp á að stunda hóflega skattheimtu á vinnandi fólk og varast að skuldsetja börnin of langt fram í tímann.
Og núna sérðu hvernig.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:14 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.