Sunnudagur, 16. október 2022
Ekki langt síðan Ísland var Kína Atlantshafsins
Í upphafi þessa árs var svokallaður heimsfaraldur á ferð. Grímur, sprautur, skimanir, lokanir, skerðingar, takmarkanir og annað gott. Um leið og yfirvöld aflýstu heimsfaraldrinum henti fólk grímum og sprautum í ruslið og tók upp eðlilegt líf með ferðalögum og faðmlögum. Við gleymdum öllu svo hratt að við gleymdum að heimta endurskoðun á öllum þessum biluðu skerðingum á lífum okkar. Því miður, enda hafa yfirvöld núna víða endurskoðað löggjöf sína með það að markmiði að geta skert allt aftur, afleiðingalaust.
Í Kína er þessu öðruvísi farið. Þar er ennþá heimsfaraldur í gangi og yfirvöld eru hreinlega að elska það. Við lesum um lokanir og skerðingar þar eins og Kína sé eitthvað furðuríki sem við eigum ekkert skylt með. En gleymdum við hver fann upp þvæluna sem flest yfirvöld í heimi keyrðu yfir hrædda þegna sína? Er hægt að lesa fréttir um heimsfaraldurinn í Kína án þess að rifja upp að sama rugl og bull var þvingað ofan í almúgann á Vesturlöndum fyrir ekki svo löngu síðan? Ekki jafnlengi. Ekki jafnhart. En engu að síður.
Blaðamenn sem skrifa um heimsfaraldurinn í Kína í dag mættu alveg spyrja sig að því hvaða hlutverki þeir gegndu þegar okkur var sagt að sprauta okkur og hylja andlit okkar með grímum. Blaðamenn gætu jafnvel spurt sig að því hvort þeir hafi verið misnotaðir, eða þeir látnir vinna ókeypis fyrir yfirvöld sem héldu í alvöru, í augnablik, að þau gætu stoppað nýjustu kvefpestina, og í leiðinni aflífa ungmenni í bílförmum með þunglyndi, sprautum og vonleysi.
Eða er betra að gleyma?
![]() |
Engar tilslakanir væntanlegar í Kína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:29 | Facebook
Athugasemdir
Blaðamenn í dag virðast ekki hafa miklar hugmyndir um hvað þeir bera mikla ábyrgð á hvað þeir bera á borð fyrir lesendur sína.
Vaxandi þreytu gætir meðal almennings gagnvart aðgerðunum, en miklar öryggisráðastafanir hafa verið gerðar í Peking þar sem þingið kommúnistaflokksins fer fram. Hefur það kveikt töluverða gremju fólks og fágæt mótmæli hafa brotist út í borginni þar sem bæði forsetinn og stefna hans í sóttvörnum eru gagnrýnd.
Blessað fólkið er ekki bara þreytt, heldur hrætt og örvæntingarfullt, svo þessi svokallaða "frétt" er bara kattarþvottur.
https://www.eastbaytimes.com/2022/10/13/in-china-anger-is-rising-at-the-restrictive-zero-covid-policy/
Kristín Inga Þormar, 17.10.2022 kl. 16:13
Kristín,
Já, efast ekki um að þessi svokallaða frétt sé kattaþvottur. Það er hægur vandi að finna upptökur af fólki öskrandi úr sársauka og hungri úr lokuðum íbúðum sínum.
Maður þarf kannski að kyngja stoltinu sem miðaldra maður og taka unga fólkið til fyrirmyndar. Ég gekk og hjólaði ítrekað framhjá ungu fólki að skemmta sér á illa upplýstum almenningsbekkjum á hápunkti óttans. Maður getur bara óskað sér þess að ef maður væri ungmenni í dag að þá væri maður í hópi með þeim sem mótmæltu yfirganginum með mátulega áberandi óhlýðni.
Geir Ágústsson, 17.10.2022 kl. 20:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.