Þriðjudagur, 8. nóvember 2022
Hræsni ríku elítunnar og vestrænna leiðtoga
Greinin hér að neðan eftir Björn Lomborg birtist í Morgunblaðinu í dag og ég vil gera orð hennar að mínum, frá upphafi til enda:
*********************
Á hverju ári bjóða alþjóðlegar loftslagsráðstefnur fram skrúðsýningar hræsni þar sem elíta heimsins kemur í einkaþotum til að útdeila visku sinni til mannkyns um að draga úr kolefnislosun. Loftslagsráðstefnan í Egyptalandi í nóvember mun bjóða upp á enn meiri hræsni en vanalega, vegna þess að hinir ríku í heiminum munu predika ákaft yfir fátækari löndum um hættuna sem stafar af jarðefnaeldsneyti eftir að hafa sópað að sér feikilegu magni af nýju gasi, kolum og olíu.
Frá því að innrás Rússa í Úkraínu þrýsti orkuverði enn frekar upp hafa auðug ríki gramsað um allan heim í leit að nýjum orkulindum. Bretar fordæmdu jarðefnaeldsneyti harðlega á loftslagsráðstefnunni í Glasgow í fyrra, en ætla nú að halda kolakyntum orkuverum gangandi í vetur í stað þess að loka nánast öllum eins og áður var ráðgert. Innflutningur Evrópusambandsins á kolum til hitunar frá Ástralíu, Suður-Afríku og Indónesíu hefur rúmlega ellefufaldast. Einnig mun ný gasleiðsla yfir Sahara gera Evrópu kleift að nýta sér gas beint frá Níger, Alsír og Nígeríu; Þjóðverjar eru að opna kolaorkuver á ný og Ítalía ætlar að flytja inn 40% meira gas frá Norður-Afríku. Og Bandaríkjamenn fara bónför á hnjánum til Sádi-Arabíu til að grátbiðja um meiri olíuframleiðslu.
Á loftslagsráðstefnunni í Egyptalandi munu leiðtogar þessara landa, með postulasvip, einhvern veginn lýsa því yfir að fátækari lönd verði að forðast nýtingu jarðefnaeldsneytis, af ótta við versnandi loftslagsástand. Þessi sömu ríku lönd munu hvetja fátækustu ríki heims til að einbeita sér í staðinn að grænni orku eins og staðbundnum sólar- og vindorkuverum. Þ.e. utan dreifikerfa. Þeir eru þegar farnir að láta málið til sín taka. Í ræðu, sem víða er talið að sé beint að Afríku, sagði Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, að það væri glórulaust fyrir lönd að fjárfesta meira í gas- og olíuleit.
Hræsnin er einfaldlega stórkostleg. Öll ríku löndin auðguðust á nýtingu jarðefnaeldsneytis. Helstu þróunarsamtök heimsins að undirlagi auðugra ríkja neita nú að fjármagna nýtingu jarðefnaeldsneytis sem fátæk ríki gætu notað til að lyfta sér upp úr fátækt. Það sem verra er, lyfseðill elítunnar til hinna fátækari græn orka megnar ekki að auka lífsgæði þeirra.
Það er vegna þess að sólar- og vindorka er gagnslaus þegar það er skýjað, nótt, eða enginn vindur. Staðbundin sólarorka utan dreifikerfis getur veitt fallega birtu á daginn, en sjaldnast knúið ísskáp eða ofn fjölskyldunnar, hvað þá framleitt orkuna sem samfélög þurfa til að knýja allt frá bóndabýlum til verksmiðja, drifkrafta hagvaxtar.
Rannsókn í Tansaníu leiddi í ljós að næstum 90 prósent heimila sem fengu rafmagn utan dreifikerfis vilja vera tengd við landsnetið til að fá aðgang að jarðefnaeldsneyti. Fyrsta stóra rannsóknin sem birt var um áhrif sólarrafhlaðna á líf fátæks fólks leiddi í ljós að þeir fengu aðeins meira rafmagn getu til að knýja lýsingu á daginn en það voru engin mælanleg áhrif á líf þeirra; þeir juku ekki sparnað eða eyðslu, unnu ekki meira eða stofnuðu fleiri fyrirtæki og börn þeirra nutu ekki meiri menntunar.
