Mánudagur, 24. október 2022
Fúla fjarvinna
Mikið hefur verið rætt um kosti og galla fjarvinnu seinustu misseri eða síðan flestum yfirvöldum heims datt í hug að kínversk nálgun á veiru væri betri en vestrænar aðferðir seinustu áratuga gegn ýmsum pestum.
Ég hef stundað einhverja fjarvinnu í um 15 ár eða síðan ég fékk mína fyrstu ferðatölvu í vinnunni (er nógu gamall til að muna eftir borðtölvu og landlínusíma). Ferðatölvan veitir svigrúm sem er stundum gott. Þurfi maður til læknis eða tannlæknis eða á von á sendingu eða þarf að skreppa á foreldrafund eða annað slíkt þá er oft betri nýting á tímanum að vinna að heiman eða vinna að heiman til hádegis og fara svo á skrifstofuna eða eitthvað slíkt.
Ég hef unnið frá Íslandi fyrir danskt fyrirtæki, frá Álaborg fyrir atvinnuveitanda í Kaupmannahöfn, tekið fundi í strætó og lestum, í gegnum síma, tölvur og ýmsan fjarfundabúnað, unnið einn að heiman svo vikum skiptir eða á litlum skrifstofum ýmist með samstarfsfólki eða fólki sem var að gera eitthvað allt annað.
Niðurstaða mín er þessi:
Að mæta á skrifstofuna með samstarfsfólki sem þú bæði vinnur og borðar hádegismat með, og færð þér jafnvel stundum í glas með, trompar allt.
Slíkt fyrirkomulag gerir vinnuna félagslega og félagslífið vinnutengt, og slíkt styrkir bæði vinnudaginn og félagslífið. Ég á marga góða vini og kunningja sem ég hef kynnst á vinnustaðnum í gegnum tíðina og eru þeir bæði hluti af mínu faglega tengslaneti og því félagslega.
Enginn einstaklingur sem ég hef eingöngu unnið með í gegnum fjarvinnu tollir á sama hátt. Það eru bara andlit sem koma og fara. Safaríkasta samtalið er hið óskipulega við kaffivélina eða í hádegismatnum.
Auðvitað þurfa ekki allir að vera sammála mér í þessu. Ég sá brandara sem gekk á veirutímum um að forritari nokkur hefði ekki fundið fyrir neinum breytingum: Væri hvort eð er alltaf einn við skjáinn og talaði ekki við nokkurn mann. Brandarinn um feimna nördinn og allt það. Sumir þurfa að ferðast langar vegalengdir í vinnuna og velja því að mæta aðeins sjaldnar til að spara tíma. Sumir eru einfaldlega truflaðir svo mikið á skrifstofunni að þeir þurfa að flýja annað.
En svo eru sumir sem líta á skrifstofuna eins og hálfgert fangelsi. Einu sinni var ég spurður að því hvort ég mæti sjaldan eða oft á skrifstofuna. Ég sagði oft - helst alltaf. Þá var ég spurður hvort það væri kvöð af hálfu atvinnurekandans. Nei, ég hélt nú ekki. Raunar er deildin mín til vandræða því í húsinu sem ég vinn í eru bara skrifborð fyrir 80% starfsmanna en í minni deild mætum við nánast öll alla daga sem raskar slíku skipulagi.
Ég segi því fúla fjarvinna, en fínt að hafa möguleikann á henni. Eins og ill nauðsyn.
Fjarvinnustarfsmenn vinna lengur og meira en aðrir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Þetta eru sömu niðurstöður og ég komst að.
Maður vill helst komast í vinnuna til að fá hádegismatinn í vinnunni og hitta fólk.
Suma fundi er líka betra að taka á staðnum, stundum þarf maður að ná til fólks.
Ég veit nefnilega líka dæmi þess að fólk sem hafi verið að vinna heima í COVID þori varla í vinnuna núna, sé orðið vant því að vera eitt heima sem er ekki gott.
Emil Þór Emilsson, 25.10.2022 kl. 08:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.