Þar að auki eru sólarrafhlöður og vindmyllur gagnslausar til að takast á við eitt helsta orkuvandamál fátækra í heiminum. Næstum 2,5 milljarðar manna halda áfram að þjást af loftmengun innanhúss vegna brennslu óhreins eldsneytis eins og timburs og mykju til að elda og halda hita. Sólarrafhlöður leysa ekki það vandamál vegna þess að þær eru of veikar til að knýja hreina ofna og hitara.
Aftur á móti hafa raforkudreifikerfi sem nær alls staðar dreifa að mestu orku úr jarðefnaeldsneyti veruleg jákvæð áhrif á tekjur, útgjöld og menntun heimilanna. Rannsókn í Bangladess sýndi að rafvædd heimili nutu 21 prósents meðalhækkunar tekna og fátækt dróst árlega saman um eitt og hálft prósent.
Stærsta blekkingin af öllu er að ríkum leiðtogum heimsins hefur einhvern veginn tekist að koma fram í gervi grænna guðspjallamanna, á sama tíma og meira en þrír fjórðu af gríðarlegri frumorkuframleiðslu þeirra kemur frá jarðefnaeldsneyti, að mati Alþjóðaorkumálastofnunarinnar. Innan við 12 prósent af orkunni koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum, aðallega viði og vatnsafli. Aðeins 2,4% eru sól og vindur.
Berðu þetta saman við Afríku, sem er endurnýjanlegasta heimsálfan, með helming orkunnar framleidda með endurnýjanlegum orkugjöfum. En þessir endurnýjanlegu orkugjafar eru nánast eingöngu viður, strá og mykja og þeir eru í raun vitnisburður um hversu lítilli orku álfan hefur aðgang að. Þrátt fyrir allt lýðskrumið fær álfan aðeins 0,3% af orku sinni frá sól og vindi.
Til að kljást við hnattræna hlýnun verða rík lönd að fjárfesta miklu meira í rannsóknum og þróun á betri grænni tækni, allt frá samruna, kjarnaklofnun og annarri kynslóð lífeldsneytis til sólar og vinds með gríðarstórum rafhlöðum. Mikilvægasta markmiðið er að nýsköpun færi raunkostnað nýrrar orku niður fyrir jarðefnaeldsneyti. Þannig munu allir að lokum skipta. En að segja fátækum ríkjum heimsins að búa við óáreiðanlega, dýra og ónóga orku er móðgun.
Það er nú þegar mótþrýstingur frá þróunarríkjum heimsins, sem sjá hræsnina í þessu: Fjármálaráðherra Egyptalands sagði nýlega að ekki mætti refsa fátækum löndum og varaði við því að loftslagsstefnan ætti ekki að auka þjáningar þeirra. Það þarf að hlusta á þá viðvörun. Evrópa er að leita að meira jarðefnaeldsneyti í heiminum vegna þess að álfan þarf á því að halda vegna vaxtar og velmegunar. Þessu sama tækifæri ætti ekki að halda frá fátækustu ríkjum heims.
*********************
Orkuskipti? Já, þau geta skipt máli.
Hreinni orka? Það er alltaf markmið okkar.
Allt þetta á kostnað orku? Að það sé engin orka eða að hún sé gerð óáreiðanleg? Nei, aldrei. Við þurfum meiri orku, ekki minni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Ríkasta liðið virðist mjög hrætt um að almenningur hafi það gott, með mat, hita og rafmagn.
Þetta er svipað eins og ég sæi sofandi róna, og sparkaði í hann til þess að honum liði ekki vel svona sofandi.
Ásgrímur Hartmannsson, 8.11.2022 kl. 18:00
Ásgrímur,
Segðu! En sem betur fer ætla fulltrúar þeirra fátækustu mögulega að spyrna við fótum að þessu sinni - ekki bara mæta til að betla fé.
Eða hvað? Ekki byggja fjórir nýir flugvellir á Maldívi-eyjum sig án fjármagns!
https://maldives.net.mv/35056/maldives-to-open-four-new-airports-in-2020/
Geir Ágústsson, 8.11.2022 kl. 19:34
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.